29/02/2004

Helgarmeygla á hækjum!
Það hefur nú ekki mikið gerst í mínu lífi um helgina. Á föstudaginn fór ég út að borða með systrum mínum og svo skelltum við okku á kojufyllerí í stofunni heima hjá þeirri elstu. Þetta var mjög gaman, samt eiginlega svolítið skrýtið því við höfum nú ekki verið manna duglegastar að gera svona hluti saman. En planið er að gera þetta aftur eftir stuttan tíma og svo halda áfram að hittast reglulega. Það er allt annað að hittast svona en þegar við hittumst í sunnudassteik heima hjá mömmu og pabba. Fyrir það fyrsta er umræðan allt önnur þegar foreldrarnir eru ekki á svæðinu.
Í gærkvöldið fór ég svo í tvöfalt fertugs afmæli hjá tveimur gellum í kórnum. Það var mjög gaman en úff hvað ég varð þreytt á að standa á öðrum fætinum og stiðja mig við hækjurnar í nokkra klukkutíma. Fólk missir sig þegar það sér pæju á hækjum. Ég meina come on, af hverju á maður helst að ganga um í gúmmítúttum á meðan maður er á hækjum en ekki stígvélum, þó svo að það sé hæll á þeim. ARGH hvað ég var orðin pirruð á athugasemdum í gær um skófatnað sem ég valdi mér fyrir kvöldið. En sem fyrr vona ég heitt og innilega að ég losni við hækjurnar á fimmtudaginn næsta. Ég bið ykkur öll að senda hælnum góðar hugsanir og styrk frá á fimmtudag. Annars bilast ég og lem einhvern með hækjunum. Nei nei ég er ekki þessi ofbeldishneigða týpa en hver veit sín örlög?

26/02/2004

Hækjur - smækjur!
Nú er ég orðin leið á því að þurfa að vera á þessum bévítans hækjum alla daga. Þegar maður þarf ekki að nota þær er ógeðslega gaman að prófa og döflast um stutta stund á þeim. En þegar kemur að því að maður má ekki einu sinni fara á klósettið án þeirra þá verður þetta einfaldlega ekki gaman lengur.
Þar sem ég get ekki verið á ganginum í vinnunni þá fékk ég að vinna við gæðahandbók sem verið er að gefa út á spítalanum. Þetta er fínt og gaman að fá að gera eitthvað á þessum annars frekar leiðinlegu tímum. Góði punkturinn við þetta allt saman er að nú er ég komin með svakalega flotta handleggi og flott skorinn brjóstkassa.
Fór í gærkvöldi og hitti Súpergelluna, fréttapésann og Kjánann á kaffihúsi. Þetta var vinnufundur þar sem við þurftum að leysa komandi vandamál heimsins. Þetta tókst með afbrigðum vel og allir fóru sáttir heim. Stefnan er tekin á að hitta systurnar um helgina og gera eitthvað skemmtilegt með þeim.

22/02/2004

Maður hættir aldrei að vera pæja!
Þetta er mottóið mitt þessa dagana. Það er eins og margir haldi að maður eigi bara að leggjast í ból og húka þar á meðan maður þarf að nota hækjur. Ó nei er sko svarið mitt. Ég fór í tvö barnaafmæli í gær. Helga Björg ofurvinkona mín varð 3ja ára og litli prinsinn hennar systur minnar varð 1 árs í gær. Á heimilinu hafa sprottið upp umræður um 1 árs afmæli yfir höfuð og við höfum komist að því að þetta sé merkilegasta afmælið. Jú hversu oft getur maður sagst hafa meikað fyrsta árið. Eftir þetta afmæli hefur maður bara meika enn eitt árið - en ekki hið fyrsta. Frekar djúpar pælingar í gangi sem sagt.
Í gærkvöldi fór ég svo í pæjuafmæli til Þóru vinkonu sem er ung. Við hittumst 13 stelpur heima hjá henni og fórum svo á Tapas að borða. Þetta var svakalega gaman og mikið var drukkið og slúðrað eins og gellum einum er lagið. Í gærkvöldi fékk ég oft einkennilegt áhorf frá fólki sem greinilega heldur að maður sé andlega fatlaður ef maður er á hækjum. Jú maður hættir aldrei að vera gella!!!! Ég fór nú ekki að dansa eftir matinn en við fórum á Hverfisbarinn og héldum áfram að skemmta okkur. Hoppaði svo heim snemma (rétt um kl 2) og skreið upp í sófa að klápa á DVD. Sofnaði yfir því og kom mér yfir í svefnherbergið. Í dag er maður bara melló á þessum annars ljúfa KONUDEGI (strákar munið eftir konunum) og ekkert er planað fyrir kvöldið.

