28/06/2004

EM - krísa eða hamingja!
Ég er alveg að verða bit á þessu úrslitum í síðustu leikjum sem hafa verið á EM. Auviðtað var ég manna hamingjusömust þegar mínir menn Hollendingar náðu að berja fram sigur gegn Svíum í vítaspyrnukeppni. Þetta leit ekki vel út þar sem Hollendingar hafa dottið út úr svona mótum 4 sinnum á síðastliðnum 14 árum í vítakeppni. Tölfræðin var ekki með mínum mönnum en auðvitað kom Edvin Van der Sar okkur til bjargar - hann lengi lifi! En nú er málið í þessari keppni að 3 af 4 liðnum sem ég spáði 1. - 4. sæti eru dottin út. Ég spáði hinu óþolandi liði Frakka sigri, því næst Þjóðverjum svo Hollendingum og loks Dönum í 4. sæti. Ef fer sem horfir detta mínir menn út í leiknum gegn Portugal, og það held ég að hjarta mitt þoli ekki að sjá. Annars er komin ný spá miðað við stöðu liða í augnarblikinu og hér með spái ég Tékkum sigri á mótinu, Hollendingum 2. sæti (er þrátt fyrir það stolt af strákunum), Portúgölum 3. sæti og Grikkjum 4.sæti.
Verst heppnaði fyrirslátturinn þessa dagana er að Luis Figo hafi farið beint inn í klefa eftir að hafa verið skipt út af, til þess að biðja fyrir sigri. Var hann líka að biðja þegar liðið var að æfa daginn eftir og hann mætti ekki?

26/06/2004

EM hamingja og almenn gleði!
Það er búið að vera nóg að gera í lífi ofurhjúkkunnar þessa síðustu daga. Partýið var algjör snilld og mikil gleði var á Kambsveginum. Líðanin daginn eftir var eftir atvikum góð og heilsan kom fljótt og örugglega tilbaka hjá helmingi íbúa. Ný vinnuvika hófst og lífið hélt áfram sinn vana gang. Mesta snilldin í þessari viku var þó tennisnámskeiðið sem mun gera mig að næsta meistara í þessari brilljant íþrótt og auðvitað dramatíkin á EM.
Ég þurfti að taka á honum stóra mínum í leik Englands og Portugals - og einnig í leik Frakklands og Grikklands. Í fyrra tilfellinu vildi ég að England ynni og grét sáran þegar Beckham tók nettan Baggio fyrir framan markið. Í seinna tilfellinu vildi ég svo heitt að Frakkarnir myndu ekki ná að jafna - og viti menn sú ósk rættist. Það er mjög áhugavert að sjá að flest þau lið sem spáð var góðu gengi í þessari keppni eru farin heim til sín. Portúgalarnir eru nú að berjast við egóið í Figo sem fór í fýlu eftir að hafa verið skipt út af í síðasta leiknum. Ég tel því að Tékkarnir komi sterkir inn á lokasprettinum en held þó tryggð minni við Hollendingana og Danina.

19/06/2004

Dagurinn í dag!
Dagurinn í dag er tileinkaður unnustanum sem er að útskrifast með Mastersgráðu í Bókmenntafræði frá Háskóla Íslands. Ég er svo montin af honum enda hefur hann staðið sig eins og hetja í þessu öllu saman. Við byrjum í Laugardalshöllinni, sælla minninga frá því fyri 2 árum síðan þegar hann útskrifaðist síðast og ég líka. Þaðan liggur leiðin í kaffiboð ársins á Kambsveginum með nánustu fjölskyldumeðlimum og um kvöldið verður svo partý ársins fyrir vini og vandamenn. Dagskrá sjónvarpsins bíður upp á góðan þreytudag á morgun með frjálsum, formúlu og EM þannig að það er ekkert að óttast. Hlakka til að sjá sem flesta í dag og hef sett mér það markmið að njóta dagsins.

