30/10/2008

Áfram stelpur!!!
Hjúkkan er himinlifandi yfir árangri kvennalandsliðsins í knattspyrnu í dag. Þvílíkt flottar stelpur sem eru sannarlega búnar að pakka karlalandsliðinu í rassvasann með sínum árangri. Hugsa sér að Ísland sé á leiðinni á EM í knattspyrnu - þvílíkur árangur hjá þeim. Að mati hjúkkunnar væri ekkert eðlilegra að hennar mati en að það fjármagn sem átti að skipta milli landsliðanna í knattspyrnu á næsta ári renni nær eingöngu til kvenna liðsins. Strákarnir verða bara að sýna að þeir séu einhvers virði!
Nú er bara að byrja að telja niður á EM og koma sér í réttu stemninguna :)

22/10/2008

Hjúkkan á ferð og flugi...
Þessa dagana er hjúkka lítið fyrir að vera heima hjá sér enda nóg að gera á öðrum vígstöðvum. Eftir stutt stopp í Köben í tvo daga þar sem manni leið eins og útigangsmanni lá leiðin til Ísafjarðar. Það leit vel út með flugið til að byrja með en greinilega var nú orðið aðeins hvassara þegar gellan lenti í Skutulsfirðinum. Vélin kastaðist örlítið til en ekkert alvarlega en samt var nú einhver miðaldra kjella með angistaróp í farþegarýminu - manni langaði eiginlega að benda henni á að hún væri jú að lenda á Ísafirði í miðjum október....
Þetta hjúkkan pæjaðist út úr flugvélinni í ullarkápunni og háu hælunum kom ansi hressileg vindkviða. Viti menn hjúkkan tókst af stað og stýmdi frekar stjórnlaust á flugstöðva bygginguna. Hún íhugaði að skriðtækla samfarþega til að draga úr ferð sinni en ákvað að sleppa því og krípa frekar í vegglufsu sem var við dyrnar og komst því nokkuð heil inn. Þetta flug hennar vakt nokkra kátinu a meðal farþega í biðsalnum en hjúkkan brosti bara sínu blíðasta og benti á ókosti þess að vera á háum hælum í hálku og roki...
Nú er bara að láta daginn líða og sjá svo bara til hvort og hvenær hún kemst aftur heim :)

02/10/2008

Fullorðins?
Hjúkkan liggur heima í flensu og sér til lítillar hamingju sá hún að stefnuræða forsætisráðherra væri á dagskrá RÚV í kvöld. Fram að þessu hefur þetta verið dagskrárliður sem hjúkkan hefur forðast af öllum mætti að horfa á en í kvöld ákvað hún að sjá hvað þessir blessuðu stjórnarstrumpar hafa að segja um ástandið og framhaldið. Viti menn þetta er mögnuð upplifun og barasta ágætis skemmtun. Á sama tíma er hjúkkan búin að ræða innihald stefnuræðunnar við tvo félaga sína og að því loknu uppgötvaði hún hversu fullorðins þetta sé. Maður er greinilega ekki lengur kærulaus unglingur sem hefur engan áhuga á stjórnmálum. Já það fullorðnast flestir einhvern tímann.

30/09/2008

Hjúkkan orðin iðnaðarmaður á nýjan leik!
Hjúkkan hefur undanfarin 2 ár verið í nokkurs konar baráttusambandi við svalarhurðina sína, eða öllu heldur hurðahúninn og lokunardæmið á henni. Á sumrin hefur þetta verið til friðs en um leið og kólnar fór þetta alltaf í rugl og hefur kostað nokkur slagsmál við hurðina. Á einum tímapunkti varð þetta til þess að hurðahúnninn var rifinn af og í næstu lotu brotnaði draslið!! Jú hjúkkan keypti nýjan hurðahún og hélt að málið væri leyst. Nema hvað um leið og kólnaði fyrir nokkrum dögum fór allt til fjandans á nýjan leik. Hjúkkan reyndi að tala læsinguna til og var búin að skilgreina þetta sem skammdegisþunglyndi í læsingunni. Viti menn - í gær átti hjúkkan leið um bensínstöð og ákvað að splæsa í lítinn brúsa af WD40. Þegar heim var komið var Sex and the City myndinni hent í DVD spilarann, pepsí max skutlað í glasið fullt af nammi étið. Eftir þessi kósílegheit dró stúlkan upp WD40 brúsann og spreyaði á læsingarnar á hurðinni. Viti menn - læsingin eins og ný og hjúkkan sér ekki fram á slagsmál í vetur :) Kannski maður finni eitthvað annað til að sprauta þessu ótrúlega efni á??

