15/12/2004

Gamlar minningar!
Þar sem ég sat í strætó í morgun á leið minni til vinnu vöknuðu gamlar og misgóðar minningar frá menntaskólaárunum. Fyrir framan mig sátu tvö ungmenni sem voru að renna yfir glósur og bera saman bækur sínar fyrir próf í þýsku. Ég gat ekki annað en fallið í nostalgíukastið yfir þessari sýn þar sem manni finnst það hafa verið í gær sem menntaskólaárin voru í hámarki. Tal ungmennanna leiddist að afturbeygðum sögnum og öllu því sem þýsk málfræði hefur upp á að bjóða og þá kom önnur hugsun fram í samt frekar þreyttum hjúkkuhuga. Ég gæti ekki fyrir mitt litla líf bjargað mér í dag með því að telja upp afturbeygðu sagnirnar í þýsku og þó er ég með stúdentspróf í þýsku! Þetta er auðvitað ekkert nema hrein synd og skömm að því að viðurkenna hversu lítið situr eftir af námsefni menntaskólans. En fljótlega varð ég glöð aftur þar sem ég áttaði mig á því að ég hef meiri not fyrir þar sem ég lærði í hjúkrunarfræðinni og hver veit nema eitthvað að menntaskólaviskunni hafi gagnast manni í gegnum tíðina ómeðvitað. Glöð í bragði fór ég því á vaktina og rúllaði upp allri minni helstu kunnáttu á sviði hjúkrunar og gerði það auðvitað með stæl eins og ofurhjúkku einni er lagið.

Engin ummæli: