25/07/2005

Roadtrip 2005!
Sú skemmtilega hefð hefur skapast hjá hjúkkunni, megabeibinu og súperkonunni að drífa sig í roadtrip í Árnesið einu sinni á ári - sé því komið við þá á að fara helgina fyrir verslunarmannahelgina. Hefðin hélt í ár og á laugardaginn var Fabíó hlaðinn af dóti, drykkjum og mat og brunað sem leið lá austur fyrir fjall. Veðrublíðan sem mætti okkur var ekki af verri endanum - 26°c hiti og léttur andvari, sem var nauðsynlegur í öllum hitanum. Tjaldið reis á mettíma og fljótlega voru hjúkkan og megabeibið komnar á bikiníið og aðstoðu hvora aðra við að bera á sig sólarvörn. Allt í einu tóku þær eftir því að góður meirihluti karlmanna á tjaldstæðinu þurfti einmitt að fara að æfa púttið - heppilega nálægt tjaldinu sem vinkonurnar voru í. Eftir góða grillingu í sólinni kom Súperkonan sem var nýbúin að vinna og kveikt var undir grillinu. Dýrindis matur og vín og mikið hlegið og enn meira spjallað. Eftir góða stund lá leiðin í heita pottinn sem er á tjaldsvæðinu - klukkan var orðin margt og við sáum fram á að ná að vera einar í pottinum. Ber þá fljótlega að mann sem fann sig knúinn til þess að drífa sig í pottinn! Í upphafi var þetta ágætt en þegar ítrekaðar óskir hans um að við myndum nú tala við hann voru orðnar þreyttar birtust fréttir af tvíburastelpunum (þið munið þessar sem eru 3ja ára) og börnum megabeibsins og súperkonunnar. Þetta var orðinn hinn versti lygavefur sem óx og óx!!! Allt í einu kom nokkrar aðrar konur að pottinum og þær fengu líka fréttir af húsmæðraorlofinu. Já já þetta kom nú síðan í bakið á hjúkkunni daginn eftir þegar þessar sömu konur komu til okkar að spjalla og fóru að spyrjast fyrir um börnin!!!!!
Sunnudagurinn var enn betri og sólin hélt áfram að skína skært og ákveðið var að dvelja aðra nótt í Árnesinu. Superkonan þurfti að fara til vinnu í dag þannig að hún dreif sig heim um kvöldið en hjúkkan og megabeibið ákváðu að vera áfram. Sama sagan endurtók sig - grill - vín - hlátur - spjall en engir tvíburar þann daginn. Eftir smá stund voru vinkonunar búnar að eignast vinahjón á svæðinu sem endaði með heljarmiklu karaoke á barnum við tjaldstæðið!! Hjúkkan sem aldrei syngur í karaoke fór á kostum og sigraði meira að segja í keppni um bestu frammistöðuna!! Seint og illa endaði þetta kvöld inni í tjaldi.
Í dag var þakkað fyrir sig og pakkað niður enda búið að vera gaman. Það versta er samt þegar maður veit að maður var að senda sms skilaboð því stundum er maður alveg viss um að fólk vilji ekkert heitara en að heyra frá manni - og vill hjúkkan biðjast afsökunar á því rugli sem þó nokkrir einstaklingar urðu fyrir.

21/07/2005

Ofvirkni í sumarfríi!
Hjúkkan er búin að komast að því að hún þjáist af ofvirkni í sumarfríinu sínu. Jú loksins þegar sólin kom fram er hjúkkan eins og belja sem er að komast úr fjósinu eftir langan vetur. Hún skoppar um og gleðst yfir sólinni, gleymir að setja á sig sólarvörn og er flottust!!! Í gær var einn af hennar betri ofvirkni dögum þar sem hann hófst í golfi. Eitthvað létu meistarataktarnir sig vanta og var hjúkkunni skapi næst að fara með nýja og flotta settið og henda því í sérhæfða aðsoðarmanninn en hún er nú svo ljúf í skapinu að þetta skyndibrjálæði rann fljótlega af henni. Að lokum var þetta nú farið að ganga ágætlega en einhver besser wisser var með yfirlýsingar við hjúkkuna um að maður yrði ekki bestur í golfi á 3 vikum - jejeje.
Eftir strangar æfingar lá leiðin í Brekkuselið þar sem litli snúllinn var sóttur og leiðin lá í sund. Þar sem hjúkkan er líka uppáhaldsfrænka fékk hún blíðar og útslefaðar móttökur við komuna í Brekkuselið og skemmst er frá því að segja að hvíti bolurinn er núna með smá íprentaðri súkkulaði batik!! Í sundinu var snúllinn eins og lítill prins - sýndi öllum í kringum sig hvað hann var duglegur að hoppa og brosti eins og enginn og hjúkkan var auðvitað að kafna úr stolti yfir barninu. Að sundi loknu var snúllanum skilað til mömmu sinnar og þar borðaður kvöldmatur áður en tennisæfingin tók við. Þar fékk hjúkkan loksins að láta stjörnu sína njóta sín með fallegum topspin boltu og hvað eina... Þegar tennisinum lauk lá leiðin til annarrar hjúkku í afslöppun og smá spjall áður en hjúkkan lagði loks í hann heim. Jább þreytt en þokkafull komst hjúkkan loks í bólin alveg dauðuppgefin eftir yndislegan dag. Og viti menn - andstætt líkamsástandi Sonarins var ekki vottur af harðsperrum í líkamanum í morgun.

19/07/2005

Snilldar dagur!
Ofurhjúkkan er að farast úr hamingju yfir þessu líka fína sumarveðri sem ákvað að láta sjá sig þrátt fyrir sumarfríið. Hún skellti sér snemma á fætur í gær (sem sagt fyrir hádegi) og hjálpaði foreldrum sínum að losa sig við alls konar drasl úr geymslunni. Þaðan lá leið hjúkkunnar í golfverslun þar sem hún fékk dygga aðstoð við að velja sér golfsett. Það var hátt á hjúkkunni risið þannig að hún keypti settið, kerru og hanska (í stíl við litinn á pokanum hehehe) og nokkra aðra smáhluti til að verða lang best í golfinu. Eftir góða stund dreif hjúkkan sig heim og hitti Ingu Swing drottningu á Oliver í smá hvítvín og spjall. Ákveðið var að skella sér í bíó um kvöldið og varð snilldarmyndin Madagaskar fyrir valinu. Því lík og önnur eins snilld og þríeykið (Nonni kom líka með) hló eins og vitleysingar. Stundum var nú eins og annað fólk í salnum fattaði ekki brandarana og tilvísanir í aðrar myndir en það skemmdi ekki fyrir þríeykinu sem hló bara hærra og meira. Að lokum lá leiðin í enn meira spjall og almenna gleði.
Í dag er sól og mikið prógram framundan - Golf - Sund og jafnvel smá tennis í kvöld. Ofurhjúkkunni finnst ekki leiðinlegt að vera í sumarfríi þessa dagana.

16/07/2005

Ofurgönguhjúkka og massa golfari!
Ofurhjúkkan er að finna nýjar víddir í íþróttarhæfileikum þessa dagana. Hún ákvað í sumarfríinu að skella sér á golf námskeið og virðist vera efnilegasti nýliði Íslandssögunnar í golfi. Stefnir hratt og örugglega á British Open á næsta ári - líka fínt því það er skömmu eftir að Wimbeldonmótinu í tennis líkur þannig að hún slær fullt af flugum í fáum höggum.
Annars skrapp hjúkkan upp Esjuna í gær ásamt tvíburahjúkkunni sinni og voru þær eins og vindurinn á leiðinni upp. Tóku fjallið á einum og hálfum tíma og skelltu sér svo í dásamlegt matarboð í Sandgerði til hýru mannanna í lífi þeirra. Maturinn var eing og á 5 stjörnu veitingarstað og móttökurnar eftir því frábærar.
Í kvöld er svo stefnan tekin á smá skrall með fleiri hjúkkum og gert er ráð fyrir höfuðverk á morgun.

