27/05/2007

Fullorðins!
Hjúkkan uppgötvaði það í gærkvöldi að hún verður sífellt meira fullorðin. Því fylgir að lenda í alls konar einkennilegum aðstæðum og þurfa að finna hentugustu leiðina út úr aðstæðunum. Hjúkkan lenti einmitt í svona aðstæðum í gær og sér til mikillar hamingju fann hún að eigin mati flottustu leiðina úr þeim. Maður má ekki láta fullorðisaðstæðurnar fá á sig og muna bara eftir stigunum sem maður fær fyrir vikið.
Alla vega fór kvöldið í tvö afmæli, annars vegar hjá Óskarnum og hins vegar hjá Heiðu kokteilaklúbbs skvísu. Þar að auki var hjúkkunni boðið í innflutningsparty en komst því miður ekki þangað vegna anna í afmælunum. Leiðin lá meira að segja í höfuðborgina þar sem kíkt var á skemmtistað í miðbænum. Eftir að staðnum lokaði tók við ógleymanleg bið eftir leigubíl í skítakulda og þreytu. Hjúkkunni var kalt þangað um miðjan daginn í dag þegar hún fór að þvo og bóna bílinn sinn. Þegar á botnin er hvolft var kvöldið mjög áhugavert, fullorðins og kalt!!!

22/05/2007

New York Baby!
Já hjúkkan er komin heim úr vel heppnaðri ferð til New York ásamt vinnufélögum og alls konar fylgifiskum. Eftir að hafa blómstrað í hópeflisferðinni sbr. lýsingar hér að neðan var hjúkkan þeim mun brattar við niðurpökkun daginn eftir og var sko ekki lengi að koma sér í ferðagírinn. Einkennilegir hlutir áttu sér þó stað við pökkunina og fór nú einn skartgripur með í óskilum, en hann hafði aldrei komið til New York og var snarlega pakkaði niður í veskið þegar þetta uppgötvaðist :)
Í New York var auðvitað gengið um, spókað sig, verslað, drukkið gott hvítvín og nokkrir mojito svo eitthvað sé nefnt. Hjúkkan var með stáltaugar er hún steig upp í hjólreiðavagn í mikilli rigningu á leið á Broadway. Þetta var fyrst voðalega fyndið en svo þegar hjúkkan uppgötvaði að hólavagninn var inni í miðri umferð á Manhattan og þar keyra allir eins og hálvitar, leið hjúkkunni ekki betur. Höskuldur fékk að finna samhug "félaga" sinna þ.e. hjúkkunnar og eins makans í ferðinni þar sem hringt var í drenginn af Broadway við lítinn fögnuð hans.
Besta múvið í ferðinni var samt vakning hjúkkunnar á laugardagsmorgninum. Hún hafði stillt vekjaraklukkuna á símanum og svo fór allt í gang og aumingjans ferðafélaginn var rifin fram úr. Hjúkkan var ekki upp á sitt besta við svona vakningu og þegar hún sá að enn var dimmt úti var henni enn minna skemmt. Svo kom að því - hún leit á klukkuna í herberginu sem sýndi 04:36 en ekki 08:36 eins og síminn!!!! Hjúkkan fann aðra klukku sem einnig var 04:36, klóraði sér í hausnum og hringdi niður í lobbý og spurði hvað klukkan væri eiginlega. Jú hún var 04:36 og hjúkkan gólaði af gleði áður en hún skreið aftur upp í og hélt áfram að sofa í 4 dásamlega klukkutíma til viðbótar.
Hótelið var voðalega hip og kúl og var meira að segja einhver Gavin maður Gwen í herberginu við hliðina á stelpunum, sem höfðu ekki hugmynd um hvaða gaur þetta væri. Frúin hans var víst með tónleika í borginni á laugardagskvöldið.
Svo er nú bara eitt!!!! Hvað er málið með að koma heim úr næturflugi frá USA, úr sól og blíðu í tilheyrandi minipilsi og gallajakka og það er snjókoma úti!!!!!!!!! Þetta voru ansi kaldar mótttökur sem hjúkkan fékk við heimkomuna, það þurfti meira að segja að skafa bílinn!!!

