26/06/2008

Sumarfrí!!!!
Í dag kvaddi hjúkkan móttökudömuna með þessum orðum " ég er farin, sjáumst eftir Verslunarmannahelgina" og svo brosti hún út að eyrum, skottaðist brosandi út í bílinn sinn og brosti með öllum líkamanum. Þetta er í fyrsta sinn í sögu hjúkkunnar sem hún tekur sér svona langt frí í einum rikk. Í fyrra átti hún bara hálft frí þar sem hún var frekar nýbyrjuð í vinnunni og þar áður hætti hún á slysó og byrjaði í næstu vinnu 2 dögum síðar.
Nú er sem sagt ekkert nema hamingjan í gangi yfir fríinu og frjálst að gera það sem hún vill. Fyrstu dagarnir fara í gönguferð í Kerlingafjöll og svo er það bara það sem hugann girnist að gera :) Alveg yndislegt!!! Þórsmörk og off road hlaup á Vestfjörðum eru meðal þess sem eru á dagskrá og svo auðvitað að massa golfið!
Hjúkkan er búin að secreta sólina og panta hana út júlí þannig að þið þurfið ekki að hafa neinar áhyggjur af því að veðrið fari að versna. Njótið sumarsins og sólarinnar... og svo má alls ekki gleyma "stelpunum okkar". Þvílíkt flott landslið sem við eigum þar á bæ. Þessar stelpur eru gjörsamlega búnar að taka karlalandsliðið og sturta því niður klósettið! Go Girls!!

23/06/2008

Ferðafélagið Fnykur!
Hjúkkan hóf ferðasumarið með frábærra göngu yfir Fimmvörðuhálsinn aðfaranótt laugardags. Þetta er svokölluð Jónsmessuferð Útivistar og því er gengið alla nóttina. Ferðin var algjörlega frábær í alla staði, veðrið brilljant og félagsskapurinn illa flippaður enda meirihlutinn samstarfsfólk hjúkkunnar. Það var ótrúlega góð tilfinning að koma niður í Bása kl. 8 að morgni, fá sér einn kaldan með teygjunum, tjalda og fá sér blund. Laugardagurinn var tekinn í afslöppun og grillveislu og varðeld um kvöldið að ógleymdri hressilegri koju við tjaldbúðirnar hjá hópnum. Einhvern tímann á laugardeginum var Ferðafélagið Fnykur stofnað með vísan í aftansöng eins ferðafélagans... Það var auðvitað hlegið svo mikið að tárin láku niður kinnarnar og sungnir vöggusöngvar fyrir frænkurnar í krútttjaldinu.
Næstu helgi er svo næsta gönguferð - nú með Ingu og Fribba í Kellingafjöll og það í 4 daga. Ekki slæm upphitun að hafa skellt sér yfir Fimmuna og í dag hjólaði hjúkkan úr Dofranum í Brekkuselið í mat til gömlu. Já það verðar sko bara buns of steal eftir sumar hjá stelpunni :)

13/06/2008

Retail therapy!
Já retail therapian hefur aldrei brugðist stelpunni þegar á móti blæs og það er að sannast enn eina ferðina þessa dagana. Þar sem hjúkkan hyggur á miklar gönguferðir í sumar var mikil þörf á að koma sér upp réttum búnaði og auðvitað rétta lúkkinu (sögur herma að lúkkið sé mjög mikilvægt). Því hefur stúlkan krúsað um helstu útivistarvöruverslanir höfuðborgarsvæðisins þessa dagana og yfirleitt náð að finna sér eitthvað ómissandi. Það er nú samt ekki eins og hjúkkan sé búin að eyða öllu sínu sparifé í retail therapiuna, þar sem hjúkkan lítur meira á þetta sem fjárfestingar. Það kostar nýra að fá sér til dæmis góðar göngubuxur og jakka, svo kostar það hitt nýrað að fá sér stafi og minni hluti sem virkilega safnast þegar saman kemur. Það er nú aldeilis gott að krútttjaldið var keypt í fyrra annars þyrfti örugglega að selja lifrina líka!!!
Nú er bara að klára næstu vinnuviku og krúsa svo í fjöllin og njóta lífsins með nokkrum rugludöllum úr vinnunni.

09/06/2008

Kominn tími til!
Það er nú aldeilis kominn tími til að tjá sig aðeins um málefni líðandi stundar. Hjúkkan lifði af jarðskjálftana á Suðurlandi með því að vera stödd á Akureyri eins og frægt er. Eftir að hafa heyrt fréttirnar í útvarpinu og fengið nokkur góð hughreystandi símtöl að sunnan ákvað hjúkkan að það væri nú óhætt að fljúga tilbaka. Hjúkkan á frekar erfitt með jarðskjálfta og eins og Svana vinkona hefur stundum sagt þá er um að ræða jarðskjálfta hræddustu konu norðan Alpafjalla! Hjúkkan tók nett panic á Akureyri áður en hún fór í loftið og besta mómentið var eiginlega þegar hún ákvað að það væri örugglega ekki flogið innanlands þar sem flugbrautin í Reykjavík væri á sífelldri hreyfingu sökum skjálftanna - já maður er ekki alltaf með skýrustu hugsunina þegar kemur að svona hlutum. En sem betur fer fór þetta allt vel (þá meina ég á Suðurlandi).
Nú er hjúkkan hins vegar búin að breyta um lúkk og er nú orðin stutthærð en samt rauðhærð og með þykkt og hrokkið hár!!! Enda nýjir tímar og sumarið framundan með góðum gönguferðum, tjaldi, golfsettinu og kæliboxinu í skottinu :)
EM hátíðin er hafin og ætlar hjúkkan að fylgja Hollendingum í ár - enda var hún voðalega skotin í Marco van Basten hér í gamla daga (hver man ekki eftir honum...) Ef það er einhver sem les þessa vitleysu og finnur sig knúinn til þess að kaupa EM límmiða þá á einmitt hjúkkan "official sticker book fo EM 2008". Já stelpan sá voðalega eigulega EM upplýsingabók í flugvélinni á leið til Basel um daginn og ákvað að rýna í þetta á hótelinu. Nema hvað þegar þangað var komið kom í ljós að um var að ræða þessa margfrægu límmiðabók!!! Já kannski að lesa betur utan á hluti áður en maður ákveður að stela þeim úr flugvél...