28/05/2008

Akureyri calling!
Hjúkkan lagði land undir fót og skellti sér norður í land. Reyndar um vinnuferð að ræða en samt sem áður alltaf gott að komast aðeins í burtu frá slúðrinu og streitunni á Stór Hafnarfjarðarsvæðinu. Hér er blíða (mér skilst reyndar að það sé ekkert verra veður fyrir sunnan) og stelpan búin að spóka sig um bæinn milli funda og keyrslu. Hjúkkan hefur einstakan hæfileika til verslunar sama í hvaða bæjarfélag hún stígur fæti í. Auðvitað var þessi hæfileiki nýttur á mjög hagstæðan hátt í dag í ofurkúl versluninni Perfect. Hey maður verður nú að versla í búð með svona nafni ekki satt - en andið rólega hjúkkan keypti ekki skó!
Hjúkkan rak nefið inn í bókabúð hér á horninu og varð vitni að ótrúlega fyndni bókabúðarhegðun. Jú þarna var einstaklingur sem leit voðalega einbeittur út (var geðveikt mikið að rembast við að lesa aftan á einhverja kiljuna). Hjúkkan átti leið framhjá þessum einstaklingi og komst að því hvað var bakvið einbeitinguna. Jú félaginn var greinilega að rembast við að losa sig við óþarfa gasmyndun í þörmum án þess að nokkuð hljóð myndi heyrast. Eftir drjúga stund gaus upp þessi líka dauða fnykur og viti menn einstaklingurinn varð allt í einu ekkert nema afslöppunin í framan, lagði niður kiljuna og gekk ákveðnum skrefum að blaðarekkanum. Hjúkkan vissi ekki hvort hún myndi fyrr deyja úr fnyki eða innan hlátri en náði þó að halda andliti, finna sér bók, borga og koma sér frá þessari efnamengun.
Já það er greinilega ýmsilegt sem gerist í bókabúðum!

24/05/2008

Hátíðarvika!
Hjúkkan tók sannarlega þjóðhátíðar rennsli í vikunni sem er að líða. Jú hvert tækifæri rak annað og lítið annað að gera en að gera sér glaðan dag. Eins og allir vita byrjuðu lætin með 1. í júró á þriðjudaginn. Sú keppni var svo arfaslök að enginn hefur komist óskaddaður frá þeim hrillingi. Á miðvikudaginn var einn stærsti dagur árins þegar okkar menn komu, sáu og sigruðu í vítaspyrnukeppninni :) Dofrinn var fullur af mis hugrökkum einstaklingum sem lágu yfir leiknum. Einhverjum leið svo illa að þeir þurftu að fara yfir í önnur herbergi á meðan vítaspyrnukeppnin stóð yfir en allt tók það að lokum enda með mikilli gleði. Við United menn erum auðvitað ofboðslega fyrirferðamikil þessa dagana - en við höfum nú alveg efni á því!!!
Fimmtudagurinn fór svo í maraþon aðalfund Fíh og 2. í júró sem var nú mun betri en fyrra kvöldið. Loks kom að föstudeginum sem fór að hluta til í hópeflisferð starfsmannafélagsins með tilheyrandi tjútti. Eftir að hafa hjólað upp í vinnu í dag til að sækja bílinn komu fullorðinsstigin. Þegar maður er á bíl sem tekur reiðhjól, golfsett og golfkerru án nokkurra vandræða (jú verandi station hjálpar) þá fær maður fullorðinsstig. Það er voðalega fullorðið að vera station keyrandi einstaklingur sérstaklega þegar maður á hvorki börn né gæludýr!!!

