28/02/2007

Sjálfskaðandi líkamsrækt og tengslamyndun!
Hjúkkan er nú í smá líkamræktarátaki sem snýst um það að reyna að mæta oftar á þessu ári í ræktina en því síðasta. Það ætti ekki að vera mjög erfitt að ná markmiðinu þar sem hjúkkan var óvirkur styrkaraðilli að Hreyfingu stóran hluta þess árs. En nú er öldin önnur og á aldeilis að fara að taka á öllu síðuspikinu. Hingað til hefur hjúkkan bara farið á sitt hlaupabretti og í sinn cross trainer en í dag ákvað hún að breyta til og prófa eitthvað nýtt. Fyrir valinu varð Jump Fit tími í hádeginu sem gengur út á 50 mín hopp með sippubandi og svo um 1000 magaæfingar í lokin. Hjúkkan átti nú ekki von á því að þetta væri mikið mál - enda þaul vön á hlaupabrettinu. Eftir hins vegar um 15 mín ( af 50 mín ) var hjúkkan farin að þrá að komast í magaæfingarnar og losna við syppið - þetta var sko ekkert spaug. En hún þrjóskaðist áfram þrátt fyrir svima, ógleði og nokkrar nettar SVT (ofansleglahraðslátt ísl) tókst henni að klára tímann með stæl. Svo er bara að sjá hvort hjúkkan geti yfir höfuð hreyft sig á morgun!!!
Annars er hjúkkan að vinna í tengslamyndun sinni og því að auka ábyrgðartilfinningu sína gagnvart lifandi hlutum. Því keypti hún sér pottaplöntu!! Plöntuna setti hún á skrifborðið í vinnunni sinni, rétt við gluggan en í passlega réttri birtu og hita. Þar sem hjúkkan er meira á skrifstofunni sinni en heima hjá sér ákvað hún að hafa plöntuna hér en ekki í Dofranum. Í fyrstu gekk allt vel og hjúkka og plantan virtust ná vel saman og döfnuðu báðar. Nú er hins vegar svo komið fyrir aumingjans plöntunni að hún er orðin einkennileg á litinn og blómadæmið og greinarnar ekki eins tignarlegar og í upphafi. Hjúkkan er að hamast við að vökva kvikindið og vonar að hún nái sér, annars er það nottla bara haugurinn fyrir New Orleans ferðina!

27/02/2007

Undarlega g - strengs málið!
Hjúkkan er að kljást við stórundarlegt mál þessa dagana og fær hún engan botn í þetta mál sama eftir hvaða leiðum hún leitar. Þannig er mál með vexti að undir lok síðustu viku fór hjúkkan að leita eftir efnisminni nærfatnaði sínum svokölluðum g - strengsbuxum sem allar konur þekkja og eiga mikinn slatta af. Nema hvað sama hvar hjúkkan leitaði þá fann hún ekki eitt par!!! Svo virðist sem á einhvern mjög svo undarlegan hátt hafi allar þessar undirbuxur hennar í þessu formi horfið! Hjúkkan er nú engin kjáni og hefur nú alveg sens fyrir því að hún hefur nú ekki skilið þessi föt eftir úti í bæ og hefur sjálf séð um þvott á heimilinu. Oft hefur hjúkkan heyrt sögur af þvottavélum sem "éta" svona undirföt og því eigi að setja þau í sérstakt net - en come one það kemur ekki fyrir hjúkkuna og hefur ekki verið til vandræða.
Það er sameiginlegt þvottahús í húsinu en hver og einn hefur sína vél og sína þvottagrind þannig að það á ekki að gerast að einhver taki "óvart" fatnað sem hann á ekki. Hingað til hefur allur sá þvottur sem settur hefur verið á snúruna skilað sér upp með hreina þvottinum. En nú er sem sagt kominn tími á samsæriskenningarnar. Er einhver að laumast niður í þvottahús og taka "óvart" undirföt sem ekki tilheyra þeim eða er þvottavélin mín búin að missa það og komin í heilagt stríð við þessi efnislitlu undirföt? Eitt er ljóst í stöðunni og það er að hjúkkan þarf að fara í búð og spurning hvort maður kalli til rannsóknarmenn til að greina stöðuna :)