12/07/2005

Mér finnst rigningin góð!
Hjúkkan skrapp í mini-útilegu með samstarfsfólki sínu á föstudaginn og haldi menn að það geti rignt mikið í Reykjavík ætti það að prófa alvöru þétta Suðurlands-undirlendis-rigningu. Hjúkkan hafði bara eiginlega aldrei orðið vitni að öðru eins úrhelli og heimamenn brostu sínu blíðasta. ,, Velkomin á Suðurlands-undirlendið " voru brosandi kveðjur heimamanna þar sem malbiksdúllan skreið út úr Fabio í leit að regnhlífinni sem hún var svo viss um að væri einhversstaðar í bílnum. En að lokum stytti upp rétt á meðan fólk náði að skutlast í pottinn og þá hélt áfram að rigna - en þá var mannskapurinn orðinn nokkuð votur þannig að þetta varð bara stemning. Hjúkkan ákvað að leyfa bakinu að njóta vafans og fór ekki í rafting með hinu liðinu heldur brunaði í bæinn með Robbie í góðum fíling í Fabío. Nú situr hjúkkan og hlustar á frekar þunglynda blúsaða tónlist og dreymi um að koma sér til útlanda.

08/07/2005

Það er erfitt að vera ég!
Í dag er 5. dagurinn í sumarfríinu hjá hjúkkunni. Þetta er líka fimmti dagurinn í röð þar sem það er rigning og nú hefur rokið bæst við í hópinn. Þegar veðrið hefur tekið svona sterka afstöðu gegn manni er gott að setjast niður í sófann og horfa á boltann. Jú jú KR mínir menn eru í lægð eins og veðrið en þeir töpuðu sem sagt eina ferðina enn í gær - nú á móti ÍA sem hefur ekki gerst held ég frá því hjúkkan og Höski fóru upp á Skaga á leik fyrir mörgum árum síðan. Hjúkkan prísar sig sæla með það að vera í fríi því annars væri verið á bauna á hana daginn út og inn - því svo virðist sem enginn vilji halda með KR lengur og allir verða voðalega glaðir þegar liðið manns er með ræpuna upp á bak. Mér er ekki skemmt þessa dagana!
En það hlýtur að stytta upp og við verðum þá bara VISA bikarmeistarar, en hvað sem gerist ég hjúkkan farin í útlegu með öðrum rugludöllum af slysadeildinni. Góðar stundir og áfram KR!

03/07/2005

Duran, bjór og sumarfrí!
Það hefur gengið á ýmsu í lífi hjúkkunnar undanfarna viku. Eftir að heim var komið frá London dreif hjúkkan sig í vinnuna og hefur falið sig þar. Hún gerði sér nú glaðan dag á fimmtudaginn og fór á snilldartónleikana sem voru í Egilshöllinni. Mikið óskaplega voru Duran Duran með flottir og góðir á sviði. Það var meira að segja að manni fannst þeir eiginlega of góðir - miðað við sýningar af tónleikum þeirra dagana fyrir og eftir. Ekki það að þeir hafi verið með neitt Milli-Vanilli skam en hvað veit maður. Fyrir og eftir tónleikana lá leiðin til Eddu og Sigga þar sem nokkrir kaldir kældu mannskapinn. Vinnan kallaði aftur á föstudagskvöldinu og rúllaði hjúkkan vaktinni þar með glæsibrag. Eftir vaktina lá leið á knæpu eina í bænum þar sem samstarfsfólkið ákvað að gera sér glaðan dag - og tókst með ágætum. Laugardagurinn fór að mestu í leti og almennt haug þar til næturvaktin tók við. En sem sagt frá og með kl. 08 í morgun byrjaði hjúkkan í sumarfríi. Fríið stendur til Verslunarmannahelgarinnar þannig að þið getið átt von á því að það rigni það sem eftir er júlí mánaðar. Fólk man kannski eftir ástandinu þegar hjúkkan fór í frí í fyrra - það ringdi stanslaust fyrstu tvær vikurnar og kom svo hitabylgja meðan hjúkkan var í útlöndum. Því bið ég ykkur kæru vinir og vandamenn - bara leggja smá monní á reikninginn minn og ég get lofað ykkur sól og sumaryl.
En þá er það krísu spurningin sem verður til þegar maður á ekkert líf utan vinnu. Hvað gerir maður í fríi???

