29/07/2007

Útilegu drottning!
Hjúkkan er orðin að opinberri útilegu drottningu í kjölfar þess að hafa massað gírinn um daginn. Já til hvers að bíða eftir búnaði sem til er en alltaf eitthvað sem kemur til með að koma í veg fyrir notkun hans. Hjúkkan smellti í tjald, dýnu, pumpu og kælibox sem hægt er að tengja í rafmagn á bílnum og því helst allt kalt og fínt :)
Fyrsta útilegan var nú stutt - bara eina nótt enda var veðrið eftir spánni. Það passaði að rigningin byrjaði um leið og gírinn var kominn í bílinn daginn eftir. Kvöldið fór í grill, nokkra kalda eins og lög gera ráð fyrir, spil og spjall. Alveg yndisleg kvöldstund og verður vonandi fljótlega endurtekin.
Að öðru leyti er hjúkkan sem sagt skriðin upp úr veikindunum sem kostuðu 6 daga af sumarfríi í vanlíðan og verkjalyf. Nú er málið að koma sér í form og hlaupa smá í Reykjavíkurmaraþoninu. Hjúkkan er nú ekki haldin svo mikilli bilun að halda að hún fari mjög langt í hlaupinu er 10 kílómetrar er nú ágætis vegalengd fyrir byrjendur.
Á morgun byrja svo haust ferðalög vinnunnar, reyndar bara stutt stopp í Köben í þetta sinn og svo aftur í næstu viku. Hver veit nema það sé kominn nýr in-flight-shopping bæklingur :)

23/07/2007

Framkvæmdargleði í veikindum!
Sumarfríið er orðið mjög dæmigert hjá hjúkkunni - komin rigning og hjúkkan lögst í hálsbólgu og hita!! En hjúkkan lætur ekkert smá hita og verki í öllum líkamanum stoppa sig. Þar sem hjúkkan hefur nú smá vit á lyfjum er hún búin að vera að notast við íbúfen og panodil með góðum árangri. Þegar blandan er í fullri virkni er hjúkkan ekkert nema fersk og til í tuskið. Af þeim völdum tók hún sig til og reif skápinn úr holinu í forstofunni, ein og óstudd og ekkert smá stolt af sjálfri sér... Mágmaðurinn kom á laugardaginn og henti upp ljósunum í loftið og hjúkkan lá í nettu lyfjamógi á meðan. Til að kóróna allt saman tók hjúkkan sig til og endurskipurlagði skápinn á baðinu, í svefnherberginu og bar olíu á húsgögnin á svölunum.
Eftir alla þessar framkvæmdir var ekki um annað að ræða en að koma sér til læknis og fá eitthvað almennilegt við þessum veikindum því hjúkkan er búin að framkvæma öll þau verk sem henni dettur í hug á heimilinu í augnarblikinu. Hjúkkan hafði mestar áhyggjur af því að hún yrði farin að banka uppá í öðrum íbúðum í húsinum og bjóðast til þess að þrífa!!!!!
Nú er hjúkkan komin með sýklalyf og getur því farið að sigrast á þessum fjanda og halda hlaupaæfingum sínum áfram. Stefnan er tekin á 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu og nú er bara að duga eða drepast!!!

19/07/2007

Hjúkkan og iðnaðarmaðurinn!
Fyrirsögnin hljómar eins og góð kjaftasaga sem maður flytur í Fjarðarkaupum en svo krassandi verður þessi færsla nú ekki :)
Þessa dagana er hjúkkan að vinna að "rigningar-dags-verkefnunum" sínum sem eru komin til framkvæmdar á meðan sumarfríinu stendur. Eins og þeir sem hjúkkuna þekkja vita þeir að rigning fylgir yfirleitt sumarfríi hennar og hjúkkan hætt að velta því fyrir sér af hverju enginn vill vera í fríi á sama tíma og hún!!! Nema hvað að nú er hjúkkan á fullu að mæla skápa, skúffur og sökkla í þeirri veiku von um að geta loksins farið í seinni hluta framkvæmda í Dofranum. Þar sem hjúkkan er búin að búa þar í 1 og hálft ár er kominn tími á að halda áfram hreiðurgerðinni sinni. Nú skal taka í gegn skápana á ganginum, í svefnherberginu og vonandi poppa upp eldhúsinnréttinguna. Af þessum völdum gengur hjúkkan stolt um með tommustokkinn sinn og málbandið. Það er alveg magnað hvað maður getur orðið mikill iðnaðarmaður þegar maður metur eigin getu til hins ýtrasta :) Það er alveg að borga sig að vera sporðdreki og verkfræðingsdóttir enda allt teiknað upp með mismunandi vinklum og pælingum. Nú vantar hjúkkunar bara svona vinnuvesti og buxur með svona hnéhlífum og þá er hún bara geim í framkvæmdir :) Það er kannski öllum og öllu fyrir bestu að sólin fari að skína að nýju því aldrei að vita hvar þessi framkvæmdargleði endar...

16/07/2007

Góðir menn eru til!
Trú hjúkkunnar á góðmennsku fékk endurræsingu í gær þegar hún var í öngum sínum við Reykjanesbrautina. Þannig var að hjúkkan var á leið heim úr grilli hjá gamla settinu þegar fóru að berast einkennileg hljóð aftan úr bílnum hennar. Hún ákvað að keyra aðeins lengra í þeirri veiku von um að hljóðið hætti - en svo fór ekki. Því keyrði hjúkkan út í kant við Reykjanesbrautina og fór að athuga með bílinn. Jú viti menn - alveg gjörsamlega sprungið á öðru afturhjólinu!! Nú voru góð ráð dýr - hjúkkan hafði einhvern tímann séð varadekkið undir dæminu í skottinu en hvar tjakkurinn var og svoleiðis dót var önnur spurning. Eftir góða leit fannst tjakkurinn og dótið undir dekkinu - kirfilega skrúfað niður svo enginn gæti mögulega losað hann og stolið!! Eftir stutta stund var hjúkkunni ljóst að hún gæti ekki losað tjakkinn og þarf af leiðandi ekki reddað sér. Hún hringdi nokkur símtöl en allir voru að horfa á úrslitin í Copa America eða að redda málum og enginn gat komið að hjálpa stelpunni.
Hún bograði eina ferðina enn inn í skottið og reyndi að losa draslið ( auðvitað í stutta gallapilsinu sínu..) og bar þá að þennan góða mann. Hann vatt sér upp að bílnum og bauð fram aðstoð sína. Hjúkkan þakkaði Guði fyrir þessa sendingu og gaurinn enga stund að redda þessu. Kom síðar í ljós að hann vinnur hjá Brimborg og kann því vel á svona bíla. Hjúkkan þakkaði honum af öllum hug og keyrði heim hin glaðasta með nýja trú á karlmönnum - þessir góðu eru til!!!
Í dag fór hjúkkan með dekkið í viðgerð þar sem það var úrskurðað látið - jamm stærðarinnar skrúfa var lengst inni í því og dekkið ónýtt að innan sem utan. Kosturinn við fyrirtækjabíla er að láta svo bara senda reikinginn á fyrirtækið og ganga brosandi burtu :)
Annars var fyrsti dagurinn í sumarfríi í dag og komst hjúkkan í gegnum hann án þess að skoða tölvupóstinn sinn. Hún skottaðist með Maríu systir og gullmolunum og gekk frá dekkjamálinu. Í kvöld brá nú hjúkkunni aldeilis við fréttirnar af TF- Sif sem lenti í sjónum. Sem betur fer sakaði engan og sá sem átti að vera á þyrlunni á þurru landi.

15/07/2007

Sumarfrí!
Þá er hjúkkan loksins komin í sumarfrí eftir tveggja ára vinnutörn. Þar sem hjúkkan skipti um vinnu síðasta sumar tók hún sér ekkert frí og var því orðin ansi langþreytt eftir þessu fríi. Fríið byrjaði á smá vinnu í Þórsmörk fyrir íþróttabandalag reykjavíkur í tengslum við Laugarvegs maraþonið og var það bara yndislegt. Það er alltaf gaman að koma inn í Þórsmörk þó svo að það hafi nú verið svolítið napurt og blautt þar í gær. Dagurinn leið hratt og áður en maður vissi af voru allir hlaupararnir komnir niður og lítið að gera hjá landsliðinu í mótttöku slasaðra s.s. hjúkkunni og Bjarna lækni.
Eitthvað virðast örlogin vera að gera grín að hjúkkunni þessa dagana með tilheyrandi dramatík og fólki sem hjúkkan vill sem minnst rekast á. En eins og hjúkkunni einni er lagið er bara mál að láta sér líða vel og gera hluti sem henni finnst skemmtilegir.
Dagurinn í dag er búinn að fara í sólabað á svölunum með kaffibolla og nokkur eintök af Cosmopolitan. Þannig er að hjúkkan kaupir alltaf Cosmo fyrir flug og sofnar svo fljótlega eftir að lesturinn er hafinn. Því á hún mikið magn af hálflesnum Cosmo og við stelpurnar kunnum regluna - maður hendir aldrei hálflesnu COSMO!!!!
Hjúkkan fór inn á síðu sem Kjáninn mætli með til að sjá hvaða lag var á toppi Billboard listans daginn sem hún fæddist og það þarf auðvitað ekki að koma á óvart hvaða titil lagið ber sem trónaði á toppnum 5. nóvember 1977... "You light up my life" með Bonnie Doone sem hjúkkunni finnst einstaklega vel viðeigandi á hennar degi :) Jæja nú er málið að fara að "light up" lífi þeirra sem í kringum hana eru. Góðar sumarstundir :)

11/07/2007

Ein sápan tekur við af annarri!
Þar sem hjúkkan er búin að taka tvær umferðir á Grey´s seríurnar tvær og bíður spennt eftir þeirri þriðju er ekki um annað að ræða en finna sér nýja sápu til að horfa á þangað til. Hjúkkan er nú ekkert að farast úr frumleika í þessu máli, heldur ákveð að skella sér í gegnum Friends seríurnar, eins brjóstumkennanlegt og það hljómar. En það er einhvern veginn svo þæginlegt að liggja bara uppi í sófa og horfa á eitthvað sem krefst ekki mikillar einbeitingar.
Hjúkkan þarf á allri einbeitingu að halda þessa dagana þar sem sumarfríið byrjar eftir 2 daga. Frekar stórt verkefni datt inn í gær og er hjúkkan að dunda sér við lestur þessa dagana. Hún þarf nefnilega að klára um 1000 blaðsíður fyrir þjálfun sem hún fer í að sumarfríi loknu.
Já Köben verður tekin með trompi tvisvar sinnum á 10 dögum í lok júlí og byrjun ágúst. Sumarfríið hefur ekki verið skipurlagt að neinu nema svefni og afslöppun. Hver veit nema hjúkkan fari í hreiðurgerð á eigin heimili eða bara missi þetta upp í kæruleysi og skelli sér eitthvað til útlanda. Draumurinn er auðvitað að elta bara sólina um Ísland, en það er nú frekar dauf stemning í því að rúnta um landið einn! En hjúkkan ætlar ekki að hafa miklar áhyggjur af þessu og reyna bara að njóta lífsins enda fyrsta sumarfrí í tvö ár.