26/02/2007

Lítil prinsessa og árshátíðartjútt!
Helgin var nokkuð þétt og ansi skemmtileg hjá hjúkkunni. Föstudagskvöldið fór í heimahangs með Hrönnslunni þar sem karlamál voru rædd niður í minnstu þræði og niðurstaðan var engin - frekar en fyrri daginn þegar maður er að ræða þessi mál. Á laugardaginn lá svo leiðin í greiðslu og svo henti hjúkkan smá farða í andlitið og dreif sig í kjólinn að ógleymdum bandaskónum með 10 cm hælnum! Já hjúkkan var hávaxin með þykkt og hrokkið hár á árshátíð slysadeildarinnar þar sem þó nokkrur snúningar voru teknir á dansgólfinu. Eftir heilmikil tjútt lá leiðin á NASA þar sem allir hinir íslendingarnir voru saman komnir, þ.e. þeir sem ekki voru á árshátíðinni. Þeir liðið var þó nokkuð fram á nótt var hjúkkan við það að missa fæturna af stappi annarra og ákvað að koma sér heim og úr skónum!
Sunnudagurinn fór í netta afslöppun og þá kom gullmoli helgarinnar. Jú nú á hjúkkan tvo gullmola þar sem litli frændi var að eignast litla systur sem er jafn fullkomin og hann!! Nú er það bara að standa sig enn betur sem uppáhalds frænka enda ekki hægt að missa titilinn núna! Litla prinsessan var svo litin augum um kvöldið og eins og fyrr sagði er hún bara fullkomin - það er ekkert flóknara :) Innilega til hamingju Smyrilshólafjölskylda.
Dagurinn í dag fór í tölvupóst deilur um fjárhagsáætlun og stefnir í jafn fjörugan morgundag. Það er sem sagt nóg að gera hjá hjúkkunni þessa dagana.

23/02/2007

Einkennilegir draumar og bjútí trítment!
Já draumfarir hjúkkunnar fara nú bara að flokkast sem hrakfarir ef heldur sem horfir. Síðustu nætur hefur hana dreymt mjög svo einkennilega hluti allt frá rómantískum stundum með þjóðþekktum einstaklingum til martraðarinnar sem hún fékk í nótt og hélt í kjölfarið að það væru innbrotsþjófar frammi í eldhúsi!!! Hjúkkan þorði hvorki að hreyfa legg né lið enda myndu þá innbrotsþjófarnir komast að því að það væri einhver í íbúðinni - eins og það ætti að koma á óvart kl 04 um nótt!!! Engin vopn voru nálægt rúminu og því sá hjúkkan fram á það að þurfa að berjast við innbrotsþjófana - berskjölduð og varnarlaus.... en viti menn fljótlega sofnaði hún aftur og sem fyrr vaknaði dauðuppgefin í morgun.
Á morgun er hins vegar árshátíð slysadeildarinnar með tilheyrandi háreyðingum og brúnkumeðferðum í kvöld, kannski maður splæsi bara líka í agúrkumaskann til að vera ekkert þrútin á morgun :) þetta er nú líka svo mikið í anda hjúkkunnar að standa í einhverju bjútí trítmenti á sjálfri sér!!!

15/02/2007

Snillingur dagsins!!
Hjúkkan er snillingur dagsins í dag að eigin mati. Hún er svo mikill snillingur að það er leitun að öðrum eins snillingum. Snilldin byrjaði auðvitað á því að hjúkkan svaf eiginlega yfir sig en það getur nú komið fyrir á bestu bæjum. Hún var nú ekkert skammarlega sein í vinnuna enda með sveigjanlegan vinnutíma. Nema hvað eftir að hafa þotið á fætur og henst í föt átti að fara að henda í sig morgunmatnum. Þá var illt í efni - brauðið búin og mjólkin farin að tala við allar aðrar vörur sem voru í ísskápnum. Held að það sé bara að verða spurning um að kaupa mjólkina í pela stærð en ekki líter í einu. Jæja nú voru góð ráð dýr, góðum slatta af seríósi var hent í poka og ákveðið að borða bara morgunmat í vinnunni. Þetta gekk upp og dagurinn virtist vera á góðri leið.
Um hádegisbil átti hjúkkan fund og þurfti að hlaupa að bílnum sínum í klikkaðri rigningu og roki. Hjúkkan stöðvaði við bílinn sinn og ýtti á fjarstýringuna - ekkert gerist. Hún ýtti aftur á fjarstýringuna og ákvað að halda takkanum inni í svolitla stund - ekkert gerist. Þegar hér er komið við sögu er nokkuð farið að draga af hjúkkunni sem er orðin köld, blaut og hrakin. Hún ákveður að stinga lyklinum í skrána og opna þannig bílinn - ekkert gerist!!! Nú var hjúkkan bara orðin vonlausið uppmála og hætt að hafa húmor fyrir bílnum! Allt í einu varð henni litið inn í bílinn og sá þar barnastól - hum hjúkkan kannaðist nú ekki við að vera með barnastól í bílnum sínum. Alveg svona 10 sekúndum síðar opnaðist hugur hjúkkunnar og hún uppgötvaði að hún átti einfaldlega ekki þennan bíl!!!!!! Hún laumaðist að bílnum sínum og vonaði að enginn í fyrirtækinu hafði séð þessa tilraun hennar til stuldar á bíl samstarsfaðilla síns.
Nú er hjúkkan glöð, henni loksins orðið hlýtt og stefnan tekin á smá fund, svo gymmið og svo kúr undir teppi. Góðar stundir!!

