30/06/2007

Frekknótt og fersk!
Hjúkkan er að verða að einni frekknu eftir útilegu helgarinnar. Leiðin lá í Húsafell með góðra vina hópi og var þetta algjör snilldar útilega. Við strákarnir (hjúkkan, Maggi og Haffi) fórum í golf eftir tjöldun og stelpurnar (Höski, Þóra og Eyrún) fóru í göngutúr og höfðu til matinn á meðan. Eftir dásamlega grillveislu átti Nonninn komu ársins í útileguna - hversu margir koma bara á flugvélinni í Húsafell?
Börnin voru dásamleg og sannaðist það að það er nú lítið mál að skella sér í fjölskyldustemninguna í útilegu. Það voru helst börn annarra sem fóru í taugarnar á hópnum enda voru svona milljón fjölskyldur í Húsafelli þessa helgina.
Dagurinn byrjaði með nettu andláti úr hita inni í tjaldinu og svo tók við smá sólbað og sund. Skömmu eftir að sólbaðið hófst var hjúkkan brunnin og komin með sólarexem - ótrúlega sjarmerandi. Í staðinn var bakinu stýrt í sólina í sundinu sem þýðir að nú er hjúkkan að rembast við að koma after sun kreminu á bakið - ekki alveg það auðveldasta sem hjúkkan veit um. Hvar er hjálpin þegar svona stendur á??
Kvöldið fór í after-sun áburð og sófa með góðu teppi. Gert er ráð fyrir því að morgundagurinn fari líka í after-sun meðferð og afslöppun. Sem sagt yndisleg helgi og strax komin plön um næstu útlegu eftir viku. Maður þarf nú að viðhalda frekknunum og brúnkunni :)

20/06/2007

Erfiðir tímar!
Það eru ekki allir sem ganga um í dag og lýsa því yfir að vera stoltir KR-ingar. Hjúkkan er í hópi þeirra sem enn viðurkenna stuðning sinn við klúbbinn og finnst þetta orðið frekar grátbroslegt hvernig komið er fyrir liðinu í deildinni. Hjúkkan átti stuðningsviðtal við annan KR-ing um daginn þar sem rætt var meðal annars um möguleika á að styðja annan klúbb. Það er bara ekkert svo auðvelt! Maður slítur nú ekki strenginn við Frostaskjólið en það er allt í lagi að hafa "auka" uppáhalds lið sem maður getur alla vega glaðst yfir sigrum. En það er það pælingin hverja má maður styðja?
Gamla línan "Frekar dauður en rauður" lýsir vel hug manns til Vals, ekki er heldur inni í myndinni að fylgja Fram og hvað þá heldur Fylki. Þá er nú svo sem einn Reykjavíkurklúbbur eftir Víkingur sem er nú innan leyfilegra marka. Hjúkkan átti nú eitt tímabil sem vinstri bakvörður í 2. flokki hjá Víking og á enn keppnistreyjuna sína sem gerir það að verkum að Víkingur kemur sterkt inn. Hjúkkan er þó sífellt undir mikilli pressu á að fara bara að styðja hverfisliðið sitt - en það er einnig á bannlistanum, þó það sé í sömu litum og KR!!!!
HK og Breiðablik eiga jafnan sjéns og þá heldur HK þar sem það er alltaf gaman að fylgjast með nýliðum í deildinni.
Eins og staðan er núna er það bara Áfram Ísland fyrir leikinn á morgun og hitt verður að koma í ljós.

19/06/2007

Áfram stelpur!
Góðu konur - til hamingju með daginn! Hjúkkan var nú samt ekki alveg að fatta þetta í morgun og fór ekki í bleiku í vinnuna, en er í staðinn bara bleik í hjarta.
Hjúkkan er að missa sig þessa dagana yfir landsleikjum í hinum ýmsustu íþróttagreinum. Hún skellti sér með Hrönnslunni á landsleikinn í handbolta á 17. júní. Stemningin í Höllinn var ótrúlega góð og stelpan söng þjóðsönginn af miklum mæti. Reyndar gerði gaurinn sem sat við hlið hennar það líka og ekki vantaði innlifunina - en hann ætti allaveg ekki að hætta í dagvinnunni til að verða söngvari.
Þar sem kvennalandsliðið í fótbolta lagði Frakkana á laugardaginn er hjúkkan meira að segja að hugsa um að skella sér á leikinn þeirra á fimmtudaginn. Þær eiga svo aldeilis allt gott skilið enda eru þær að standa sig massa vel. Kannski að hjúkkan láti aðeins bíða með að skella sér á leik hjá KR - sem hjúkkan hefur nú fulla trú á fyrir leikinn á morgun á móti HK.
Jæja nú er mál að stelpast aðeins meira - allt að vera tilbúið fyrir brúðkaupið á laugardag og vonandi að það komi ekki upp fleiri óvænt atvik. Hjúkkan á bara eftir að redda sér hárgreiðslu!!!