12/09/2008

Tónlistarlega skemmd vegna Icelandair!
Hjúkkan lá í makindum sínum og horfði á Kastljósið rétt í þessu og var þar verið að ræða um myndlistasýningu á Listasafni Íslands. Það var nú svo sem ekki það sem olli hugarangri hjá hjúkkunni heldur tónlistin sem spiluð var undir kynningunni. Angurvær stef úr Vísum Vatnsenda Rósu voru meðal annars spiluð á píanó og hjúkkan fór að hugsa af hverju þetta væri svona kunnuleg útsending og flutningur. Jú viti menn - þegar maður sest inn í vél hjá Icelandair annað hvort á útleið eða heimleið ómar þetta lag og fleiri í svona útsetningu. Það er orðið sama sem merki hjá hjúkkunni við nokkur falleg íslensk lög og flugvélar Icelandair. Hjúkkan hafði meira að segja eldað sér Gordon Blue í kvöldmat þannig að stemmarinn var alveg eins og í gamla daga á leið heim frá Evrópu!!!!!

08/09/2008

Hjúkka á hlaupum, göngu og tjútti!
Það er lítið af daufum mómentum í lífi hjúkkunnar þessa dagana. Eftir góða en strembna viku í Munchen lá leiðin í ofvirkni dag með FNYKs hópnum. Þessi ótrúlegi hópur, sem er saman settur af fólki sem virðist eiga það sameiginlegt að finnast við flottari en almennt gengur og gerist, dreif sig í þríþraut s.l laugardag. Dagurinn hófst með 10km hlaupi á Selfossi, næst lá leiðin á Litlu Kaffistofuna þar sem þeir sem sáum um matarinnkaupin mættu á svæðið, Vífilsfell var gengið upp og niður og svo var farið í dinner & drinks.
Nú fer sennilega að róast lífið í kringum hjúkkuna enda farið að hausta og minni tækifæri til ofvirkni á fjöllum og hlaupum. Engar utanlandsferðir eru fyrirsjáanlegar fyrr en í desember þegar New York verður mössuð...
Haustið er uppáhalds tími hjúkkunnar með sínum fallegu litum og haust lyktinni. Ekki má samt skilja þessa yfirlýsingu sem svo að hjúkkan sé að missa sig úr hamingju yfir roki og rigningu, en inn á milli koma fallegu dagarnir. Það er bara að hafa mottó hjúkkunar ofarlega... alltaf með sól í hjarta..

20/08/2008

Hróp og köll á hótelherbergi!
Hjúkkan vaknaði snemma í morgun þrátt fyrir að vera stödd í Kaupmannahöfn og ákvað að taka sjénsinn og sjá hvort leikurinn væri í beinni. Viti menn Eurosport sýndi leikinn beint og hjúkkan ákvað að slá til og þenja taugarnar. Það var nú með sanni sagt - stelpan horfi á fyrri hálfleik, hljóp fram í morgunmat í hálfleikshléinu og var komin aftur inn á herbergi fyrir síðari hálfleik. Þegar mikið reyndi á hrópaði hjúkkan og kallaði hvatningarorð á sjónvarpið sitt, þess á milli fór hún inn á bað til að róa sig.... tók sem sagt nettan Óskar :) Það var nú orðið nokkuð tæpt að ná því að mæta á fundinn á réttum tíma en það var bara ekki hægt að fara fyrr en að leik loknum.
Danirnir biðu spenntir eftir sínum leik og voru ansi daprir þegar í ljós kom að þeir væru ekki að fara áfram í undanúrslitin - hjúkkan sýndi samhyggð og benti þeim á að nú gætu þeir bara haldið með Íslandi :)
Það sem var líka ótrúlega skemmtilegt við að horfa á leikinn á Eurosport voru dramatískar lýsingar bresku þulanna á íslensku leikmönnunum. Þeir áttu ekki til nógu sterk lýsingarorð yfir Sigfús Sigurðsson og bættu því við að þeir myndu ekki vilja mæta honum í dimmu sundi.....
Leiðin lá aftur heim í kvöld enda farið að styttast í Reykjavíkurmaraþonið. Á laugardaginn ætlar hjúkkan að "skokka" 21.1km til styrktar Heilaheill. Andlegi undirbúiningurinn er hafinn og nú er bara að taka Óla Stef á þetta allt saman :)

