20/08/2007
Hjúkkan stóð sig eins og hetja um helgina þegar hún náði settum markmiðum í 10km hlaupinu í Reykjavíkurmaraþoninu. Það er alltaf hægt að berja sig eftirá og hugsa af hverju maður sprengdi sig ekki á endasprettinum í stað þess að hlaupa bara í góðum gír en þess vegna veit maður betur næst. Flögutíminn ( frá því maður stígur á mottuna úr rásmarki og í endamarki ) hjá stelpunni er 1.01.42 en stelpar horfir til klukkunar sem hún hljóp með á hendinni sem sýndi 59.45 og er bara hæst ánægð með árangurinn :) Það er bara frábær tilfinning þegar maður sér að markmiðinu er náð á ekki lengri undirbúningstíma en raun bar vitni um ( ca. 3 vikur). Nú er stefnan að halda áfram og hlaupa í vetur og sjá svo hvaða vitleysu maður tekur upp á á næsta ári. Það var stór hópur sem hljóp úr vinnunni og þar af tveir afreksmenn - yfirmaður hjúkkunnar sem varð Íslandsmeistari kvenna í heilu maraþoni og svo auðvitað Siggi og Gunna. En Siggi hljóp heilt maraþon einn með Gunnu sína í hjólastólnum - þvílíkt afrek þar á bæ.
Í vinnunni í dag náði hjúkkan loks öðru markmiði þegar hún kláraði verkefni sem hún hefur ekki viljað horfast í augu við í alltof langan tíma. En í dag var þetta eitt á dagskrá að klára dæmið og koma því frá sér (það voru ekki tímamörk á þessu verkefni).
"Góður" samstarfsmaður hjúkkunnar sendi svo stelpunni link á stórskemmtilegt KR lag sem samið er um árangur Teits með liðinu. Þetta er reyndar algjör snilld og hvetur hjúkkan alla til að hlusta vel á textann. Lagið er að finna hér http://pdf.sport.is/mp3/tate_kelly.mp3
Á meðan við erum á KR nótunum vill hjúkkan beina athygli lesenda að því að KR er ekki í neðsta sæti deildarinnar :)
15/08/2007
Nú er allt að gerast hjá hjúkkunni. Skápurinn er kominn inn í íbúðina í fjölmörgum pörtum og smiðurinn er væntanlegur á morgun. Hjúkkan tekur smá forskot á sæluna og byrjar að setja saman innvolsið enda hefur hún margsannað iðnaðarmanna hæfileika sína :)
Hlaupin ganga samkvæmt áætlun og nú er farið að styttast í laugardaginn og hjúkkan til í tuskið. Nú er það bara fyrir ykkur sem ætla ekki að hlaupa að styrkja gott málefni og heita á stelpuna. Hægt er að framkvæma það á www.glitnir.is og smella á áheit á hlaupara. Hjúkkan fylgir einum samstarfsmanni sínum og hleypur til styrktar Heilaheill sem er lítið félag einstaklinga sem fengið hafa heilablóðfall og aðstandenda þeirra. Hjúkkan er nú ekki að fara langt og því getið þið alveg borga smá fyrir að sitja á bossanum á meðan hjúkkan hleypur (ásamt hinum 5000 manns).
11/08/2007
Seinni hluti ferðarinnar hjá hjúkkunni var nú vinnutengdur. Sem sagt fundir, þjálfun og svo ógleymanlegur sumarsölufundur. Já það er alveg magnað hvað danir geta talað og endalaust spurt sömu spurninganna aftur og aftur, bara með mismunandi orðalagi. Hjúkkan var nú orðin pínu uppgefin á dönskunni undir loks hvers dags, nema hvað að á var alltaf eitthvað "fælles" dæmi um kvöldið. Ratleikur fyrsta kvöldið og svo grill á ströndinni seinna kvöldið. Það kvöld var reyndar með eindæmum skemmtilegt og endaði í "dönsku" sundi í sjónum seint um kvöld. Já danir mega eiga það að þeir kunna að hafa það huggulegt og það var sko engin spurning um annað hér. Stjörnubjart, einhverjir glitrandi blettir í sjónum og fínn hiti á vatni og lofti. Hjúkkan benti reyndar á að hafi danir hug á því að gera slíkt hið sama á Íslandi þá annað hvort drepist þeir úr kulda í sjónum eða löggan komi og fiski þá upp vegna gruns um sjálfsvígshættu! Strandgrillið gengi heldur ekki upp - en möguleiki væri á jökulgrilli :)
Hjúkkan er að standa sig eins og hetja að eigin mati í hlaupaþjálfuninni. Hún tók nokkrum sinnum fram skóna í fríinu og hljóp bæði í Svíþjóð og Danmörku! Eitthvað er hegðun hjúkkunar að breytast því nú er hún farin í bólið fyrr á kvöldin og vaknar fersk - fyrir hádegi og skellir sér út að hlaupa. Já áður en maður veit af verður hún farin að fara í gymmið fyrir vinnu!!!
07/08/2007
Hjúkkan er komin í sitt vanabundna form að vera lítið sem ekkert heima hjá sér. Hún skrapp á fund í Köben á mánudag í síðustu viku og kom heim daginn eftir. Eftir nokkra daga heima var henni farið að leiðast þófið og skellti sér aftur út á laugardag í fjölskylduferð til Svíþjóðar. Í fyrsta sinn í mörg ár var öll fjölskyldan saman komin og farið var í Tívolí og dýragarð meðal annars. Hjúkkan skemmti sér ekkert minna en litli 4 ára frændi í dýragarðinu og var hún alveg heilluð af rauð-rassa-öpum sem fórum mikin á svæðinu sínu. Eftir góða afslöppun í sól og blíðu í Svíþjóð lá leiðin enn á ný til Köben þar sem hjúkkan dvelur í nótt og fer svo áleiðis til Korsör á morgun á fund í nokkra daga. Í Köben er lífið ljúft - hjúkkan er á sama herbergi og hún hefur gist á s.l. 3 skipti í Köben og er því farin að kunna ansi vel við sig.
Kvöldmaturinn var pizza sem tekin var upp á herbergi og borðuðu við mjög svo afslappaðar aðstæður og það eina sem vantar er félagsskapurinn.
Hjúkkan kemur tilbaka á föstudag, gullbrún og freknótt eftir sól og blíðu s.l. daga og í dúndurformi enda í æfingu fyrir 10 kílómetrahlaup í Reykjavíkurmaraþoni. Hún tók meira að segja smá skokk í Svíþjóð í fríinu. Hjúkkan er að koma sjálfri sér skemmtilega á óvart í þessu dæmi öllu og ætlar auðvitað að verða flottust á brautinni 18. ágúst n.k.
29/07/2007
Hjúkkan er orðin að opinberri útilegu drottningu í kjölfar þess að hafa massað gírinn um daginn. Já til hvers að bíða eftir búnaði sem til er en alltaf eitthvað sem kemur til með að koma í veg fyrir notkun hans. Hjúkkan smellti í tjald, dýnu, pumpu og kælibox sem hægt er að tengja í rafmagn á bílnum og því helst allt kalt og fínt :)
Fyrsta útilegan var nú stutt - bara eina nótt enda var veðrið eftir spánni. Það passaði að rigningin byrjaði um leið og gírinn var kominn í bílinn daginn eftir. Kvöldið fór í grill, nokkra kalda eins og lög gera ráð fyrir, spil og spjall. Alveg yndisleg kvöldstund og verður vonandi fljótlega endurtekin.
Að öðru leyti er hjúkkan sem sagt skriðin upp úr veikindunum sem kostuðu 6 daga af sumarfríi í vanlíðan og verkjalyf. Nú er málið að koma sér í form og hlaupa smá í Reykjavíkurmaraþoninu. Hjúkkan er nú ekki haldin svo mikilli bilun að halda að hún fari mjög langt í hlaupinu er 10 kílómetrar er nú ágætis vegalengd fyrir byrjendur.
Á morgun byrja svo haust ferðalög vinnunnar, reyndar bara stutt stopp í Köben í þetta sinn og svo aftur í næstu viku. Hver veit nema það sé kominn nýr in-flight-shopping bæklingur :)
23/07/2007
Sumarfríið er orðið mjög dæmigert hjá hjúkkunni - komin rigning og hjúkkan lögst í hálsbólgu og hita!! En hjúkkan lætur ekkert smá hita og verki í öllum líkamanum stoppa sig. Þar sem hjúkkan hefur nú smá vit á lyfjum er hún búin að vera að notast við íbúfen og panodil með góðum árangri. Þegar blandan er í fullri virkni er hjúkkan ekkert nema fersk og til í tuskið. Af þeim völdum tók hún sig til og reif skápinn úr holinu í forstofunni, ein og óstudd og ekkert smá stolt af sjálfri sér... Mágmaðurinn kom á laugardaginn og henti upp ljósunum í loftið og hjúkkan lá í nettu lyfjamógi á meðan. Til að kóróna allt saman tók hjúkkan sig til og endurskipurlagði skápinn á baðinu, í svefnherberginu og bar olíu á húsgögnin á svölunum.
Eftir alla þessar framkvæmdir var ekki um annað að ræða en að koma sér til læknis og fá eitthvað almennilegt við þessum veikindum því hjúkkan er búin að framkvæma öll þau verk sem henni dettur í hug á heimilinu í augnarblikinu. Hjúkkan hafði mestar áhyggjur af því að hún yrði farin að banka uppá í öðrum íbúðum í húsinum og bjóðast til þess að þrífa!!!!!
Nú er hjúkkan komin með sýklalyf og getur því farið að sigrast á þessum fjanda og halda hlaupaæfingum sínum áfram. Stefnan er tekin á 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu og nú er bara að duga eða drepast!!!
19/07/2007
Fyrirsögnin hljómar eins og góð kjaftasaga sem maður flytur í Fjarðarkaupum en svo krassandi verður þessi færsla nú ekki :)
Þessa dagana er hjúkkan að vinna að "rigningar-dags-verkefnunum" sínum sem eru komin til framkvæmdar á meðan sumarfríinu stendur. Eins og þeir sem hjúkkuna þekkja vita þeir að rigning fylgir yfirleitt sumarfríi hennar og hjúkkan hætt að velta því fyrir sér af hverju enginn vill vera í fríi á sama tíma og hún!!! Nema hvað að nú er hjúkkan á fullu að mæla skápa, skúffur og sökkla í þeirri veiku von um að geta loksins farið í seinni hluta framkvæmda í Dofranum. Þar sem hjúkkan er búin að búa þar í 1 og hálft ár er kominn tími á að halda áfram hreiðurgerðinni sinni. Nú skal taka í gegn skápana á ganginum, í svefnherberginu og vonandi poppa upp eldhúsinnréttinguna. Af þessum völdum gengur hjúkkan stolt um með tommustokkinn sinn og málbandið. Það er alveg magnað hvað maður getur orðið mikill iðnaðarmaður þegar maður metur eigin getu til hins ýtrasta :) Það er alveg að borga sig að vera sporðdreki og verkfræðingsdóttir enda allt teiknað upp með mismunandi vinklum og pælingum. Nú vantar hjúkkunar bara svona vinnuvesti og buxur með svona hnéhlífum og þá er hún bara geim í framkvæmdir :) Það er kannski öllum og öllu fyrir bestu að sólin fari að skína að nýju því aldrei að vita hvar þessi framkvæmdargleði endar...
16/07/2007
Trú hjúkkunnar á góðmennsku fékk endurræsingu í gær þegar hún var í öngum sínum við Reykjanesbrautina. Þannig var að hjúkkan var á leið heim úr grilli hjá gamla settinu þegar fóru að berast einkennileg hljóð aftan úr bílnum hennar. Hún ákvað að keyra aðeins lengra í þeirri veiku von um að hljóðið hætti - en svo fór ekki. Því keyrði hjúkkan út í kant við Reykjanesbrautina og fór að athuga með bílinn. Jú viti menn - alveg gjörsamlega sprungið á öðru afturhjólinu!! Nú voru góð ráð dýr - hjúkkan hafði einhvern tímann séð varadekkið undir dæminu í skottinu en hvar tjakkurinn var og svoleiðis dót var önnur spurning. Eftir góða leit fannst tjakkurinn og dótið undir dekkinu - kirfilega skrúfað niður svo enginn gæti mögulega losað hann og stolið!! Eftir stutta stund var hjúkkunni ljóst að hún gæti ekki losað tjakkinn og þarf af leiðandi ekki reddað sér. Hún hringdi nokkur símtöl en allir voru að horfa á úrslitin í Copa America eða að redda málum og enginn gat komið að hjálpa stelpunni.
Hún bograði eina ferðina enn inn í skottið og reyndi að losa draslið ( auðvitað í stutta gallapilsinu sínu..) og bar þá að þennan góða mann. Hann vatt sér upp að bílnum og bauð fram aðstoð sína. Hjúkkan þakkaði Guði fyrir þessa sendingu og gaurinn enga stund að redda þessu. Kom síðar í ljós að hann vinnur hjá Brimborg og kann því vel á svona bíla. Hjúkkan þakkaði honum af öllum hug og keyrði heim hin glaðasta með nýja trú á karlmönnum - þessir góðu eru til!!!
Í dag fór hjúkkan með dekkið í viðgerð þar sem það var úrskurðað látið - jamm stærðarinnar skrúfa var lengst inni í því og dekkið ónýtt að innan sem utan. Kosturinn við fyrirtækjabíla er að láta svo bara senda reikinginn á fyrirtækið og ganga brosandi burtu :)
Annars var fyrsti dagurinn í sumarfríi í dag og komst hjúkkan í gegnum hann án þess að skoða tölvupóstinn sinn. Hún skottaðist með Maríu systir og gullmolunum og gekk frá dekkjamálinu. Í kvöld brá nú hjúkkunni aldeilis við fréttirnar af TF- Sif sem lenti í sjónum. Sem betur fer sakaði engan og sá sem átti að vera á þyrlunni á þurru landi.
15/07/2007
Þá er hjúkkan loksins komin í sumarfrí eftir tveggja ára vinnutörn. Þar sem hjúkkan skipti um vinnu síðasta sumar tók hún sér ekkert frí og var því orðin ansi langþreytt eftir þessu fríi. Fríið byrjaði á smá vinnu í Þórsmörk fyrir íþróttabandalag reykjavíkur í tengslum við Laugarvegs maraþonið og var það bara yndislegt. Það er alltaf gaman að koma inn í Þórsmörk þó svo að það hafi nú verið svolítið napurt og blautt þar í gær. Dagurinn leið hratt og áður en maður vissi af voru allir hlaupararnir komnir niður og lítið að gera hjá landsliðinu í mótttöku slasaðra s.s. hjúkkunni og Bjarna lækni.