18/06/2004

Útskriftarpartý og Evrópuboltinn!
Það er nóg að gera í landi ofurhjúkkunnar þessa dagana. Evrópumeistaramótið í knattspyrnu á hug manns og hjarta um eftirmiðdaginn og undirbúningur fyrir útskriftarveislu bókmenntafræðingsins á annan tíma dags. Það er svo yndisleg tilfinning þegar maður sér að allir þessir endalausu listar sem búnir hafa verið til eru að skila sér í góðu skipurlagi. Ég vil benda öllum þeim sem hafa gert endalaust grín af mínum listum og mínum listahæfileikum að hafa samband og ég skal sýna fram á betri árangur í skipurlagningu daglegs amsturs. Þar sem ofurhjúkkan er auðvitað félagsmálafíkill hefur hún tekið að sér enn eitt nefndarstarfið. Jú þetta er ákveðið fíkn að var komin í svona mál en nú er stefnan tekin á nýja kjarasamninga hjúkrunarfræðinga og framtíðarsýn BHM.
Til þess að fylla í tómarúmið sem kemur til með að myndast eftir að útskriftarveislunni lýkur hefur ofurhjúkkan skráð sig á tennisnámskeið og stefnir að glæstum frama í þessari fræknu íþrótt. Hver veit nema maður endi bara á Wimbeldon einn góðan veðurdag? Það verður tíminn að leiða í ljós en þangað til held ég að Svíþjóð fari langt á EM 2004.

14/06/2004

Sumarfrí!
Nú er maður kominn í sumarfrí fram yfir næstu helgi. Fríið byrjaði á snilldar hátt með góðri göngu um Hengilssvæðið í stórkostlega vondu veðri. Líkaminn var orðið gegnsósa vegna rigningar og húðin farin af andlitinu vegna hávaðaroks. En þrátt fyrir óveðrir létu göngumenn (undirrituð, Héðinn, Inga og Svana)ekkert stöðva sig og gengu í tæpa 4 tíma! Lúin og köld skriðum við í bústað við Þingvallavatn og nutum kvöldsins með grillkjöti, hvítlaukssósu dauðans, rauðvíni, spilum og bjór. Sunnudagurinn fór í allra handa slökun með meira af spilum og því sem eftir var af matnum. Í dag skellti ég mér á vakt með Neyðarbílnum sem er sjúkrabíll með lækni innanborðs. Sama sagan endurtók sig og í fyrra og ég fékk nánast ekkert að gera, nema að horfa á snilldarleiki á EM. Er búin að gleyma sorgum gærdagsins yfir fávitaskapnum í leikmönnum Liverpool, sem að mínu mati eiga ekki að vera í enska landsliðinu.
Næstu dagar fara í allsherjar framkvæmdir á líkama og sál fyrir útskriftarveislur á laugardaginn. Stefnt verður að nýju meti í fólksfjölda í íbúðinni og verður spennandi að sjá hvernig þetta fer allt saman. Einnig er stefnan tekin á tennisnámskeið og frama í þeirri gjöfugu íþrótt. Það kemur í ljós hvort það borgi sig að vinna á slysó eftir að æfingar hefjast en einnig er kominn tími á gellubolta sumarsins með tilheyrandi marblettum og harðsperrum.

08/06/2004

Framkvæmdargleði!
Í gær missti ég stjórn á mér í framkvæmdargleði eða léttu maníukasti. Eins og margir vita þarf að slá grasblettinn í kringum húsið svona af og til. Oft þykir gott að byrja á þessu athæfi á vorin og stunda þetta svo endurtekið út sumarið. Grasinu mínu var ekki sagt frá þessu plani og það óx og óx. Alltaf var stefnan tekin á garðinn en einhverra hluta vegna varð grasið út undan. Gaurinn í kjallaranum lofaði öllu fögru um yfirvofandi aðgerðir, sem enduðu auðvitað þannig að ég sló! Það þurfti alveg ofurþýska RACER slátturvél til þess að höndla allt þetta gras sem fyllti 6 svarta plastpoka!!! En það sem sagt daðraði við rigningu allan gærdaginn og á meðan slættinum stóð. Þetta varð til þess að spennan í kringum sláttinn magnaðist og magnaðist. Næ ég að klára helv. blettinn eða þarf ég að játa mig sigraða og horfa illa þunglynd á þann hluta sem verður eftir? Viti menn - ég lét ekki bugast og kláraði verkið með stæl. Gaurinn í kjallaranum er núna með samviskubit dauðans sem er fínt - ég græði bara á því. Eftir sláttinn tók ég mig til og keypti annan sófa. Eftir kvöldmat lá svo leiðin í hitting með bjórliðinu og voru nokkrir teigaðir við gott spjall um allt og ekki neitt. Stefnan er tekin á Hengilinn um helgina í gönguferð og bústað á Þingvöllum!