17/05/2007

Hópeflisdrottningin!
Hjúkkan sannaði það í gær að hún er hópeflisdrottning ársins. Það var sem sagt hópeflisferð fyrirtækisins í gær og leiðin lá í Adrenalíngarðinn á Nesjavöllum þar sem mikið var reynt á taugar og þol manna. Allir komust heilir út og lá leiðin í Skátaheimili við Úlfljótsvatn þar sem etið var og drukkið. Fyrir matinn var auðvitað tekin smá fótboltaleikur og þar keppti hjúkkan stolt með "lituðum" á móti "svörtum" og í þokkabót var stelpan á háum hælum!!! Já hún þaut um völlinn enda á takkaskó :)
Mikið var dansað og fór frænkutríóið á kostum - auðvitað að eigin mat og komust aðrir ekki með tærnar þar sem vestfirsku fegurðardrottningarnar höfðu hælana. Leiðin lá loks í bæinn seint og síðar meir og fór nú hjúkkan beinustu leið heim, enda nóg að gera í dag.
Hún er sem sagt í þessum skrifuðu orðum að bíða eftir því að verða sótt til að komast í Leifstöð og þaðan til New York. Helgin verður tekin þar við mikla afslöppun ásamt svona basic New York things sbr. versla, kaupa skó, versla föt og borða.
Afmælisbörn dagsins fá auðvitað stórt knús og þúsund kossar og sérstaklega á þar í hlut Súper Svana sem var að rúlla inn í nýjan tug í dag :)
Nokkur afmæli eru næstu daga og sendir hjúkkan þeim sem þar eiga í hlut einnig knús og kossa.
Verið góð við hvort annað - ég er farin til New York......

09/05/2007

Ef ég væri þú....
Hjúkkan hefur undanfarna daga verið að velta nokkuð fyrir sér þeim ráðum sem við gefum öðrum í einhverri von um að viðkomandi nái nú að snúa vandamálum sér í hag eða komist í gegnum erfiða tíma. Flest eru þessi ráð auðvitað gefin af væntumþiggju og með góðum fyrirætlunum. En erum við ekki bara með einskæra forræðishyggju? Þurfum við í alvörunni að vera endalaust að gefa þessi óumbeðnu ráð og þykjast geta leyst vanda annarra þegar við kannski vitum ekki nema hluta af sögunni? Væri kannski réttast að spyrja fyrst - ,, má ég gefa þér ráð? " og halda svo áfram ef viðkomandi vill þiggja einhverja leiðsögn. Sum ráð eru líka á þann veg að sá sem þau fær upplifir sig sem algjöran aumingja sem ekki getur séð um sig sjálfur. Hjúkkan heldur að allir hefðu svolítið gott af því að kannski líta aðeins í eigin barm áður en maður smellir ráði í andlitið á einhverjum, þó manni þyki vænt um viðkomandi og vilji honum allt hið besta.

07/05/2007

Dagurinn í dag er dagur "ógeðslega flottra" og "andskoti klárra" kvenna.

Þekkir þú fínar dömur og alvöru konur í sundur?

Fínar dömur: Ef þú hefur ofsaltað matinn sem þú ert að elda, þá skaltu setja kartöflu í pottinn. Hún dregur saltið í sig.
Alvöru konur: Ef þú ofsaltaðir matinn er það bara assgoti pirrandi.
Fínar dömur: Það er auðvelt að lækna höfuðverk með því að skera límónu í sundur og nudda henni á ennið.
Alvöru konur: Taktu límónu og blandaðu henni við tekíla og salt og drekktu. Höfuðverkurinn hverfur sennilega ekki, en þér verður alveg sama.
Fínar dömur: Ef þú setur sykurpúða í botninn á vöffluformi, þá lekur ísinn ekki í gegnum það.
Alvöru konur: Sjúgðu bara ísinn úr vöffluforminu. Þú liggur hvort eð er örugglega með fæturna upp í loft í sófanum og borðar hann.
Fínar dömur: Þú getur komið í veg fyrir að kartöflur spíri með því að setja epli í pokann með þeim.
Alvöru konur: Kauptu karföflumúspakka, hann geymist í heilt ár í eldhússkápnum.
Fínar dömur: Kökur fá jafna, slétta áferð ef þú penslar þær með eggjahvítu áður en þær fara í ofninn.
Alvöru konur: Betty Crocker segir ekkert til um penslun á kökunni. Slepptu þessu bara.
Fínar dömur: Ef þú átt erfitt með að opna sultukrukku er gott að setja á sig gúmmíhanska. Þannig færðu betra grip..
Alvöru konur: Biddu myndarlega, ríka og einhleypa nágrannann um að opna krukkuna!
Fínar dömur: Ekki hella afgangs rauðvíni. Það má frysta í ísmolabakka og nota í sósur seinna.
Alvöru konur: Hvað er afgangs rauðvín?