Eitthvað virðast örlogin vera að gera grín að hjúkkunni þessa dagana með tilheyrandi dramatík og fólki sem hjúkkan vill sem minnst rekast á. En eins og hjúkkunni einni er lagið er bara mál að láta sér líða vel og gera hluti sem henni finnst skemmtilegir.
Dagurinn í dag er búinn að fara í sólabað á svölunum með kaffibolla og nokkur eintök af Cosmopolitan. Þannig er að hjúkkan kaupir alltaf Cosmo fyrir flug og sofnar svo fljótlega eftir að lesturinn er hafinn. Því á hún mikið magn af hálflesnum Cosmo og við stelpurnar kunnum regluna - maður hendir aldrei hálflesnu COSMO!!!!
Hjúkkan fór inn á síðu sem Kjáninn mætli með til að sjá hvaða lag var á toppi Billboard listans daginn sem hún fæddist og það þarf auðvitað ekki að koma á óvart hvaða titil lagið ber sem trónaði á toppnum 5. nóvember 1977... "You light up my life" með Bonnie Doone sem hjúkkunni finnst einstaklega vel viðeigandi á hennar degi :) Jæja nú er málið að fara að "light up" lífi þeirra sem í kringum hana eru. Góðar sumarstundir :)
11/07/2007
Þar sem hjúkkan er búin að taka tvær umferðir á Grey´s seríurnar tvær og bíður spennt eftir þeirri þriðju er ekki um annað að ræða en finna sér nýja sápu til að horfa á þangað til. Hjúkkan er nú ekkert að farast úr frumleika í þessu máli, heldur ákveð að skella sér í gegnum Friends seríurnar, eins brjóstumkennanlegt og það hljómar. En það er einhvern veginn svo þæginlegt að liggja bara uppi í sófa og horfa á eitthvað sem krefst ekki mikillar einbeitingar.
Hjúkkan þarf á allri einbeitingu að halda þessa dagana þar sem sumarfríið byrjar eftir 2 daga. Frekar stórt verkefni datt inn í gær og er hjúkkan að dunda sér við lestur þessa dagana. Hún þarf nefnilega að klára um 1000 blaðsíður fyrir þjálfun sem hún fer í að sumarfríi loknu.
Já Köben verður tekin með trompi tvisvar sinnum á 10 dögum í lok júlí og byrjun ágúst. Sumarfríið hefur ekki verið skipurlagt að neinu nema svefni og afslöppun. Hver veit nema hjúkkan fari í hreiðurgerð á eigin heimili eða bara missi þetta upp í kæruleysi og skelli sér eitthvað til útlanda. Draumurinn er auðvitað að elta bara sólina um Ísland, en það er nú frekar dauf stemning í því að rúnta um landið einn! En hjúkkan ætlar ekki að hafa miklar áhyggjur af þessu og reyna bara að njóta lífsins enda fyrsta sumarfrí í tvö ár.
30/06/2007
Hjúkkan er að verða að einni frekknu eftir útilegu helgarinnar. Leiðin lá í Húsafell með góðra vina hópi og var þetta algjör snilldar útilega. Við strákarnir (hjúkkan, Maggi og Haffi) fórum í golf eftir tjöldun og stelpurnar (Höski, Þóra og Eyrún) fóru í göngutúr og höfðu til matinn á meðan. Eftir dásamlega grillveislu átti Nonninn komu ársins í útileguna - hversu margir koma bara á flugvélinni í Húsafell?
Börnin voru dásamleg og sannaðist það að það er nú lítið mál að skella sér í fjölskyldustemninguna í útilegu. Það voru helst börn annarra sem fóru í taugarnar á hópnum enda voru svona milljón fjölskyldur í Húsafelli þessa helgina.
Dagurinn byrjaði með nettu andláti úr hita inni í tjaldinu og svo tók við smá sólbað og sund. Skömmu eftir að sólbaðið hófst var hjúkkan brunnin og komin með sólarexem - ótrúlega sjarmerandi. Í staðinn var bakinu stýrt í sólina í sundinu sem þýðir að nú er hjúkkan að rembast við að koma after sun kreminu á bakið - ekki alveg það auðveldasta sem hjúkkan veit um. Hvar er hjálpin þegar svona stendur á??
Kvöldið fór í after-sun áburð og sófa með góðu teppi. Gert er ráð fyrir því að morgundagurinn fari líka í after-sun meðferð og afslöppun. Sem sagt yndisleg helgi og strax komin plön um næstu útlegu eftir viku. Maður þarf nú að viðhalda frekknunum og brúnkunni :)
20/06/2007
Það eru ekki allir sem ganga um í dag og lýsa því yfir að vera stoltir KR-ingar. Hjúkkan er í hópi þeirra sem enn viðurkenna stuðning sinn við klúbbinn og finnst þetta orðið frekar grátbroslegt hvernig komið er fyrir liðinu í deildinni. Hjúkkan átti stuðningsviðtal við annan KR-ing um daginn þar sem rætt var meðal annars um möguleika á að styðja annan klúbb. Það er bara ekkert svo auðvelt! Maður slítur nú ekki strenginn við Frostaskjólið en það er allt í lagi að hafa "auka" uppáhalds lið sem maður getur alla vega glaðst yfir sigrum. En það er það pælingin hverja má maður styðja?
Gamla línan "Frekar dauður en rauður" lýsir vel hug manns til Vals, ekki er heldur inni í myndinni að fylgja Fram og hvað þá heldur Fylki. Þá er nú svo sem einn Reykjavíkurklúbbur eftir Víkingur sem er nú innan leyfilegra marka. Hjúkkan átti nú eitt tímabil sem vinstri bakvörður í 2. flokki hjá Víking og á enn keppnistreyjuna sína sem gerir það að verkum að Víkingur kemur sterkt inn. Hjúkkan er þó sífellt undir mikilli pressu á að fara bara að styðja hverfisliðið sitt - en það er einnig á bannlistanum, þó það sé í sömu litum og KR!!!!
HK og Breiðablik eiga jafnan sjéns og þá heldur HK þar sem það er alltaf gaman að fylgjast með nýliðum í deildinni.
Eins og staðan er núna er það bara Áfram Ísland fyrir leikinn á morgun og hitt verður að koma í ljós.
19/06/2007
Góðu konur - til hamingju með daginn! Hjúkkan var nú samt ekki alveg að fatta þetta í morgun og fór ekki í bleiku í vinnuna, en er í staðinn bara bleik í hjarta.
Hjúkkan er að missa sig þessa dagana yfir landsleikjum í hinum ýmsustu íþróttagreinum. Hún skellti sér með Hrönnslunni á landsleikinn í handbolta á 17. júní. Stemningin í Höllinn var ótrúlega góð og stelpan söng þjóðsönginn af miklum mæti. Reyndar gerði gaurinn sem sat við hlið hennar það líka og ekki vantaði innlifunina - en hann ætti allaveg ekki að hætta í dagvinnunni til að verða söngvari.
Þar sem kvennalandsliðið í fótbolta lagði Frakkana á laugardaginn er hjúkkan meira að segja að hugsa um að skella sér á leikinn þeirra á fimmtudaginn. Þær eiga svo aldeilis allt gott skilið enda eru þær að standa sig massa vel. Kannski að hjúkkan láti aðeins bíða með að skella sér á leik hjá KR - sem hjúkkan hefur nú fulla trú á fyrir leikinn á morgun á móti HK.
Jæja nú er mál að stelpast aðeins meira - allt að vera tilbúið fyrir brúðkaupið á laugardag og vonandi að það komi ekki upp fleiri óvænt atvik. Hjúkkan á bara eftir að redda sér hárgreiðslu!!!
16/06/2007
Hjúkkan er þessa dagana að berjast við varnarvegginn sinn sem virðist hafa þést töluvert undanfarna daga. Hluti af veggnum virkar þannig að maður leyfir sér ekki að sína sitt rétt andlit og gefa þar með fólki kost á því að sjá hvernig manni í raun og veru líður. Það er sko ekki málið að stelpan sé skriðin í eitthvað þunglyndiskast - síður en svo, en veggurinn veldur því nefnilega líka að maður getur ekki sýnt góðu tilfinningarnar sínar heldur. Veggurinn í kemur í veg fyrir það að maður geti sagt fólki hversu vænt manni þykir um það og líka hvað það er sem hræðir mann. Já þetta er margslungið vandamál en stelpan er að reyna að höggva í vegginn og vonast til að komast í gegnum hann fljótlega. Allt hefur sinn tíma ekki satt?
Á meðan er nú hjúkkan ekkert lögst undir sæng enda komið sumar og sól (alla vega stundum sól). Hún dreif sig í golf á fimmtudaginn og getur næsti hringur ekki orðið annað er betri miðað við þennan. Jább 5 boltar týndir á 9 holum er nú ekkert sérlega glæsilegt, en þetta var nú fyrsti hringur sumarsins og því má ekki kvarta.
Vikan fer í vinnu, brúnkukrem (svo maður verði flottur í brúðkaupinu um næstu helgi), afslöppun og vonandi einn golf hring. Á morgun er kjóladagur á slysó enda stórhátíðardagur - stelpan verður á vaktinni í voðalega fína hjúkrunarkonu kjólnum sínum. Það er alltaf svolítið skemmtileg stemning þegar kjóladagarnir eru, allir voðalega fínir og hátíðlegir. Jæja nóg af bulli í bili - en ef einhver veit um stuðninsmannaklúbb í knattspyrnu sem vantar vanan stuðningsmann, bara senda stelpunni línu :)
12/06/2007
Hjúkkan er nú alveg á því að sumarið sé komið. Í morgun skellti hún meira sér í pils, setti í sig linsur og hlammaði framan á sig sólgleraugum enda er hún að slá í gegn þessa dagana. Sem fyrr er það auðvitað eigin mat sem segir henni að hún sé að slá í gegneftir að hafa slegist við sláttuvélina, hirt um garðinn og horfst í augu við óvininn án þess að blikka.
Málið með óvininn er að í gærkvöldi var hjúkkan að gera sig klára fyrir bólið og var að bursta tennurnar. Hún var búin að hátta sig og gekk inn í svefnherbergi til að ná í vatnsglasið sitt. Þegar hjúkkan hafði tekið eitt skref inn í herbergið sá hún óvininn sem blákalt var að dunda sér við að vefa rétt við rúmstokkinn, á samt mjög fáránlegan hátt beint niður úr loftinu. Já góða fólk þetta var sem sagt feit og ljót könguló!!! Nettur hrollur fór um hjúkkuna en hún var nú ekki kát við að horfast í augu við þetta kvikindi og ákvað að nú hefði köngulóin gengið of langt!! Ef hún hefði bara ákveðið að gera þennan vef sinn annars staðar - væri hún enn á lífi í dag.... Jább hjúkkan er nefnilega orðin mjög góð í að farga köngulóm og líf þessarar hlaut skjótan endi. Þetta verður vonandi til þess að óvelkomin skriðkvikindi hugsi sig tvisvar um áður en þau ákveða að koma sér of vel fyrir á stöðum sem eru ekki til þess fallnir.
Ætli vinir köngulóarinnar séu núna að spá í hvar hún sé? Það gæti verið að þeir hafi allir ætlað að hittast í hádegismat og svo bara vantar einn í hópinn...
04/06/2007
Hjúkkan var að hanga á netinu í kvöld og rakst á þetta líka flotta lag með hljómsveitinni Muse. Lagið er svolítið melankólískt og textinn eins og gerist bestur í rólegum og melankólískum fíling. Hjúkkan er svolítið aftanlega á merinni stundum hvað tónlist varðar og sennilega í þessu máli líka og þykir líklegast að þetta hafi verið mjög vinsælt fyrir nokkrum árum síðan.
Lagið heitir "Unintented" og er hægt að nálgast hér
http://youtube.com/watch?v=92wD8dQ_B54
Textinn er eins og í góðri dramatískri mynd
You could be my unintended
Choice to live my life extended
You could be the one I'll always love
You could be the one who listens to my deepest inquisitions
You could be the one I'll always love
I'll be there as soon as I can
But I'm busy mending broken pieces of the life I had before
First there was the one who challenged
All my dreams and all my balance
She could never be as good as you
You could be my unintended
Choice to live my life extended
You should be the one I'll always love
I'll be there as soon as I can
But I'm busy mending broken pieces of the life I had before
I'll be there as soon as I can
But I'm busy mending broken pieces of the life I had before
Before you
02/06/2007
Hjúkkan er eiginlega smá flenigen í kvöld. Þetta er lýsingarorð sem lýsir svolítið einkennilegu ástandi. Maður veit eiginlega ekki hvernig maður á að vera, gera eða hugsa og gerir ekkert annað en að velta því fyrir sér. Svona ástand getur staðið yfir í stuttan tíma ef maður finnur sér eitthvað annað að gera en að velta því fyrir sér af hverju maður hafi ekkert að gera. Og viti menn - hér kemur krosssaumurinn að góðum notum. Jú maður er nú kannski pínu over-the-hill þegar laugardagskvöld fara í að sauma út en svona er nú bara lífið stundum.