14/02/2007

Lífið er bara snilld!
Já lífið leikur um hjúkkuna þessa dagana. Hún er svo gleymin frá degi til dags að hún man bara hluti sem gleðja hana og er búin að mynda sér nýja stefnu í lífinu. Muna bara eftir góðu hlutunum og vera ekkert að velta þeim leiðinlegu fyrir sér. Hjúkkan endurheimti hetjuna úr (pissum í) krossferðinni sem var einhvers staðar fjarri byggðum og öðru fólki og er hin kátasta fyrir vikið. Hjúkkan hefur hingað til ekki þurft að upplifa það oft að vera sú sem er skilin eftir - því það er almennt hún sem stingur af til útlanda. En í þetta sinn þá fékk hún að finna hvernig það er að vera sá sem er ekki að gera neitt spennandi heldur bara í sínu gamla umhverfi. Vonandi verður þessi upplifun ekki til þess að hún fari að raða gjöfum í liðið eftir heimkomur sínar - því þá er voðinn vís :)
Annars hafa margir snillingar orðið á vegi hjúkkunnar undanfarið og hæst ber að nefna konuna sem var að keyra á Akranesi á 15 km/klst á miðjum veginum. Svo stoppaði hún við hvert götuskylti þar til að hún loks missti það og ákvað að keyra inn götu sem var lokuð vegna framkvæmda, sundur grafin og algjörlega ófær. Já það geta ekki allir verið eins miklir snillingar og þessi kona. En hjúkkan hefur nú dregið töluvert úr eigin óhöppum og virðist sem hægt sé að eiga sér líf án þess að slasa sig mikið. Hún reyndar opnaði enn sem fyrr bílhurðina í andlitið á sjálfri sér um daginn og fékk marblett á nefið sem var nú flott fyrir :)
Annars er frekar lítið í fréttum í dag - góðar stundir

06/02/2007

Helgarfléttan!
Helgin var ósköp ljúf hjá hjúkkunni enda var henni eytt í huggulegheitum í sumarbústað. Það er alveg með ólíkindum hvað það er gott að komast aðeins út úr bænum þó ekki sé nema í nokkra daga og slaka á. Ekki það að hjúkkan sé eitthvað aðframkomin af streitu, þá er bara eitthvað svo kósý við sveitina. Smá vinna varð þó á leiðinni í bæinn en allir sluppu vel og sjaldan sést jafnmikil ró yfir einum vettvangi. Sunnudagskvöldið var tekið í hálfa Ofurskál, þar sem auðvitað Coltararnir rúlluðu Björnunum frá Chicago upp. Þetta leit nú ekki sérstaklega vel út eftir fyrstu mínúturnar þar sem Birnirnir skoruðu í fyrstu sókn en mótlætið styrkir ekki satt :)
Hjúkkan er líka ofurglöð þessa dagana þar sem hún hefur nú loksins eignast tvær Police Academy myndir (nr. 3 og 6) og var sú fyrri sett í tækið um helgina. Þvílík snilldar kvikmynd!!!
Eitt sem hjúkkan er að velta fyrir sér í dag er stjörnuspáin hennar :
  • " Það er fín lína milli þess að gera öðrum vel og ganga á sjálfan sig. Varastu að taka of mikið að þér. Að segja nei er stundum það besta sem maður gerir fyrr alla aðila."