Jæja hvorn hópinn teljið þið að hjúkkan samsvari sér við???

06/05/2007

Einstaklega góður dagur :)
Sunnudagur til sælu eru svo sannarlega orð í tíma töluð. Já sunnudagurinn í dag hefur verið einstaklega góður í lífi hjúkkunnar. Eftir ljúfan nætursvefn var hún vöknuð fyrir allar aldir ( já - án vekjaraklukku kl. 09:30). Hún reyndi að neita að horfast í augu við vökunina en það var ekki aftur snúið þegar hún var kvött til þess að hundskast á fætur og drífa sig á golfvöllinn. Eftir smá mas lét hjúkkan til leiðast og dreif sig út á Hvaleyri til að æfa pútti og chippið og svo auðvitað taka eina fötu. Að því loknu var varla komið hádegi og yfirleitt sá tími sem hjúkkan skríður fram úr um helgar en nú var bara fullt eftir af deginum. Því renndi hún í Brekkuselið og þreif bílinn hátt og lágt að innan sem utan (þvottur með svampi og alles og bón líka) þar sem hún var enn í ofvirkni kasti ákvað hún að taka til í garðinum hjá foreldrunum og loks grilla ofan í þau kvöldmatinn.
Bestu fréttir dagsins komu svo um eftirmiðdegi -
MANCHESTER UNITED ER ENGLANDSMEISTARI!!!!!
já þið öll sem höfðu ekki trú á okkur, haha við erum lang best!! Eftir þetta ofvirkni kast lá leiðin heim í freyðibað og afslöppun. Á morgun fær svo hjúkkan reiðhjólið sitt sem hún keypti fyrir helgi og verður því hjólandi alla vikuna :)

01/05/2007

Ný upplifun og fullt af stigum!
Hjúkkan prófaði í kvöld Sushi í fyrsta skiptið um ævina. Þetta voru Ninja bitar sem eru samsettir úr túnfiski og einhverju fleiru gómsætu. Hjúkkan borðaði meira að segja dæmið með prjónum og allt - án þess að valda sjálfri sér eða þeim sem í kringum hana voru skaða. Þetta eru nú nokkur fullorðinsstig sem maður fær með þessu ekki satt? Domo er alveg nokkuð hip og kúl staður og alveg óhætt að fara þangað að borða.
Í gegnum máltíðina fékk hjúkkan reglulegar upplýsingar um gang mála í Meistaradeildinni og verður nú hjúkkan að lýsa yfir hamingju sinni með úrslit kvöldsins. Það verður sko ekki leiðinlegt að vinna Liverpool í úrslitaleiknum :) Annars virðast Liverpool aðdáendur skjótast upp allt í kringum hjúkkuna og má hún hafa sig alla við í baráttunni. Annað kvöld er svo planaður sófi og leikur og biður hjúkkan þá sem hana þekkja að vera ekki að trufla hana milli 19 og 21 nema viðkomandi vilji hljóta verra af...

30/04/2007

Aldurstengd tilverukrísa!
Hjúkkan var að horfa á fréttir í kvöld þegar kynntur var til sögunnar nýr forstjóri Glitnis. Jú drengurinn sem reyndar með einhvern fönkí lit á hári - vonandi er þetta bara nátttúrulega grátt en ekki einhver tískuyfirlýsing, er einu eða tveimur árum eldri en hjúkkan. Hann þjáist reyndar af þágufallssýki en það svo sem skiptir sennilega minna máli í nýja jobbinu hans. Fréttir varð til þess að hjúkkan fór í smá aldurstengda tilverukrísu eins og gengur og gerist þegar maður fer að telja fullorðisstigin sem maður er komin með. Í ansi skemmtilegu samtali um daginn kom það í ljós að maður fer í raun ekki að safna fullorðinsstigum fyrr en eftir þrítugt - því er hjúkkan enn á unglingastigum :) Þar sem maður er enn á unglingastigum þá hefur maður sem sagt leyfi til að gera nokkurn vegin það sem manni sýnist ekki satt?