13/08/2008

Hreyfingaleysi í Ráðhúsinu!
Hjúkkan er nú sem fyrr ekki stödd á landinu þegar allt virðist vera á leið til fjandans eina ferðina enn í þessu endalausa klúðri borgarstjórnarflokkanna. Að mati hjúkkunnar ætti að nú einhver með viti að standa upp og segja öllu þessu liði til syndanna og koma á nýjum kosningum. Það er hvort sem er enginn stuðningur lengur við nokkurn mann eða konu í þessum hópi!!! Alveg með ólíkindum þessi endalausa saga. Ef þetta væri fyrirtækjarekstur væri löngu búið að kippa í taumana og snúa þessu við.
Hjúkkan situr nú á hótelinu sínu og er að horfa á kvöldfréttir á netinu. Síðast þegar hún vissi voru bara í mesta lagi 3 hæðir í ráðhúsinu..... af hverju í ósköpunum getur þetta lið ekki gengið upp stigana?? Eru þessir einstaklingar ekki með fætur og ekki allir svo voðalega fit, ný mynduð og glansandi fín? Það er hálf bjánalegt að fylgjast með öllu þessu liði ganga inn í lyftu til að fara alveg upp um eina hæð - úh eða alveg tvær! Já það er ekki laust við það að hjúkkan sé nett pirruð út af þessu máli og er svo hæst ánægð að hún býr í Fallega Firðinum og sér bara alls ekki ástæðu til þess að flytja aftur í borgina að svo stöddu.

10/08/2008

Best að vera ekkert að flækjast fyrir sjálfri sér!

Það er nú ekki á hverjum degi sem maður fær svona stjörnuspá:

Sporðdreki: Þú ert mjög aðlaðandi núna. Það erfiðasta sem þarf að gera til að viðhalda því er að gera ekki neitt. Ekki vera fyrir sjálfum þér, leyfðu náttúrulegu afli þínu að geisla.

Jahá - á maður þá ekki bara að skella sér út og njóta þess :)