03/06/2004

Stoltur Íslendingur!
Ég er svakalega stolt af honum Ólafi Ragnari forseta okkar. Ég beið í ofvæni eftir fréttamannafundinum í gær og varð nær orðlaus þegar hann las upp yfirlýsingu sína. Mér fannst hann koma málinu vel frá sér og vera hugrakkur að taka þessa ákvörðun. Auðvitað hlaupa allir sjálfstæðismenn upp til handa og fóta og segja þessi lög um neitunarvaldið og fyrirhugaða þjóðaratkvæðagreiðslu vera röng og Davíð ráði í einu og öllu en þeir geta bara átt sig. Ég er mjög stolt af þessu og held eins og margir hafa sagt að þetta hafi bjargað lýðræðinu á Íslandi. Svo er auðvitað mjög skemmtilegt að pæla í því hvað gerist næst. Verður þetta ríkisstjórninni að falli? Hverjir færu í stjórnarsamstarf? Hvert fer Davíð? Já ég er búin að finna svör við öllum þessum spurningum en hef ekki í hyggju að birta þau hér.
Þessir tímar!
Þessa dagana er ýmislegt að gerast í lífi ofurhjúkkunnar. Ég lenti í flensu dauðans en eins og fyrr hefur komið fram lét ég ekki undan og hafði að lokum sigur. Ég skreið á fætur og komst aftur til vinnu ásamt því auðvitað að kaupa nýjan sófa. Nú hef ég sagt skilið við gamla góða IKEA sófann og hann er kominn í hendurnar á Ingu vinkonu sem lofaði að fara vel með hann. Það er líka mjög hughreystandi að vita að sófinn er enn innan sama vinahóps og hann hefur verið s.l. 10 ár.
Dagurinn í gær markaði líka ákeðin tímamót þar sem þá var ár frá ákveðnum atburði. Það er mjög magnað að hugsa til þess hversu hratt þetta ár hefur liðið. Stundum finnst manni tíminn fara eiginlega of hratt fram hjá manni og maður spyr sig hvað maður getur eiginlega gert til að hægja á þessu öllu saman. Ég held að málið með hraðan á tímanum sé tengt því hversu upptekinn maður gerir sjálfan sig til þess að þurfa ekki að hugsa um tímann í kringum sig. Engin smá speki!! En með þessu móti þarf maður ekki að takast á við hlutina undir því yfirskini að maður er bara einfaldlega of busy til þess að mega vera að því. En svo kemur að því að plottið kemur aftan að manni og þá er illt í efni. Hver kannast til dæmis ekki við að nota ingnore it aðferðina á flensuna. Jú jú manni tekst vel til þar til að maður fer í frí úr vinnunni og liggur að lokum lasin í öllu fríinu, sem er auðvitað ömurlegt.

30/05/2004

Hvað er málið!
Ein af mínum uppáhalds fréttum er það hvernig gengur að bjarga fjölveiðiskipinu Guðrúnu Gísladóttur af sjávarbotni við Lofoten í Noregi. Þetta skip strandaði á skeri í kringum 16. júní 2002 og rann svo af skerinu og niður á botn. Þessi síðustu tvö ár hefur með reglulegu millibilið komið frétt af björgunaraðgerðum við skipið og hvernig eigi nú að lyfta því af hafsbotni. Einhvern vegin hefur veður alltaf hamlað frekari aðgerðir. Eftir að hafa reynt þetta í tvö ár hafa menn sem sagt komist að því að nú er bara ekkert hægt að bjarga þessu skipi því það er of illa farinn á því skrokkurinn. Sem sagt tveimur árum síðar á að byrja að taka úr því olíu og að ég held einhver skriljón tonn af fiski. Ég á eftir að sakna fréttanna af henni Gunnu sem eru orðnar eins og að fá að vita af gamalli frænku sinni með reglulegu millibili. En hefðu menn ekki átt að átta sig á þessum aðstæðum fyrir 2 árum síðan að skipið var illa farin? Þurfti bara aðeins að tjá mig um þetta mál.
Ég mun sigra!
Með góðri hjálp nokkurra sýklalyfja er ég að ná stjórn á eigin lífi á ný eftir þessi leiðindar veikindi. Það er alveg með ólíkindum hvað þetta hefur verið leiðinlegur tími þar sem ómælanlegt magn af ógeði virðist hafa komið sér fyrir í mínu litla nefi. En ég mun sigra!
Á föstudaginn fór ég í fyrsta skiptið út frá því á þriðjudaginn og það var mjög ánægjulegt. Var reyndar engan vegin nógu góð en fékk að hoppa inn í nokkrar húsgagnaverslanir. Það varð úr að í gær var svo keyptur þessi fíni sófi inn í sjónvarpsherbergið og gamla IKEA sófanum þakkað fyrir áralanga þjónustu í okkar þágu. Hann leitar nú nýrra eigenda sem get haft samband hvernær sem er. Nýji sófinn spókar sig fullkomlega í nýja herberginu sínu og ég ætlaði varla að tíma að fara út í gærkvöldi. En skrapp í pool með Ingu megabeib þar sem við urðum óþæginlega varar við það hversu mikið leikæfingu okkar hefur hrakað. Maður var kominn heim á mjög svo kristinlegum tíma og farin í háttinn þar sem kvefið er enn með smá yfirhönd í leiknum. Í kvöld er stefnan tekin á afmælis/innflutningspartý hjá Ýr en ég geri nú fastlega ráð fyrir því að vera bara á bíl. Þar sem vinnan kallar á morgun!