27/06/2005

Snilldar London!
Ofurhjúkkan átti alveg hreint yndislegan tíma í London ásamt móður sinni og systur. Þar var auðvitað verslan í heimabyggða þar sem Baugur virðist eiga u.þ.b. aðra hvora verslun á Oxford Street og Mosaic hina þannig að hjúkkan var í raun og veru að styrkja íslensku krónuna með verslunar þátttöku sinni. Mæðgurnar ógurlegu skelltu sér einnig á West End og sáu alveg hreint brilljant uppsetningu á Lion King. Svo var auðvitað verslað aðeins meira og nokkrir öl drukknir. Hjúkkan datt um illmennið, kaffidvergfinn og Stjórann á Paddington stöðinni og átti með þeim mjög góða stund yfir nokkrum köldum. Sem sagt bara snilld og almenn hamingja. Hjúkkan á meira að segja von á því að verða valin viðskiptavinur mánaðarins hjá VISA Electron og hjá Kreditkort h.f. - ekki slæmur árangur það. Það kom sem sagt í ljós þegar til London var komið að á þessum tíma voru sumarútsölur út um allt. Sem dæmi fékk hjúkkan "shopping - sign " inni í MNG þar sem ólin á töskunni hennar slitnaði. Hvað voru merkin að segja henni annað en að hér ætti hún að kaupa sér næstu tösku- og hún er svo pretty!!
Hjúkkan meldaði sig fjarverandi í saumaklúbbinn sem haldinn var í Hafnafirðinum og svo virðist sem hún hafi einnig misst af nokkrum góðum sögum og fréttum. Er það rétt sem hjúkkan les milli lína hjá ykkur píur - fullt af litlum saumaklúbbskrílum á leiðinni??? Ef svo er þá óska ég ykkur (þið vitið hver þið eruð) alveg þúsund og einu sinni til hamingju með bumburnar :)

20/06/2005

Jólalög og hitabylgja!
Ofurhjúkkan hefur smá áhyggjur af andlegri heilsu þessa dagana þar sem hún situr við tölvuna og hlustar á jólalög!!! Í góðum fíling syngur hún með - Ó Heeellga nótt og heeiiiilaga nóóóótt. Í góðum fíling enda er hún heim heima. Annars voru þær fréttir að berast til hjúkkunnar að það væri hitabylgja í London og hitinn um 30° C - ekki leiðinlegt að vera á leiðinni þangað.
"Þessu nennir maður kl 05 á næturnar!!"
Ofurhjúkkan er að ofurhjúkkast þessa helgina og eyðir nóttum sínum á slysadeildinni í félagsskap annarra ofurhjúkka. Til þess að drepa þann litla dauða tíma er myndast stundum er oft sest niður og spjallað um heima og geima. Ein umræða sem kom upp síðustu nóttina af þremur snérist um það hvað maður nennir að gera kl 05 á næturna. Það var reyndar fátt sem kom upp í hugann en þó náðu nokkur atriði inn á listann - sem ekki er hægt að birta hér sökum eðils þessara atriða. En sem sagt mjög skemmtileg umræða :) En svo kom pælingin - ef maður nennir þessu ekki kl. 05 á næturnar - hvernær nennir maður þessu þá?
Nú eru bara 2 dagar þar til ofurhjúkkan ætlar að skella sér til London ásamt mömmu gömlu og einni systurinni. Búið er að bóka hótel í göngufæri við Bond Street og hjúkkan er byrjuð að hita upp kreditkortið sitt. Stefnan er tekin á verslun, mat og jafnvel eina sýningu á einhverju skemmtilegu.