29/04/2007

Sunnudagur til sælu!
Sunnudagurinn í dag hefur aldeilis verið til sælu hjá hjúkkunni. Ráðstefnunni lauk í gær og var slúttið í Perlunni þar sem hjúkkan varð nú vör við smá sjóriðu yfir matnum. Þannig er mál með vexti að gólfið snýst (reyndar löturhægt) en nógu mikið til þess að maður finnur yfir smávægilegri ólgu innra.
Planið fyrir daginn í dag hafði verið að sofa og slaka á - og það var nákvæmlega það sem hjúkkan gerði. Hún skreið seint á fætur eftir góðan svefn og dundaði sér frameftir degi við að horfa t.d. á snilldarmyndina Cats and Dogs á RUV. Það sannaðist fyrir hjúkkunni eina ferðina enn að myndir með talandi dýrum eru bara snilld!! Svo ekki sé talað um þar sem kettir og hundar berjast um heimsyfirráð :)
Kveðju var kastað á nokkra ættingja í afmæli um seinni partinn og að því loknu tók þéttur sófi við hjá hjúkkunni. Hún er reyndar pínu hölt í dag þar sem hún varð fyrir naglaklippu - slysi í gær þegar hjúkkan framkvæmdi fótsnyrtingu á sjálfri sér. Eitthvað var smá hluti af nöglinni á litlu tánni að stríða stelpunni þannig að hún kippti nokkuð hressilega í hlutann og má þakka fyrir að einhver hluti sé eftir af litlu tánni. Til að stöðva blæðinguna skellti hjúkkan bara smá naglalakki á dæmið og það virkaði takmarkað - en ef þið viljið upplifa sviða, þá er þetta örugg leið.
Vikan framundan verður nokkuð rólegri en sú síðasta og auðvitað hápunkturinn er á miðvikudaginn þegar seinni leikurinn hjá hetjunum í Utd er. Auðvitað er það bara prinsipp mál að klára leikinn enda verðum við þrefaldir meistarar í ár :)

27/04/2007

Nýtt lúkk!

Hvað er annað hægt að gera þegar manni leiðist heima á föstudegi en að breyta lúkkinu á síðunni? Gamla lúkkið var líka orðið svolítið þreytt - en veit ekki alveg hvort litirnir séu að meika það hér. Fylgist vel með því það er aldrei að vita hverju hjúkkunni dettur næst í hug að breyta :)
Með rugluna!
Hjúkkan er komin með rugluna eftir langan dag á Nordica. Hún var að horfa á fréttir áðan og fór að velta því fyrir sér af hverju Samtökin ´78 heita það en ekki til dæmis Samtökin´80 eða ´79?? Veit einhver af hverju svona er að máli komið??

26/04/2007

Maraþon dagar!
Þessa dagana er hjúkkan á hlaupum og í nettum loftköstum þar inn á milli. Ástæðan liggur í ráðstefnu sem hjúkkan er með um helgina þangað sem 400 þátttakendur af Norðurlöndunum koma. Allt er að ganga upp og hjúkkan bíður bara eftir því að klára dæmið með stæl. Smávægilegir örðugleikar hafa komið upp s.s salurinn sem maturinn átti að vera í á föstudag er ekki tilbúinn (vantar glugga og gólf) !!! En hjúkkan lætur ekkert stöðva sig og er í blússandi gír fyrir þetta allt saman.
Sunnudagurinn fer svo í svefn, almenna gleði og afslöppun enda næsta heimsókn útlendinga strax á þriðjudaginn, en þá koma stjórarnir frá Danmörku. Jább nóg að gera hjá stelpunni sem er enn að næra nýja mojoið og læra hvernig eðlilegir hlutir virka :)

23/04/2007

Kemur ekki oft fyrir!
Það gerist örsjaldan í lífi hjúkkunnar að hún verði orðlaus og þarf mikið til.
En núna er ég orðlaus!!!!

16/04/2007

Sól og blíða í Köben!
Það vantar ekki sumarveðrið hjá hjúkkunni í Köben, þar sem hún er stödd á námskeiði þessa dagana. Hótelherbergið er nægilega stórt til að halda í því góða fermingaveislu og fær hjúkkan valkvíða á kvöldin yfir því hvoru rúminu hún eigi að sofa í :) Mesta snilldin væri auðvitað að sofa í hvoru rúmi til skiptis og þá fá herbergisþernurnar alveg taugaáfall en má maður vera svona kvikindislegur??
Með nýja mojoinu er hjúkkan að reyna að byggja upp ég-er-svo-mikið-krútt dæmið sem gengur pínu brösulega. Það sama á við um ég-er-svo-mikil-dama en með nýju skónum sem voru keyptir í dag þá komu nú nokkur dömustig á töfluna. Nú er málið að skella sér í bublubað og horfa svo á eitthvað af þessum mjög svo spennandi hótel sjónvarpsrásum.