27/05/2004

Þegar maður er lasinn!
Það er ekkert skemmtilegt við það að þurfa að vera heima því maður er lasinn. Það lekur úr nefinu á manni og maður á alveg eins von á því að hnerra sig burt af þessari plánetu. Ekki nóg með það þá er manni illt í höfðinu og andlitinu vegna sýkingar í kinn- og ennisholum. Hellur eru fyrir báðum eyrum og maður er með slen. En hvað getur maður gert? Fyrsta daginn byrjar maður á því að horfa á allt sem til er á DVD/VHS/SVHS og öðrum miðlum á heimilinu. Eftir þetta allt saman er manni orðið illt í augunum líka. Blundir koma inn á milli og loks er komin nótt. Daginn eftir vaknar maður enn meira tuskulegri heldur en daginn fyrr. Horið er að ná yfirráðum í nefinu og það er ekkert sem þú getur gert. Í dag nennir maður ekki að horfa aftur á alla þessa miðla sem til eru að heimilinu þannig að best að finna sér eitthvað að gera. Þegar ég var búin að taka til í contact listanum mínum á hotmail heimasvæðinu mínu var ekki um neitt annað að ræða en að raða myndum inn í myndaalbúm. En nú stend ég frammi fyrir erfiðri aðstöðu. Ég er búin með allar myndirnar, engir listar til að gera og mér er enn illt í hálsinum. Þá kemur besta stund dagsins - þú hitar þér vatn og færð þér Panodil hot sem er ekkert nema snilld við svona ástandi. Nú er ég farin í eldhúsið að hita mér vatn. Ég læt horið ekki vinna þessa lotu!

25/05/2004

Sumt fólk!
Síðustu daga hef ég mikið verið að spá í öðru fólki. Hvernig það kemur fyrir og hvernig það kemur fram við fólk sem það þekkir ekki neitt. Hafa ber í huga að ég hef ekki verið að velta því fyrir mér hvernig fólk kemur fram við fólk sem það þekkir! Í minni vinnu hitti ég mikið að fólki sem ég þekki ekki neitt, hef aldrei séð áður og hef enga ástæðu til þess að kannast við. Samt sem áður er eins og mörgum finnist maður eiga að vita allt um viðkomandi, hans heilsufar og nöfn á nánustu ættingjum Auðvitað eru þetta spurningar sem ég spyr fólkið við innskrift en það er allt annað mál. Sumir einstaklingar geta verið svo óforskammaðir og dónalegir gagnvart öðrum að manni sárnar næstum því að eiga samskipti við svona týpur. Ég lenti einmitt í svona týpu í gærdag, hún er alveg óþolandi, og þetta fór alveg með eftirmiðdaginn hjá mér. Þessi samskipti stóðu stutt yfir en skildu eftir sig stórt far. En hvað getum við gert þegar við mætum svona fólki? Málið er að þetta fólk hefur alltaf rétt fyrir sér að eigin mati, best er að vera bara ekkert að eiga samskipti við það. Ef svo óheppilega vill til að þú verður að eiga við þetta fólk samskipti, hafðu þau stutt og ópersónuleg og ekki leyfi því að hafa áhrif á þig.