17/06/2005

Þjóðhátíðarþunglyndi!
Ofurhjúkkan er nú ekki ofurkát í dag á sjálfan Þjóðhátíðardaginn. Ástæðan fyrir þessu ástandi er vinnulag hjúkkunnar í dag og um helgina og er hún almennt að farast úr sjálfsvorkun yfir þessu öllu. Jú jú á heitasta Þjóðhátíðardegi síðustu áratuga mætti hjúkkan auðvitað fersk á morgunvaktina, til þess eins að klára hana og drífa sig heim að sofa því næturvaktin er framundan. Eftir mikla áreynslu við það að reyna að sofna og alveg enn meiri sjálfvorkun ákvað hjúkkan að færa sig um set - sem var alveg ekki góð hugmynd!! En svona eru nú hugmyndir og ákvarðanir sem teknar eru í sjálfsvorkunnar ástandi. Sem sagt hefur hjúkkan enn sem komið ekkert náð að sofna fyrir næturvakt sem að öllum líkindum verður þar að auki skelfileg :( Hjúkkan brá á það ráð að hringja í vini sína til að fá almennt samþykki fyrir sjálfsvorkuninni sem var góðfúslega veitt af hjónakornunum í Kúrlandinu - og kann hún þeim bestu þakkir fyrir andlegan stuðning. Nú er stefnan tekin á sófann og vonandi næst einhver smá blundur. Að öðru leyti er það bara - Hæ hó og jibbí hey, það er komin 17.júní :)

12/06/2005

Hvað er betra?
Hvað er betra en að drífa sig á fætur kl. 07:30 á sunnudagsmorgni og labba niður Laugarveginn í þeirri veiku von að Fabio hafi ekki orðið fyrir barðinu á drukknum einstaklingum nýliðna nótt? Jú það er er enn betra að finna bílinn heilan á húfi og skella sér upp í hann og keyra sem leið liggur í vinnuna. Það er alveg einstaklega róandi að keyra á götum Reykjavíkur á þessum tíma, ekkert nema leigubílar á ferð og fólk í misfersku ásigkomulagi. Svona byrjaði sem sagt þessi brilljant dagur í dag hjá hjúkkunni. Gærdagurinn var bara snilld - skellti sér á stubb í vinnuna, fór í sund og fékk enn fleiri freknur sem var nú alveg óþarfi!!! og svo var að kvöldmatur á Energia og loks bíó. Fór að sjá Monster - in - Law þar sem Jane Fonda sló í gegn sem ótrúlega klikkuð tengdamamma. Eftir bíóið lá leiðin til Siggu í Fensalina þar sem Desperate Housewives var skellt í tækið og enn kaldur sötraður með. Þar sem hjúkkan og hjúkkuvinkonan voru báðar frekar þreyttar eftir langa viku lá leiðin heim og beint í beddann. Sem sagt party - on hjá ofurhjúkkunni þessa dagana!

09/06/2005

Ógurlega lítið að frétta!
Það er alveg einstaklega lítið að frétta af lífi ofurhjúkkunnar þessa dagana. Hún eyðir mestum sínum tíma í vinnunni og stefnir á alveg svaðalega huggulegt sumarfrí - enda búin að vinna af sér rassgatið á síðastliðnum vikum. Hún sér nú fram á góða tíma framundan með Duran Duran tónleikum og alls herjar gilleríi. Svo kannski hún kíki í heimsóknir til vina sinna sem hún hefur vanrækt sökum vinnufíknar og jafnvel að hún skelli sér í sund og sjái hvort hún komist aftur á sjéns í gufunni.
Svo er það spurningin hvort það verði ekki örugglega Júróvisionpartý í Jörfa 22. okt vegna 50 ára afmæliskeppni Eurovision. Nú verða allir að fara og kjósa í keppninni um besta Eurovision lagið!!! Áfram Ísland...

