28/08/2007

Erfiðir tímar!
Já það er komið að því... maðurinn sem hjúkkan ætlar að giftast þ.e. fyrir utan Ryan Giggs og nokkra aðra er hættur í boltanum vegna meiðsla. Ole Gunnar Solskjær er hættur og maður kemur ekki til með að sjá hann spila oftar með Man Utd!

http://www.mbl.is/mm/enski/frett.html?nid=1287878

Læt hér fylgja með vísu um Solskjær sem sungin er á Old Trafford honum til heiðurs:

You are my Solskjaer,
My Ole Solskjaer,
You make me happy,
When skies are grey,
And Alan Shearer,
Was fucking dearer,
So Please don't take,
My Solskjaer, Away....

26/08/2007

Blússandi sjálfstraust og stingandi augnarráð!
Helgin hefur nú aldeilis verið frábær hjá hjúkkunni. Hún er búin að fara á stelpukvöld, kíkja í búðir með Maríu systir og litlu prinsessunni, fara í tvöfalt þrítugsafmæli og slá í gegn að eigin mati. Tvöfalda þrítugsafmælið var eins og nostalískt MH reunion og þar var bara frábær stemning. Ótrúlega gaman að hitta fólk sem maður hefur ekki séð í mörg ár og það var mikið hlegið. Sjálfstraust hjúkkunnar jókst til muna og einn gamall kunningi komst að því að hann er sennilega síðastur að fá fréttir. Eftir afmælið lá leiðin á ölstofuna þar sem hópurinn var áfram í mikilli stemningu og ýmis misgáfuleg komment voru látin út úr sér.
Dagurinn í dag hefur farið í aflsöppun, bakvakt sem endaði með útkalli, þrif á heimilinu og brostnar vonir í kjölfar atburða í Landsbankadeildinni. En hjúkkan á í köldu stríði við stærðarinnar könguló sem hefur gert sig heimakæra utan á hús hjúkkunnar. Þetta er flennifeit hlussa sem hvæsir á mann ef maður kemur of nálægt. Nema hvað að hjúkkan var að viðra sængurnar sínar og þurfti því að fjarlægja vef köngulóarinnar og hana sjálfa því ekki vill maður fá svona kvikindi í sængina sína. Köngulóin var ekki hin hressasta þegar hjúkkan tók kústskaft, eyðinlagði vef hennar og skaut henni niður á grasflöt. Hjúkkan gekk inn og sótti sængurnar og var komin aftur út á svalir nokkrum mínútum síðar. Viti menn, henni mætti stingandi kalt augnarráð köngulóarinnar sem hvæsti á hjúkkuna. Jú kvikindið hafði skriðið á methraða upp húsvegginn og var tilbúin í slag. Hjúkkan sótti aftur kústskaftið góða og sá til þess að köngulóin myndi ekki spinna frekari vef á ævinni. Blessuð sé minning hennar!

20/08/2007

Markmiðum náð!
Hjúkkan stóð sig eins og hetja um helgina þegar hún náði settum markmiðum í 10km hlaupinu í Reykjavíkurmaraþoninu. Það er alltaf hægt að berja sig eftirá og hugsa af hverju maður sprengdi sig ekki á endasprettinum í stað þess að hlaupa bara í góðum gír en þess vegna veit maður betur næst. Flögutíminn ( frá því maður stígur á mottuna úr rásmarki og í endamarki ) hjá stelpunni er 1.01.42 en stelpar horfir til klukkunar sem hún hljóp með á hendinni sem sýndi 59.45 og er bara hæst ánægð með árangurinn :) Það er bara frábær tilfinning þegar maður sér að markmiðinu er náð á ekki lengri undirbúningstíma en raun bar vitni um ( ca. 3 vikur). Nú er stefnan að halda áfram og hlaupa í vetur og sjá svo hvaða vitleysu maður tekur upp á á næsta ári. Það var stór hópur sem hljóp úr vinnunni og þar af tveir afreksmenn - yfirmaður hjúkkunnar sem varð Íslandsmeistari kvenna í heilu maraþoni og svo auðvitað Siggi og Gunna. En Siggi hljóp heilt maraþon einn með Gunnu sína í hjólastólnum - þvílíkt afrek þar á bæ.
Í vinnunni í dag náði hjúkkan loks öðru markmiði þegar hún kláraði verkefni sem hún hefur ekki viljað horfast í augu við í alltof langan tíma. En í dag var þetta eitt á dagskrá að klára dæmið og koma því frá sér (það voru ekki tímamörk á þessu verkefni).
"Góður" samstarfsmaður hjúkkunnar sendi svo stelpunni link á stórskemmtilegt KR lag sem samið er um árangur Teits með liðinu. Þetta er reyndar algjör snilld og hvetur hjúkkan alla til að hlusta vel á textann. Lagið er að finna hér http://pdf.sport.is/mp3/tate_kelly.mp3
Á meðan við erum á KR nótunum vill hjúkkan beina athygli lesenda að því að KR er ekki í neðsta sæti deildarinnar :)