23/05/2004

Svakalega mikið að gera!
Þessa dagana má maður varla vera að því að sofa! Vikan þaut áfram svo hratt að allt í einu var Eurovision búið og komin aftur helgi. Vinnan tók sinn toll í vikunni og svo lá leiðin á sumarfagnað slysadeildarinnar. Hafist var handa á Draugasetrinu á Stokkseyri þar sem gamlir og góðir draugar hræddu úr manni líftóruna. Þaðan lá leiðin í yndislegt humarát við Fjöruborðið þar sem ekkert var gefið eftir við át á þessum dýrindis mat. Næsta stopp var á sumarmóti slysó í keilu þar sem hæfileikar samstarfsfólks komu skemmtilega á óvart. Auðvitað voru allir að "spila keilu í fyrsta skipti" en við sem viðurkennum nördinn í sjálfum okkar játuðum fyrri reynslu á brautinni. Eftir allta þetta var svo skellt sér á Mojito og dansað þar til ekkert varð eftir. Vinnan kallaði svo strax daginn eftir en nú fer sem betur fer að styttast í sumarfríið. Vaktin í kvöld var ein af þessum sem maður vonar að komi ekki fljótt aftur því það var einfaldlega of mikið að gera fyrir minn smekk. Nú fer ný vika að byrja og stefnan tekin á að halda geðheilsunni.

17/05/2004

Þegar maður er feitur!
Suma daga vaknar maður feitari en aðra daga. Það getur verið um að ræða innan fitu og utan fitu. Stundum er maður bara feitur á sálinni en svo líka á líkamanum. Í dag komst ég að niðurstöðu um hvað maður á að gera þessa virkilega slæmu feitu daga.
1. Ekki fara í leikfimi - þú gætir rekist á einhverja horrenglu sem er í samstæðu leikfimis outfiti og heldur að hún sé að sigra heiminn.
2. Ekki fara í Kringluna - þar hittir þú pottþétt gamla skólasystur sem er búin að missa 15 kíló, en "gerði bara ekki neitt - þau bara fóru".
3. Ekki kaupa þér ný föt - við höldum að við eigum eftir að fíla þau, en í raun eru þau bara komin í skápinn því við komumst ekki í hin fötin okkar.
4. Ekki sleppa súkkulaðinu - rannsóknir sýna að kakó eykur brennsluna í líkamanum og við verðum aftur mjó.
5. Ef þú ákveður að fara út - ekki mála þig mikið, því það er ekkert verra en að vera feitur og of mikið málaður.
6. Síðast en ekki síst - ekki horfa á Oprah því þar er alveg pottþétt svona árangurssaga um einhvern sem hefur skipt um lífstíl og hefur aldrei liðið jafn vel og núna.

Bottom line - njóttu þess að vera feitur að innan sem utan og mundu að þér verður ekki eins kalt og hinum og ert í minni hættu á að fá beinþynningu.
Eurovisionpartyhelgi!
Þessi helgi verður lengi í minnum manna fyrir það hversu svakalega skemmtileg hún var. Jú þrátt fyrir slakt gengi íslenska lagsins í keppninn þá var ekki slegið slöku við á mínum vígstöðvum. Hið árlega Eurovisionparty var haldið hjá Nonna og fór það fram með miklum ágætum. Veðbankinn var á sínum stað og mismikið fagnað við stigagjöfina. Upp kom sú hugmynd að Ísland segði sig úr Evrópu og stofnaði eigin heimsálfu! Mér finnst það svakaleg góð hugmynd :) Annars sáum við mikið eftir því að hafa rekonæsað eystrasaltslöndin sem greinilega eru búin að gleyma okkur og öllu sem við gerðum fyrir þau. Eftir partýið lá leiðin á NASA í eitthvert skemmtilegasta Post-Eurovision Party sem um getur. Þar komu fram gamlar Euro stjörnur og ég dansaði af mér mjaðmirnar. Ég held að ég hafi ekki dansað svona mikið um ævina. Enda var biðin eftir leigubíl svolítið erfið þar sem fæturnir voru eiginlega búnir að fá nóg.
Í gær tók raunveruleikinn aftur við með kvöldvakt sem ætlaði engan endi að taka. Sumar vaktir líða mun hægar en aðra, ég veit ekki alveg af hverju! Í dag er svo frí hjá ofurhjúkkunni sem stefnir á gymmið, að kaupa kjól og svo auðvitað fara í afmæliskaffi með afmælisbarni dagsins Svönusúper sem um þessar mundir heldur upp á sitt 6. 21árs afmæli. Til hamingju með daginn stelpa!