03/06/2005

Fabio er alveg að meika það!
Ofurjeppinn Fabio er sem nýr eftir góða yfirferð hjá Heklu. Þar fékk hann nýjar legur og bremsurnar voru teknar í gegn. Nú malar hann eins og hamingjusamur köttur og rennur mjúklega um stræti borgarinnar.
Þar sem maður er nú orðinn stoltur bíleigandi var ekkert annað í stöðunni en að þvo bílinn. Fróðir menn og konur mæltu með bílaþvottastöðinni Löðri í Kópavogi - voða sniðugt hægt að láta þvo bílinn og gera það sjálfur. Hjúkkan hefur ætíð verið mikið fyrir svona do-it-yourself og ákvað sem sagt að gera þetta sjálf. Í þessu dæmi stillir maður hnapp á mynd eftir því hvaða dæmi maður er að fara að þvo og þetta á sem sagt ekki að vera neitt mál. Hjúkkan sá að 1 og hálf mínúta kostuðu 100 kr og hélt þar með að hún ætti að eyða 1 og hálfri mínútu á hverri stöð. Samviskusamlega fór hún svona að og m.a sápaði bílinn í 1 og hálfa mínútu. Eftir þann tíma sást Fabio ekki en ofvaxin risasápukúla var komin í hans stað!!! Það tók sko meira en eina og hálfa mínútu að skola alla þessa sápu af!!! En það tókst fyrir rest og var bíllinn stórkostlega hreinn og fínn í kjölfarið. Ef maður fer með bílinn í bílþvottastöð er yfirleitt skilti sem stendur á að maður fái frían endurþvott ef maður er ekki ánægður með árangur þvottsins. Á stöðum þar sem maður gerir þetta allt sjálfur ætti að standa á skiltinu að ef maður er ekki ánægður með árangurinn getur maður bara sjálfum sér um kennt!!

28/05/2005

Hjólin á strætó snúast hring, hring, hring!
Hjúkkan ákvað að setja sig í ný spor á fimmtudaginn og dreif sig í hlutverk ofurfrænkunnar. Eftir yndislegan tíma í Hár- og sýningarhúsinu Unique fór hjúkkan með nýju klippinguna sína í Kringluna með mömmu sinni. Að þeirri ferð lokinni lá leiðin á hina ýmsu leikskóla þar sem annarra manna börn voru sótt. Fyrst var litli uppáhalds púkinn sóttur og svo var litla uppáhalds prinsessan sótt s.s Viktor Már og Helga Björg. Leiðin lá til Svönu með dóttur hennar og umferðin var nokkuð þétt. Til að halda uppi stemningu í bílnum var brugðið á það ráð að syngja!! Hjólin á strætó snúast hring - hring - hring (hafa ber í huga að handahreyfingar voru einnig notaðar).... Eftir öll 7 erindin voru tekin með glæsibrag og í kjölfarið hélt Helga Björg góða einsöngstónleika úr aftursætinu. All good things must come to an end og þannig var líka með þennan yndislega frænkutíma. Komið var að besta hlutanum - þ.e. að skila börnunum heim til sín :)
Sumarið er alveg að koma!
Hjúkkan trúir því heitt og innilega í hjarta sínu að sumarið fari nú að láta sjá sig. Hún gerði sitt besta í gær og dreif sig út í skítakuldann í pilsi og að auki með linsur og sólgleraugu. Hjúkkan gerir sitt besta til að lúkka vel í Fabio sínum sem er ekkert nema fallegastur. Í tilefni þess að Sonurinn átti afmæli á fimmtudaginn var honum boðið á rúntinn og svo lá leiðin beint í vinnuna.
Til merkis um það að sumarið er komið þá er Fréttapésinn kominn aftur heim og heyrst hefur að annar pési sé loksins kominn með vinnu í Danaveldi.
Töffarastig dagsins fær sonurinn sem er að fá íbúðina sína afhenta!!!