Jább ætli þessu sé beint sérstaklega til hjúkkunnar?? Nei maður bara spyr sig!

31/01/2007

Afsakið skakkt númer!!
Eitthvað gekk hjúkkunni illa með símann sinn í kvöld og kom það meðal annars fram í síendurteknum röngum númerum sem hún hringdi í. Þetta byrjaði allt í lokin á Americas Next Top Model þar sem sást í ákveðna byggingu í Barcelona er minni helst á ofvaxið kynlífshjálpartæki (grínlaust.... hótelið sem hjúkkan gisti á í Barcelona er einmitt við hliðina á þessu skrímsli). Þar sem hjúkkan átti marga góða brandara með samstarfskonu sinni í tengslum við þessa byggingu ákvað hún að slá á þráðinn til hennar í lok þáttarins til að tjá sig um málið. Hjúkkan hefur margoft hringt í samstarfkonuna og veit uppá hár símanúmerið hjá henni. Ekki tókst betur til en svo að hún hringdi óvart í eina af hæstráðendum í Vistor, sem hafði nú húmor fyrir þessu öllu. Hjúkkan roðnaði nett í símann og náði svo í hláturskasti að slá inn rétt símanúmer. Eftir það samtal ætlaði hjúkkan að hringja í Þormóð og vildi ekki betur til en svo að hún einmitt - jú hringdi aftur í vitlaust númer. Í þetta sinn var það nú sem betur fer enginn innan fyrirtækisins sem svaraði, en það kom nú samt á óvart hver var hinum megin á línunni. Jú þetta ætlaði ekki að ganga upp hjá hjúkkunni og þegar hún hafði í þriðja sinn á innan við 45 mín hringt í rangt númer ákvað hún að hætta þessu kjaftæði og sætta sig við að hlusta á rausið í sjálfri sér... Sem betur fer eru bara tveir dagar eftir af þessari vinnuviku og stefnan tekin út úr bænum um helgina, ætli hjúkkan villist ekki á leiðinni? Kannski hún láti bara aðra um aksturinn..

30/01/2007

Nýju vátryggingarskilmálarnir!
Hjúkkan er búin að bíða spennt eftir bréfi frá tryggingarfyrirtækinu sínu sem vildi gera allt til þess að fá hjúkkuna í viðskipti hjá sér. Hjúkkan brosti út í annað þegar þetta blessaða fyrirtæki gekk á eftir henni með grasið í skónum, því greinilegt er að þetta fyrirtæki veit ekki mikið um Fríðuna!! Nema hvað í morgun komu svo nýju tryggingarskilmálarnir í pósti og með góðan kaffibolla í hendi kom hjúkkan sér vel fyrir í sófanum og hóf lesturinn. Þetta er hið áhugaverðasta plagg allt saman og hjúkkan í rónni yfir því að nú er hún tryggð í bak og fyrir NEMA (það er alltaf þessi litla klausa)
" ef tjón hlýst af völdum :
  1. jarðskjálfta, eldgoss, skriðufalls, snjófljóðs eða annarra náttúruhamfara,
  2. styrjaldar, innrásar, hernaðaraðgerða, borgarrósta, uppreinsar, uppþots, verkfalls eða svipaðra aðgerða,
  3. kjarnabreytinga, jónandi geislunar, mengunar af geislavirkum efnum, kjarnaeldsneytis eða kjarnaúrgangsefnis.

Já eftir þennan lestur á því sem tryggingin coverar ekki er hjúkkan bara mjög ánægð að búa í Hafnarfirðinum þar sem hún er ekki í hættu á að lenda í skakkaföllum vegna fyrrnefndra atburða. Sem sagt hins skemmtilegasta lesnins og góð upphitun fyrir leik ársins á eftir Ísland - Danmörk þar sem hjúkkan hefur mikla trú á íslensku strákunum. Það er einhvern veginn fátt sætara en að rúlla dönunum upp... Hver veit nema bara eftir leikinn að við kaupum bara Tiovli og Litlu Hafmeyjuna þá er allt komið sem skiptir danina einhverju máli..