16/06/2007

Varnarveggur!
Hjúkkan er þessa dagana að berjast við varnarvegginn sinn sem virðist hafa þést töluvert undanfarna daga. Hluti af veggnum virkar þannig að maður leyfir sér ekki að sína sitt rétt andlit og gefa þar með fólki kost á því að sjá hvernig manni í raun og veru líður. Það er sko ekki málið að stelpan sé skriðin í eitthvað þunglyndiskast - síður en svo, en veggurinn veldur því nefnilega líka að maður getur ekki sýnt góðu tilfinningarnar sínar heldur. Veggurinn í kemur í veg fyrir það að maður geti sagt fólki hversu vænt manni þykir um það og líka hvað það er sem hræðir mann. Já þetta er margslungið vandamál en stelpan er að reyna að höggva í vegginn og vonast til að komast í gegnum hann fljótlega. Allt hefur sinn tíma ekki satt?
Á meðan er nú hjúkkan ekkert lögst undir sæng enda komið sumar og sól (alla vega stundum sól). Hún dreif sig í golf á fimmtudaginn og getur næsti hringur ekki orðið annað er betri miðað við þennan. Jább 5 boltar týndir á 9 holum er nú ekkert sérlega glæsilegt, en þetta var nú fyrsti hringur sumarsins og því má ekki kvarta.
Vikan fer í vinnu, brúnkukrem (svo maður verði flottur í brúðkaupinu um næstu helgi), afslöppun og vonandi einn golf hring. Á morgun er kjóladagur á slysó enda stórhátíðardagur - stelpan verður á vaktinni í voðalega fína hjúkrunarkonu kjólnum sínum. Það er alltaf svolítið skemmtileg stemning þegar kjóladagarnir eru, allir voðalega fínir og hátíðlegir. Jæja nóg af bulli í bili - en ef einhver veit um stuðninsmannaklúbb í knattspyrnu sem vantar vanan stuðningsmann, bara senda stelpunni línu :)

12/06/2007

Óvinurinn sigraður!
Hjúkkan er nú alveg á því að sumarið sé komið. Í morgun skellti hún meira sér í pils, setti í sig linsur og hlammaði framan á sig sólgleraugum enda er hún að slá í gegn þessa dagana. Sem fyrr er það auðvitað eigin mat sem segir henni að hún sé að slá í gegneftir að hafa slegist við sláttuvélina, hirt um garðinn og horfst í augu við óvininn án þess að blikka.
Málið með óvininn er að í gærkvöldi var hjúkkan að gera sig klára fyrir bólið og var að bursta tennurnar. Hún var búin að hátta sig og gekk inn í svefnherbergi til að ná í vatnsglasið sitt. Þegar hjúkkan hafði tekið eitt skref inn í herbergið sá hún óvininn sem blákalt var að dunda sér við að vefa rétt við rúmstokkinn, á samt mjög fáránlegan hátt beint niður úr loftinu. Já góða fólk þetta var sem sagt feit og ljót könguló!!! Nettur hrollur fór um hjúkkuna en hún var nú ekki kát við að horfast í augu við þetta kvikindi og ákvað að nú hefði köngulóin gengið of langt!! Ef hún hefði bara ákveðið að gera þennan vef sinn annars staðar - væri hún enn á lífi í dag.... Jább hjúkkan er nefnilega orðin mjög góð í að farga köngulóm og líf þessarar hlaut skjótan endi. Þetta verður vonandi til þess að óvelkomin skriðkvikindi hugsi sig tvisvar um áður en þau ákveða að koma sér of vel fyrir á stöðum sem eru ekki til þess fallnir.
Ætli vinir köngulóarinnar séu núna að spá í hvar hún sé? Það gæti verið að þeir hafi allir ætlað að hittast í hádegismat og svo bara vantar einn í hópinn...