06/08/2008

Raunveruleikinn á nýjan leik!
Hjúkkan er búin í sumarfríi og því hefur raunveruleikinn tekið aftur við. Það var nú bara ljúft að ganga aftur inn á skrifstofuna góðu og setjast í stólinn sinn. Auðvitað var himinn hár bunki af ólesnum pósti, tímaritum og greinum en það er eitthvað til að berjast við með haustinu.
Hjúkkan kláraði síðustu helgina í fríinu á smá flakki þar sem línuskautar voru teknir fram, útilegugírinn massaður og svo kíkt á Lovísu systir og fjölskyldu sem voru á Unglingalandsmótinu.
Í línuskautatúrnum komst hjúkkan að einfaldri staðreynd um eigin hæfni á línuskautum. Hjúkkan á erfitt með að beygja hratt en getur það þó - án þess að tapa miklum þokka! Hins vegar urðu nokkrar brekkur á leiðinni til þess að hjúkkan týndi smá þokka. Í fyrra brekkunni var gömul kona í skærbleikum jakka neðst í brekkunni... jú hjúkkan vissi af bremsu hæfileikum sínum og sá þann kost bestan að rúlla sér út á grasið til þess að lenda ekki á gömlu konunni og brjóta á henni mjöðmina. Þetta vakti nokkra kátinu hjá viðstöddum... Næsta brekka var eiginlega verri! Jú ekki var bara ein gömul kona heldur var hún að keyra enn eldri konu í hjólastól og til að gera illt verra - þá endaði brekkan í beygju!! Nú voru góð ráð dýr.. íþróttaálfurinn rúllaði niður brekkuna eins og fagmaður en hjúkkan panikkaði og stímdi að þessu sinni inn í runna. Jú maður getur ekki verið þekktur fyrir að keyra niður tvær gamlar konur ( plús hjólastólinn )!!! Þokkinn var ekki mikill yfir hjúkkunni þegar hún steig út úr runnanum aftur, hún brosti blíðlega til kvennanna tveggja, bauð þeim góðan daginn og kom sér af stað niður brekkuna. Ekki vakti þessi frammistaða minni kátinu en sú fyrri!!! En allt endaði vel og hjúkkan komst heil heim.
Nú fer að líða að Köben og svo hlaupinu langþráða - en stelpan er komin með 3 markmið fyrir hálf maraþonið sem á að takast á við... Þetta á allt eftir að ganga upp og hjúkkan bíður spennt eftir haustinu.

29/07/2008

Sumarfríið bráðum búið!
Hjúkkan er að klára fríið sitt undir lok þessarar viku og er nú komin með nettan aðskilnaðarkvíða við fríið. Þetta frí hefur verið langbesta sumarfrí sem hjúkkan hefur átt í ára raðir og það er eiginlega erfitt að finna það sem stelpan hefur ekki lagt sér fyrir hendur. Sæl og freknótt kemur hún til með að rúlla í hlaðið á Hörgartúninu á föstudagsmorgun, með hlaupagallann í bílnum og til í tuskið.
Þessa dagana er verið að slaka á, taka hlaupaæfingar og njóta lífsins. Í dag var einmitt ofurfrænku æfing á hlaupum og leit það ferkar illa út á tímabili. Þar sem sólin skein ansi skært og þvílíki rakinn myndaðist í Fossvogsdalnum, var um lítið annað að ræða en að fækka fötum. Nei dónarnir ykkar þetta varð ekkert "naked run" en úff verð nú að viðurkenna að manni langaði virkilega að henda sér í lækinn á leiðinni upp að Víkinni. En þetta hafðist að lokum....
Þá er bara spurning hvar maður verður um Verslunarmannahelgina??

20/07/2008

Fullkomlega frábær helgi að baki!
Hjúkkan situr nú í Dofranum þreytt en fullkomlega sæl og hamingjusöm eftir frábæra helgi fyrir vestan. Það voru nokkrir sem töldu að nú væri stelpan endanlega búin að tapa sér þegar hún ákvað að keyra á Þingeyri til þess að hlaupa 12 kílómetra eftir illfærum vegi. Jú stelpan skellti sér nefnilega í hlaup sem kallast Vesturgatan og fór fram um helgina. Um var að ræða 24km eða 12 km eftir strandveginum úr Arnarfirði yfir í Dýrafjörð í þvílíkri náttúrufegurð og dramatík. Þessi leið er dramatísk þar sem maður hleypur á vegbrúninni og horfir bara niður í þverhnýpið ef maður stigi of langt til hliðar. Hlaupið var frábært og hjúkkunni leið eins og í draumi mestan hluta leiðarinnar. Það var "brekka dauðans" undir lok hlaupsins sem var bara til þess að gera manni lífið leitt en endaspretturinn niður brekku og stelpan hljóp upp einn keppanda og framúr honum við endamarkið.... bara æðislegt. Staðfestur tími hefur ekki verið gefinn upp en Garmin tíminn er 1:12:50 og svo er bara að sjá hvað formlegur tími segir til um.
Eftir hlaupið fóru hlauparanir að tjöldunum, grilluðu og nutu þess að vera til. Sigur tilfinningin var engri lík og þess valdandi að nú er stelpan búin að ákveða að fara hálft maraþon í ágúst. Elín "Rocky þjálfari" á sannarlega heiður skilið fyrir allt púlið sem hún hefur látið hjúkkuna þrauka og skilaði sannarlega sínu um helgina.
Eftir niðurpökkun á tjaldi og dóti lá leiðin á Meðaldalsvöll þar sem Golfklúbbur Þingeyrar hefur aðsetur og 9 holur spilaðar. Það hefur verið látið uppi að 7. holan á vellinum sé ein sú fallegasta á landinu og það eru engar ýkjur. Hringurinn var góður 58 högg ( tvær holur eyðinlögðu allt...) og hjúkkan kláraði að gera allt sem hún lofaði sér að gera um helgina. Sökum leiðinlegrar veðurspár ákvað hjúkkan að "rúlla" í bæinn í dag frá Þingeyri - eftir 7 og hálfa klukkustund í bíl var hún mjög hamingjusöm þegar hún kom í Dofrann. En þvílíkt sem það er fallegt fyrir vestan. Næsta sumar verður tekið að einhverju leiti þar - það var ákveðið í dag.
Nú er afslöppun næstu daga enda sumarfríið enn í gangi og ekkert stress.
Hamingjuóskirnar fá Bragi og Vaka sem voru að eignast lítinn prins :)