27/01/2007

Stoltust!
Hjúkkan er ofboðslega stolt af nokkrum hlutum í augnarblikinu. Fyrst ber að nefna nýju fartölvuna sem hún er komin með frá vinnunni og er hin krúttlegasta Dell talva. Svo má auðvitað ekki gleyma "strákunum okkar" í landsliðinu í handknattleik sem standa sig eins og hetjur í Þýskalandi. Það var nú í tæpara lagi leikurinn í dag og var orðið þó nokkuð um öskur og hvatningahróp yfir sjónvarpinu. Ráðgert er að sami hópur hittist á morgun og fagni sigri á Þjóðverjunum. Hjúkkan hefur óbilandi trú á því að strákarnir komi afslappaðir og fullir af leikgleði í leikinn á morgun og rúlli bara upp Þjóðverjunum. Síðast ber að nefna uppáhalds hornamann hjúkkunnar sem stóð sig eins og hetja í Íslandsmótinu í dag og sett inn 15 mörk!! Já það er nú ekki alltaf spurning um að vera of hávaxinn, þá er maður bara fljótari fyrir vikið!
Enn einn handboltamaðurinn á afmæli í kvöld og gaf hjúkkan honum nýtt gips í afmælisgjöf - í þetta sinn var gipsið neon gul-grænt! Til hamingju með afmælið og njóttu gipsins vel.

23/01/2007

Stundum verður maður orðlaus!!
Já það kemur nú ekki oft fyrir hjúkkuna að hún verði orðlaus, en það getur greinilega allt gerst. Síðustu daga hafa skipts á skin og skúrir og var sunnudagurinn einstaklega vondur dagur í íþróttalífi hjúkkunnar. Mikil hætta er á því að hjúkkan og Óskar geti aldrei horft á leiki saman þar sem allt fór fjandans til hjá liðum þeirra á sunnudaginn. En á mánudaginn kviknaði vonarneisti í íþróttahjarta hjúkkunnar þar sem hún sat heima í sófa með hroll og gæsahúð af stolti yfir "strákunum okkar" - þeir voru bara frábærir og sýndu að maður á aldrei að gefast upp. Nema hvað mánudagurinn byrjaði nú ekki eins vel og leikurinn endaði. Hjúkkan átti fund snemma morguns (fyrir klukkan 9) og sat prúð fyrir framan stofuna hjá þeim sem hún átti fund við. Á hægri hlið hjúkkunnar sat eldri maður sem talaði hátt og snjallt í símann og lýsti yfir dásemdum lífsins á sama tíma og hann pantaði tíma fyrir útför!!!! Já sumir vinna vinnuna sína á einkennilegum stöðum (að panta útför á biðstofu hjartalæknis fannst hjúkkunni alla vega svolítið súrt). Í miðju símtali mannsins vippar hann sér upp á hægri rasskinn og lætur flakka þetta líka blauta og rasskinnanötrandi prump!!! Eins og ekkert hefði í skorist hagræddi hann sér að því loknu á báðar rasskinnar og hélt áfram að tala í símann!!!!! Já góð byrjun á vikunni að láta ókunnuga reka við á mann!

16/01/2007

Hættulega sjálfhverf!
Hjúkkan kom sjálfri sér í þó nokkra hættu í kvöld sökum sjálfhverfu. Þannig var að hún var nýbúin að lesa frásögn af einstaklega vel heppnaðri spænsku kunnáttu sinni sem átti sér stað í vinnuferð til Barcelona síðastliðið haust er hún ákvað að fá sér góða sopa af Pepsi Maxinu. Þar sem hjúkkan var nú enn hálf hlæjandi af sjálfri sér tókst ekki betur til en svo að allt pepsíð rann beinustu leið niður í lungu og mikill hósti var það eina sem hjúkka uppskar. Atvikið sem gerði hjúkkuna svona voðalega glaða var sem sagt í leigubíl í Barcelona. Þar sem hjúkkan hafði nú tekið spænsku 103 hérna um árið (f. ca 12 árum síðan) var hún full sjálftraust á eigin getu til að tala spænsku. Leiðin lá að einhverju torgi við einhverja kirkju og hjúkkan var að rembast við að gefa leigubílstjóranum leiðbeiningar á spænsku (jú mín var svo ógeðslega góð í spænskunni) og eitthvað virtist leigubílstjórinn ekki vera að skilja hjúkkuna. Hann var farinn að baða út höndunum og vandræðast mikið og leit þá hjúkkan á hann með nettri fyrirlitningu (því leigubílstjórinn var svo lélegur í spænsku) og sagði kokhraust: ...no no no, CON CARNE!!!" Jább andartaki síðast trilltist samstarfskona hjúkkunnar úr hlátri í aftur sætinu og leigubílstjórinn líka, þá loksins heyrði hjúkkan þá snilld sem út úr henni hafði komið. Nei félagi við ætlum ekki á torgið - bara með kjöti!!!!!! Spænsku færnin var þá kannski ekki eins mikil í raun og veru!