04/06/2007

Ótrúlega flott lag!
Hjúkkan var að hanga á netinu í kvöld og rakst á þetta líka flotta lag með hljómsveitinni Muse. Lagið er svolítið melankólískt og textinn eins og gerist bestur í rólegum og melankólískum fíling. Hjúkkan er svolítið aftanlega á merinni stundum hvað tónlist varðar og sennilega í þessu máli líka og þykir líklegast að þetta hafi verið mjög vinsælt fyrir nokkrum árum síðan.
Lagið heitir "Unintented" og er hægt að nálgast hér

http://youtube.com/watch?v=92wD8dQ_B54

Textinn er eins og í góðri dramatískri mynd

You could be my unintended
Choice to live my life extended
You could be the one I'll always love
You could be the one who listens to my deepest inquisitions
You could be the one I'll always love

I'll be there as soon as I can
But I'm busy mending broken pieces of the life I had before

First there was the one who challenged
All my dreams and all my balance
She could never be as good as you

You could be my unintended
Choice to live my life extended
You should be the one I'll always love

I'll be there as soon as I can
But I'm busy mending broken pieces of the life I had before

I'll be there as soon as I can
But I'm busy mending broken pieces of the life I had before

Before you

02/06/2007

Flenigen....
Hjúkkan er eiginlega smá flenigen í kvöld. Þetta er lýsingarorð sem lýsir svolítið einkennilegu ástandi. Maður veit eiginlega ekki hvernig maður á að vera, gera eða hugsa og gerir ekkert annað en að velta því fyrir sér. Svona ástand getur staðið yfir í stuttan tíma ef maður finnur sér eitthvað annað að gera en að velta því fyrir sér af hverju maður hafi ekkert að gera. Og viti menn - hér kemur krosssaumurinn að góðum notum. Jú maður er nú kannski pínu over-the-hill þegar laugardagskvöld fara í að sauma út en svona er nú bara lífið stundum.
Dagurinn í dag markaði 4 ára tímamót höfðu mikil áhrif á hjúkkuna. Þennan dag fyrir 4 árum síðan kvaddi hjúkkan einstakling sem snart líf hennar á ótrúlega marga vegu og var henni mjög mikilvægur. Það hefur margt gerst á þessum 4 árum og ótrúlegt eiginlega hvað tíminn hefur liðið hratt og margt breyst. Planið hefur breyst nokkrum sinnum og óvæntar beygjur hafa orðið á leiðinni. En hjúkkan er ákveðin í því að gera það besta úr aðstæðum hverju sinni og nýta hvert tækifæri til þess að þroskast og dafna :) Já eitt til að bæta við skýringar á flenigen - þegar maður er með flenigen þá verður maður stundum voðalega heimspekilegur og djúpt hugsi :)

01/06/2007

Flensuð!
Hjúkkan er eitthvað flensuð í dag og er við það að gefast upp á fótum sínum sökum beinverkja. Þetta er dagur 2 í þessum leiðindum og stemningin í Dofranum því ekki mjög mikil. Kvöldið fór í sófann enda lítið annað hægt að gera þegar maður er í svona ástandi. Nema hvað að hjúkkan var eiginlega búin að gleyma því hversu slæm sjónvarpskvöld föstudagskvöld eru. Maður á greinilega ekki að hafa gaman af því að njóta stundarinnar heima við sjónvarpið á föstudögum. Eftir góðan blund um eftirmiðdaginn þar sem hjúkkan var nú öll að koma til að eigin mati hófst áhorfið. Tveir þættir ef unglingaseríunni One Tree Hill sem einu sinni voru eðilegir þættir - en núna eru allir að lenda í fáránlegum lífsháska og mjög absúrd aðstæðum. Eftir tvo klukkutíma af unglingavandamálum hófst hinn ótrúlega kjánalegi Bachelor þáttur. Í þetta sinn er einhver gaur sem er með voðalega flott eftirnafn og á ógeðslega mikið af peningum að reyna að hössla kellingar. Í ofanálag er gaurinn víst með nafnbótina prins. Jú gellurnar voru alveg að missa sig yfir því að draumaprinsinn væri alvöru prins!!! Þetta fór fljótlega versnandi og kjánahrollurinn jókst samafara því. Þegar ein gellan hóf svo að syngja óperu af svölunum til að ná athygli gaursins varð kjánahrollurinn að aumingjahroll og hjúkkan óskaði þess heitast að þessi þáttur færi að taka enda. Maður getur svo sem sjálfum sér um kennt þegar maður situr sjálfviljugur fyrir framan tækið og gæti alveg slökkt á því eða teigt sig í fjarstýringuna.
Nú eru fæturinir alveg búnir að fá nóg og hjúkkan sér þann kost bestan að koma sér bara í háttinn.