22/05/2005

Stoltur bíleigandi!
Laugardagurinn var alveg einstaklega vel heppnaður í lífi hjúkkunnar. Hún vaknaði ferks eftir góðan nætursvefn og dreif sig á fætur rétt upp úr hádegi. Leiðin lá að eldhúsborðinu og yfir léttu spjalli við gamla kallinn var ákveðið að skella sér í smá bíltúr. Hjúkkan hafði lengi verið að blunda við það að kaupa sér bíl og ákváðu feðgin að rúnta á nokkrar bílasölur. Fyrsta stoppið var hjá Toyota og ekkert sérstakt fannst þar. Því næst lá leiðin í Heklu þar sem þessi líka huggulegi og krúttlegi bíll beið hjúkkunnar. Áður en hjúkkan vissi var hún búin að festa kaup á þessum yndislega bíl og ljómaði af kæti. Um er að ræða silfurlitaðan Skoda Fabia (hjúkkan er nottla fabulous), 5 dyra með topplúgu!!!! Ofurgellu bíll fyrir einstaka ofurgellu. Við tók hamingju rúntur og almenn sýning á gripnum við mikla kæti - þá sérstaklega hjúkkunnar.
Kvöldið fór svo í Júró í Jörfa eins og vanalega þar sem hjúkkan deildi 2. - 3. sæti í veðbankanum með syninum. Kátínan var fyrir hendi og leiðin lá í bæinn þar sem hjúkkan missti einhvern veginn sjónar á öllum og dreif sig heim í ból. Enda dauðuppgefin eftir alveg brilljant dag.

20/05/2005

Júróvision trash!!
Hjúkkan varð nú fyrir nokkrum vonbrigðum í gærkvöldi þegar í ljós kom að við myndum ekki vinna aðalkeppnina n.k. laugardag. Jú málið var eins og allir vita að austantjaldslöndin rúlluðu þessu upp og skildu okkur hin eftir. En hvað er málið þessi austan-tjalds-lönd, come on eru allir búnir að gleyma því að við bárum kennsl fyrst allra á Eystrasaltslöndin??? We recognized them!!
En bara til að fara yfir hápunktana frá undankeppninni þá eru hér skoðanir á nokkrum lögum:

Portúgal - þetta land náði sögulegu hámarki í algjöru klúðri!! Gellan gat hvorki dansað né sungið og virtist ekki einu sinni kunna lagið sem hún átti að vera að syngja!
Andorra - ok manni er lofað að dansararnir færu úr buxunum og væru einungis með létta skýlu um lendar sér - But NO það gerðist ekki og þeir voru allan tímann í buxunum. Tók lítið eftir laginu þar sem ég var alltaf að bíða eftir því að dansararnir færu úr buxunum!
Danmörk - er eiginlega sammála Gísla Marteini hvað varðar líkinguna á framsetningu lagsins sem Dressman auglýsingu. 5 karlmenn í jakkafötum að dilla sér við dillanlegan takt. Held samt að þeir vinni ekki á laugardag.
Eistland - mér fannst hinar Eistnesku Girl´s Aloud píur nokkuð sannfærandi. "I´m hot like an indian spice" Klikkar seint!!
Finnland - hinn norski Geir stóð sig vel og ég hélt að þau myndu meika það.
Holland - Vá fékk einhver annar á tilfinninguna að hér væri Whitney komin aftur að syngja One moment in time og svo myndu Ólympíuleikarnir í Barcelona vera settir!
Írland - Írar ætla greinilega aldrei aftur að reyna einu sinni að vinna keppnina. Nú er kominn ólympíuandinn - ekki aðalmálið að vinna heldur vera með!
Ísrael - komst áfram á þessum industrial size barmi sem er örugglega ekki alveg af náttúrunnar hendi!
Lettland - Þeir komust áfram á grenju-væmnis lagi og einhverju táknmáls bulli! Ömurlegt lag!!
Moldovía - Hver getur sagt mér hvar þetta land er í Evrópu? Amman var reyndar krúttlegasta í keppninni!
Noregur - Maður fékk á tilfinninguna á White Snake eða Europe væru komnir aftur. Flottir og gott lag!
Pólland - Þarf eitthvað að tjá sig frekar um þennan söngvara sem heldur að hann sé svar Evrópu við Ricky Martin??
Sviss - enn ein flóttamanna hljómsveitin sem reyndi að komast í keppnina í heimalandi sínu en enduðu annars staðar. Þær voru ekki eins flottar og Eistnesku Girls Aloud píurnar.