06/01/2007

Ágætis byrjun!
Árið 2007 fer ágætlega af stað hjá hjúkkunni sem er nýkomin heim frá Danmörku. Ekki var nú mikill tími til félagslegra heimsókna til vina og vandamanna í Köben að þessu sinni en vonandi verður bætt úr því næst. Hjúkkunni til mikillar gleði og undrunar birtist Höskuldur í áramótaskaupinu. Hún fór nú að hugsa hvort hún hefði átt að vita af þátttöku hans í skaupinu, en getur ekki fyrir sitt litla líf munað hvort þessa umræðu hafi borið á góma. Eitt af nýársheitum hjúkkunnar (heppilegt þar sem hjúkkan strengir ekki nýársheit) ætti því að vera að taka meira eftir því sem sagt er við hana. Henni til mikillar lukku er þó til fólk sem er með eindæmum gleymið og maður veltir því alvarlega fyrir sér hvort þessir einstaklingar séu yfirleitt að hlusta þegar maður talar!!!!
Nú er utanlandsferða frí í tæpa tvo mánuði og ætlar hjúkkan að njóta lands og þjóðar í allan þann tíma. Fyrirhuguð er ferð úr bænum og vonandi áframhaldandi stemning á árinu. Svo er auðvitað farið að styttast í HM í handbolta með tilheyrandi pizzuáti og íslenskri stemningu. Hversu lengi ætli "strákarnir okkar" verði "strákarnir okkar"???

01/01/2007

Gleðilegt nýtt ár!!!
Já viti menn nú er bara árið 2007 byrjað og það hófst nú bara á rólegu nótunum hjá hjúkkunni. Hún bauð foreldrunum og frænda í mat á gamlárskvöld og komst að því að þá má búa til sósu úr ótrúlegustu hlutum! Allir borðuðu nægju sína og svo hófst reglulegt annála áhorf og svo skaupið. Hjúkkan skemmti sér nú ágætlega yfir skaupinu og svo voru það skotárásirnar sem hófust í kringum miðnættið. Að þessu sinni var farið upp á hól í Áslandinu ásamt fleiri hafnfirðingum og var útsýnið alveg ótrúlegt. Eftir kampavínssopa í Kríuásnum lá leiðin aftur í Dofrann þar sem sófinn endaði sem deit kvöldsins hjá hjúkkunni.
Á nýju ári er nú til siðs að fara yfir síðasta árið og hér koma helstu punktar þess:
  • hjúkkan flutti ekki á árinu sbr. endalausa flutninga 2005
  • árið byrjaði erfiðlega og reyndist í heildina á köflum mjög ósanngjarnt
  • skipt var um vinnu á miðju ári og þá fyrst fóru utanlandsferðir að taka kipp
  • hjúkkan man ekki lengur hvað hún er búin að fara í margar ferðir til útlanda á síðasta ári
  • sápuóperan er eins og góð mexíkósk sápa, virðist engan enda ætla að taka
  • hjúkkan keypti sér jeppling, sem hún síðan seldi og klessti loks!!
  • Björgunarsveit Hafnafjarðar kom hjúkkunni til bjargar eftir veðurofsa og snjóskafla sem ollu því að bíllinn sat sem fastast
  • tíðni óheppilegra atvika var eins og í meðalári - á bilinu 1 til 2 atvik á mánuði
  • hjúkkan strengdi engin áramótaheit frekar en fyrri árin

Jæja þá er þessari litlu upptalningu lokið enda árið búið og komið nýtt ár með nýjum tækifærum. Hvetur hjúkkan alla til þess að njóta nýja ársins og láta ekkert stöðva sig.