27/05/2007

Fullorðins!
Hjúkkan uppgötvaði það í gærkvöldi að hún verður sífellt meira fullorðin. Því fylgir að lenda í alls konar einkennilegum aðstæðum og þurfa að finna hentugustu leiðina út úr aðstæðunum. Hjúkkan lenti einmitt í svona aðstæðum í gær og sér til mikillar hamingju fann hún að eigin mati flottustu leiðina úr þeim. Maður má ekki láta fullorðisaðstæðurnar fá á sig og muna bara eftir stigunum sem maður fær fyrir vikið.
Alla vega fór kvöldið í tvö afmæli, annars vegar hjá Óskarnum og hins vegar hjá Heiðu kokteilaklúbbs skvísu. Þar að auki var hjúkkunni boðið í innflutningsparty en komst því miður ekki þangað vegna anna í afmælunum. Leiðin lá meira að segja í höfuðborgina þar sem kíkt var á skemmtistað í miðbænum. Eftir að staðnum lokaði tók við ógleymanleg bið eftir leigubíl í skítakulda og þreytu. Hjúkkunni var kalt þangað um miðjan daginn í dag þegar hún fór að þvo og bóna bílinn sinn. Þegar á botnin er hvolft var kvöldið mjög áhugavert, fullorðins og kalt!!!

22/05/2007

New York Baby!
Já hjúkkan er komin heim úr vel heppnaðri ferð til New York ásamt vinnufélögum og alls konar fylgifiskum. Eftir að hafa blómstrað í hópeflisferðinni sbr. lýsingar hér að neðan var hjúkkan þeim mun brattar við niðurpökkun daginn eftir og var sko ekki lengi að koma sér í ferðagírinn. Einkennilegir hlutir áttu sér þó stað við pökkunina og fór nú einn skartgripur með í óskilum, en hann hafði aldrei komið til New York og var snarlega pakkaði niður í veskið þegar þetta uppgötvaðist :)
Í New York var auðvitað gengið um, spókað sig, verslað, drukkið gott hvítvín og nokkrir mojito svo eitthvað sé nefnt. Hjúkkan var með stáltaugar er hún steig upp í hjólreiðavagn í mikilli rigningu á leið á Broadway. Þetta var fyrst voðalega fyndið en svo þegar hjúkkan uppgötvaði að hólavagninn var inni í miðri umferð á Manhattan og þar keyra allir eins og hálvitar, leið hjúkkunni ekki betur. Höskuldur fékk að finna samhug "félaga" sinna þ.e. hjúkkunnar og eins makans í ferðinni þar sem hringt var í drenginn af Broadway við lítinn fögnuð hans.
Besta múvið í ferðinni var samt vakning hjúkkunnar á laugardagsmorgninum. Hún hafði stillt vekjaraklukkuna á símanum og svo fór allt í gang og aumingjans ferðafélaginn var rifin fram úr. Hjúkkan var ekki upp á sitt besta við svona vakningu og þegar hún sá að enn var dimmt úti var henni enn minna skemmt. Svo kom að því - hún leit á klukkuna í herberginu sem sýndi 04:36 en ekki 08:36 eins og síminn!!!! Hjúkkan fann aðra klukku sem einnig var 04:36, klóraði sér í hausnum og hringdi niður í lobbý og spurði hvað klukkan væri eiginlega. Jú hún var 04:36 og hjúkkan gólaði af gleði áður en hún skreið aftur upp í og hélt áfram að sofa í 4 dásamlega klukkutíma til viðbótar.
Hótelið var voðalega hip og kúl og var meira að segja einhver Gavin maður Gwen í herberginu við hliðina á stelpunum, sem höfðu ekki hugmynd um hvaða gaur þetta væri. Frúin hans var víst með tónleika í borginni á laugardagskvöldið.
Svo er nú bara eitt!!!! Hvað er málið með að koma heim úr næturflugi frá USA, úr sól og blíðu í tilheyrandi minipilsi og gallajakka og það er snjókoma úti!!!!!!!!! Þetta voru ansi kaldar mótttökur sem hjúkkan fékk við heimkomuna, það þurfti meira að segja að skafa bílinn!!!