13/05/2004

Hvað meinar fólk!
Ég var að horfa á undankeppni Eurovision í gærkvöldi og get ekki orða bundist yfir smekkleysunni í Evrópubúum. Það að Danir skuli ekki hafi komist áfram á úrslitakvöldið er bara óskiljanlegt. Ég var búin að leggja tvo matarmiða undir að Danmörk myndi sigra aðalkeppnina og Svíþjóð myndi lenda í öðru sæti, but NO ekki í dag elskan. Nú er ég sem sagt opinber styrktaraðili hennar Lenu beib sem Kjáninn samsvarar sér mikið með. Mér til mikillar gleði breyttust vinnuhagir mínir þannig að nú stöðvar mig ekkert - Júró í Jöfrabakkanum á laugardaginn hjá honum Nonna. Þessi partý eru stabíli punkturinn í lífi vinanna og hafa verið það í nokkuð mörg ár.
Að örðu leyti er það bara sama gamla tuggan, alltaf í vinnunni. Það er að koma sumar og það fer að léttast á fólki brúnin. Það er alveg með ólíkindum hvað þetta síðasta ár hefur liðið hratt - mér finnst alveg eins og jólin hafi verið um síðustu helgi. En nú er málið að fagna sumrinu og nýjum nágrönnum, þar sem íbúðin á hæðinni fyrir neðan er til sölu! Bíð spennt eftir að sjá hverir kaupa hana og maður er að mæla út alla sem keyra framhjá húsinu eða sjást ganga inn í það.

09/05/2004

Helgarpósturinn!
Helgin hófst eiginlega á föstudaginn á aðalfundi BHM sem stóð yfir allan daginn. Þetta var hin mesta skemmtun og það kom eiginlega á óvart hversu gaman það var. Reyndar var einn framsögumaður sem var alveg skelfileg, byrjaði framsöguna á því að segja frá því hversu andlega þreytt hún væri!!! Við það eitt urðu allir í salnum andlega þreyttir á henni, ekki gott move. Um kvöldið var svo kvöldverðarboð með tilheyrandi rugli og vitleysu. Skrapp í bæinn með nokkrum hjúkkum eftir matinn og við trölluðum af okkur alla skanka á Thorvaldsen. Á einhverjum tímapunkti vissi ég að nú væri minn tími og kominn og ég skrölti út í leigubíl. Komst heil heim og mín beið illa vonur þynnkudagur!!! Ó já laugardagurinn var framan af ekki góður dagur. Vaknaði og ég hélt að ég hefði sloppið en svo gerðist það - seinþynnka dauðans með heimsókn til Gutavsberg stórvinar míns. Ég hélt að þetta ætlaði engan endi að taka en eftir heimsóknina varð líðanin bærilegri. Fór með Maríu systir í sveittan borgara um kvöldið sem bragðaðist eins og fjós!! Kvartaði í þjóninn og þurfti sem betur fer ekki að borga því ég borðaði ekki neitt af borgaranum. Átti svo góða stund heima um kvöldið fyrir framan imbann með alls konar lokaþætti til þess að horfa á. Í dag er stefnan tekin á kvöldvaktina og nammi át þegar heim verður komið eftir hana. Farið varlega í dag, því það er alltaf löng bið á slysó frá eftirmiðdegi á sunnudögum!

06/05/2004

Það var Sterling dagur í gær!
Já góðir lesendur í gær var grillað í fyrsta skipti á nýja gasgrillinu. Ég verð nú bara að segja að þetta var alveg snilldar matur og grillið sannarlega stóð fyrir sínu! Ég er hér með orðinn stuðningsmaður Sterling gasgrilla! En nóg um grillið í bili. Ég hélt nefnilega að sumarið væri að koma - but NO!! Hvað er málið með norðan gaddinn sem hefur barið á illa vörðum andlitum og líkömum Reykvíkinga upp á síðkastið. Ég er farin að ganga aftur í vetrarúlpunni og þykkum ullarpeysum sem stinga! En gott og gilt því mér skilst að þetta hafi slæm áhrif á verðandi geitunga þannig að ég fagna þessu öllu saman.
Það er heilmikið að gerast þessa dagana og maður má varla vera að því að gera gera nokkurn skapaðan hlut. Í kvöld er síðasti þátturinn af Sex and the City og einnig kveðjustund mðe Roald sem er að fara til síns heittelskaða í Skotlandi. Já og í US er síðasti Friends þátturinn einnig í sjónvarpinu, heppin ég að vera ekki þar. Eftir kveðjustundir við Carrie, vinkonur hennar og Roald er stefnan tekin á að lesa ársskýrslu stjórnar BHM þar sem stefnan er á aðalfund þeirra á morgun (ef einhver vill fá afrit af skýrlsunni og lesa hana með mér þá er ég geim!).
Að lokum vil ég óska Kjánanum til hamingju með daginn þar sem hann endurheimti silent Mo í dag. Ég á nú ekki von á því að heyra frá honum fyrr en Mo er farinn en vonandi eiga þeir góðar stundir hér saman.