14/04/2007

Mojoið komið aftur!
Hjúkkan er búin að finna mojoið sitt eftir þó nokkurn tíma. Hún vissi ekki einu sinni að hún hafði týnt því fyrr en henni var bent á það á ákveðinn hátt. Nú er sem sagt mojoið komið í full-swing og hjúkkan komin í sinn venjulega gír. Hún kláraði Grey´s og hana dreymir auðvitað um McDreamy and það er eiginlega bara kostur að svona menn eru bara í sjónvarpsþáttum.
Vinnumánuður ársins er hálfnaður og hjúkkan uppgötvaði sér til mikillar hamingju að sumarið er á næsta leiti. Golfsettið er komið í bílinn og allt á leiðinni í gír.
Í gær ákvað hjúkkan að gefa sér gjöf og fékk sér áskrift af Sýn enda hennar menn á blússandi siglingu í átt að þrennunni góðu. Í dag er frumáhorfið planað - bikarleikur á sýn og hjúkkan á sófanum. Hún lenti í smá hugsana hremmingum yfir sýn dæminu enda svo sem ekkert mjög dömulegt að vera bæði áskrifandi af enska boltanum og sýn. En svo ákvað hjúkkan að það væri bara þeirra sem ættu í vandræðum með að gúdda svona hegðun hjá kvenmanni. Það laumaðist nú samt smá hugsun um skókaup inn eftir þetta og því verður reddað í Köben. Leiðin liggur þangað á sunnudaginn í nokkra daga á námskeið hjá Novartis.
Með nýja mojoið getur hjúkkan sem sagt allt og lætur ekkert stöðva sig :)

09/04/2007

Aumkunarvert?
Hvenær verður maður aumkunarverður? Hjúkkan fór að velta þessu fyrir sér eftir að hafa horft á of marga þætti af Grey´s í dag og síðustu daga. Er það þegar maður er orðinn gjörsamlega samdauna teppinu sínu og sófanum góða og ætlar bara að horfa á einn þátt í viðbót? Eða þegar maður er farinn að pikka upp setningar og ráð úr þættinum og ætlar að færa það inn í líf sitt?? Já þetta var kaldur raunveruleiki sem blasti allt í einu við hjúkkunni - hún á ekkert líf!!! Ein af þeim pælingum sem hjúkkunni fannst bara tær snilld snýr að sannleikanum og lyginni. Af hverju ljúgum við að okkur sjálfum og öðrum, jú þegar sannleikurinn er of sár til að horfast í augu við hann.
Hjúkkan hefur einu sinni séð einstakling detta svona inn í sjónvarpsseríu og það var einmitt 24, enda um karlmann að ræða. Hann komst heill frá því og hjúkkan á ekki von á öðru hjá sjálfri sér. Nú er mál að koma sér af sófanum, gera sér grein fyrir því að Dr. McDreamy er bara eins og aðrir karlmenn og fara að sofa, því jú vinnan kallar á morgun :) Hafið ekki áhyggjur af hjúkkunni - hún er bara búin að horfa of mikið á amerískt sjónvarpsefni og verður orðin sjálfri sér lík á morgun :)

08/04/2007

Gleðilega páska!
Hjúkkan er þeirrar ánægju aðnjótandi að vera heima um páskana og hefur notað tímann vel til þess að detta algjörlega í Grey´s anatomy. Fyrir þá sem ekki vinna á sjúkrahúsum er bara eitt að segja - jú auðvitað er þetta alltaf svona þar!!! Alveg merkilegt hvað þessi þættir hafa bjargað hjúkkunni undanfarna daga frá alls konar vitleysu og bulli. Stundum getur verið gott að detta inn í sjónvarpið og missa þrívíddar sjónina sína :)
Annars er þetta líka nett mikið að gera þessa dagana í vinnunni og sér ekki fram úr því fyrr en undir lok apríl. En tíminn líður bara hraðar fyrir vikið og minni tími til að velta sér upp úr hlutum sem skipta minna máli. Þar sem lífið í dag gengur út á það að fá málshátt í páskaegginu sínu verður hjúkkan að segja frá litla leyndarmálinu sínu um páskaeggið í ár. Það var sem sagt ekki keypt og þar af leiðandi fékk hjúkkan engan málshátt. Ef það er einhver þarna úti sem vill gefa hjúkkunni sinn málshátt þá er bara að hafa samband :)