17/05/2007

Hópeflisdrottningin!
Hjúkkan sannaði það í gær að hún er hópeflisdrottning ársins. Það var sem sagt hópeflisferð fyrirtækisins í gær og leiðin lá í Adrenalíngarðinn á Nesjavöllum þar sem mikið var reynt á taugar og þol manna. Allir komust heilir út og lá leiðin í Skátaheimili við Úlfljótsvatn þar sem etið var og drukkið. Fyrir matinn var auðvitað tekin smá fótboltaleikur og þar keppti hjúkkan stolt með "lituðum" á móti "svörtum" og í þokkabót var stelpan á háum hælum!!! Já hún þaut um völlinn enda á takkaskó :)
Mikið var dansað og fór frænkutríóið á kostum - auðvitað að eigin mat og komust aðrir ekki með tærnar þar sem vestfirsku fegurðardrottningarnar höfðu hælana. Leiðin lá loks í bæinn seint og síðar meir og fór nú hjúkkan beinustu leið heim, enda nóg að gera í dag.
Hún er sem sagt í þessum skrifuðu orðum að bíða eftir því að verða sótt til að komast í Leifstöð og þaðan til New York. Helgin verður tekin þar við mikla afslöppun ásamt svona basic New York things sbr. versla, kaupa skó, versla föt og borða.
Afmælisbörn dagsins fá auðvitað stórt knús og þúsund kossar og sérstaklega á þar í hlut Súper Svana sem var að rúlla inn í nýjan tug í dag :)
Nokkur afmæli eru næstu daga og sendir hjúkkan þeim sem þar eiga í hlut einnig knús og kossa.
Verið góð við hvort annað - ég er farin til New York......

09/05/2007

Ef ég væri þú....
Hjúkkan hefur undanfarna daga verið að velta nokkuð fyrir sér þeim ráðum sem við gefum öðrum í einhverri von um að viðkomandi nái nú að snúa vandamálum sér í hag eða komist í gegnum erfiða tíma. Flest eru þessi ráð auðvitað gefin af væntumþiggju og með góðum fyrirætlunum. En erum við ekki bara með einskæra forræðishyggju? Þurfum við í alvörunni að vera endalaust að gefa þessi óumbeðnu ráð og þykjast geta leyst vanda annarra þegar við kannski vitum ekki nema hluta af sögunni? Væri kannski réttast að spyrja fyrst - ,, má ég gefa þér ráð? " og halda svo áfram ef viðkomandi vill þiggja einhverja leiðsögn. Sum ráð eru líka á þann veg að sá sem þau fær upplifir sig sem algjöran aumingja sem ekki getur séð um sig sjálfur. Hjúkkan heldur að allir hefðu svolítið gott af því að kannski líta aðeins í eigin barm áður en maður smellir ráði í andlitið á einhverjum, þó manni þyki vænt um viðkomandi og vilji honum allt hið besta.

07/05/2007

Dagurinn í dag er dagur "ógeðslega flottra" og "andskoti klárra" kvenna.

Þekkir þú fínar dömur og alvöru konur í sundur?

