29/07/2008

Sumarfríið bráðum búið!
Hjúkkan er að klára fríið sitt undir lok þessarar viku og er nú komin með nettan aðskilnaðarkvíða við fríið. Þetta frí hefur verið langbesta sumarfrí sem hjúkkan hefur átt í ára raðir og það er eiginlega erfitt að finna það sem stelpan hefur ekki lagt sér fyrir hendur. Sæl og freknótt kemur hún til með að rúlla í hlaðið á Hörgartúninu á föstudagsmorgun, með hlaupagallann í bílnum og til í tuskið.
Þessa dagana er verið að slaka á, taka hlaupaæfingar og njóta lífsins. Í dag var einmitt ofurfrænku æfing á hlaupum og leit það ferkar illa út á tímabili. Þar sem sólin skein ansi skært og þvílíki rakinn myndaðist í Fossvogsdalnum, var um lítið annað að ræða en að fækka fötum. Nei dónarnir ykkar þetta varð ekkert "naked run" en úff verð nú að viðurkenna að manni langaði virkilega að henda sér í lækinn á leiðinni upp að Víkinni. En þetta hafðist að lokum....
Þá er bara spurning hvar maður verður um Verslunarmannahelgina??

20/07/2008

Fullkomlega frábær helgi að baki!
Hjúkkan situr nú í Dofranum þreytt en fullkomlega sæl og hamingjusöm eftir frábæra helgi fyrir vestan. Það voru nokkrir sem töldu að nú væri stelpan endanlega búin að tapa sér þegar hún ákvað að keyra á Þingeyri til þess að hlaupa 12 kílómetra eftir illfærum vegi. Jú stelpan skellti sér nefnilega í hlaup sem kallast Vesturgatan og fór fram um helgina. Um var að ræða 24km eða 12 km eftir strandveginum úr Arnarfirði yfir í Dýrafjörð í þvílíkri náttúrufegurð og dramatík. Þessi leið er dramatísk þar sem maður hleypur á vegbrúninni og horfir bara niður í þverhnýpið ef maður stigi of langt til hliðar. Hlaupið var frábært og hjúkkunni leið eins og í draumi mestan hluta leiðarinnar. Það var "brekka dauðans" undir lok hlaupsins sem var bara til þess að gera manni lífið leitt en endaspretturinn niður brekku og stelpan hljóp upp einn keppanda og framúr honum við endamarkið.... bara æðislegt. Staðfestur tími hefur ekki verið gefinn upp en Garmin tíminn er 1:12:50 og svo er bara að sjá hvað formlegur tími segir til um.
Eftir hlaupið fóru hlauparanir að tjöldunum, grilluðu og nutu þess að vera til. Sigur tilfinningin var engri lík og þess valdandi að nú er stelpan búin að ákveða að fara hálft maraþon í ágúst. Elín "Rocky þjálfari" á sannarlega heiður skilið fyrir allt púlið sem hún hefur látið hjúkkuna þrauka og skilaði sannarlega sínu um helgina.
Eftir niðurpökkun á tjaldi og dóti lá leiðin á Meðaldalsvöll þar sem Golfklúbbur Þingeyrar hefur aðsetur og 9 holur spilaðar. Það hefur verið látið uppi að 7. holan á vellinum sé ein sú fallegasta á landinu og það eru engar ýkjur. Hringurinn var góður 58 högg ( tvær holur eyðinlögðu allt...) og hjúkkan kláraði að gera allt sem hún lofaði sér að gera um helgina. Sökum leiðinlegrar veðurspár ákvað hjúkkan að "rúlla" í bæinn í dag frá Þingeyri - eftir 7 og hálfa klukkustund í bíl var hún mjög hamingjusöm þegar hún kom í Dofrann. En þvílíkt sem það er fallegt fyrir vestan. Næsta sumar verður tekið að einhverju leiti þar - það var ákveðið í dag.
Nú er afslöppun næstu daga enda sumarfríið enn í gangi og ekkert stress.
Hamingjuóskirnar fá Bragi og Vaka sem voru að eignast lítinn prins :)

09/07/2008

Icelands next top negotiator!
Hjúkkan er nú að huga að nýjum starfsferli - þar sem hún er orðin svo vön sjónvarpsmyndavélum er bara spurning um það hvernær fyrirsætu ferillinn hefst :) Það rigndi inn hamingjuóskum með gott lúkk í 10 fréttum sem er sennilega það næst sem hjúkkan kemst 15 mínútna frægð sinni .... Reyndar kom frekar fyndið fréttaskot á stöð 2 í kvöld þar sem sýndar voru myndir af fundunum og á meðan hjúkkan var á skjánum segir fréttagaurinn að "töluvert eggjahljóð" væri í samninganefndinni. Já það var hlegið af þessu og ýmsar spurningar vöknuðu um einhleypu og barnlausu konuna í nefndinni...
Gleðin er auðvitað mjög mikil hjá hjúkkunni núna þar sem hún er búin að eyða síðustu 3 dögum innan dyra hjá Ríkissáttasemjara í viðræðum við samninganefnd ríkisins. Öllum til mikillar hamingju náðust samningar í kvöld og því þarf hjúkkan að finna sér eitthvað annað að gera á morgun en að mæta í Borgartúnið. Einhvern veginn verður það sennilega lítið mál - enda búin að skipurleggja hlaup klukkan 11:45 og svo þarf að reyna að massa aftur brúnkuna :)