Dagurinn í dag markaði 4 ára tímamót höfðu mikil áhrif á hjúkkuna. Þennan dag fyrir 4 árum síðan kvaddi hjúkkan einstakling sem snart líf hennar á ótrúlega marga vegu og var henni mjög mikilvægur. Það hefur margt gerst á þessum 4 árum og ótrúlegt eiginlega hvað tíminn hefur liðið hratt og margt breyst. Planið hefur breyst nokkrum sinnum og óvæntar beygjur hafa orðið á leiðinni. En hjúkkan er ákveðin í því að gera það besta úr aðstæðum hverju sinni og nýta hvert tækifæri til þess að þroskast og dafna :) Já eitt til að bæta við skýringar á flenigen - þegar maður er með flenigen þá verður maður stundum voðalega heimspekilegur og djúpt hugsi :)
01/06/2007
Hjúkkan er eitthvað flensuð í dag og er við það að gefast upp á fótum sínum sökum beinverkja. Þetta er dagur 2 í þessum leiðindum og stemningin í Dofranum því ekki mjög mikil. Kvöldið fór í sófann enda lítið annað hægt að gera þegar maður er í svona ástandi. Nema hvað að hjúkkan var eiginlega búin að gleyma því hversu slæm sjónvarpskvöld föstudagskvöld eru. Maður á greinilega ekki að hafa gaman af því að njóta stundarinnar heima við sjónvarpið á föstudögum. Eftir góðan blund um eftirmiðdaginn þar sem hjúkkan var nú öll að koma til að eigin mati hófst áhorfið. Tveir þættir ef unglingaseríunni One Tree Hill sem einu sinni voru eðilegir þættir - en núna eru allir að lenda í fáránlegum lífsháska og mjög absúrd aðstæðum. Eftir tvo klukkutíma af unglingavandamálum hófst hinn ótrúlega kjánalegi Bachelor þáttur. Í þetta sinn er einhver gaur sem er með voðalega flott eftirnafn og á ógeðslega mikið af peningum að reyna að hössla kellingar. Í ofanálag er gaurinn víst með nafnbótina prins. Jú gellurnar voru alveg að missa sig yfir því að draumaprinsinn væri alvöru prins!!! Þetta fór fljótlega versnandi og kjánahrollurinn jókst samafara því. Þegar ein gellan hóf svo að syngja óperu af svölunum til að ná athygli gaursins varð kjánahrollurinn að aumingjahroll og hjúkkan óskaði þess heitast að þessi þáttur færi að taka enda. Maður getur svo sem sjálfum sér um kennt þegar maður situr sjálfviljugur fyrir framan tækið og gæti alveg slökkt á því eða teigt sig í fjarstýringuna.
Nú eru fæturinir alveg búnir að fá nóg og hjúkkan sér þann kost bestan að koma sér bara í háttinn.
27/05/2007
Hjúkkan uppgötvaði það í gærkvöldi að hún verður sífellt meira fullorðin. Því fylgir að lenda í alls konar einkennilegum aðstæðum og þurfa að finna hentugustu leiðina út úr aðstæðunum. Hjúkkan lenti einmitt í svona aðstæðum í gær og sér til mikillar hamingju fann hún að eigin mati flottustu leiðina úr þeim. Maður má ekki láta fullorðisaðstæðurnar fá á sig og muna bara eftir stigunum sem maður fær fyrir vikið.
Alla vega fór kvöldið í tvö afmæli, annars vegar hjá Óskarnum og hins vegar hjá Heiðu kokteilaklúbbs skvísu. Þar að auki var hjúkkunni boðið í innflutningsparty en komst því miður ekki þangað vegna anna í afmælunum. Leiðin lá meira að segja í höfuðborgina þar sem kíkt var á skemmtistað í miðbænum. Eftir að staðnum lokaði tók við ógleymanleg bið eftir leigubíl í skítakulda og þreytu. Hjúkkunni var kalt þangað um miðjan daginn í dag þegar hún fór að þvo og bóna bílinn sinn. Þegar á botnin er hvolft var kvöldið mjög áhugavert, fullorðins og kalt!!!
22/05/2007
Já hjúkkan er komin heim úr vel heppnaðri ferð til New York ásamt vinnufélögum og alls konar fylgifiskum. Eftir að hafa blómstrað í hópeflisferðinni sbr. lýsingar hér að neðan var hjúkkan þeim mun brattar við niðurpökkun daginn eftir og var sko ekki lengi að koma sér í ferðagírinn. Einkennilegir hlutir áttu sér þó stað við pökkunina og fór nú einn skartgripur með í óskilum, en hann hafði aldrei komið til New York og var snarlega pakkaði niður í veskið þegar þetta uppgötvaðist :)
Í New York var auðvitað gengið um, spókað sig, verslað, drukkið gott hvítvín og nokkrir mojito svo eitthvað sé nefnt. Hjúkkan var með stáltaugar er hún steig upp í hjólreiðavagn í mikilli rigningu á leið á Broadway. Þetta var fyrst voðalega fyndið en svo þegar hjúkkan uppgötvaði að hólavagninn var inni í miðri umferð á Manhattan og þar keyra allir eins og hálvitar, leið hjúkkunni ekki betur. Höskuldur fékk að finna samhug "félaga" sinna þ.e. hjúkkunnar og eins makans í ferðinni þar sem hringt var í drenginn af Broadway við lítinn fögnuð hans.
Besta múvið í ferðinni var samt vakning hjúkkunnar á laugardagsmorgninum. Hún hafði stillt vekjaraklukkuna á símanum og svo fór allt í gang og aumingjans ferðafélaginn var rifin fram úr. Hjúkkan var ekki upp á sitt besta við svona vakningu og þegar hún sá að enn var dimmt úti var henni enn minna skemmt. Svo kom að því - hún leit á klukkuna í herberginu sem sýndi 04:36 en ekki 08:36 eins og síminn!!!! Hjúkkan fann aðra klukku sem einnig var 04:36, klóraði sér í hausnum og hringdi niður í lobbý og spurði hvað klukkan væri eiginlega. Jú hún var 04:36 og hjúkkan gólaði af gleði áður en hún skreið aftur upp í og hélt áfram að sofa í 4 dásamlega klukkutíma til viðbótar.
Hótelið var voðalega hip og kúl og var meira að segja einhver Gavin maður Gwen í herberginu við hliðina á stelpunum, sem höfðu ekki hugmynd um hvaða gaur þetta væri. Frúin hans var víst með tónleika í borginni á laugardagskvöldið.
Svo er nú bara eitt!!!! Hvað er málið með að koma heim úr næturflugi frá USA, úr sól og blíðu í tilheyrandi minipilsi og gallajakka og það er snjókoma úti!!!!!!!!! Þetta voru ansi kaldar mótttökur sem hjúkkan fékk við heimkomuna, það þurfti meira að segja að skafa bílinn!!!
17/05/2007
Hjúkkan sannaði það í gær að hún er hópeflisdrottning ársins. Það var sem sagt hópeflisferð fyrirtækisins í gær og leiðin lá í Adrenalíngarðinn á Nesjavöllum þar sem mikið var reynt á taugar og þol manna. Allir komust heilir út og lá leiðin í Skátaheimili við Úlfljótsvatn þar sem etið var og drukkið. Fyrir matinn var auðvitað tekin smá fótboltaleikur og þar keppti hjúkkan stolt með "lituðum" á móti "svörtum" og í þokkabót var stelpan á háum hælum!!! Já hún þaut um völlinn enda á takkaskó :)
Mikið var dansað og fór frænkutríóið á kostum - auðvitað að eigin mat og komust aðrir ekki með tærnar þar sem vestfirsku fegurðardrottningarnar höfðu hælana. Leiðin lá loks í bæinn seint og síðar meir og fór nú hjúkkan beinustu leið heim, enda nóg að gera í dag.
Hún er sem sagt í þessum skrifuðu orðum að bíða eftir því að verða sótt til að komast í Leifstöð og þaðan til New York. Helgin verður tekin þar við mikla afslöppun ásamt svona basic New York things sbr. versla, kaupa skó, versla föt og borða.
Afmælisbörn dagsins fá auðvitað stórt knús og þúsund kossar og sérstaklega á þar í hlut Súper Svana sem var að rúlla inn í nýjan tug í dag :)
Nokkur afmæli eru næstu daga og sendir hjúkkan þeim sem þar eiga í hlut einnig knús og kossa.
Verið góð við hvort annað - ég er farin til New York......
09/05/2007
Hjúkkan hefur undanfarna daga verið að velta nokkuð fyrir sér þeim ráðum sem við gefum öðrum í einhverri von um að viðkomandi nái nú að snúa vandamálum sér í hag eða komist í gegnum erfiða tíma. Flest eru þessi ráð auðvitað gefin af væntumþiggju og með góðum fyrirætlunum. En erum við ekki bara með einskæra forræðishyggju? Þurfum við í alvörunni að vera endalaust að gefa þessi óumbeðnu ráð og þykjast geta leyst vanda annarra þegar við kannski vitum ekki nema hluta af sögunni? Væri kannski réttast að spyrja fyrst - ,, má ég gefa þér ráð? " og halda svo áfram ef viðkomandi vill þiggja einhverja leiðsögn. Sum ráð eru líka á þann veg að sá sem þau fær upplifir sig sem algjöran aumingja sem ekki getur séð um sig sjálfur. Hjúkkan heldur að allir hefðu svolítið gott af því að kannski líta aðeins í eigin barm áður en maður smellir ráði í andlitið á einhverjum, þó manni þyki vænt um viðkomandi og vilji honum allt hið besta.
07/05/2007
Þekkir þú fínar dömur og alvöru konur í sundur?
Fínar dömur: Ef þú hefur ofsaltað matinn sem þú ert að elda, þá skaltu setja kartöflu í pottinn. Hún dregur saltið í sig.
Alvöru konur: Ef þú ofsaltaðir matinn er það bara assgoti pirrandi.
Fínar dömur: Það er auðvelt að lækna höfuðverk með því að skera límónu í sundur og nudda henni á ennið.
Alvöru konur: Taktu límónu og blandaðu henni við tekíla og salt og drekktu. Höfuðverkurinn hverfur sennilega ekki, en þér verður alveg sama.
Fínar dömur: Ef þú setur sykurpúða í botninn á vöffluformi, þá lekur ísinn ekki í gegnum það.
Alvöru konur: Sjúgðu bara ísinn úr vöffluforminu. Þú liggur hvort eð er örugglega með fæturna upp í loft í sófanum og borðar hann.
Fínar dömur: Þú getur komið í veg fyrir að kartöflur spíri með því að setja epli í pokann með þeim.
Alvöru konur: Kauptu karföflumúspakka, hann geymist í heilt ár í eldhússkápnum.
Fínar dömur: Kökur fá jafna, slétta áferð ef þú penslar þær með eggjahvítu áður en þær fara í ofninn.
Alvöru konur: Betty Crocker segir ekkert til um penslun á kökunni. Slepptu þessu bara.
Fínar dömur: Ef þú átt erfitt með að opna sultukrukku er gott að setja á sig gúmmíhanska. Þannig færðu betra grip..
Alvöru konur: Biddu myndarlega, ríka og einhleypa nágrannann um að opna krukkuna!
Fínar dömur: Ekki hella afgangs rauðvíni. Það má frysta í ísmolabakka og nota í sósur seinna.
Alvöru konur: Hvað er afgangs rauðvín?
Jæja hvorn hópinn teljið þið að hjúkkan samsvari sér við???
06/05/2007
Sunnudagur til sælu eru svo sannarlega orð í tíma töluð. Já sunnudagurinn í dag hefur verið einstaklega góður í lífi hjúkkunnar. Eftir ljúfan nætursvefn var hún vöknuð fyrir allar aldir ( já - án vekjaraklukku kl. 09:30). Hún reyndi að neita að horfast í augu við vökunina en það var ekki aftur snúið þegar hún var kvött til þess að hundskast á fætur og drífa sig á golfvöllinn. Eftir smá mas lét hjúkkan til leiðast og dreif sig út á Hvaleyri til að æfa pútti og chippið og svo auðvitað taka eina fötu. Að því loknu var varla komið hádegi og yfirleitt sá tími sem hjúkkan skríður fram úr um helgar en nú var bara fullt eftir af deginum. Því renndi hún í Brekkuselið og þreif bílinn hátt og lágt að innan sem utan (þvottur með svampi og alles og bón líka) þar sem hún var enn í ofvirkni kasti ákvað hún að taka til í garðinum hjá foreldrunum og loks grilla ofan í þau kvöldmatinn.
Bestu fréttir dagsins komu svo um eftirmiðdegi -
01/05/2007
Hjúkkan prófaði í kvöld Sushi í fyrsta skiptið um ævina. Þetta voru Ninja bitar sem eru samsettir úr túnfiski og einhverju fleiru gómsætu. Hjúkkan borðaði meira að segja dæmið með prjónum og allt - án þess að valda sjálfri sér eða þeim sem í kringum hana voru skaða. Þetta eru nú nokkur fullorðinsstig sem maður fær með þessu ekki satt? Domo er alveg nokkuð hip og kúl staður og alveg óhætt að fara þangað að borða.
Í gegnum máltíðina fékk hjúkkan reglulegar upplýsingar um gang mála í Meistaradeildinni og verður nú hjúkkan að lýsa yfir hamingju sinni með úrslit kvöldsins. Það verður sko ekki leiðinlegt að vinna Liverpool í úrslitaleiknum :) Annars virðast Liverpool aðdáendur skjótast upp allt í kringum hjúkkuna og má hún hafa sig alla við í baráttunni. Annað kvöld er svo planaður sófi og leikur og biður hjúkkan þá sem hana þekkja að vera ekki að trufla hana milli 19 og 21 nema viðkomandi vilji hljóta verra af...
30/04/2007
Hjúkkan var að horfa á fréttir í kvöld þegar kynntur var til sögunnar nýr forstjóri Glitnis. Jú drengurinn sem reyndar með einhvern fönkí lit á hári - vonandi er þetta bara nátttúrulega grátt en ekki einhver tískuyfirlýsing, er einu eða tveimur árum eldri en hjúkkan. Hann þjáist reyndar af þágufallssýki en það svo sem skiptir sennilega minna máli í nýja jobbinu hans. Fréttir varð til þess að hjúkkan fór í smá aldurstengda tilverukrísu eins og gengur og gerist þegar maður fer að telja fullorðisstigin sem maður er komin með. Í ansi skemmtilegu samtali um daginn kom það í ljós að maður fer í raun ekki að safna fullorðinsstigum fyrr en eftir þrítugt - því er hjúkkan enn á unglingastigum :) Þar sem maður er enn á unglingastigum þá hefur maður sem sagt leyfi til að gera nokkurn vegin það sem manni sýnist ekki satt?
29/04/2007
Sunnudagurinn í dag hefur aldeilis verið til sælu hjá hjúkkunni. Ráðstefnunni lauk í gær og var slúttið í Perlunni þar sem hjúkkan varð nú vör við smá sjóriðu yfir matnum. Þannig er mál með vexti að gólfið snýst (reyndar löturhægt) en nógu mikið til þess að maður finnur yfir smávægilegri ólgu innra.
Planið fyrir daginn í dag hafði verið að sofa og slaka á - og það var nákvæmlega það sem hjúkkan gerði. Hún skreið seint á fætur eftir góðan svefn og dundaði sér frameftir degi við að horfa t.d. á snilldarmyndina Cats and Dogs á RUV. Það sannaðist fyrir hjúkkunni eina ferðina enn að myndir með talandi dýrum eru bara snilld!! Svo ekki sé talað um þar sem kettir og hundar berjast um heimsyfirráð :)
Kveðju var kastað á nokkra ættingja í afmæli um seinni partinn og að því loknu tók þéttur sófi við hjá hjúkkunni. Hún er reyndar pínu hölt í dag þar sem hún varð fyrir naglaklippu - slysi í gær þegar hjúkkan framkvæmdi fótsnyrtingu á sjálfri sér. Eitthvað var smá hluti af nöglinni á litlu tánni að stríða stelpunni þannig að hún kippti nokkuð hressilega í hlutann og má þakka fyrir að einhver hluti sé eftir af litlu tánni. Til að stöðva blæðinguna skellti hjúkkan bara smá naglalakki á dæmið og það virkaði takmarkað - en ef þið viljið upplifa sviða, þá er þetta örugg leið.
Vikan framundan verður nokkuð rólegri en sú síðasta og auðvitað hápunkturinn er á miðvikudaginn þegar seinni leikurinn hjá hetjunum í Utd er. Auðvitað er það bara prinsipp mál að klára leikinn enda verðum við þrefaldir meistarar í ár :)
27/04/2007
26/04/2007
Þessa dagana er hjúkkan á hlaupum og í nettum loftköstum þar inn á milli. Ástæðan liggur í ráðstefnu sem hjúkkan er með um helgina þangað sem 400 þátttakendur af Norðurlöndunum koma. Allt er að ganga upp og hjúkkan bíður bara eftir því að klára dæmið með stæl. Smávægilegir örðugleikar hafa komið upp s.s salurinn sem maturinn átti að vera í á föstudag er ekki tilbúinn (vantar glugga og gólf) !!! En hjúkkan lætur ekkert stöðva sig og er í blússandi gír fyrir þetta allt saman.
Sunnudagurinn fer svo í svefn, almenna gleði og afslöppun enda næsta heimsókn útlendinga strax á þriðjudaginn, en þá koma stjórarnir frá Danmörku. Jább nóg að gera hjá stelpunni sem er enn að næra nýja mojoið og læra hvernig eðlilegir hlutir virka :)
23/04/2007
16/04/2007
Það vantar ekki sumarveðrið hjá hjúkkunni í Köben, þar sem hún er stödd á námskeiði þessa dagana. Hótelherbergið er nægilega stórt til að halda í því góða fermingaveislu og fær hjúkkan valkvíða á kvöldin yfir því hvoru rúminu hún eigi að sofa í :) Mesta snilldin væri auðvitað að sofa í hvoru rúmi til skiptis og þá fá herbergisþernurnar alveg taugaáfall en má maður vera svona kvikindislegur??
Með nýja mojoinu er hjúkkan að reyna að byggja upp ég-er-svo-mikið-krútt dæmið sem gengur pínu brösulega. Það sama á við um ég-er-svo-mikil-dama en með nýju skónum sem voru keyptir í dag þá komu nú nokkur dömustig á töfluna. Nú er málið að skella sér í bublubað og horfa svo á eitthvað af þessum mjög svo spennandi hótel sjónvarpsrásum.
14/04/2007
Hjúkkan er búin að finna mojoið sitt eftir þó nokkurn tíma. Hún vissi ekki einu sinni að hún hafði týnt því fyrr en henni var bent á það á ákveðinn hátt. Nú er sem sagt mojoið komið í full-swing og hjúkkan komin í sinn venjulega gír. Hún kláraði Grey´s og hana dreymir auðvitað um McDreamy and það er eiginlega bara kostur að svona menn eru bara í sjónvarpsþáttum.
Vinnumánuður ársins er hálfnaður og hjúkkan uppgötvaði sér til mikillar hamingju að sumarið er á næsta leiti. Golfsettið er komið í bílinn og allt á leiðinni í gír.
Í gær ákvað hjúkkan að gefa sér gjöf og fékk sér áskrift af Sýn enda hennar menn á blússandi siglingu í átt að þrennunni góðu. Í dag er frumáhorfið planað - bikarleikur á sýn og hjúkkan á sófanum. Hún lenti í smá hugsana hremmingum yfir sýn dæminu enda svo sem ekkert mjög dömulegt að vera bæði áskrifandi af enska boltanum og sýn. En svo ákvað hjúkkan að það væri bara þeirra sem ættu í vandræðum með að gúdda svona hegðun hjá kvenmanni. Það laumaðist nú samt smá hugsun um skókaup inn eftir þetta og því verður reddað í Köben. Leiðin liggur þangað á sunnudaginn í nokkra daga á námskeið hjá Novartis.
Með nýja mojoið getur hjúkkan sem sagt allt og lætur ekkert stöðva sig :)
09/04/2007
Hvenær verður maður aumkunarverður? Hjúkkan fór að velta þessu fyrir sér eftir að hafa horft á of marga þætti af Grey´s í dag og síðustu daga. Er það þegar maður er orðinn gjörsamlega samdauna teppinu sínu og sófanum góða og ætlar bara að horfa á einn þátt í viðbót? Eða þegar maður er farinn að pikka upp setningar og ráð úr þættinum og ætlar að færa það inn í líf sitt?? Já þetta var kaldur raunveruleiki sem blasti allt í einu við hjúkkunni - hún á ekkert líf!!! Ein af þeim pælingum sem hjúkkunni fannst bara tær snilld snýr að sannleikanum og lyginni. Af hverju ljúgum við að okkur sjálfum og öðrum, jú þegar sannleikurinn er of sár til að horfast í augu við hann.
Hjúkkan hefur einu sinni séð einstakling detta svona inn í sjónvarpsseríu og það var einmitt 24, enda um karlmann að ræða. Hann komst heill frá því og hjúkkan á ekki von á öðru hjá sjálfri sér. Nú er mál að koma sér af sófanum, gera sér grein fyrir því að Dr. McDreamy er bara eins og aðrir karlmenn og fara að sofa, því jú vinnan kallar á morgun :) Hafið ekki áhyggjur af hjúkkunni - hún er bara búin að horfa of mikið á amerískt sjónvarpsefni og verður orðin sjálfri sér lík á morgun :)
08/04/2007
Hjúkkan er þeirrar ánægju aðnjótandi að vera heima um páskana og hefur notað tímann vel til þess að detta algjörlega í Grey´s anatomy. Fyrir þá sem ekki vinna á sjúkrahúsum er bara eitt að segja - jú auðvitað er þetta alltaf svona þar!!! Alveg merkilegt hvað þessi þættir hafa bjargað hjúkkunni undanfarna daga frá alls konar vitleysu og bulli. Stundum getur verið gott að detta inn í sjónvarpið og missa þrívíddar sjónina sína :)
Annars er þetta líka nett mikið að gera þessa dagana í vinnunni og sér ekki fram úr því fyrr en undir lok apríl. En tíminn líður bara hraðar fyrir vikið og minni tími til að velta sér upp úr hlutum sem skipta minna máli. Þar sem lífið í dag gengur út á það að fá málshátt í páskaegginu sínu verður hjúkkan að segja frá litla leyndarmálinu sínu um páskaeggið í ár. Það var sem sagt ekki keypt og þar af leiðandi fékk hjúkkan engan málshátt. Ef það er einhver þarna úti sem vill gefa hjúkkunni sinn málshátt þá er bara að hafa samband :)
28/03/2007
Í morgun fór hjúkkan á fætur kl. 04:30 að staðartíma. Fyrir ykkur sem þekkið geðprýði hjúkkunnar í morgunsárið þá getið þið rétt ýmindað ykkur hamingjuna á staðnum. Jæja eftir góðan kaffibolla kom leigubílstjórinn og skutlaði gellunni út á flugvöll í eitthvað sem átti að vera mjög einfalt og þæginlegt. Ne-hei sú var nú aldeilis ekki reyndin!! Fyrir utan að margir flugvallastarfmenn í Bandaríkjunum virðast halda að farþegar séu að fara í gegn til að þjónusta þá en ekki öfugt, þá tók veðrið til sinna ráða og rústaði dagsplaninu. Hjúkkan var komin út í vél og vélin farin frá flugstöðvarbyggingunni á réttum tíma, og loks rétt fyrir flugtak var bara drepið á vélinni og farþegum tjáð að Chicago flugvelli hefði verið lokað vegna veðurs og við þyrftum að bíða í vélinni á flugbrautinni þar til frekari fréttir bærust eftir klukkutíma. Jú þá var búið að opna aftur og bara klukkutíma bið í viðbót eftir nýjum flugtakstíma!!! Frábært þar var farið að þrengja óhuggulega mikið að fluginu frá Minneapolis til Bemidji sem var eftir Chicago legginn. Til að gera langa og leiðinlega sögu stutta þá komst hjúkkan til Mpls 4 klst eftir áætlun, missti af fluginu sínu og fékk nýtt flug með 6 tíma bið á flugvellinum. Því er þessi færsla skrifuð úr Northwest lounge-inu á flugvellinum. Það er farið að styttast í flugið, bara 3 tímar og spurning um að koma sér bara á barinn!!!
p.s. Hvar er síminn þinn?????
26/03/2007
Já hjúkkan lagði aldeilis land undir fót í þetta skiptið og er þessi færsla skrifuð úti á verönd á hótelinu í New Orleans. Eitthvað er wireless netið ekki á ná tengslum inni á herberginu hjá stelpunni og því þarf hún alltaf að setjast út í sólina við tölvuvinnu sína. Þingið er eins og þessi dæmigerðu þing, fullt af mönnum í jakkafötum (dökkbláum eða svörtum) og konum í missmekklegum átfittum. Þar sem hjúkkan tók með sér ein 8 pör af skóm hefur hún haft í nógu að snúast að skipta um skó svo allir fái notið sín.
Hér er sól og blíða og hitinn á þæginlegu bili um 25°C. Miðbærinn lítur ágætlega út og eiginlega eins og ekkert hafi gerst hér, en um leið og maður er kominn út fyrir túrista svæðin sést eyðileggingin berlega. Í gær var farið í skoðunarferð um svæðið og þvílík og önnur eins eyðilegging er bara ólýsanleg. Húsin yfirgefin og ónýt, vatnalínur enn sjáanlegar á húsarústunum og allt í ofboðslegri eymd á svæðinum utan við miðborgina. Hjúkkan var mjög djúpt snortin yfir þessu öllu saman og eftir fyrirlesturinn í dag um þetta allt þá sá hún að við höfum ekki yfir neinu að kvarta á Íslandi.
Það er nú samt eitt og annað sem veldur kátínu hér og þar á meðal eru sjálf-niður-sturtandi klósett á ráðstefnusenterinu. Ef maður er heppinn nær maður að standa upp áður en klósettið sturtar sjálft niður en verði einhver töf á því og klósettinu finnst maður búinn að sitja of lengi, þá bara kemur köld og blaut gusan beint á bossann. Það er fátt meira hressandi en það ekki satt :)
22/03/2007
Nú er svo komið að hjúkkan er farin af stað til New Orleans með viðkomu í Bemidji á leiðinni heim. Þið sem ekki náðuð að hitta hjúkkuna fyrir ferðina, eruð bara óheppin og verðið vonandi heppnari þegar hún snýr aftur. Samkvæmt veðurspánni er gert ráð fyrir fárviðri hér á landi en 25 stiga hita í New Orleans, þannig að hjúkkan kemur örugglega útitekin, kaffibrún og frekknótt tilbaka - gleymum ekki þykka og hrokkna hárinu :)
Hafið það gott á meðan elskurnar..
17/03/2007
Ekki er öll vitleysan eins en hjúkkan átti nú varla til orð yfir því hvað er hægt að misskilja hlutina á einfaldan hátt. Hjúkkan var búin að segja ákveðnum einstakling frá keilukeppni fyrirtækisins sem fór fram í gær í keiluhöllinn í Öskjuhlíðinni. Nema hvað að þessi yndislegi einstaklingur náði einhvern veginn að misskilja út á hvað keppnin gekk og var alveg á því að hjúkkan væri á leið í kelukeepni í Öskjuhlíðinni og var þó nokkuð að velta því fyrir sér hvernig svona keppni færi fram!!!!
Þegar hjúkkan fór nú að ræða þetta við einstaklinginn kom það í ljós að þessi misskilningur var búinn að vera á borðinu í viku en allir alveg pollrólegir yfir aðstæðunum. Ég held nú að ég yrði ekkert sérstaklega ánægð með það að minn væri á leið í kelukeppni á vegum vinnu sinnar og þess þá heldur að ég væri alveg róleg yfir þessu í viku!! Þegar hjúkkan fór nú að spyrjast fyrir því hvað manninum gengi til að halda þetta - þá var svarið einfalt... maður veit aldrei hvað þessum fyrirtækjum dettur í hug að gera :)
16/03/2007
Það rak ýmislegt á fjörur hjúkkunnar í vikunni og það sem stendur upp úr er auðvitað einstök hæfni hjúkkunnar til sjálfskaða. Hjúkkan var í ég-er-kona-og-get-allt-sjálf gírnum að setja saman bókaskáp í stofunni þegar hún þurfi eitthvað að færa dæmið til, rétt í upphafi aðgerða. Dæmið var enn í pakkningunum og ætlaði hjúkkan að vippa þeim af gólfinu og færa á annan stað í stofunni en það virkaði ekki betur en svo að skápurinn endaði ofan á öðrum fæti hjúkkunnar. Hjúkkan er nú enginn aumingi og lét sig hafa það og kom skápdruslunni saman enda stutt þar til hún átti að fara á vaktina á slysó. Heppilegt - bara láta strákana kíkja á fótinn í leiðinni. Jú á slysadeildinni var auðvitað góður maður að vinna sem finnst hjúkkan hættuleg sjálfri sér og umhverfi sínu og fannst auðvitað bara gaman að fá að skoða bágtið. Bágtið er nú að batna og hjúkkan getur gengið eðlilega en það var illmögulegt á mánudaginn. Nema hvað að þessi yndislegi læknir tekur vaktir á neyðarbílnum og þegar hann frétti af keilukeppninni sem hjúkkan er að fara að keppa í varð honum ekki um set. Nú er mikið verið að velta fyrir sér fjölda sjúkrabíla sem þörf verður á, á meðan keppninni stendur í keiluhöllinni í kvöld.
Keppnisliðin hér innanhús mega ekkert vera að því að vinna í dag, enda er verið að undirbúa búninga og keppnisáætlanir enda mikið í húfi. Hvaða einstaklingur með heilbrigðan metnað vill ekki verða Vistor-meistari í keilu 2007????