09/07/2008

Icelands next top negotiator!
Hjúkkan er nú að huga að nýjum starfsferli - þar sem hún er orðin svo vön sjónvarpsmyndavélum er bara spurning um það hvernær fyrirsætu ferillinn hefst :) Það rigndi inn hamingjuóskum með gott lúkk í 10 fréttum sem er sennilega það næst sem hjúkkan kemst 15 mínútna frægð sinni .... Reyndar kom frekar fyndið fréttaskot á stöð 2 í kvöld þar sem sýndar voru myndir af fundunum og á meðan hjúkkan var á skjánum segir fréttagaurinn að "töluvert eggjahljóð" væri í samninganefndinni. Já það var hlegið af þessu og ýmsar spurningar vöknuðu um einhleypu og barnlausu konuna í nefndinni...
Gleðin er auðvitað mjög mikil hjá hjúkkunni núna þar sem hún er búin að eyða síðustu 3 dögum innan dyra hjá Ríkissáttasemjara í viðræðum við samninganefnd ríkisins. Öllum til mikillar hamingju náðust samningar í kvöld og því þarf hjúkkan að finna sér eitthvað annað að gera á morgun en að mæta í Borgartúnið. Einhvern veginn verður það sennilega lítið mál - enda búin að skipurleggja hlaup klukkan 11:45 og svo þarf að reyna að massa aftur brúnkuna :)

07/07/2008

Nýtur lífsins í fríinu!
Hjúkkan er aldeilis að njóta lífsins í sumarfríinu. Gamla mítan sem fylgdi hjúkkunni í mjög mörg ár sem fólst í því að veður var almennt vont þegar hún var á Íslandi í sumarfríi er gjörsamlega farin og hjúkkan auðvitað ferknóttari með hverjum deginum.
Helginni var eytt í góðum félagsskap í Munaðarnesi þar sem hjúkkan ákvað nú að massa tanið - enda blíðan til þess. Eitthvað voru nú fæturnir á stúlkunni næpuhvítir með nettum bláma enda hafa þeir ekki séð sólarbirtu í langan tíma. Sólarvörn var auðvitað notuð í brúnkumeðferðinni en þar sem fæturinn "verða ekki brúnir" þá var auðvitað ekki ástæða til þess að setja nokkuð á þessa fallegu leggi... Nema hvað þegar að kvöldi var komið fór að kræla á þó nokkurri hitatilfinningu sem kom frá sköflunum stúlkunnar. Henni til ómældrar hamingju virðist sem að fæturnir verði jú líka fyrir sólargeislum þegar maður massar brúnkuna og var ekki komist hjá því að viðurkenna sólbruna á sköflungum. Einhverjum til nokkurrar gleði þá hafa freknurnar á hnjánum aukist við þessi tilþrif!
Dagurinn í dag fór nú ekki í brúnkumeðferð enda var deginum eytt hjá Ríkissáttasemjara ásamt samninganefnd hjúkrunarfræðinga. Það var nú samt ótrúlegt hvað dagurinn leið hratt og á morgun verður næsti fundur. Hjúkkan var búin að leggja alla drauma um golfhring á hilluna þegar hún fékk svo gylliboð um einn hring eftir kvöldmat og auðvitað var heimavöllurinn heimsóttur. Setbergsvöllurinn hefur sjaldan eða aldrei hirt jafnmarga bolta af hjúkkunni sem þó var að spila sómasamlega - There always room for improvement!!!!
Jæja best að henda sér í ból enda nóg að hugsa um á morgun.
Afmælisbarn dagsins 07/07 er of course Karaoke drottningin og íþróttafréttaritarinn Lovísa - Til hamingju með afmælið :)