15/08/2007

Heitum á hjúkkuna!
Nú er allt að gerast hjá hjúkkunni. Skápurinn er kominn inn í íbúðina í fjölmörgum pörtum og smiðurinn er væntanlegur á morgun. Hjúkkan tekur smá forskot á sæluna og byrjar að setja saman innvolsið enda hefur hún margsannað iðnaðarmanna hæfileika sína :)
Hlaupin ganga samkvæmt áætlun og nú er farið að styttast í laugardaginn og hjúkkan til í tuskið. Nú er það bara fyrir ykkur sem ætla ekki að hlaupa að styrkja gott málefni og heita á stelpuna. Hægt er að framkvæma það á www.glitnir.is og smella á áheit á hlaupara. Hjúkkan fylgir einum samstarfsmanni sínum og hleypur til styrktar Heilaheill sem er lítið félag einstaklinga sem fengið hafa heilablóðfall og aðstandenda þeirra. Hjúkkan er nú ekki að fara langt og því getið þið alveg borga smá fyrir að sitja á bossanum á meðan hjúkkan hleypur (ásamt hinum 5000 manns).

11/08/2007

Dönsk sundferð!
Seinni hluti ferðarinnar hjá hjúkkunni var nú vinnutengdur. Sem sagt fundir, þjálfun og svo ógleymanlegur sumarsölufundur. Já það er alveg magnað hvað danir geta talað og endalaust spurt sömu spurninganna aftur og aftur, bara með mismunandi orðalagi. Hjúkkan var nú orðin pínu uppgefin á dönskunni undir loks hvers dags, nema hvað að á var alltaf eitthvað "fælles" dæmi um kvöldið. Ratleikur fyrsta kvöldið og svo grill á ströndinni seinna kvöldið. Það kvöld var reyndar með eindæmum skemmtilegt og endaði í "dönsku" sundi í sjónum seint um kvöld. Já danir mega eiga það að þeir kunna að hafa það huggulegt og það var sko engin spurning um annað hér. Stjörnubjart, einhverjir glitrandi blettir í sjónum og fínn hiti á vatni og lofti. Hjúkkan benti reyndar á að hafi danir hug á því að gera slíkt hið sama á Íslandi þá annað hvort drepist þeir úr kulda í sjónum eða löggan komi og fiski þá upp vegna gruns um sjálfsvígshættu! Strandgrillið gengi heldur ekki upp - en möguleiki væri á jökulgrilli :)
Hjúkkan er að standa sig eins og hetja að eigin mati í hlaupaþjálfuninni. Hún tók nokkrum sinnum fram skóna í fríinu og hljóp bæði í Svíþjóð og Danmörku! Eitthvað er hegðun hjúkkunar að breytast því nú er hún farin í bólið fyrr á kvöldin og vaknar fersk - fyrir hádegi og skellir sér út að hlaupa. Já áður en maður veit af verður hún farin að fara í gymmið fyrir vinnu!!!

07/08/2007

Á farandsfæti enn á ný!
Hjúkkan er komin í sitt vanabundna form að vera lítið sem ekkert heima hjá sér. Hún skrapp á fund í Köben á mánudag í síðustu viku og kom heim daginn eftir. Eftir nokkra daga heima var henni farið að leiðast þófið og skellti sér aftur út á laugardag í fjölskylduferð til Svíþjóðar. Í fyrsta sinn í mörg ár var öll fjölskyldan saman komin og farið var í Tívolí og dýragarð meðal annars. Hjúkkan skemmti sér ekkert minna en litli 4 ára frændi í dýragarðinu og var hún alveg heilluð af rauð-rassa-öpum sem fórum mikin á svæðinu sínu. Eftir góða afslöppun í sól og blíðu í Svíþjóð lá leiðin enn á ný til Köben þar sem hjúkkan dvelur í nótt og fer svo áleiðis til Korsör á morgun á fund í nokkra daga. Í Köben er lífið ljúft - hjúkkan er á sama herbergi og hún hefur gist á s.l. 3 skipti í Köben og er því farin að kunna ansi vel við sig.
Kvöldmaturinn var pizza sem tekin var upp á herbergi og borðuðu við mjög svo afslappaðar aðstæður og það eina sem vantar er félagsskapurinn.
Hjúkkan kemur tilbaka á föstudag, gullbrún og freknótt eftir sól og blíðu s.l. daga og í dúndurformi enda í æfingu fyrir 10 kílómetrahlaup í Reykjavíkurmaraþoni. Hún tók meira að segja smá skokk í Svíþjóð í fríinu. Hjúkkan er að koma sjálfri sér skemmtilega á óvart í þessu dæmi öllu og ætlar auðvitað að verða flottust á brautinni 18. ágúst n.k.