03/05/2004

Sterling baby Sterling!
Ég eignaðist flottasta grill í bransanum í dag! Eftir örvæntingafulla leit af þessu grilli um helgina var vonin úti en viti menn - auðvitað var grillið til á bensínstöðinni sem er alveg við heimili mitt! Talandi um að leita langt yfir skammt og það sannaðist að maður á alltaf að leita nálægt sér eftir hlutunum. Úff hvað maður verður spakur þegar grillið er komið í hús. Þetta grill er nefnilega þeim kostum gætt að það er hægt að fella niður hliðarborðin og svo eru tveir brennarar (sem mér er sagt að sé ómissandi). Ég drösslaðist sem sagt út á Shell og brosti blítt til tveggja eldri manna sem þar vinna. "Haldið þið að ég komi því ekki bara í bílinn (blikk, blikk og bros). Þeir héldu það nú og redduðu málinu. Svo tók ofurkonan við og bar grillið ein upp í íbúðina - ekkert smá dugleg! Hamingjusöm tríttlaði ég svo í vinnuna, vitandi að nú er sumrinu bjargað.
Átti annars yndislegan dag í gær, horfði á Touching the Void sem er meiriháttar og gerði Pilates æfingarnar eftir vídeoinu. Skrapp svo í mat til mömmu og pabba þar sem littli frændi sýndi og sannaði eina ferðina enn að hann er fullkominn. Af því loknu lá leiðin í Pönnu-kaffi hjá Héðni þar sem syndsamlega góð eplakaka var á boðstólnum. Þessir hýru vinir mínir mega eiga það að þeir kunna að baka! Þar var samankominn góður hópur hýrra manna og svo nottla krúttið ég! Bíð spennt eftir næsta kaffiboði strákar mínir.

02/05/2004

Yfirvinnubann og tónleikar!
Ég var sett í yfirvinnubann af deildarstjóranum mínum á föstudaginn! Þetta hefur nú ekki komið fyrir mig áður en er svo sem alveg rétt ákvörðun hjá henni. Þegar maður mætir til vinnu og stimplar sig inn tekur á móti manni rödd sem segir "innstimlpun hefur verið skráð, bless og takk fyrir". Ég hef verið að bíða eftir því upp á síðkastið að röddin segi "ertu aldrei heima hjá þér kelling, bless og takk fyrir". Sem sagt er ég að njóta helgarfrís án nokkurrar truflunar frá vinnunni og það er svolítið sérstakt. Maður þarf að læra hvernig á að haga sér í fríi og hvernig á að njóta þess að vera í fríi. Við hjúin reyndum til dæmis í dag að kaupa gasgrill - sem er ekki frásögu færandi! En við erum einfaldlega með of litlar svalir fyrir Sterling grillið sem okkur langar í. Það er samt komin lausn á málinu og ég geri ráð fyri því að grillið verið keypt á morgun. Annars er stefnan tekin á það að slappa af og gera einmitt ekki neitt eins og deildarstjórinn benti pent á.
Til að byrja helgarfríið á afslöppun skrapp ég á sinfóníutónleika á föstudaginn þar sem flutt var 9. sinfónía Beethovens. Þetta var alveg svakalega flottur flutningur hjá sinfó og Óperukórnum, þar sem soppurnar slógu svo sannarlega í gegn. Eftir ótrúlega upplifun lá leiðin á Ítalíu í mat og svo hommahitting á Ölstofunni. Hittingurinn var að vonum yndislegur og á tímabili var ég eina konan í hópi 7 karlmanna, og geri aðrar konur betur! Laugardagurinn var svo rólegur og smá hjúkkuhittingur um kvöldið. Stefnan er tekin á enn rólegri sunnudag með mat hjá foreldrunum.