Já sem sagt þetta er í fáum orðum skoðun hjúkkunnar á nokkrum af þeim atriðum sem voru í keppninni í gær. Hjúkkan heldur tryggð sinni við ofurbandið FEMINEM frá Bosníu / Herzegovniu sem hún telur að vinni keppnina. Sjáumst í Júró í Jöfra á laugardaginn!!

19/05/2005

Júróvision drama!
Það ætlaði allt um koll að keyra á vinnustaðnum í morgun þegar myndir birtust af þeim búningum sem nýjustu þjóðarhetjur Íslendinga ætla að skarta í kvöld. Múgurinn skiptist í tvær fylkingar - love it og hate it! Mér persónulega er alveg sama um þessa búninga - finnst hinns vegar skórnir þeirra alveg to-die-for. Hjúkkan er sífellt að vera glisgjarnari og finnst svona gullskór voða fallegri. Þorbjörg úr First Wives Club á líka svakalega fína gullskó sem hún skartaði á árshátíð hópsins um síðustu helgi.
Þar sem flestir sem maður þekkir eru að fara í undankeppnis-júróvision-partý ætlar hjúkkan að sýna lit og fara beint heim að sofa eftir vaktina enda næsta vakt í nótt. Þetta er auðvitað bara gert til þess að geta sinnt vinum og vandamönnum sem lenda í hrakningum í kvöld eftir keppnina. En mottóið fram að næturvakt er ÁFRAM ISLAND - nú mössum við þetta.

12/05/2005

Á sjéns í sundi!
Eftir góðan svefn í kjölfar þreyttrar næturvaktar ákvað hjúkkan að skella sér í sund. Það var ýmislegt sem lá henni á hjarta og eftir góða ráðgjöf góðra vinkvenna var þetta lendingin - að synda eins og vindurinn. Það gerði hjúkkan aldeilis með stæl og hafa aldrei sést önnur eins sundtök í Breiðholtslauginni. Í þetta sinn var ekkert stoppað við bakkann heldur bunað beint í laugina og fokið af stað. Áður en hjúkkan vissi af hafði hún lokið 700 metrum og ákvað að þetta væri nóg í bili. Stefnan var sett á gufubaðið þar sem þreyttir vöðvar skyldu teigðir og almenn afslöppun færi fram. Í þeirri andrá er hjúkkan bregður sér inn í gufubaðið kemur inn karlmaður á svo sem miðjum aldri ( í kúl sundskýlu en allt annað var bleh.. ). Þessi ágæti maður ákveður að segja hjúkkunni að hún hafi synt nokkuð rösklega þessa 700 metra, jú jú svaraði hjúkkan - það dugar engin aumingjaskapur. Þá greinilega heldur okkar maður að hann sé komin í feitt og spurningarnar hrynja yfir hjúkkuna. Þar á meðal kom hin eðallín "Kemur þú oft í þessa sundlaug??" Þegar hjúkkan loksins sá í hvað stefndi var tími til að draga fram sögur af eiginmanninum og tvíburunum fræknu - sem halda móður sinni hlaupandi allan daginn. Hjúkkan veit að það er ljótt að segja ósatt en stundum þarf bara að hressa upp á sögur til þess að komast heill undan og án þess að særa viðmælendur sína. Manninum þótti nú miður að heyra að hjúkkan ætti mann og börn, því honum þætti hjúkkan svo fallega og vildi gjarnan fá að bjóða henni út!!!!! YEAPH folks það er greinilega hægt að lenda á sjéns alls staðar. Hjúkkan þakkaði pent fyrir hrósið og gullhamrana og fór sem vindurinn í heita pottinn. Þegar sjénsinn kom svo á eftir henni þangað ákvað hún að nú væri kominn tími til að drífa sig heim og horfa á Desperate Housewives.