07/07/2008

Nýtur lífsins í fríinu!
Hjúkkan er aldeilis að njóta lífsins í sumarfríinu. Gamla mítan sem fylgdi hjúkkunni í mjög mörg ár sem fólst í því að veður var almennt vont þegar hún var á Íslandi í sumarfríi er gjörsamlega farin og hjúkkan auðvitað ferknóttari með hverjum deginum.
Helginni var eytt í góðum félagsskap í Munaðarnesi þar sem hjúkkan ákvað nú að massa tanið - enda blíðan til þess. Eitthvað voru nú fæturnir á stúlkunni næpuhvítir með nettum bláma enda hafa þeir ekki séð sólarbirtu í langan tíma. Sólarvörn var auðvitað notuð í brúnkumeðferðinni en þar sem fæturinn "verða ekki brúnir" þá var auðvitað ekki ástæða til þess að setja nokkuð á þessa fallegu leggi... Nema hvað þegar að kvöldi var komið fór að kræla á þó nokkurri hitatilfinningu sem kom frá sköflunum stúlkunnar. Henni til ómældrar hamingju virðist sem að fæturnir verði jú líka fyrir sólargeislum þegar maður massar brúnkuna og var ekki komist hjá því að viðurkenna sólbruna á sköflungum. Einhverjum til nokkurrar gleði þá hafa freknurnar á hnjánum aukist við þessi tilþrif!
Dagurinn í dag fór nú ekki í brúnkumeðferð enda var deginum eytt hjá Ríkissáttasemjara ásamt samninganefnd hjúkrunarfræðinga. Það var nú samt ótrúlegt hvað dagurinn leið hratt og á morgun verður næsti fundur. Hjúkkan var búin að leggja alla drauma um golfhring á hilluna þegar hún fékk svo gylliboð um einn hring eftir kvöldmat og auðvitað var heimavöllurinn heimsóttur. Setbergsvöllurinn hefur sjaldan eða aldrei hirt jafnmarga bolta af hjúkkunni sem þó var að spila sómasamlega - There always room for improvement!!!!
Jæja best að henda sér í ból enda nóg að hugsa um á morgun.
Afmælisbarn dagsins 07/07 er of course Karaoke drottningin og íþróttafréttaritarinn Lovísa - Til hamingju með afmælið :)

01/07/2008

Fjallageitin Fríða komin til byggða!
Hjúkkan hefur skilað sér til byggða eftir frábæra 5 daga í Kerlingafjöllum. Á föstudaginn var nú bara skutlast upp eftir og skálinn mátaður.
Á laugardaginn var Blágnípa (1076m) sigruð ásamt eiini jökulá sem var vaðin og melar dauðans sem voru arkaðir. Hjúkkan tapaði gleðinni á leiðinni tilbaka og voru síðustu 3 km af 24 sem farnir voru þanna daginn bara farnir á hnefanum og tuði við sjálfa sig. Hjúkkan bauð ekki öðrum uppá að þurfa að hlusta á sig á þessum hluta leiðarinnar. Gleði fannst að nýju þegar bjórinn var opnaður eftir gönguna :) Það snjóaði á laugardagskvöldinu!!!
Sunnudagurinn var rólegur, bara 3 klst ganga um hverasvæðið enda skyggni slæmt, rok og rigning og frekar fúlt að hanga utan á fjalli. Aftur tekinn bjór um kvöldið...
Mánudagurinn var dagur sigurvegaranna!!! Þessi dagur byrjaði með sólskini og rjómablíðu, því var ákveðið að fara fjallahringinn góða sem átti að vera á dagskrá deginum áður. Dagurinn byrjaði á Fannborg (1448m) sem var yndislegt. Útsýnið fallegt og stemningin góð. Baráttan hélt áfram og næsti toppur var Snækollur (1503m skv gps tæki á staðnum) og þar var logn og brilljant útsýni yfir allt landið. Þvílíkt fallegt að horfa yfir svæðið og horfa á næsta tind sem átti að sigra, sjálfur Loðmundur (1426m). Loðmundur reyndist persónulegt markmið og var þetta ekki fyrir alla. Þrehnípt klifur efst í fjallinu og fjallið hulið lausu og oddhvössu grjóti. Á þessu fjalli sigraðist hjúkkan á sjálfri sér og komst að því að hún er í fanta formi og kallar ekki allt ömmu sína. Hjúkkan kom ekki bara sjálfri sér á óvart heldur einnig Fribbanum sem hafði greinilega ekki átt von á þessari massívu frammistöðu hjá stelpunni - bara gaman! Það er ekki spurning um hvort heldur hversu margar freknur bættust við í andlit stelpunnar. Ef það er einhvern sem finnur hjá sér þörf til þess að koma og telja þær þá er það þess vandamál :)
Nú er heim komið og hjúkkan finnur enga sérstaka þörf hjá sér til þess að fá sér flatkökur með hangikjöti eða smurkæfu og hvað þá heldur að renna niður einni Kókómjólk!
Nú er málið að massa sumarfríið - nú á golfið næstu daga og svo er það auðvitað Vesturgatan sem þarf að hlaupast í gang. Góðar stundir :)