Að öðru er helst að nefna að litla prinsessan verður skírð um helgina og bíður hjúkkan auðvitað eftir nöfnu sinni, tel það samt eitthvað frekar ólíklegt :) Hafið það gott um helgina og látið ekki sjá ykkur nálægt keiluhöllinni í kvöld enda verður þar viðbúnaðarstig vegna keilukeppninnar :)
11/03/2007
Hjúkkan fór á brilljant strákakvöld með Höskanum á laugardaginn. Geimið byrjaði á knæpu þar sem bikarleikurinn var litinn auga. Sem betur fer náðu okkar menn jafntefli, betra en að tapa alla vega - nema hvað að nú þarf maður að horfa á seinni leikinn líka. Eftir boltann lá leiðin í borgara á Vitabarnum og komst hjúkkan að því að hún var sennilega síðasta manneskjan á stór-höfuðborgarsvæðinu sem hafði aldrei bragðað á gleym-mér-ei hamborgaranum. Þessi borgari er bara snilld, hvítlaukur - beikon - gráðarostur og franskar með kokteilsósu er hægt að hafa það meira subbulegt? Eftir nokkuð góða stund á Vitabarnum (sökum veðurs) lá leiðin á poolstofuna þar sem var fullt út úr dyrum. Því var síðasta korterið á Barcelona - Real Madrid leiknum tekið og svo farið upp á ölstofu þar sem ýmis mál voru plottuð.
Að lokum gafst hjúkkan upp og dreif sig heim enda orðin gömlu og klukkan var farin að ganga 2. Já það er af sem áður var að maður var að tjútta frameftir nóttu, nú vill maður bara komast heim í ból og hvíla sig. Kvöldið í kvöld var svo tekið á slysadeildinni þar sem smávægilegur misskilningur um vaktir komst upp þegar líða tók á vaktina, og ástæðan fyrir aukavaktinni fallin um sjálfa sig - skemmtilegt!!!
Nóg er framundan í vikunni, farið að styttast í New Orleans og Bemidji ferðina góðu - þá fær fólk frið frá hjúkkunni í 10 daga, nýtið því tímann þangað til vel og verið góð við stelpuna :)
02/03/2007
Hjúkkan er í mikilli sjálfskoðun þessa dagana og þar sem hún var send heim af vaktinni á slysó í kvöld vegna flensudruslu sem virðist hafa komið sér fyrir hjá hjúkkunni er ekkert annað að gera en að velta sér rækilega upp úr lífinu! Mjög svo skynsamlegt þegar manni leiðist heima enda hetjan í ferðalagi með synina og engin til að leika við hjúkkuna.
Eitt af því sem hjúkkan veltir oft fyrir sér er þessi leyndi draumur og svo sem aðgerð sumra að fara á nýjan stað og byrja upp á nýtt. Ný borg, jafnvel nýtt land, ný vinna / skóli og nýir draumar. Hvernig væri það ef maður ætti einn sjéns á að byrja aftur á byrjunarreit - maður fengi sko bara eitt tækifæri til að gera þetta því annars væri hægt að misnota þetta. Hvað myndi maður geri öðruvísi en maður hefur gert nú þegar? Myndi maður kaupa fleiri skó eða vera duglegri að endurvinna hluti til dæmis? Já það eru aldeilis djúpar pælingar í vetrartíðinni í Dofranum.
Að öðru þá virðist engin lausn í sjónmáli á undarlega g strengs málinu og held ég að næsta skref sé að kalla inn miðil til að setja fund og komast í tengsl við týndu strengina.
28/02/2007
Hjúkkan er nú í smá líkamræktarátaki sem snýst um það að reyna að mæta oftar á þessu ári í ræktina en því síðasta. Það ætti ekki að vera mjög erfitt að ná markmiðinu þar sem hjúkkan var óvirkur styrkaraðilli að Hreyfingu stóran hluta þess árs. En nú er öldin önnur og á aldeilis að fara að taka á öllu síðuspikinu. Hingað til hefur hjúkkan bara farið á sitt hlaupabretti og í sinn cross trainer en í dag ákvað hún að breyta til og prófa eitthvað nýtt. Fyrir valinu varð Jump Fit tími í hádeginu sem gengur út á 50 mín hopp með sippubandi og svo um 1000 magaæfingar í lokin. Hjúkkan átti nú ekki von á því að þetta væri mikið mál - enda þaul vön á hlaupabrettinu. Eftir hins vegar um 15 mín ( af 50 mín ) var hjúkkan farin að þrá að komast í magaæfingarnar og losna við syppið - þetta var sko ekkert spaug. En hún þrjóskaðist áfram þrátt fyrir svima, ógleði og nokkrar nettar SVT (ofansleglahraðslátt ísl) tókst henni að klára tímann með stæl. Svo er bara að sjá hvort hjúkkan geti yfir höfuð hreyft sig á morgun!!!
Annars er hjúkkan að vinna í tengslamyndun sinni og því að auka ábyrgðartilfinningu sína gagnvart lifandi hlutum. Því keypti hún sér pottaplöntu!! Plöntuna setti hún á skrifborðið í vinnunni sinni, rétt við gluggan en í passlega réttri birtu og hita. Þar sem hjúkkan er meira á skrifstofunni sinni en heima hjá sér ákvað hún að hafa plöntuna hér en ekki í Dofranum. Í fyrstu gekk allt vel og hjúkka og plantan virtust ná vel saman og döfnuðu báðar. Nú er hins vegar svo komið fyrir aumingjans plöntunni að hún er orðin einkennileg á litinn og blómadæmið og greinarnar ekki eins tignarlegar og í upphafi. Hjúkkan er að hamast við að vökva kvikindið og vonar að hún nái sér, annars er það nottla bara haugurinn fyrir New Orleans ferðina!
27/02/2007
Hjúkkan er að kljást við stórundarlegt mál þessa dagana og fær hún engan botn í þetta mál sama eftir hvaða leiðum hún leitar. Þannig er mál með vexti að undir lok síðustu viku fór hjúkkan að leita eftir efnisminni nærfatnaði sínum svokölluðum g - strengsbuxum sem allar konur þekkja og eiga mikinn slatta af. Nema hvað sama hvar hjúkkan leitaði þá fann hún ekki eitt par!!! Svo virðist sem á einhvern mjög svo undarlegan hátt hafi allar þessar undirbuxur hennar í þessu formi horfið! Hjúkkan er nú engin kjáni og hefur nú alveg sens fyrir því að hún hefur nú ekki skilið þessi föt eftir úti í bæ og hefur sjálf séð um þvott á heimilinu. Oft hefur hjúkkan heyrt sögur af þvottavélum sem "éta" svona undirföt og því eigi að setja þau í sérstakt net - en come one það kemur ekki fyrir hjúkkuna og hefur ekki verið til vandræða.
Það er sameiginlegt þvottahús í húsinu en hver og einn hefur sína vél og sína þvottagrind þannig að það á ekki að gerast að einhver taki "óvart" fatnað sem hann á ekki. Hingað til hefur allur sá þvottur sem settur hefur verið á snúruna skilað sér upp með hreina þvottinum. En nú er sem sagt kominn tími á samsæriskenningarnar. Er einhver að laumast niður í þvottahús og taka "óvart" undirföt sem ekki tilheyra þeim eða er þvottavélin mín búin að missa það og komin í heilagt stríð við þessi efnislitlu undirföt? Eitt er ljóst í stöðunni og það er að hjúkkan þarf að fara í búð og spurning hvort maður kalli til rannsóknarmenn til að greina stöðuna :)
26/02/2007
Helgin var nokkuð þétt og ansi skemmtileg hjá hjúkkunni. Föstudagskvöldið fór í heimahangs með Hrönnslunni þar sem karlamál voru rædd niður í minnstu þræði og niðurstaðan var engin - frekar en fyrri daginn þegar maður er að ræða þessi mál. Á laugardaginn lá svo leiðin í greiðslu og svo henti hjúkkan smá farða í andlitið og dreif sig í kjólinn að ógleymdum bandaskónum með 10 cm hælnum! Já hjúkkan var hávaxin með þykkt og hrokkið hár á árshátíð slysadeildarinnar þar sem þó nokkrur snúningar voru teknir á dansgólfinu. Eftir heilmikil tjútt lá leiðin á NASA þar sem allir hinir íslendingarnir voru saman komnir, þ.e. þeir sem ekki voru á árshátíðinni. Þeir liðið var þó nokkuð fram á nótt var hjúkkan við það að missa fæturna af stappi annarra og ákvað að koma sér heim og úr skónum!
Sunnudagurinn fór í netta afslöppun og þá kom gullmoli helgarinnar. Jú nú á hjúkkan tvo gullmola þar sem litli frændi var að eignast litla systur sem er jafn fullkomin og hann!! Nú er það bara að standa sig enn betur sem uppáhalds frænka enda ekki hægt að missa titilinn núna! Litla prinsessan var svo litin augum um kvöldið og eins og fyrr sagði er hún bara fullkomin - það er ekkert flóknara :) Innilega til hamingju Smyrilshólafjölskylda.
Dagurinn í dag fór í tölvupóst deilur um fjárhagsáætlun og stefnir í jafn fjörugan morgundag. Það er sem sagt nóg að gera hjá hjúkkunni þessa dagana.
23/02/2007
Já draumfarir hjúkkunnar fara nú bara að flokkast sem hrakfarir ef heldur sem horfir. Síðustu nætur hefur hana dreymt mjög svo einkennilega hluti allt frá rómantískum stundum með þjóðþekktum einstaklingum til martraðarinnar sem hún fékk í nótt og hélt í kjölfarið að það væru innbrotsþjófar frammi í eldhúsi!!! Hjúkkan þorði hvorki að hreyfa legg né lið enda myndu þá innbrotsþjófarnir komast að því að það væri einhver í íbúðinni - eins og það ætti að koma á óvart kl 04 um nótt!!! Engin vopn voru nálægt rúminu og því sá hjúkkan fram á það að þurfa að berjast við innbrotsþjófana - berskjölduð og varnarlaus.... en viti menn fljótlega sofnaði hún aftur og sem fyrr vaknaði dauðuppgefin í morgun.
Á morgun er hins vegar árshátíð slysadeildarinnar með tilheyrandi háreyðingum og brúnkumeðferðum í kvöld, kannski maður splæsi bara líka í agúrkumaskann til að vera ekkert þrútin á morgun :) þetta er nú líka svo mikið í anda hjúkkunnar að standa í einhverju bjútí trítmenti á sjálfri sér!!!
15/02/2007
Hjúkkan er snillingur dagsins í dag að eigin mati. Hún er svo mikill snillingur að það er leitun að öðrum eins snillingum. Snilldin byrjaði auðvitað á því að hjúkkan svaf eiginlega yfir sig en það getur nú komið fyrir á bestu bæjum. Hún var nú ekkert skammarlega sein í vinnuna enda með sveigjanlegan vinnutíma. Nema hvað eftir að hafa þotið á fætur og henst í föt átti að fara að henda í sig morgunmatnum. Þá var illt í efni - brauðið búin og mjólkin farin að tala við allar aðrar vörur sem voru í ísskápnum. Held að það sé bara að verða spurning um að kaupa mjólkina í pela stærð en ekki líter í einu. Jæja nú voru góð ráð dýr, góðum slatta af seríósi var hent í poka og ákveðið að borða bara morgunmat í vinnunni. Þetta gekk upp og dagurinn virtist vera á góðri leið.
Um hádegisbil átti hjúkkan fund og þurfti að hlaupa að bílnum sínum í klikkaðri rigningu og roki. Hjúkkan stöðvaði við bílinn sinn og ýtti á fjarstýringuna - ekkert gerist. Hún ýtti aftur á fjarstýringuna og ákvað að halda takkanum inni í svolitla stund - ekkert gerist. Þegar hér er komið við sögu er nokkuð farið að draga af hjúkkunni sem er orðin köld, blaut og hrakin. Hún ákveður að stinga lyklinum í skrána og opna þannig bílinn - ekkert gerist!!! Nú var hjúkkan bara orðin vonlausið uppmála og hætt að hafa húmor fyrir bílnum! Allt í einu varð henni litið inn í bílinn og sá þar barnastól - hum hjúkkan kannaðist nú ekki við að vera með barnastól í bílnum sínum. Alveg svona 10 sekúndum síðar opnaðist hugur hjúkkunnar og hún uppgötvaði að hún átti einfaldlega ekki þennan bíl!!!!!! Hún laumaðist að bílnum sínum og vonaði að enginn í fyrirtækinu hafði séð þessa tilraun hennar til stuldar á bíl samstarsfaðilla síns.
Nú er hjúkkan glöð, henni loksins orðið hlýtt og stefnan tekin á smá fund, svo gymmið og svo kúr undir teppi. Góðar stundir!!
14/02/2007
Já lífið leikur um hjúkkuna þessa dagana. Hún er svo gleymin frá degi til dags að hún man bara hluti sem gleðja hana og er búin að mynda sér nýja stefnu í lífinu. Muna bara eftir góðu hlutunum og vera ekkert að velta þeim leiðinlegu fyrir sér. Hjúkkan endurheimti hetjuna úr (pissum í) krossferðinni sem var einhvers staðar fjarri byggðum og öðru fólki og er hin kátasta fyrir vikið. Hjúkkan hefur hingað til ekki þurft að upplifa það oft að vera sú sem er skilin eftir - því það er almennt hún sem stingur af til útlanda. En í þetta sinn þá fékk hún að finna hvernig það er að vera sá sem er ekki að gera neitt spennandi heldur bara í sínu gamla umhverfi. Vonandi verður þessi upplifun ekki til þess að hún fari að raða gjöfum í liðið eftir heimkomur sínar - því þá er voðinn vís :)
Annars hafa margir snillingar orðið á vegi hjúkkunnar undanfarið og hæst ber að nefna konuna sem var að keyra á Akranesi á 15 km/klst á miðjum veginum. Svo stoppaði hún við hvert götuskylti þar til að hún loks missti það og ákvað að keyra inn götu sem var lokuð vegna framkvæmda, sundur grafin og algjörlega ófær. Já það geta ekki allir verið eins miklir snillingar og þessi kona. En hjúkkan hefur nú dregið töluvert úr eigin óhöppum og virðist sem hægt sé að eiga sér líf án þess að slasa sig mikið. Hún reyndar opnaði enn sem fyrr bílhurðina í andlitið á sjálfri sér um daginn og fékk marblett á nefið sem var nú flott fyrir :)
Annars er frekar lítið í fréttum í dag - góðar stundir
06/02/2007
Helgin var ósköp ljúf hjá hjúkkunni enda var henni eytt í huggulegheitum í sumarbústað. Það er alveg með ólíkindum hvað það er gott að komast aðeins út úr bænum þó ekki sé nema í nokkra daga og slaka á. Ekki það að hjúkkan sé eitthvað aðframkomin af streitu, þá er bara eitthvað svo kósý við sveitina. Smá vinna varð þó á leiðinni í bæinn en allir sluppu vel og sjaldan sést jafnmikil ró yfir einum vettvangi. Sunnudagskvöldið var tekið í hálfa Ofurskál, þar sem auðvitað Coltararnir rúlluðu Björnunum frá Chicago upp. Þetta leit nú ekki sérstaklega vel út eftir fyrstu mínúturnar þar sem Birnirnir skoruðu í fyrstu sókn en mótlætið styrkir ekki satt :)
Hjúkkan er líka ofurglöð þessa dagana þar sem hún hefur nú loksins eignast tvær Police Academy myndir (nr. 3 og 6) og var sú fyrri sett í tækið um helgina. Þvílík snilldar kvikmynd!!!