11/05/2008

Meistarar á mörgum sviðum!
Hjúkkan er einstaklega kát eftir daginn í dag þar sem hennar menn í Man Utd kláruðu ensku deildina með meistaratitli. Auðvitað var það verðandi eiginmaður hjúkkunnar Ryan Giggs sem sett inn síðasta markið og hjúkkan brosti sínu blíðasta. Þarna þekkjum við sykurpúðann, pollrólegur og öruggur í teignum. Dofrinn var þétt setinn af fólki sem átti ýmis erindi til hjúkkunnar þ.m.t að mæla hallann á gardínustönginni, ræða komandi gönguferðir í sumar og svo auðvitað besta afsökunin var að langa svo mikið í kaffið í Dofranum og lofa að koma með croissant... Eitthvað fór nú lítið fyrir mælingum, umræðum og croissant en leikurinn var góður, treyjurnar litu vel út og teppið sómaði sér vel á sófanum. Þessi hópur verður að öllum líkindum kallaður aftur saman 21. maí n.k. ef hjúkkunni tekst að breyta smá fælles sem hafði verið planað í deildinni.
Hjúkkan sem sagt snéri aftur á laugardag úr brakandi blíðu og glimrandi sól, í rokið og rigninguna. Það er nú alltaf svolítið sjarmerandi þegar það rignir hvoru tveggja uppá við og einnig lárétt. Svolítið svona one country only stemmari í því. Annars var nú greinilegur stemmari hjá nágrönnum hjúkkunnar í morgun milli 7 og 10.30 þar sem greinilega vel heppnað eftirpartý var á ferð. Hjúkkan hefur nú alveg getað misst sig í fíling yfir "Þó líði ár og öld" með BÓ en eftir að hafa heyrt það sungið um 20 sinnum á þessum tíma þá er BÓ bara gó. Nágranninn kom þó með skottið á milli lappanna um eftirmiðdaginn og baðst afsökunar á látunum. Greyið fær nú stig fyrir það. En svona til að gera nágrannanum lífið leitt tilbaka tók hjúkkan góða æfingu á fiðluna rétt fyrir hádegi enda tónleikar hjá stelpunni um næstu helgi.

06/05/2008

Hygge sig!
Já Danir hafa nú fengið að njóta samvista með hjúkkunni frá því á sunnudaginn og kunna því greinilega vel. Allavega ef marka má veðrið sem búið er að vera, en hér hefur verið sól og brakandi blíða alla dagana. Hjúkkan situr nú inni stóran hluta dags en í öllum kaffipásum er næstum því hlaupið út í þeirri veiku von að ná í alla vega eina freknu.
Hjúkkan var nú svo fersk eftir daginn í gær að hún skellti sér á skokkið í kringum Söerne. Jú alveg hreint ofboðslega hyggeligt og gaman að hlaupa þessa leið. Hjúkkan var enn í sólargræðgi og var búin að meta hvora áttina hún skildi hlaupa í til þess að ná sem mestri sól. Viti menn allir danirnir hlupu í hina áttina og helst undir trjánum í skugganum. Hjúkkan var nú á því þetta væru bara áhugamenn um hreyfingu og gaf lítið fyrir þessa dönsku hegðun. Þegar um 5km voru búnir í glampandi sólskini og 20° stiga hita lá þá ljóst fyrir hjúkkunni hvers vegna danirnir hlupu allir í hina áttina og í skugganum - hjúkkan var að andláti komin úr hita.....
Hún náði þó að klára sína 6.3 km og druslast aftur á hótelið - rjóð í kinnum eins og ekki laust við að nokkrar freknur hafi bæst við í safnið. Höfuðverkurinn sem fylgdi í kjölfar sólar- og hitamengunarinnar gáfu hjúkkunni til kynna að þetta sólarhlaup hafi kannski ekki alveg verið rétt útpælt. Þess ber að geta að lífeðlisfræðileg kunnátta hjúkkunnar var skilin eftir uppi á herbergi áður en hlaupið hófst.
Í dag var svo annar dagur í kennslu og að honum loknum lá leiðin í hyggelighed með Nonna sínum og Þóri sínum. Hjúkkan var nú svo heppin að slá þriðju fluguna í sama högginu þar sem Haffi fékk smá sýnishorn af stelpunni en hann var að vinna og komst því ekki með. Á leiðinni til strákanna vildi nú ekki betur til en svo að hjúkkan villtist af leið. Það er greinilega ekki málið að hafa verið nokkrum sinnum í Köben. En að lokum fann hjúkkan leið sem lá í rétta átt, ekki vildi verr til en svo að hjúkkan gekk beint inn á mótmæla / kröfufund danskra hjúkrunarfræðinga á NyTorv. Torgið fullt af hjúkrunarfræðingum í stuttermabolum með skilti og allir vinir. Þetta var alveg frábær sjón og verklýðsbaráttutröllið kom upp í hjúkkunni. Ef hún hefði ekki verið á leiðinni að hygge sig með strákunum þá hefði nú örugglega fengið lánað spjald hjá collega sínum og skellt sér á útifundinn. Go sisters Go!!!