01/07/2008

Fjallageitin Fríða komin til byggða!
Hjúkkan hefur skilað sér til byggða eftir frábæra 5 daga í Kerlingafjöllum. Á föstudaginn var nú bara skutlast upp eftir og skálinn mátaður.
Á laugardaginn var Blágnípa (1076m) sigruð ásamt eiini jökulá sem var vaðin og melar dauðans sem voru arkaðir. Hjúkkan tapaði gleðinni á leiðinni tilbaka og voru síðustu 3 km af 24 sem farnir voru þanna daginn bara farnir á hnefanum og tuði við sjálfa sig. Hjúkkan bauð ekki öðrum uppá að þurfa að hlusta á sig á þessum hluta leiðarinnar. Gleði fannst að nýju þegar bjórinn var opnaður eftir gönguna :) Það snjóaði á laugardagskvöldinu!!!
Sunnudagurinn var rólegur, bara 3 klst ganga um hverasvæðið enda skyggni slæmt, rok og rigning og frekar fúlt að hanga utan á fjalli. Aftur tekinn bjór um kvöldið...
Mánudagurinn var dagur sigurvegaranna!!! Þessi dagur byrjaði með sólskini og rjómablíðu, því var ákveðið að fara fjallahringinn góða sem átti að vera á dagskrá deginum áður. Dagurinn byrjaði á Fannborg (1448m) sem var yndislegt. Útsýnið fallegt og stemningin góð. Baráttan hélt áfram og næsti toppur var Snækollur (1503m skv gps tæki á staðnum) og þar var logn og brilljant útsýni yfir allt landið. Þvílíkt fallegt að horfa yfir svæðið og horfa á næsta tind sem átti að sigra, sjálfur Loðmundur (1426m). Loðmundur reyndist persónulegt markmið og var þetta ekki fyrir alla. Þrehnípt klifur efst í fjallinu og fjallið hulið lausu og oddhvössu grjóti. Á þessu fjalli sigraðist hjúkkan á sjálfri sér og komst að því að hún er í fanta formi og kallar ekki allt ömmu sína. Hjúkkan kom ekki bara sjálfri sér á óvart heldur einnig Fribbanum sem hafði greinilega ekki átt von á þessari massívu frammistöðu hjá stelpunni - bara gaman! Það er ekki spurning um hvort heldur hversu margar freknur bættust við í andlit stelpunnar. Ef það er einhvern sem finnur hjá sér þörf til þess að koma og telja þær þá er það þess vandamál :)
Nú er heim komið og hjúkkan finnur enga sérstaka þörf hjá sér til þess að fá sér flatkökur með hangikjöti eða smurkæfu og hvað þá heldur að renna niður einni Kókómjólk!
Nú er málið að massa sumarfríið - nú á golfið næstu daga og svo er það auðvitað Vesturgatan sem þarf að hlaupast í gang. Góðar stundir :)