28/03/2007

Flugdagurinn ógurlegi!
Í morgun fór hjúkkan á fætur kl. 04:30 að staðartíma. Fyrir ykkur sem þekkið geðprýði hjúkkunnar í morgunsárið þá getið þið rétt ýmindað ykkur hamingjuna á staðnum. Jæja eftir góðan kaffibolla kom leigubílstjórinn og skutlaði gellunni út á flugvöll í eitthvað sem átti að vera mjög einfalt og þæginlegt. Ne-hei sú var nú aldeilis ekki reyndin!! Fyrir utan að margir flugvallastarfmenn í Bandaríkjunum virðast halda að farþegar séu að fara í gegn til að þjónusta þá en ekki öfugt, þá tók veðrið til sinna ráða og rústaði dagsplaninu. Hjúkkan var komin út í vél og vélin farin frá flugstöðvarbyggingunni á réttum tíma, og loks rétt fyrir flugtak var bara drepið á vélinni og farþegum tjáð að Chicago flugvelli hefði verið lokað vegna veðurs og við þyrftum að bíða í vélinni á flugbrautinni þar til frekari fréttir bærust eftir klukkutíma. Jú þá var búið að opna aftur og bara klukkutíma bið í viðbót eftir nýjum flugtakstíma!!! Frábært þar var farið að þrengja óhuggulega mikið að fluginu frá Minneapolis til Bemidji sem var eftir Chicago legginn. Til að gera langa og leiðinlega sögu stutta þá komst hjúkkan til Mpls 4 klst eftir áætlun, missti af fluginu sínu og fékk nýtt flug með 6 tíma bið á flugvellinum. Því er þessi færsla skrifuð úr Northwest lounge-inu á flugvellinum. Það er farið að styttast í flugið, bara 3 tímar og spurning um að koma sér bara á barinn!!!
p.s. Hvar er síminn þinn?????

26/03/2007

New Orleans!
Já hjúkkan lagði aldeilis land undir fót í þetta skiptið og er þessi færsla skrifuð úti á verönd á hótelinu í New Orleans. Eitthvað er wireless netið ekki á ná tengslum inni á herberginu hjá stelpunni og því þarf hún alltaf að setjast út í sólina við tölvuvinnu sína. Þingið er eins og þessi dæmigerðu þing, fullt af mönnum í jakkafötum (dökkbláum eða svörtum) og konum í missmekklegum átfittum. Þar sem hjúkkan tók með sér ein 8 pör af skóm hefur hún haft í nógu að snúast að skipta um skó svo allir fái notið sín.
Hér er sól og blíða og hitinn á þæginlegu bili um 25°C. Miðbærinn lítur ágætlega út og eiginlega eins og ekkert hafi gerst hér, en um leið og maður er kominn út fyrir túrista svæðin sést eyðileggingin berlega. Í gær var farið í skoðunarferð um svæðið og þvílík og önnur eins eyðilegging er bara ólýsanleg. Húsin yfirgefin og ónýt, vatnalínur enn sjáanlegar á húsarústunum og allt í ofboðslegri eymd á svæðinum utan við miðborgina. Hjúkkan var mjög djúpt snortin yfir þessu öllu saman og eftir fyrirlesturinn í dag um þetta allt þá sá hún að við höfum ekki yfir neinu að kvarta á Íslandi.
Það er nú samt eitt og annað sem veldur kátínu hér og þar á meðal eru sjálf-niður-sturtandi klósett á ráðstefnusenterinu. Ef maður er heppinn nær maður að standa upp áður en klósettið sturtar sjálft niður en verði einhver töf á því og klósettinu finnst maður búinn að sitja of lengi, þá bara kemur köld og blaut gusan beint á bossann. Það er fátt meira hressandi en það ekki satt :)

22/03/2007

Þá er hún farin!
Nú er svo komið að hjúkkan er farin af stað til New Orleans með viðkomu í Bemidji á leiðinni heim. Þið sem ekki náðuð að hitta hjúkkuna fyrir ferðina, eruð bara óheppin og verðið vonandi heppnari þegar hún snýr aftur. Samkvæmt veðurspánni er gert ráð fyrir fárviðri hér á landi en 25 stiga hita í New Orleans, þannig að hjúkkan kemur örugglega útitekin, kaffibrún og frekknótt tilbaka - gleymum ekki þykka og hrokkna hárinu :)
Hafið það gott á meðan elskurnar..