19/02/2004

Nú er illt í efni!
Ég hef sjaldan verið þekkt fyrir að fara eðlilegar leiðir í slösun á sjálfri mér og það er einnig þannig í þetta skiptið. Eftir að hafa brölt um hölt vegna verkja í fætinum lét ég loks lækninn kíkja aftur á fótinn. Planið okkar var sem sagt ekki að ganga upp. Honum leist ekki vel á blikuna og send mig í myndatöku. Viti menn - nú er ofurhjúkkan komin á hækjur þar sem myndirnar sýndu brot í hælbeininu. Ekki nóg með að vera komin á hækjur þá má ég ekkert stíga í fótinn! Slapp reyndar við gips og get því glöð farið í bað og sturtu á yfirdrifinna vandamála. Ég á svo að hitta bæklunarlækninn eftir 2 vikur og meta fótinn aftur. Það er eins gott að hann verði orðinn góður því árshátíð vinnunnar er daginn eftir. En þetta er alveg dæmigert fyrir mig og mínar slasanir! Stefnan um sem sagt tekin á sófann um helgina, held samt að ég verið spök og kíki í afmæli til Þóru vinkonu og tvö barnaafmæli - án ástigs!! Farið varlega þarna úti - það er aldrei að vita á hverju er hægt að slasa sig!

17/02/2004

Næturbrölt!
Gerði nú ekki mikið um síðastliðna helgi. Fór í léttan öl með stelpunum og endaði á skralli með kallinum og nokkrum félögum. Það var frekar áhugavert þar sem ég fór á skemmtistaði sem ég hef ekki stigið fæti inn á í nær áratug. Til að byrja með vorum við stelpurnar á okkar heimavelli en færðum okkur svo á Hverfisbarinn þar sem nokkrir hýrir menn bættust í hóp okkar. Stelpurnar fóru svo heim og ég fór með hýru og óhýru mönnunum áleiðis á Kaffibarinn. Þangað kom ég síðast fyrir 7 árum síðan! Mér leist lítið á blikuna og við færðum okkur á heimavöll hýru mannanna - Ölstofuna. Þar átti ég nú von á að hitta fleiri hýra menn en það var alveg enginn á staðnum að fólki sem ég þekki. Frekar einkennilegt að koma þangað kl. 02 og það er engin röð og hægt að fá borð. Eftir ölstofuna lá leiðin heim í pizzu og svo bólið. Á laugardaginn gat ég ekki gengið sökum verkja í helv fætinum sem er nú á 8. degi í pirri. Ég lá og las allan laugardaginn og var svo bara heima um kvöldið. Sunnudagurinn var svipaður - fór reyndar í dýrindis fiskisúpu til SúperSvönu og hitti þar margan góðan mann. Fór svo á næturvaktina þá nótt. Nú er stefnan eins og svo oft áður tekin á vinnuna á eftir, en ég held að ég láti einhvern kíkja á helv. fótinn í dag. Þetta gengur bara ekki lengur!

12/02/2004

Kattaskelfir!
Það hlítur að vera erfitt að vera köttur í götunni minni í dag. Fyrst varð ég vitnið að því þegar tvær litlar yngismeyjar í sínum hvorum bleika útigallanum eltu aumingjans köttinn uppi og vildu leika við hann. Kötturinn var nú snjall og sá við þeim - það er ótrúlega gott að geta falið sig undir bíl. Þetta sterka útspil kattarins fór alveg með litlu meyjarnar sem snérust hring eftir hring að spá í það hvert kisinn fór eiginlega. Eftir þessa skelfilegu lífsreynslu kattarins tók ég upp á því að skelfa greyið enn frekar. Jú eftir góða hvíld greip ég í fiðluna og tók í nokkra gamla concerta. Þetta var hin mest skemmtun fyrir mig, en ég held að kettir séu ekki mikið fyrir fagura fiðlutónlist. Alla vega þóttist gamli Bjartur alltaf sofna þegar ég fór að æfa mig sem barn. Skil greyið ósköp vel, en maður er nú vonandi aðeins betri en þá. Hjónin á hæðinni fyrir neðan eru enn á lifi og hafa ekki kvartað formlega vegna hávaðans þannig að ég held að þetta fari að vera reglulegur hlutur. Maður lærði nú í 11 ár á þetta hljóðfæri - eitthvað gott hlítur að koma frá manni. Mér finnst ég allla vega alveg ógeðslega flink og flott.