26/06/2008

Sumarfrí!!!!
Í dag kvaddi hjúkkan móttökudömuna með þessum orðum " ég er farin, sjáumst eftir Verslunarmannahelgina" og svo brosti hún út að eyrum, skottaðist brosandi út í bílinn sinn og brosti með öllum líkamanum. Þetta er í fyrsta sinn í sögu hjúkkunnar sem hún tekur sér svona langt frí í einum rikk. Í fyrra átti hún bara hálft frí þar sem hún var frekar nýbyrjuð í vinnunni og þar áður hætti hún á slysó og byrjaði í næstu vinnu 2 dögum síðar.
Nú er sem sagt ekkert nema hamingjan í gangi yfir fríinu og frjálst að gera það sem hún vill. Fyrstu dagarnir fara í gönguferð í Kerlingafjöll og svo er það bara það sem hugann girnist að gera :) Alveg yndislegt!!! Þórsmörk og off road hlaup á Vestfjörðum eru meðal þess sem eru á dagskrá og svo auðvitað að massa golfið!
Hjúkkan er búin að secreta sólina og panta hana út júlí þannig að þið þurfið ekki að hafa neinar áhyggjur af því að veðrið fari að versna. Njótið sumarsins og sólarinnar... og svo má alls ekki gleyma "stelpunum okkar". Þvílíkt flott landslið sem við eigum þar á bæ. Þessar stelpur eru gjörsamlega búnar að taka karlalandsliðið og sturta því niður klósettið! Go Girls!!

23/06/2008

Ferðafélagið Fnykur!
Hjúkkan hóf ferðasumarið með frábærra göngu yfir Fimmvörðuhálsinn aðfaranótt laugardags. Þetta er svokölluð Jónsmessuferð Útivistar og því er gengið alla nóttina. Ferðin var algjörlega frábær í alla staði, veðrið brilljant og félagsskapurinn illa flippaður enda meirihlutinn samstarfsfólk hjúkkunnar. Það var ótrúlega góð tilfinning að koma niður í Bása kl. 8 að morgni, fá sér einn kaldan með teygjunum, tjalda og fá sér blund. Laugardagurinn var tekinn í afslöppun og grillveislu og varðeld um kvöldið að ógleymdri hressilegri koju við tjaldbúðirnar hjá hópnum. Einhvern tímann á laugardeginum var Ferðafélagið Fnykur stofnað með vísan í aftansöng eins ferðafélagans... Það var auðvitað hlegið svo mikið að tárin láku niður kinnarnar og sungnir vöggusöngvar fyrir frænkurnar í krútttjaldinu.
Næstu helgi er svo næsta gönguferð - nú með Ingu og Fribba í Kellingafjöll og það í 4 daga. Ekki slæm upphitun að hafa skellt sér yfir Fimmuna og í dag hjólaði hjúkkan úr Dofranum í Brekkuselið í mat til gömlu. Já það verðar sko bara buns of steal eftir sumar hjá stelpunni :)

13/06/2008

Retail therapy!
Já retail therapian hefur aldrei brugðist stelpunni þegar á móti blæs og það er að sannast enn eina ferðina þessa dagana. Þar sem hjúkkan hyggur á miklar gönguferðir í sumar var mikil þörf á að koma sér upp réttum búnaði og auðvitað rétta lúkkinu (sögur herma að lúkkið sé mjög mikilvægt). Því hefur stúlkan krúsað um helstu útivistarvöruverslanir höfuðborgarsvæðisins þessa dagana og yfirleitt náð að finna sér eitthvað ómissandi. Það er nú samt ekki eins og hjúkkan sé búin að eyða öllu sínu sparifé í retail therapiuna, þar sem hjúkkan lítur meira á þetta sem fjárfestingar. Það kostar nýra að fá sér til dæmis góðar göngubuxur og jakka, svo kostar það hitt nýrað að fá sér stafi og minni hluti sem virkilega safnast þegar saman kemur. Það er nú aldeilis gott að krútttjaldið var keypt í fyrra annars þyrfti örugglega að selja lifrina líka!!!
Nú er bara að klára næstu vinnuviku og krúsa svo í fjöllin og njóta lífsins með nokkrum rugludöllum úr vinnunni.