Fínar dömur: Ef þú hefur ofsaltað matinn sem þú ert að elda, þá skaltu setja kartöflu í pottinn. Hún dregur saltið í sig.
Alvöru konur: Ef þú ofsaltaðir matinn er það bara assgoti pirrandi.
Fínar dömur: Það er auðvelt að lækna höfuðverk með því að skera límónu í sundur og nudda henni á ennið.
Alvöru konur: Taktu límónu og blandaðu henni við tekíla og salt og drekktu. Höfuðverkurinn hverfur sennilega ekki, en þér verður alveg sama.
Fínar dömur: Ef þú setur sykurpúða í botninn á vöffluformi, þá lekur ísinn ekki í gegnum það.
Alvöru konur: Sjúgðu bara ísinn úr vöffluforminu. Þú liggur hvort eð er örugglega með fæturna upp í loft í sófanum og borðar hann.
Fínar dömur: Þú getur komið í veg fyrir að kartöflur spíri með því að setja epli í pokann með þeim.
Alvöru konur: Kauptu karföflumúspakka, hann geymist í heilt ár í eldhússkápnum.
Fínar dömur: Kökur fá jafna, slétta áferð ef þú penslar þær með eggjahvítu áður en þær fara í ofninn.
Alvöru konur: Betty Crocker segir ekkert til um penslun á kökunni. Slepptu þessu bara.
Fínar dömur: Ef þú átt erfitt með að opna sultukrukku er gott að setja á sig gúmmíhanska. Þannig færðu betra grip..
Alvöru konur: Biddu myndarlega, ríka og einhleypa nágrannann um að opna krukkuna!
Fínar dömur: Ekki hella afgangs rauðvíni. Það má frysta í ísmolabakka og nota í sósur seinna.
Alvöru konur: Hvað er afgangs rauðvín?

Jæja hvorn hópinn teljið þið að hjúkkan samsvari sér við???

06/05/2007

Einstaklega góður dagur :)
Sunnudagur til sælu eru svo sannarlega orð í tíma töluð. Já sunnudagurinn í dag hefur verið einstaklega góður í lífi hjúkkunnar. Eftir ljúfan nætursvefn var hún vöknuð fyrir allar aldir ( já - án vekjaraklukku kl. 09:30). Hún reyndi að neita að horfast í augu við vökunina en það var ekki aftur snúið þegar hún var kvött til þess að hundskast á fætur og drífa sig á golfvöllinn. Eftir smá mas lét hjúkkan til leiðast og dreif sig út á Hvaleyri til að æfa pútti og chippið og svo auðvitað taka eina fötu. Að því loknu var varla komið hádegi og yfirleitt sá tími sem hjúkkan skríður fram úr um helgar en nú var bara fullt eftir af deginum. Því renndi hún í Brekkuselið og þreif bílinn hátt og lágt að innan sem utan (þvottur með svampi og alles og bón líka) þar sem hún var enn í ofvirkni kasti ákvað hún að taka til í garðinum hjá foreldrunum og loks grilla ofan í þau kvöldmatinn.
Bestu fréttir dagsins komu svo um eftirmiðdegi -
MANCHESTER UNITED ER ENGLANDSMEISTARI!!!!!
já þið öll sem höfðu ekki trú á okkur, haha við erum lang best!! Eftir þetta ofvirkni kast lá leiðin heim í freyðibað og afslöppun. Á morgun fær svo hjúkkan reiðhjólið sitt sem hún keypti fyrir helgi og verður því hjólandi alla vikuna :)

01/05/2007

Ný upplifun og fullt af stigum!
Hjúkkan prófaði í kvöld Sushi í fyrsta skiptið um ævina. Þetta voru Ninja bitar sem eru samsettir úr túnfiski og einhverju fleiru gómsætu. Hjúkkan borðaði meira að segja dæmið með prjónum og allt - án þess að valda sjálfri sér eða þeim sem í kringum hana voru skaða. Þetta eru nú nokkur fullorðinsstig sem maður fær með þessu ekki satt? Domo er alveg nokkuð hip og kúl staður og alveg óhætt að fara þangað að borða.
Í gegnum máltíðina fékk hjúkkan reglulegar upplýsingar um gang mála í Meistaradeildinni og verður nú hjúkkan að lýsa yfir hamingju sinni með úrslit kvöldsins. Það verður sko ekki leiðinlegt að vinna Liverpool í úrslitaleiknum :) Annars virðast Liverpool aðdáendur skjótast upp allt í kringum hjúkkuna og má hún hafa sig alla við í baráttunni. Annað kvöld er svo planaður sófi og leikur og biður hjúkkan þá sem hana þekkja að vera ekki að trufla hana milli 19 og 21 nema viðkomandi vilji hljóta verra af...