27/12/2006

Flugumferðastjórar!!
Hjúkkan er nú alveg að verða komin með nóg af þessu andlega ofbeldi sem flugumferðastjórar eru að beita þjóðinni. Þar sem hjúkkan er nú farin að ferðast nokkuð mikið sökum vinnunnar, og á einmitt flug frá Íslandi þann 2. janúar, er hún ekki hress með þessar hótanir sem felast í orðum formanns þeirra. Hann kom í Kastljósið áðan og var með frekar ónett skot á þá flugumferðastjóra sem ætla að vinna hjá nýja fyrirtækinu. Hjúkkan er nú ekki vön að blanda þessari síðu sinni í svona deilur sem ræddar eru í samfélaginu en þetta gengur of langt að hennar mati. Til dæmis síðast þegar hjúkkan hélt að hún hefði eitthvað vit á samningum, voru lögin þannig að þú slítur ekki gildandi kjarasamningi bara af því þú vilt nýjan!!! Já hjúkkunni er lítið skemmt yfir þessari hegðun starfstéttar sem heldur Íslendingum í gíslíngu!!!
Jólin komin og á hraðri leið í burtu!
Já jólin komu nú aldeilis með glæsibrag í ár. Hjúkkan naut daganna í faðmi fjölskyldunnar með tilheyrandi matarveislum og ofáti. Annars virtust flest fyrirtæki sem hjúkkan hefur unnið fyrir á árinu ákveðið að gefa eins gjöf í ár - KONFEKT..... Hjúkkan var nú farin að svitna töluvert yfir öllu þessu magni af súkkulaði sem saman var komið í Dofranum og fór hún því með dágóðan skammt á slysadeildina, þar sem fleiri fá að njóta þess.
Aðfangadagskvöld einkenndist af nettri Fríðu þar sem að mat og kaffi loknu leit kjóllinn hennar út fyrir að 5 ára barn hafi notað hann sem svuntu. Eitthvað gekk illa að koma matnum á réttan stað og því þarf kjóllinn að komast í hreinsun. Einnig steig hús í veg fyrir bílinn hjá hjúkkunni þegar hún var að bakka í stæði, en sem betur fer eru skemmdir í lágmarki. Jóladagur fór í jogginggallann og afslöppun áður en tekist var á við hangikjötið og svo var 3. veislan í Brekkuselinu í gær með systrum, viðhengjum og öðrum tengiliðum. Það fer nú að verða of lítið borðstofuborðið í Brekkuselinu þegar allt liðið er mætt en það var bara yndislegt.
Nýtt teppi leit dagsins ljós úr einum pakkanna til hjúkkunnar og hefur það verið prufukeyrt í Dofranum. Teppið er 200cm x 250 cm og því týnist hjúkkan eiginlega ef hún liggur ein undir því!! En það er bara huggulegt.
Okkar menn unnu glæstan sigur á jóladag og lítið annað að segja en Áfram Man Utd!!!!

24/12/2006

Jólaknús og jólakossar!
Hjúkkan óskar öllum vinum og vandamönnum, nær og fjær gleðilegra jólahátíðar. Passið ykkur nú á öllum matnum og konfektinu, allt er gott í hófi. Njótið tímans saman og eigið yndislegar stundir með þeim sem ykkur þykir vænst um.
Hjúkkan er komin í jólafrí og jólaskap og fer ekki á flakk aftur fyrr en 2. janúar. Það er því nægur tími fyrir hittinga, knús, spil og almennt haugerí.
Farið varlega í umferðinni og munið að vera góð við hvort annað.

14/12/2006

Bleikt biðskyldumerki!!!
Það er ekki á hverjum degi sem hjúkkan lendir í óvenjulegum aðstæðum, frekar svona annan hvern dag. Eftir að hafa setið á annarri rasskinninni í viku á ráðstefnunni í New York dreif hjúkkan sig til sjúkraþjálfarans þegar heim var komið. Flugið frá New York var rétt yfir 5 klukkutíma langt og voru þetta lengstu fimm tímar í lífi hjúkkunnar, þar sem hún var að drepast úr verkjum í bakinu og rófubeininu. Sjúkraþjálfarinn ákvað að prófa nýja leið í meðferð sem byggir á japanskri teipmeðferð. Núna er hjúkkan sem sagt með bleikt teip á neðri hluta baks í nálægð við rófubeinið. Sem sagt til að lýsa því betur þá er hjúkkan með skærbleikt biðskyldumerki á botninum!!!! Það má fara með draslið í sund og sturtu og alles þannig að það er alveg spurning um að skella sér í bikiníið og í Laugardalslaugina með biðskyldumerkið. Eitthvað ætti það eftir að vekja athygli fólks!!!
Annars er hjúkkan að detta í svakalegustu jólastemningu sem sögur fara af. Hún er búin að skreyta allt í Dofranum og er bara raulandi jólalög daginn út og inn. Það eru mörg ár síðan hún hefur dottið í svona jólaskap og þá er bara að njóta þess. Hjúkkan er nú samt ekki farin að þola auglýsinguna með syngjandi barninu....