11/02/2004

Viðtalið og lausnin!
Ég held að ég viti af hverju mér er illt í fótnum. Þannig var í partýinu farið í samkvæmisleiki, þar á meðal limbó og einhvern stóla leik. Jú Ofurhjúkkan er félagsfrík af guðs náð og tók því þátt í báðum leikjunum. Held að fínu uppháu stígvélin með 8 cm hælnum hafi ekki verið að gera góða hluti fyrir fótinn?? En stígvélin eru snilld!
Jú það var ofurhjúkkan sjálf sem birtist í viðtali í Morgunblaðinu fyrir nokkrum dögum. Er reyndar ekki nógu ánægð með myndina af mér, því ég lít út fyrir að vera svo feit að það er bara ekki fyndið. Það fyrir utan er svipurinn á manni eitthvað svolítið spes. Fréttapésinn var nú sá eini sem commentaði á þetta í kerfinu en margir hafa nú lagt inn gott orð þegar ég mæti þeim. En svona eru staðreyndir málsins á þessum niðurskurðartímum!
Illt í fótnum!
Já lesendur góðir mér er illt í fótnum. Ég hef ekki hugmynd um hvað kom fyrir fótinn en allt í einu get ég bara varla stigið í hann og vakna með svakalega verki á morgnanna. Af þessum orsökum fór ég ekki í vinnuna í dag, sit heldur við tölvuna með verkjalyf og fótinn uppi á borði. Það er nefnilega ekki gott að vera illt í fótnum! Ég er að fara á námskeið í sérhæfðri endurlifgun í næstu viku þannig að kannski maður nýti daginn í lestur og svoleiðis hluti. Það er svolítið af vinnuferlum sem ég þarf að kunna fyrir þetta námskeið þannig að ekki er seinna vænna.
Helgin var annars fín, skellti mér í partý á laugardaginn sem var mjög skemmtilegt. Eins og einn gesturinn sagði þá var tilfinningin eins og maður væri í brúðkaupi en brúðhjónin vantaði. Þarna var saman komið fólk úr öllum áttum sem þekktist mismikið. Ég skrölti heim (partýið var í götunni fyrir neðan) og átti þetta líka fínan sunnudag. Engin þynnka en ég held að ég hafi borðað á við eitt þorp þennan dag. Ég ætla ekki að fara að telja það hér upp, því fólk mun halda að ég eigi við alvarlegt vandarmál að stríða.
Nú er farin að nálgast næsta helgi og ég er líka í fríi þá. Hver veit nema maður geri eitthvað skemmtilegt - það verður tíminn að leiða í ljós.

05/02/2004

Vorið er komið!
Hægan hægan var einmitt það sem ég hugsaði í morgun þegar ég skreið á fætur. Ég var á kvöldvaktinni í gær og morgunvaktinni í dag þannig að við erum ekki að tala um langan tíma sem náðist í svefn. En á þessum stutta tíma breyttist árstíðin í Reykjavík. Vorið var farið að banka upp á í gærkvöldi þegar ég fór heim. Ljúf angan af rotnandi grasi lá í loftinu og það var ekki laust við smá vorstemningu í manni. Í morgun leit ég út um gluggann og hélt að ég væri enn sofandi. Nú eru allt í einu komin jól!!!! Hægan hægan best að reyna að vakna aðeins betur og meta ástandið. Jú í morgun voru komin jól. Það var æðislega fallegt að sjá úti. Léttur púðursnjór á trjánum og bílar við það að festast í götunum. Ég sá fyrir mér yndislegt eftirmiðdegi í púðursnjónum í Bláfjöllum en þar er víst lokað vegna hvassviðris. Ég held að ég hafi að einhverju leitið séð þetta veður koma því ég var búin að spreyja rakavara á einhvern hluta vélarinnar í bílnum mínum og hann rauk í gang í morgun. En stefnan er þokkalega tekin í fjallið um helgina. Annars liggur vel á mér í dag, helgarfríið nálgast og geri ég ráð fyrir því að sletta aðeins úr klaufunum. Kannksi maður rekist á fallega fortíðardrauga eða bara fallegt fólk almennt, hver veit?

04/02/2004

Helgarfléttan og Superbowl!
Það er nú kominn tími til að maður tjái sig á þessari ágætu síðu. Ég gerði ósköp lítið annað um síðastliðna helgi en að vinna. Þá helst var ég að gifsa krakka sem slösuðu sig á snjóbrettum. Eftir langa helgi og allt of mikið af brettakrökkum var ég alveg orðin meygluð. Skrapp eftir vinnu á sunnudagskvöld og horfði á Superbowl. Það hefur myndast skemmtileg hefð hjá nokkrum í kringum þennan leik og sú hefð var höfð í heiðri þetta árið. Leikurinn var svakalega skemmtilegur og eins góður og svona úrslitaleikir eiga að vera. Mínir menn í Patriots mörðu sigur á ögurstundu eftir svakalegar síðustu 5 mínútur leiksins. Svo var skriðið heim enda orðið snemma morguns þegar leiknum lauk.
Mánudagur og þriðjudagur runnu saman í eitt en þessa daga naut ég þess að vera í fríi frá vinnunni. Skellti mér í box-palla tíma í gymminu og það var frábært. Dagurinn eftir var reyndar ekki eins frábær - þar sem ég uppgötvaði ýmsa vöðva á mínum líkama sem legið hafa í dvala um þó nokkurt skeið. En ég mæli með svona box-pöllum engin smá útrás sem maður fær!
Nú er stefnan enn einu sinni tekin á vinnuna og vonandi fer nú eitthvað spennandi að gerast í mínu lífi. Hver veit nema maður birtist í morgunblaðinu næstu daga, maður veit aldrei!