30/04/2007

Aldurstengd tilverukrísa!
Hjúkkan var að horfa á fréttir í kvöld þegar kynntur var til sögunnar nýr forstjóri Glitnis. Jú drengurinn sem reyndar með einhvern fönkí lit á hári - vonandi er þetta bara nátttúrulega grátt en ekki einhver tískuyfirlýsing, er einu eða tveimur árum eldri en hjúkkan. Hann þjáist reyndar af þágufallssýki en það svo sem skiptir sennilega minna máli í nýja jobbinu hans. Fréttir varð til þess að hjúkkan fór í smá aldurstengda tilverukrísu eins og gengur og gerist þegar maður fer að telja fullorðisstigin sem maður er komin með. Í ansi skemmtilegu samtali um daginn kom það í ljós að maður fer í raun ekki að safna fullorðinsstigum fyrr en eftir þrítugt - því er hjúkkan enn á unglingastigum :) Þar sem maður er enn á unglingastigum þá hefur maður sem sagt leyfi til að gera nokkurn vegin það sem manni sýnist ekki satt?

29/04/2007

Sunnudagur til sælu!
Sunnudagurinn í dag hefur aldeilis verið til sælu hjá hjúkkunni. Ráðstefnunni lauk í gær og var slúttið í Perlunni þar sem hjúkkan varð nú vör við smá sjóriðu yfir matnum. Þannig er mál með vexti að gólfið snýst (reyndar löturhægt) en nógu mikið til þess að maður finnur yfir smávægilegri ólgu innra.
Planið fyrir daginn í dag hafði verið að sofa og slaka á - og það var nákvæmlega það sem hjúkkan gerði. Hún skreið seint á fætur eftir góðan svefn og dundaði sér frameftir degi við að horfa t.d. á snilldarmyndina Cats and Dogs á RUV. Það sannaðist fyrir hjúkkunni eina ferðina enn að myndir með talandi dýrum eru bara snilld!! Svo ekki sé talað um þar sem kettir og hundar berjast um heimsyfirráð :)
Kveðju var kastað á nokkra ættingja í afmæli um seinni partinn og að því loknu tók þéttur sófi við hjá hjúkkunni. Hún er reyndar pínu hölt í dag þar sem hún varð fyrir naglaklippu - slysi í gær þegar hjúkkan framkvæmdi fótsnyrtingu á sjálfri sér. Eitthvað var smá hluti af nöglinni á litlu tánni að stríða stelpunni þannig að hún kippti nokkuð hressilega í hlutann og má þakka fyrir að einhver hluti sé eftir af litlu tánni. Til að stöðva blæðinguna skellti hjúkkan bara smá naglalakki á dæmið og það virkaði takmarkað - en ef þið viljið upplifa sviða, þá er þetta örugg leið.
Vikan framundan verður nokkuð rólegri en sú síðasta og auðvitað hápunkturinn er á miðvikudaginn þegar seinni leikurinn hjá hetjunum í Utd er. Auðvitað er það bara prinsipp mál að klára leikinn enda verðum við þrefaldir meistarar í ár :)

27/04/2007

Nýtt lúkk!

Hvað er annað hægt að gera þegar manni leiðist heima á föstudegi en að breyta lúkkinu á síðunni? Gamla lúkkið var líka orðið svolítið þreytt - en veit ekki alveg hvort litirnir séu að meika það hér. Fylgist vel með því það er aldrei að vita hverju hjúkkunni dettur næst í hug að breyta :)
Með rugluna!
Hjúkkan er komin með rugluna eftir langan dag á Nordica. Hún var að horfa á fréttir áðan og fór að velta því fyrir sér af hverju Samtökin ´78 heita það en ekki til dæmis Samtökin´80 eða ´79?? Veit einhver af hverju svona er að máli komið??

26/04/2007

Maraþon dagar!
Þessa dagana er hjúkkan á hlaupum og í nettum loftköstum þar inn á milli. Ástæðan liggur í ráðstefnu sem hjúkkan er með um helgina þangað sem 400 þátttakendur af Norðurlöndunum koma. Allt er að ganga upp og hjúkkan bíður bara eftir því að klára dæmið með stæl. Smávægilegir örðugleikar hafa komið upp s.s salurinn sem maturinn átti að vera í á föstudag er ekki tilbúinn (vantar glugga og gólf) !!! En hjúkkan lætur ekkert stöðva sig og er í blússandi gír fyrir þetta allt saman.
Sunnudagurinn fer svo í svefn, almenna gleði og afslöppun enda næsta heimsókn útlendinga strax á þriðjudaginn, en þá koma stjórarnir frá Danmörku. Jább nóg að gera hjá stelpunni sem er enn að næra nýja mojoið og læra hvernig eðlilegir hlutir virka :)