Eitt sem hjúkkan er að velta fyrir sér í dag er stjörnuspáin hennar :
- " Það er fín lína milli þess að gera öðrum vel og ganga á sjálfan sig. Varastu að taka of mikið að þér. Að segja nei er stundum það besta sem maður gerir fyrr alla aðila."
Jább ætli þessu sé beint sérstaklega til hjúkkunnar?? Nei maður bara spyr sig!
31/01/2007
Eitthvað gekk hjúkkunni illa með símann sinn í kvöld og kom það meðal annars fram í síendurteknum röngum númerum sem hún hringdi í. Þetta byrjaði allt í lokin á Americas Next Top Model þar sem sást í ákveðna byggingu í Barcelona er minni helst á ofvaxið kynlífshjálpartæki (grínlaust.... hótelið sem hjúkkan gisti á í Barcelona er einmitt við hliðina á þessu skrímsli). Þar sem hjúkkan átti marga góða brandara með samstarfskonu sinni í tengslum við þessa byggingu ákvað hún að slá á þráðinn til hennar í lok þáttarins til að tjá sig um málið. Hjúkkan hefur margoft hringt í samstarfkonuna og veit uppá hár símanúmerið hjá henni. Ekki tókst betur til en svo að hún hringdi óvart í eina af hæstráðendum í Vistor, sem hafði nú húmor fyrir þessu öllu. Hjúkkan roðnaði nett í símann og náði svo í hláturskasti að slá inn rétt símanúmer. Eftir það samtal ætlaði hjúkkan að hringja í Þormóð og vildi ekki betur til en svo að hún einmitt - jú hringdi aftur í vitlaust númer. Í þetta sinn var það nú sem betur fer enginn innan fyrirtækisins sem svaraði, en það kom nú samt á óvart hver var hinum megin á línunni. Jú þetta ætlaði ekki að ganga upp hjá hjúkkunni og þegar hún hafði í þriðja sinn á innan við 45 mín hringt í rangt númer ákvað hún að hætta þessu kjaftæði og sætta sig við að hlusta á rausið í sjálfri sér... Sem betur fer eru bara tveir dagar eftir af þessari vinnuviku og stefnan tekin út úr bænum um helgina, ætli hjúkkan villist ekki á leiðinni? Kannski hún láti bara aðra um aksturinn..
30/01/2007
Hjúkkan er búin að bíða spennt eftir bréfi frá tryggingarfyrirtækinu sínu sem vildi gera allt til þess að fá hjúkkuna í viðskipti hjá sér. Hjúkkan brosti út í annað þegar þetta blessaða fyrirtæki gekk á eftir henni með grasið í skónum, því greinilegt er að þetta fyrirtæki veit ekki mikið um Fríðuna!! Nema hvað í morgun komu svo nýju tryggingarskilmálarnir í pósti og með góðan kaffibolla í hendi kom hjúkkan sér vel fyrir í sófanum og hóf lesturinn. Þetta er hið áhugaverðasta plagg allt saman og hjúkkan í rónni yfir því að nú er hún tryggð í bak og fyrir NEMA (það er alltaf þessi litla klausa)
" ef tjón hlýst af völdum :
- jarðskjálfta, eldgoss, skriðufalls, snjófljóðs eða annarra náttúruhamfara,
- styrjaldar, innrásar, hernaðaraðgerða, borgarrósta, uppreinsar, uppþots, verkfalls eða svipaðra aðgerða,
- kjarnabreytinga, jónandi geislunar, mengunar af geislavirkum efnum, kjarnaeldsneytis eða kjarnaúrgangsefnis.
Já eftir þennan lestur á því sem tryggingin coverar ekki er hjúkkan bara mjög ánægð að búa í Hafnarfirðinum þar sem hún er ekki í hættu á að lenda í skakkaföllum vegna fyrrnefndra atburða. Sem sagt hins skemmtilegasta lesnins og góð upphitun fyrir leik ársins á eftir Ísland - Danmörk þar sem hjúkkan hefur mikla trú á íslensku strákunum. Það er einhvern veginn fátt sætara en að rúlla dönunum upp... Hver veit nema bara eftir leikinn að við kaupum bara Tiovli og Litlu Hafmeyjuna þá er allt komið sem skiptir danina einhverju máli..
27/01/2007
Hjúkkan er ofboðslega stolt af nokkrum hlutum í augnarblikinu. Fyrst ber að nefna nýju fartölvuna sem hún er komin með frá vinnunni og er hin krúttlegasta Dell talva. Svo má auðvitað ekki gleyma "strákunum okkar" í landsliðinu í handknattleik sem standa sig eins og hetjur í Þýskalandi. Það var nú í tæpara lagi leikurinn í dag og var orðið þó nokkuð um öskur og hvatningahróp yfir sjónvarpinu. Ráðgert er að sami hópur hittist á morgun og fagni sigri á Þjóðverjunum. Hjúkkan hefur óbilandi trú á því að strákarnir komi afslappaðir og fullir af leikgleði í leikinn á morgun og rúlli bara upp Þjóðverjunum. Síðast ber að nefna uppáhalds hornamann hjúkkunnar sem stóð sig eins og hetja í Íslandsmótinu í dag og sett inn 15 mörk!! Já það er nú ekki alltaf spurning um að vera of hávaxinn, þá er maður bara fljótari fyrir vikið!
Enn einn handboltamaðurinn á afmæli í kvöld og gaf hjúkkan honum nýtt gips í afmælisgjöf - í þetta sinn var gipsið neon gul-grænt! Til hamingju með afmælið og njóttu gipsins vel.
23/01/2007
Já það kemur nú ekki oft fyrir hjúkkuna að hún verði orðlaus, en það getur greinilega allt gerst. Síðustu daga hafa skipts á skin og skúrir og var sunnudagurinn einstaklega vondur dagur í íþróttalífi hjúkkunnar. Mikil hætta er á því að hjúkkan og Óskar geti aldrei horft á leiki saman þar sem allt fór fjandans til hjá liðum þeirra á sunnudaginn. En á mánudaginn kviknaði vonarneisti í íþróttahjarta hjúkkunnar þar sem hún sat heima í sófa með hroll og gæsahúð af stolti yfir "strákunum okkar" - þeir voru bara frábærir og sýndu að maður á aldrei að gefast upp. Nema hvað mánudagurinn byrjaði nú ekki eins vel og leikurinn endaði. Hjúkkan átti fund snemma morguns (fyrir klukkan 9) og sat prúð fyrir framan stofuna hjá þeim sem hún átti fund við. Á hægri hlið hjúkkunnar sat eldri maður sem talaði hátt og snjallt í símann og lýsti yfir dásemdum lífsins á sama tíma og hann pantaði tíma fyrir útför!!!! Já sumir vinna vinnuna sína á einkennilegum stöðum (að panta útför á biðstofu hjartalæknis fannst hjúkkunni alla vega svolítið súrt). Í miðju símtali mannsins vippar hann sér upp á hægri rasskinn og lætur flakka þetta líka blauta og rasskinnanötrandi prump!!! Eins og ekkert hefði í skorist hagræddi hann sér að því loknu á báðar rasskinnar og hélt áfram að tala í símann!!!!! Já góð byrjun á vikunni að láta ókunnuga reka við á mann!
16/01/2007
Hjúkkan kom sjálfri sér í þó nokkra hættu í kvöld sökum sjálfhverfu. Þannig var að hún var nýbúin að lesa frásögn af einstaklega vel heppnaðri spænsku kunnáttu sinni sem átti sér stað í vinnuferð til Barcelona síðastliðið haust er hún ákvað að fá sér góða sopa af Pepsi Maxinu. Þar sem hjúkkan var nú enn hálf hlæjandi af sjálfri sér tókst ekki betur til en svo að allt pepsíð rann beinustu leið niður í lungu og mikill hósti var það eina sem hjúkka uppskar. Atvikið sem gerði hjúkkuna svona voðalega glaða var sem sagt í leigubíl í Barcelona. Þar sem hjúkkan hafði nú tekið spænsku 103 hérna um árið (f. ca 12 árum síðan) var hún full sjálftraust á eigin getu til að tala spænsku. Leiðin lá að einhverju torgi við einhverja kirkju og hjúkkan var að rembast við að gefa leigubílstjóranum leiðbeiningar á spænsku (jú mín var svo ógeðslega góð í spænskunni) og eitthvað virtist leigubílstjórinn ekki vera að skilja hjúkkuna. Hann var farinn að baða út höndunum og vandræðast mikið og leit þá hjúkkan á hann með nettri fyrirlitningu (því leigubílstjórinn var svo lélegur í spænsku) og sagði kokhraust: ...no no no, CON CARNE!!!" Jább andartaki síðast trilltist samstarfskona hjúkkunnar úr hlátri í aftur sætinu og leigubílstjórinn líka, þá loksins heyrði hjúkkan þá snilld sem út úr henni hafði komið. Nei félagi við ætlum ekki á torgið - bara með kjöti!!!!!! Spænsku færnin var þá kannski ekki eins mikil í raun og veru!
06/01/2007
Árið 2007 fer ágætlega af stað hjá hjúkkunni sem er nýkomin heim frá Danmörku. Ekki var nú mikill tími til félagslegra heimsókna til vina og vandamanna í Köben að þessu sinni en vonandi verður bætt úr því næst. Hjúkkunni til mikillar gleði og undrunar birtist Höskuldur í áramótaskaupinu. Hún fór nú að hugsa hvort hún hefði átt að vita af þátttöku hans í skaupinu, en getur ekki fyrir sitt litla líf munað hvort þessa umræðu hafi borið á góma. Eitt af nýársheitum hjúkkunnar (heppilegt þar sem hjúkkan strengir ekki nýársheit) ætti því að vera að taka meira eftir því sem sagt er við hana. Henni til mikillar lukku er þó til fólk sem er með eindæmum gleymið og maður veltir því alvarlega fyrir sér hvort þessir einstaklingar séu yfirleitt að hlusta þegar maður talar!!!!
Nú er utanlandsferða frí í tæpa tvo mánuði og ætlar hjúkkan að njóta lands og þjóðar í allan þann tíma. Fyrirhuguð er ferð úr bænum og vonandi áframhaldandi stemning á árinu. Svo er auðvitað farið að styttast í HM í handbolta með tilheyrandi pizzuáti og íslenskri stemningu. Hversu lengi ætli "strákarnir okkar" verði "strákarnir okkar"???
01/01/2007
Já viti menn nú er bara árið 2007 byrjað og það hófst nú bara á rólegu nótunum hjá hjúkkunni. Hún bauð foreldrunum og frænda í mat á gamlárskvöld og komst að því að þá má búa til sósu úr ótrúlegustu hlutum! Allir borðuðu nægju sína og svo hófst reglulegt annála áhorf og svo skaupið. Hjúkkan skemmti sér nú ágætlega yfir skaupinu og svo voru það skotárásirnar sem hófust í kringum miðnættið. Að þessu sinni var farið upp á hól í Áslandinu ásamt fleiri hafnfirðingum og var útsýnið alveg ótrúlegt. Eftir kampavínssopa í Kríuásnum lá leiðin aftur í Dofrann þar sem sófinn endaði sem deit kvöldsins hjá hjúkkunni.
Á nýju ári er nú til siðs að fara yfir síðasta árið og hér koma helstu punktar þess:
- hjúkkan flutti ekki á árinu sbr. endalausa flutninga 2005
- árið byrjaði erfiðlega og reyndist í heildina á köflum mjög ósanngjarnt
- skipt var um vinnu á miðju ári og þá fyrst fóru utanlandsferðir að taka kipp
- hjúkkan man ekki lengur hvað hún er búin að fara í margar ferðir til útlanda á síðasta ári
- sápuóperan er eins og góð mexíkósk sápa, virðist engan enda ætla að taka
- hjúkkan keypti sér jeppling, sem hún síðan seldi og klessti loks!!
- Björgunarsveit Hafnafjarðar kom hjúkkunni til bjargar eftir veðurofsa og snjóskafla sem ollu því að bíllinn sat sem fastast
- tíðni óheppilegra atvika var eins og í meðalári - á bilinu 1 til 2 atvik á mánuði
- hjúkkan strengdi engin áramótaheit frekar en fyrri árin
Jæja þá er þessari litlu upptalningu lokið enda árið búið og komið nýtt ár með nýjum tækifærum. Hvetur hjúkkan alla til þess að njóta nýja ársins og láta ekkert stöðva sig.
27/12/2006
Hjúkkan er nú alveg að verða komin með nóg af þessu andlega ofbeldi sem flugumferðastjórar eru að beita þjóðinni. Þar sem hjúkkan er nú farin að ferðast nokkuð mikið sökum vinnunnar, og á einmitt flug frá Íslandi þann 2. janúar, er hún ekki hress með þessar hótanir sem felast í orðum formanns þeirra. Hann kom í Kastljósið áðan og var með frekar ónett skot á þá flugumferðastjóra sem ætla að vinna hjá nýja fyrirtækinu. Hjúkkan er nú ekki vön að blanda þessari síðu sinni í svona deilur sem ræddar eru í samfélaginu en þetta gengur of langt að hennar mati. Til dæmis síðast þegar hjúkkan hélt að hún hefði eitthvað vit á samningum, voru lögin þannig að þú slítur ekki gildandi kjarasamningi bara af því þú vilt nýjan!!! Já hjúkkunni er lítið skemmt yfir þessari hegðun starfstéttar sem heldur Íslendingum í gíslíngu!!!