09/12/2006

Hljómar kunnulega!
Ég veit ekki um ykkur hin en eitthvað finnst mér það hljóma of kunnulega að það sé gert ráð fyrir vitlausu veðri á Íslandi einmitt daginn áður en ég á að fara í flug heim!!! Það virðist vera þannig þessa dagana að djúpar lægðir fylgi utanlandsferðum hjúkkunnar með tilheyrandi seinkunum á flugi og almennum leiðindum!!! Kosturinn í dag er alla vega sá að bíllinn er heima í Dofranum og því lítil þörf á Björgunarsveit Hafnarfjarðar til að koma hjúkkunni milli staða :)
Það nýjasta úr lífi hjúkkunnar í New York er að hún er orðinn stoltur eigandi af Ipod Nano, sennilega síðust allra íslendina að eignast svona grip. Þetta er voðalega sniðugt tæki, en það þarf víst ekki að telja það frekar upp hér þar sem allir eru löngu komnir með svona dæmi...
Það virðist koma hjúkkunni sífellt á óvart sá svakalegi fjöldi fólks sem er í þessari borg. Það er fólk alls staðar og þar sem ekki er fólk, þar er leigubíll á fullu blasti á flautunni. Já þetta er nú aðeins meira af fólki en í Firðinum góða :)
Nú er bara að vona að veðrið gangi hratt yfir og Icelandair lendi ekki í miklum vandræðum með allt dæmið, því hugurinn er nú farinn að leita heim.
Skjótt skipast veður í loftum!
Hér í New York er réttast að segja að skjótt skipist veður í loftum... Í gær var hér 14 stiga hiti á celcius og í morgun var þetta líka netta 10 stiga frost!!! Já hitinn féll um 24 gráður á innan við sólarhring. Undir kvöld var nú aðeins farið að hitna en þetta er nú meira en góðu hófi gegnir.
Það er alveg ofboðslega mikið af fólki í þessari borg og áreitin eru ótrúleg. Í dag stóð hjúkkan á götuhorni þar sem einstaklingur frá Hjálpræðishernum söng jólalög í karaókí tæki á fullu blasti, glugginn hjá Macy´s söng jólalag að ógleymdri lyftutónlist dauðans sem barst úr hátalarakerfi fyrir utan búðina. Í ofanálag við þetta voru auðvitað bílflautur á fullu og hávaðinn var hreint út sagt ærandi. Kannski hjúkkan þurfi bara að horfast í augu við það að hún er ekki eins ung og ónæm fyrir hávaða og hún vildi halda. Eftir þessa upplifun fór hún í deildina fyrir gamla fólkið í Macy´s þar sem fáir voru á ferli og engin tónlist í kerfinu til að ná tökum á þessu öllu aftur.
Ráðstefnan er mjög áhugaverð og var til dæmis fyrirlestur í dag um rannsóknir á háþrýstingi sem styrktar eru af lyfjafyrirtækjum. Hjúkkan svitnaði nett þegar gaurinn fór að dissa allar helstu rannsóknir samkeppnislyfjanna og beið eftir að röðin kæmi að Novartis. En sem betur fer hafði hann ekkert út á það að setja og hjúkkan hélt andlitinu voðalega hugrökk.
Það er nú ýmislegt sem gekk á í lífi hjúkkunnar áður en að kom að þessari ferð og hefur hún nú reynt eftir bestu getu að leiða huga að öðru, en auðvitað koma tímar þar sem meira að segja hjúkkan vill vera ein með sjálfri sér. Og þegar það gerist þá leyfir hún sér það bara!!! Enda er þetta nú yfirleitt í skamma stund en maður verður að hlusta á sjálfan sig - því ef maður gerir það ekki hver gerir það þá????
Heimkoman er á mánudagsmorgun og verður spennandi að sjá hvernig tókst til með jólaseríuna á svölunum sem hjúkkunni skilst að séu komnar á sinn stað. Auðvitað fær Bandaríski efnahagurinn að njóta góðs af heimsókn hjúkkunnar og Mastercard ætti ekki að koma út í skuld eftir þennan mánuð. En nú er kominn tími á blund, enda ráðstefna og skoðunarferðir á morgun.