30/10/2008

Áfram stelpur!!!
Hjúkkan er himinlifandi yfir árangri kvennalandsliðsins í knattspyrnu í dag. Þvílíkt flottar stelpur sem eru sannarlega búnar að pakka karlalandsliðinu í rassvasann með sínum árangri. Hugsa sér að Ísland sé á leiðinni á EM í knattspyrnu - þvílíkur árangur hjá þeim. Að mati hjúkkunnar væri ekkert eðlilegra að hennar mati en að það fjármagn sem átti að skipta milli landsliðanna í knattspyrnu á næsta ári renni nær eingöngu til kvenna liðsins. Strákarnir verða bara að sýna að þeir séu einhvers virði!
Nú er bara að byrja að telja niður á EM og koma sér í réttu stemninguna :)

22/10/2008

Hjúkkan á ferð og flugi...
Þessa dagana er hjúkka lítið fyrir að vera heima hjá sér enda nóg að gera á öðrum vígstöðvum. Eftir stutt stopp í Köben í tvo daga þar sem manni leið eins og útigangsmanni lá leiðin til Ísafjarðar. Það leit vel út með flugið til að byrja með en greinilega var nú orðið aðeins hvassara þegar gellan lenti í Skutulsfirðinum. Vélin kastaðist örlítið til en ekkert alvarlega en samt var nú einhver miðaldra kjella með angistaróp í farþegarýminu - manni langaði eiginlega að benda henni á að hún væri jú að lenda á Ísafirði í miðjum október....
Þetta hjúkkan pæjaðist út úr flugvélinni í ullarkápunni og háu hælunum kom ansi hressileg vindkviða. Viti menn hjúkkan tókst af stað og stýmdi frekar stjórnlaust á flugstöðva bygginguna. Hún íhugaði að skriðtækla samfarþega til að draga úr ferð sinni en ákvað að sleppa því og krípa frekar í vegglufsu sem var við dyrnar og komst því nokkuð heil inn. Þetta flug hennar vakt nokkra kátinu a meðal farþega í biðsalnum en hjúkkan brosti bara sínu blíðasta og benti á ókosti þess að vera á háum hælum í hálku og roki...
Nú er bara að láta daginn líða og sjá svo bara til hvort og hvenær hún kemst aftur heim :)

02/10/2008

Fullorðins?
Hjúkkan liggur heima í flensu og sér til lítillar hamingju sá hún að stefnuræða forsætisráðherra væri á dagskrá RÚV í kvöld. Fram að þessu hefur þetta verið dagskrárliður sem hjúkkan hefur forðast af öllum mætti að horfa á en í kvöld ákvað hún að sjá hvað þessir blessuðu stjórnarstrumpar hafa að segja um ástandið og framhaldið. Viti menn þetta er mögnuð upplifun og barasta ágætis skemmtun. Á sama tíma er hjúkkan búin að ræða innihald stefnuræðunnar við tvo félaga sína og að því loknu uppgötvaði hún hversu fullorðins þetta sé. Maður er greinilega ekki lengur kærulaus unglingur sem hefur engan áhuga á stjórnmálum. Já það fullorðnast flestir einhvern tímann.