Já jólin komu nú aldeilis með glæsibrag í ár. Hjúkkan naut daganna í faðmi fjölskyldunnar með tilheyrandi matarveislum og ofáti. Annars virtust flest fyrirtæki sem hjúkkan hefur unnið fyrir á árinu ákveðið að gefa eins gjöf í ár - KONFEKT..... Hjúkkan var nú farin að svitna töluvert yfir öllu þessu magni af súkkulaði sem saman var komið í Dofranum og fór hún því með dágóðan skammt á slysadeildina, þar sem fleiri fá að njóta þess.
Aðfangadagskvöld einkenndist af nettri Fríðu þar sem að mat og kaffi loknu leit kjóllinn hennar út fyrir að 5 ára barn hafi notað hann sem svuntu. Eitthvað gekk illa að koma matnum á réttan stað og því þarf kjóllinn að komast í hreinsun. Einnig steig hús í veg fyrir bílinn hjá hjúkkunni þegar hún var að bakka í stæði, en sem betur fer eru skemmdir í lágmarki. Jóladagur fór í jogginggallann og afslöppun áður en tekist var á við hangikjötið og svo var 3. veislan í Brekkuselinu í gær með systrum, viðhengjum og öðrum tengiliðum. Það fer nú að verða of lítið borðstofuborðið í Brekkuselinu þegar allt liðið er mætt en það var bara yndislegt.
Nýtt teppi leit dagsins ljós úr einum pakkanna til hjúkkunnar og hefur það verið prufukeyrt í Dofranum. Teppið er 200cm x 250 cm og því týnist hjúkkan eiginlega ef hún liggur ein undir því!! En það er bara huggulegt.
Okkar menn unnu glæstan sigur á jóladag og lítið annað að segja en Áfram Man Utd!!!!
24/12/2006
Hjúkkan óskar öllum vinum og vandamönnum, nær og fjær gleðilegra jólahátíðar. Passið ykkur nú á öllum matnum og konfektinu, allt er gott í hófi. Njótið tímans saman og eigið yndislegar stundir með þeim sem ykkur þykir vænst um.
Hjúkkan er komin í jólafrí og jólaskap og fer ekki á flakk aftur fyrr en 2. janúar. Það er því nægur tími fyrir hittinga, knús, spil og almennt haugerí.
Farið varlega í umferðinni og munið að vera góð við hvort annað.
14/12/2006
Það er ekki á hverjum degi sem hjúkkan lendir í óvenjulegum aðstæðum, frekar svona annan hvern dag. Eftir að hafa setið á annarri rasskinninni í viku á ráðstefnunni í New York dreif hjúkkan sig til sjúkraþjálfarans þegar heim var komið. Flugið frá New York var rétt yfir 5 klukkutíma langt og voru þetta lengstu fimm tímar í lífi hjúkkunnar, þar sem hún var að drepast úr verkjum í bakinu og rófubeininu. Sjúkraþjálfarinn ákvað að prófa nýja leið í meðferð sem byggir á japanskri teipmeðferð. Núna er hjúkkan sem sagt með bleikt teip á neðri hluta baks í nálægð við rófubeinið. Sem sagt til að lýsa því betur þá er hjúkkan með skærbleikt biðskyldumerki á botninum!!!! Það má fara með draslið í sund og sturtu og alles þannig að það er alveg spurning um að skella sér í bikiníið og í Laugardalslaugina með biðskyldumerkið. Eitthvað ætti það eftir að vekja athygli fólks!!!
Annars er hjúkkan að detta í svakalegustu jólastemningu sem sögur fara af. Hún er búin að skreyta allt í Dofranum og er bara raulandi jólalög daginn út og inn. Það eru mörg ár síðan hún hefur dottið í svona jólaskap og þá er bara að njóta þess. Hjúkkan er nú samt ekki farin að þola auglýsinguna með syngjandi barninu....
09/12/2006
Ég veit ekki um ykkur hin en eitthvað finnst mér það hljóma of kunnulega að það sé gert ráð fyrir vitlausu veðri á Íslandi einmitt daginn áður en ég á að fara í flug heim!!! Það virðist vera þannig þessa dagana að djúpar lægðir fylgi utanlandsferðum hjúkkunnar með tilheyrandi seinkunum á flugi og almennum leiðindum!!! Kosturinn í dag er alla vega sá að bíllinn er heima í Dofranum og því lítil þörf á Björgunarsveit Hafnarfjarðar til að koma hjúkkunni milli staða :)
Það nýjasta úr lífi hjúkkunnar í New York er að hún er orðinn stoltur eigandi af Ipod Nano, sennilega síðust allra íslendina að eignast svona grip. Þetta er voðalega sniðugt tæki, en það þarf víst ekki að telja það frekar upp hér þar sem allir eru löngu komnir með svona dæmi...
Það virðist koma hjúkkunni sífellt á óvart sá svakalegi fjöldi fólks sem er í þessari borg. Það er fólk alls staðar og þar sem ekki er fólk, þar er leigubíll á fullu blasti á flautunni. Já þetta er nú aðeins meira af fólki en í Firðinum góða :)
Nú er bara að vona að veðrið gangi hratt yfir og Icelandair lendi ekki í miklum vandræðum með allt dæmið, því hugurinn er nú farinn að leita heim.
Hér í New York er réttast að segja að skjótt skipist veður í loftum... Í gær var hér 14 stiga hiti á celcius og í morgun var þetta líka netta 10 stiga frost!!! Já hitinn féll um 24 gráður á innan við sólarhring. Undir kvöld var nú aðeins farið að hitna en þetta er nú meira en góðu hófi gegnir.
Það er alveg ofboðslega mikið af fólki í þessari borg og áreitin eru ótrúleg. Í dag stóð hjúkkan á götuhorni þar sem einstaklingur frá Hjálpræðishernum söng jólalög í karaókí tæki á fullu blasti, glugginn hjá Macy´s söng jólalag að ógleymdri lyftutónlist dauðans sem barst úr hátalarakerfi fyrir utan búðina. Í ofanálag við þetta voru auðvitað bílflautur á fullu og hávaðinn var hreint út sagt ærandi. Kannski hjúkkan þurfi bara að horfast í augu við það að hún er ekki eins ung og ónæm fyrir hávaða og hún vildi halda. Eftir þessa upplifun fór hún í deildina fyrir gamla fólkið í Macy´s þar sem fáir voru á ferli og engin tónlist í kerfinu til að ná tökum á þessu öllu aftur.
Ráðstefnan er mjög áhugaverð og var til dæmis fyrirlestur í dag um rannsóknir á háþrýstingi sem styrktar eru af lyfjafyrirtækjum. Hjúkkan svitnaði nett þegar gaurinn fór að dissa allar helstu rannsóknir samkeppnislyfjanna og beið eftir að röðin kæmi að Novartis. En sem betur fer hafði hann ekkert út á það að setja og hjúkkan hélt andlitinu voðalega hugrökk.
Það er nú ýmislegt sem gekk á í lífi hjúkkunnar áður en að kom að þessari ferð og hefur hún nú reynt eftir bestu getu að leiða huga að öðru, en auðvitað koma tímar þar sem meira að segja hjúkkan vill vera ein með sjálfri sér. Og þegar það gerist þá leyfir hún sér það bara!!! Enda er þetta nú yfirleitt í skamma stund en maður verður að hlusta á sjálfan sig - því ef maður gerir það ekki hver gerir það þá????
Heimkoman er á mánudagsmorgun og verður spennandi að sjá hvernig tókst til með jólaseríuna á svölunum sem hjúkkunni skilst að séu komnar á sinn stað. Auðvitað fær Bandaríski efnahagurinn að njóta góðs af heimsókn hjúkkunnar og Mastercard ætti ekki að koma út í skuld eftir þennan mánuð. En nú er kominn tími á blund, enda ráðstefna og skoðunarferðir á morgun.
01/12/2006
Síðustu daga hafa sífellt fleiri merki um það að jólin séu að nálgast skotið upp kollinum. Í gærkvöldi varð hjúkkan fyrir því að sjá þá auglýsingu sem hún þolir hvað verst í jólatíðinni. Jú þið sem þekkið hjúkkuna vitið að um er að ræða syngjandi krakkann með jólasveinahúfuna..... Hjúkkan fær einfaldlega hroll við tilhugsunina eina og sér - þessi auglýsing fer einstaklega mikið í taugarnar á hjúkkunni!!! Næsta merki um jólin var bundið við einhvern einkennilegasta texta í jólalagi sem hjúkkan hefur heyrt. Jú ofursmellurinn sem inniheldur ... he is the reason - for the season.. ójá alveg hreint ógleymanlegur texti!
Annars verður kvöldið tekið heima á sófanum í Dofranum þar sem hjúkkan er með hundleiðinlegar takttruflanir og er nett þreytt eftir svolítið erfiða viku. Þá er bara að sjá hvort næsta vika verði ekki auðveldari, þá er jú ferðin til New York á dagskrá.
30/11/2006
Það er nú ekki mikið að frétta af hjúkkunni þessa dagana. Hún er búin að vera heima á klakanum í 3 vikur tæpar og farið að glitta í næstu ferð, en þá liggur leiðin til New York. Það verður nú örugglega frekar nett að vera þar í tæpa viku, svona í jólamánuðinum. Síðasta helgi fór í jólabakstur og skrall með Hafnarfjarðarpíunum sem var ótrúlega nett. Allt í einu er komin aftur föstudagur og áður en maður veit af verða jólin komin. Ælti hjúkkan splæsi ekki í nokkrar jólagjafir á meðan hún verður í NYC, svona á milli fyrirlestra og kvöldverðaboða.
Svo eru það auðvitað jólasöngvarnir hjá kórnum sem eru helgina fyrir jól með tilheyrandi tárvotum augum í vissum lögum. Það er alveg ótrúlegt hvað sum jólalög geta haft áhrif á mann og sértaklega er hjúkkan þá að tala um jólagið hennar Eivara sem Árni nokkur Harðar útsetti á þvílíkan snilldarhátt. Þið verðið bara að koma á tónleikana til að upplifa þetta - en ég get lofað ykkur því að það munu tár falla :)
Hjúkkan er frekar dapurleg í bíóferðum og hefur hvorki séð Mýrina né Bond!!! Jább alveg spurning um að finna einhvern til að fara með sér í bíó, ekki satt??
Þangað til næst, farið varlega í hálkunni og jólasmákökunum...
16/11/2006
Hjúkkan er komin heim úr því sem virtist vera einstaklega löng ferð til útlanda í þetta skiptið. Það hefur sennilega haft áhrif að hún rétt komst heim milli fluga um síðustu helgi og náði ekki einu sinni að pakka upp úr töskunum. Annars var hjúkkunni bent á það í morgun það hugtakið að "pakka upp" væri ekki til og almennt væri notast við að "taka upp" úr töskunum! Nema hvað þá lenti hjúkkan sæl og þreytt á klakanum eftir nokkuð ánægjulegt næturflug frá Boston. Að þessu sinni voru allar flugvélar á réttum tíma og ekkert óvænt gerðist. Það má því segja að allt sé þegar þrennt er þar sem flugjinxinu virðist vera aflétt af hjúkkunni. Það er svo fátt íslenskara en að koma út úr Leifsstöð um kl 7 að morgni í 5 stiga frost og norðan gadd sem stingur inn að beini!!!!
Chicago er mjög skemmtileg borg og það var í nógu að snúast þar. Skella sér á ráðstefnuna, skoða í búðir og skoða mannlífið á götum borgarinnar. Hjúkkan var alltaf að bíða eftir því að hitta Dr. Luka á þinginu en hann er víst bráðalæknir en ekki hjartalæknir og því komst hann ekki til að hitta hana í þetta sinn :) Hápunktur ferðarinnar voru þó tónleikar með ofurbandinu TOTO sem voru á House of Blues á þriðjudagskvöldið. Þar hljómuðu hver annar slagarinn og þakið ætlaði að rifna af þegar þeir tóku einmitt "Hold the line (duh-duh-duh-duh).. love isn´t always on time". Aðrir gamlir og góðir voru meðal annars Rosanne og einnig Africa lagið sem hjúkkan man ekki hvað heitir. Hjúkkan heyrði þann orðróm að TOTO væru væntalegir til landsins á næsta ári og þá er bara að skella sér aftur enda þrusugott tónleikaband á ferð, þrátt fyrir nokkuð þétt litað hár, yfirvaraskegg og örfá aukakíló á gaurunum.
13/11/2006
Þegar þetta er skrifað liggur hjúkkan á hótelherberginu sínu í Chicago þar sem hún er nú vegna ráðstefnu. Það hefur nú gengið á ýmsu undanfarna vikuna og hjúkkan orðin lífsreynd vond-veðurs-flugs-seinkunar vön og kippir sér nú ekki upp við hvað sem er. Ævintýrið byrjaði þegar hjúkkan var að rembast við að komast til Zurich í byrjun síðustu viku. Eins og margir muna geisaði einhver sá versti stormur síðari ára einmitt nóttina fyrir brottför og allt flug fór í tóma vitleysu. Eftir nokkra veltinga um hvort yrði af fluginu komst hjúkkan klakklaust til Köben þó nokkrum klukkustundum á eftir áætlun. Af einhverju orsökum flaug hún út með Express og þurfti því að sækja töskurnar sínar og tékka sig aftur inn fyrir næsta flug til Zurich en vegna seinkunarinnar hafði hjúkkan rétt rúman hálftíma til að redda sér í gegnum Kastrup á hádegi á mánudegi!!! Nokkrum nettum hraðsláttartöktum síðar gekk þetta allt upp og á undarverðan hátt komst hjúkkan með vélinni sinni til Zurich. Vikan leið hratt og áður en fyrr varði var hún á heimleið. Viti menn haldið þið að það hafi ekki komið önnur eins lægð að landinu daginn fyrir heimferðina og að þessu sinni var öllu flugi frestað vegna veðursins!!! Þetta leit ekki vel út því hjúkkan átti að komast heim á föstudagskvöldi til að komast út daginn eftir..... Enn og aftur gekk þetta upp á undarverðan hátt með ólympískum tíma í spretti í gegnum Kastrup nú um eftirmiðdag á föstudegi og út í Icelandair vélina. Hjúkkan svaf því róleg og ánægð í Dofranum eina nótt. Daginn eftir lá leiðin til Chicago á ráðstefnu og allt leit vel út. Vélin á áætlun, veðrið í lagi og allir vinir.... en svo kom að því!!! Þegar komið var út í vél var nú smá seinkun á fluginu (bara 30 mín) vélin fór á brautarenda og keyrði á fullt fyrir flugtakið.. en á síðustu stundu var hætt við flugtakið og allt bremsað í botn. Hjúkkan blótaði í hljóði og hugsaði með sér að nú væri hún endanlega hætt að fljúga. Í þetta skiptið bilaði vélin rétt fyrir flugtak og þurfti að skipta um vél í Keflavík til að koma liðinu út!!!!! Jább 3 flug af 3 mögulegum orðin að rugli!!! Á endanum var komið með aðra flugvél og allt gefið í botn til Minneapolis. Þar var enn einn ólympískur tíminn sleginn í flugvalla hlaupi og nýtt Íslandsmet sett í hlaupi á göngubandi. Enn sem fyrr gekk nú upp að ná í tengiflugið en hjúkkunni alveg hætt að vera skemmt með þessu rugli! Hjúkkan á að koma heim á fimmtudagsmorgun, margir hennar nánustu ætla aldrei að fara upp í flugvél með henni og hún er eiginlega komin með nóg af Keflavík airport í bili. Það skal þó engan undra ef gerir snarvitlaust veður á miðvikudagskvöldið og öllu flugi á fimmtudaginn verði aflýst!