09/06/2008

Kominn tími til!
Það er nú aldeilis kominn tími til að tjá sig aðeins um málefni líðandi stundar. Hjúkkan lifði af jarðskjálftana á Suðurlandi með því að vera stödd á Akureyri eins og frægt er. Eftir að hafa heyrt fréttirnar í útvarpinu og fengið nokkur góð hughreystandi símtöl að sunnan ákvað hjúkkan að það væri nú óhætt að fljúga tilbaka. Hjúkkan á frekar erfitt með jarðskjálfta og eins og Svana vinkona hefur stundum sagt þá er um að ræða jarðskjálfta hræddustu konu norðan Alpafjalla! Hjúkkan tók nett panic á Akureyri áður en hún fór í loftið og besta mómentið var eiginlega þegar hún ákvað að það væri örugglega ekki flogið innanlands þar sem flugbrautin í Reykjavík væri á sífelldri hreyfingu sökum skjálftanna - já maður er ekki alltaf með skýrustu hugsunina þegar kemur að svona hlutum. En sem betur fer fór þetta allt vel (þá meina ég á Suðurlandi).
Nú er hjúkkan hins vegar búin að breyta um lúkk og er nú orðin stutthærð en samt rauðhærð og með þykkt og hrokkið hár!!! Enda nýjir tímar og sumarið framundan með góðum gönguferðum, tjaldi, golfsettinu og kæliboxinu í skottinu :)
EM hátíðin er hafin og ætlar hjúkkan að fylgja Hollendingum í ár - enda var hún voðalega skotin í Marco van Basten hér í gamla daga (hver man ekki eftir honum...) Ef það er einhver sem les þessa vitleysu og finnur sig knúinn til þess að kaupa EM límmiða þá á einmitt hjúkkan "official sticker book fo EM 2008". Já stelpan sá voðalega eigulega EM upplýsingabók í flugvélinni á leið til Basel um daginn og ákvað að rýna í þetta á hótelinu. Nema hvað þegar þangað var komið kom í ljós að um var að ræða þessa margfrægu límmiðabók!!! Já kannski að lesa betur utan á hluti áður en maður ákveður að stela þeim úr flugvél...

28/05/2008

Akureyri calling!
Hjúkkan lagði land undir fót og skellti sér norður í land. Reyndar um vinnuferð að ræða en samt sem áður alltaf gott að komast aðeins í burtu frá slúðrinu og streitunni á Stór Hafnarfjarðarsvæðinu. Hér er blíða (mér skilst reyndar að það sé ekkert verra veður fyrir sunnan) og stelpan búin að spóka sig um bæinn milli funda og keyrslu. Hjúkkan hefur einstakan hæfileika til verslunar sama í hvaða bæjarfélag hún stígur fæti í. Auðvitað var þessi hæfileiki nýttur á mjög hagstæðan hátt í dag í ofurkúl versluninni Perfect. Hey maður verður nú að versla í búð með svona nafni ekki satt - en andið rólega hjúkkan keypti ekki skó!
Hjúkkan rak nefið inn í bókabúð hér á horninu og varð vitni að ótrúlega fyndni bókabúðarhegðun. Jú þarna var einstaklingur sem leit voðalega einbeittur út (var geðveikt mikið að rembast við að lesa aftan á einhverja kiljuna). Hjúkkan átti leið framhjá þessum einstaklingi og komst að því hvað var bakvið einbeitinguna. Jú félaginn var greinilega að rembast við að losa sig við óþarfa gasmyndun í þörmum án þess að nokkuð hljóð myndi heyrast. Eftir drjúga stund gaus upp þessi líka dauða fnykur og viti menn einstaklingurinn varð allt í einu ekkert nema afslöppunin í framan, lagði niður kiljuna og gekk ákveðnum skrefum að blaðarekkanum. Hjúkkan vissi ekki hvort hún myndi fyrr deyja úr fnyki eða innan hlátri en náði þó að halda andliti, finna sér bók, borga og koma sér frá þessari efnamengun.
Já það er greinilega ýmsilegt sem gerist í bókabúðum!