05/11/2006
Hjúkkan hefur haft allt of mikið á sinni könnu undanfarna daga. Hún er búin að setja saman markaðsáætlun, læra hvað markaðsáætlun er, fara á Dale Carnegie námskeið, gera nokkra skipulagslista og pakka í tvær ferðatöskur. Nú situr hún ein og afslöppuð á laugardagskvöldi, búin að horfa á rómantíska gamanmynd og er að spjalla við hana Maju sína í Nýja Sjálandi. Eftir miðnætti rann svo upp afmælisdagurinn með tilheyrandi aldurstengdu kvíðakasti og dramatík. Á hverju ári í kringum þennan ágæta dag fer hjúkkan í þessa krísu. Hún fer að hugsa um síðasta árið, komandi ár og hvernig hún ætlar að breyta öllu og gera allt betra. Síðustu tvö afmæli hafa einkennst af mikilli eigin dramatík sem auðvitað ná að magnast í huganum þegar maður er einn að rífast við sjálfan sig.
Næstu dagar og vikur fara í ferðalög um allan heiminn fyrst til Zurich og svo til Chicago. Hjúkkan nær einum smá blundi heima rétt yfir nóttina næsta laugardag og svo er hún þotin í burtu. Það er eins gott að eiga ekki einu sinni plöntu til að vökva þegar maður er á svona flakki enda myndi sú jurt ekki hanga lengi á lífi.
Fjölskyldan kemur í afmæliskaffi á morgun og svo er stefnan tekin á rólegheit annað kvöld með tilheyrandi afslöppun og ánægju.
25/10/2006
Hjúkkan lenti í höndunum á sjúkraþjálfaranum sínum í gær sem olli því að nú getur nú varla setið, staðið né legið! Það sem er svo magnað við þetta er að maður fer með fúsum og frjálsum vilja í þessar pyntingar, borgar fyrir tímann, blótar í sand og ösku á með þessu stendur og fer svo brosandi í burtu. Já hjúkkan er nú farin að hafa nokkrar áhyggjur af andlegir heilsu þegar svona pyntingar eru farnar að bætast við það hafurtask sem þarf að framkvæma fyrir árshátið vinnunnar sem haldin verður á laugardaginn.
Undirbúningur gengur ágætlega, ekki alveg eftir áætlun þar sem sífellt fleiri þættir eru bara strokaðir út af áætluninni og því verður minna sem þarf að gera fyrir kvöldið. Það eru nú samt nokkrir stelpu hlutir eftir á dagskránni eins og t.d. kaupa skó eða kjól - hvort velur maður kjólinn við skóna eða skóna við kjólinn???
Annars hefur hjúkkan haldið uppteknum hætti óhappa en það virðist nú vera aðeins farið að hægjast um þar á bænum. Hjúkkan hefur nú líka breytt venjum sínum örlítið og eftir raflostið við tengingu ljóssins s.l. vetur hefur hún til dæmis alveg látið rafvirkjun eiga sig.
Eitt svona í tilefni af miklum ferðalögum hjúkkunnar er frábær grein sem britist í því virta blaði The Economist. Þessi grein fjallar um hvernig ávarp flugáhafnarinnar myndi hljóma ef þeir væru í alvörunni að segja satt og hætta að reyna að hljóma voðalega pró. Þetta er heilmikið skemmtileg lesning og margir góðir punktar í greininni.
Læt greinina gossa hér með að neðan - svolítil lesning er algjör snilld!
In-flight announcements are not entirely truthful. What might an honest one sound like?
"GOOD morning, ladies and gentlemen. We are delighted to welcome you aboard Veritas Airways, the airline that tells it like it is. Please ensure that your seat belt is fastened, your seat back is upright and your tray-table is stowed. At Veritas Airways, your safety is our first priority. Actually, that is not quite true: if it were, our seats would be rear-facing, like those in military aircraft, since they are safer in the event of an emergency landing. But then hardly anybody would buy our tickets and we would go bust.
The flight attendants are now pointing out the emergency exits. This is the part of the announcement that you might want to pay attention to.
So stop your sudoku for a minute and listen: knowing in advance where the exits are makes a dramatic difference to your chances of survival if we have to evacuate the aircraft. Also, please keep your seat belt fastened when seated, even if the seat-belt light is not illuminated.
This is to protect you from the risk of clear-air turbulence, a rare but extremely nasty form of disturbance that can cause severe injury.
Imagine the heavy food trolleys jumping into the air and bashing into the overhead lockers, and you will have some idea of how nasty it can be. We don't want to scare you. Still, keep that seat belt fastened all the same.
Your life-jacket can be found under your seat, but please do not remove it now. In fact, do not bother to look for it at all. In the event of a landing on water, an unprecedented miracle will have occurred, because in the history of aviation the number of wide-bodied aircraft that have made successful landings on water is zero. This aircraft is equipped with inflatable slides that detach to form life rafts, not that it makes any difference. Please remove high-heeled shoes before using the slides. We might as well add that space helmets and anti-gravity belts should also be removed, since even to mention the use of the slides as rafts is to enter the realm of science fiction.
Please switch off all mobile phones, since they can interfere with the aircraft's navigation systems. At least, that's what you've always been told. The real reason to switch them off is because they interfere with mobile networks on the ground, but somehow that doesn't sound quite so good. On most flights a few mobile phones are left on by mistake, so if they were really dangerous we would not allow them on board at all, if you think about it. We will have to come clean about this next year, when we introduce in-flight calling across the Veritas fleet. At that point the prospect of taking a cut of the sky-high calling charges will miraculously cause our safety concerns about mobile phones to evaporate.
On channel 11 of our in-flight entertainment system you will find a video consisting of abstract imagery and a new-age soundtrack, with a voice-over explaining some exercises you can do to reduce the risk of deep-vein thrombosis. We are aware that this video is tedious, but it is not meant to be fun. It is meant to limit our liability in the event of lawsuits.
Once we have reached cruising altitude you will be offered a light meal and a choice of beverages--a word that sounds so much better than just saying 'drinks', don't you think? The purpose of these refreshments is partly to keep you in your seats where you cannot do yourselves or anyone else any harm. Please consume alcohol in moderate quantities so that you become mildly sedated but not rowdy. That said, we can always turn the cabin air-quality down a notch or two to help ensure that you are sufficiently drowsy.
After take-off, the most dangerous part of the flight, the captain will say a few words that will either be so quiet that you will not be able to hear them, or so loud that they could wake the dead. So please sit back, relax and enjoy the flight. We appreciate that you have a choice of airlines and we thank you for choosing Veritas, a member of an incomprehensible alliance of obscure foreign outfits, most of which you have never heard of. Cabin crew, please make sure we have remembered to close the doors. Sorry, I mean: 'Doors to automatic and cross-check'.
Thank you for flying Veritas."
17/10/2006
Þar sem hjúkkan er nú komin í bissness pakkann hefur hún allt í einu farið að velta auglýsingum meira fyrir sér en hún gerði áður. Þeir sem þekkja hjúkkuna vita að það eru nokkrar auglýsingar sem í gegnum tíðina hafa farið ótrúlega í taugarnar á henni sbr. óþolandi syngjandi barnið sem birtist fyrir allar hátíðir!!! Í hóp þeirra auglýsinga sem falla undir flokkinn "óþolandi" eru auk syngjandi krakkans, nýju Hive auglýsingarnar þar sem talaði er til neytandans eins og hann sé hálviti. Sú auglýsing gerir það að völdum að hjúkkan hefur einmitt engan áhuga á því að skipta við þetta fyrirtæki.
En svo eru það auglýsingar sem hjúkkan samsvarar sig við og þar á meðal er VW auglýsingin þar sem gjörsamlega klúless maðurinn er að keyra og syngja með kántrýlaginu algjörlega hamingjusamur og öruggur í bílnum sínum. Það er eitthvað við þá auglýsingu sem kætir alltaf litla hjúkku hjartað og hún samsvarar sér gjörsamlega með þessum manni. Þetta er svona nettur "nei, kafari ??!!" sem kemur í huga hjúkkunnar og kætir hana óskaplega. Kannski maður bara skelli sér út í klúless bíltúr??
15/10/2006
Hjúkkan ákvað að láta hendur standa fram úr ermum í eldhúsinu í gær þegar hún bauð fjölskyldunni í mat. Eftir að hafa verið bent á að hún hafði ekki notað matreiðslutæki sem hún fékk í jólagjöf fyrir 2 árum síðan var ekki annað í stöðunni en að rífa tækið úr plastinu og drífa allt gengið í mat. Tækið sem um ræðir er rakklett panna sem er ótrúlega skemmtileg leið til þess að halda matarboð, þar sem hver og einn eldar fyrir sig sjálfur. Eftir góða kvöldstund voru gestaskipti á heimilinu og Hrönnslan kom í heimsókn. Leiðin lá á hverfispöbbinn þar sem hljómsveitin Menn ársins voru að spila fyrir gesti og gangandi. Stemningin sem var á staðnum má helst líkja við sautjánduhelgarball í Víðihlíð í Húnavatnssýslunni (fyrir ykkur sem vitið ekki hvar Víðihlíðin er). Þarna var sem sagt nett dreifbýlisstemning sem er ansi sjaldséð á höfuðborgarsvæðinu. Jón kapteinn hefði nú haft gaman af þessu og jafnvel að Tjaldurinn hefði getað tekið nokkur nett spor í minningu um sautjánduhelgarböllinn góðu.
Annars hefur nú dagurinn farið í rómantíska heimastemingu hjá hjúkkunni enda leiðindar rok og rigning úti. Það er sko alveg hægt að hafa það náðugt einn í kotinu með kertaljós og gott kaffi. Kvöldinu verður eytt í sömu afslöppun enda engin ástæða til þess að hlunkast út í þetta veður. Nú fer í hönd tími háreyðinga, litanna og plokkana enda árshátíð í vinnunni á næsta leiti. Hjúkkunni finnst nú alltaf að konur ættu að fá miðana sína ódýrari en karlmenn þar sem við göngu yfirleitt í gegnum mun meiri þjáningar en þeir fyrir svona hátíðir.
09/10/2006
Hjúkkan komst að því í dag að hún væri nokkuð lélegur dópisti. Í morgunsárið lá leiðin á Hringbrautina þar sem átti að gera síðustu skoðunina á pumpunni góðu. Hjúkkan var undirbúin fyrir rannsóknina og hafði hvorki fengið vott né þurrt frá því fyrir miðnætti kvöldið áður. Því var mallinn ansi tómur í morgun þegar farið var á fætur. Ekki tók nema um 30 mín að koma sér úr Dofranum niður á Hringbrautina í Reykjavík (fyrir ykkur sem vitið að Hringbraut er líka í Hafnarfirði) og fljótlega eftir komu þangað var hjúkkan háttuð ofan í rúm. Læknirinn kom og fór yfir dæmið með hjúkkunni og sagði henni að hún fengi smá kæruleysislyf til að gera þetta auðveldara fyrir hana. Því næst sagði hann henni að fljótlega myndi svífa á hana og hún ætti bara að hlusta á fyrirmæli hans á meðan rannsókninni stæði og þetta yrði ekkert mál. Þetta er það síðasta sem hjúkkan man þar til að hún rankaði við sér 3 klst síðar!!! Sérlegi aðstoðarmaðurinn var nú farinn að velta því fyrir sér hvort hjúkkan kæmi yfir höfuð aftur úr rannsókninni og kom og sótti hana þegar mesta víman var runnin af henni. Hjúkkan skreið svo upp í sófa og svaf þar það sem eftir leið dags eða til um klukkan hálf fimm. Þá fóru í gang ýmsar hugsanir um hvort hún hafi svarað í símann í svefnrofanum, hverja hún hefði talað við og um hvað. Fljótlega kom í ljós að einungis var um tvö símtöl að ræða og ekkert óeðlilegt fór fram í þessum símtölum.
Eftir kvöldmat var loksins almennilega runnið af hjúkkunni og hún bara nokkuð brött eftir allan svefninn. Eitt veit hún eftir þessa reynslu er að hún væri nokkuð lélegur dópisti!
04/10/2006
Það er mjög augljóst að haustið er komið hjá hjúkkunni alla vega. Haustlitirnir á Íslandi eru eitt af því fallegasta sem til er og maður fyllist einhverri ró við það eitt að horfa út um gluggann. Það versta er að við næsta rok þá fara laufin af trjánum og kaldi þungi veturinn skellur á með allri sinni myglu. En haustið er einn af uppáhaldstímum hjúkkunnar og kann hún mjög vel við sig á þessum tíma árs. Eitt af því sem fylgir haustinu er kólnandi hitastig, þetta á við bæði úti og inni. Þá á hjúkkan við að um leið og það fer að hausta verða hendur hjúkkunnar kaldari og tásurnar við frostmark. Hinn grunlausi ætti nú að vera farinn að læra að hann er almennt notaður til upphitunar á köldum höndum og tám en alltaf virðist þetta koma á óvart !!!
Fína línan sem hjúkkan vill aðeins koma inn á er í kringum umræður í fréttaþáttum beggja fréttastöðvanna þessa vikuna. Hjúkkan er nú ekki alveg sammála þeim vinkli sem hefur verið settur á notkun eða notkunaleysi geðlyfja og á hinn bóginn hvort þáttastjórnendur eigi að fara í augnaðgerðir í þáttum sínum. Þetta eru auðvitað viðkæmar leiðir til að koma skilaboðunum sem maður vill til skila, og að mati hjúkkunnar er þetta ekki rétt leið að málunum. Hver og einn er velkominn að hafa eigin skoðun á málinu en þetta er alla vega skoðun hjúkkunnar.