19/01/2011

Heltekin af handbolta!
Þegar kemur að stórmótum í handbolta á hjúkkan það til að missa kúlið yfir sjónvarpinu heima í stofu. Eftir áralanga reynslu af eigin hegðun yfir leikjum íslenska landsliðsins í handbolta hefur hjúkkan lært að þessi hegðun er ekki eitthvað sem maður sýnir á opinberum vettvangi. Allt frá því að kalla hvetjandi orð ( já og stundum blótsyrði... ) til sjónvarpsins ( í þeirri staðföstu trú um að það skili sér til leikmanna ) til þess að naga hornið á púðanum eru dæmi um hegðunarmynstur sem birtist hjá hjúkkunni. Nú þegar HM2011 hátíðin stendur sem hæst er eintóm handbolta hamingja í gangi. Liðinu gengur vel, allir heilir og hjúkkan enn laus við hjartsláttartruflanir. Þar sem síga fer nú á meiri spennu í mótinu er alls ekki öruggt að þetta ástandi vari lengi. Það góða við þetta er að á endanum líkur mótinu og tilbaka kemur hin rólega og dagfarsprúða hjúkka. Annar fylgifiskur svona stórmóta er hjátrúin og sú trú að hegðun hjúkkunnar, aðstæður þar sem hún horfir á leiki og jafnvel klæðnaður geti haft eitthvað að segja um árangur liðsins. Þetta fer kannski að verða spurning um að hafa of mikið álit á eigin áhrifum :) Þangað til að eigináhrifin fara að dvína mun hjúkkan horfa á leiki heima í stofu, gargandi á sjónvarpið, fnussandi yfir þeim sem er að lýsa og á meðan sigra auðvitað íslensku strákarnir okkar. Áfram Ísland :)

16/01/2011

Nýtt ár ... spurning um að reyna eina ferðina enn að halda uppi einhverju skemmtilegu hér :)
Hjúkkan er aldeilis ánægð með nýja árið og allt nýja útivistadótið sem hún hefur sankað að sér á síðustu mánuðum. Nú hendir nú sér niður ísilagðar brekkur og bremsar sig af með exinni af miklum móð. Þrátt fyrir miklar æfingar nú um helgina virðist þó nokkuð vera í land að búið sé að mastera tæknina ef maður fer með höfuðið á undan. Það virðist sem svo að hjúkkan verði að horfast í augu við að vera næstum orðin lúðápúði sem er víst núheitið á Gingangúllí :) en án flíspeysunnar.
Nýja árið verður sem sagt "osom" með fjöllum, klifri, námsbókum og má svo nokkuð gleyma blessuðu vinnunni :) Þar hafa nú samt margar skemmtilegar hugmyndir komið upp ( höfum það í huga að við erum alveg 3 á skrifstofunni). Það hafa verið vangaveltur um að hafa "leynivinaviku" og svo er auðvitað klassískt að skipa í skemmtinefnd.... jebb lúðapúðinn er alveg að slá í gegn :) Ætla að finna aftur skrifgleðina og tjá mig meira á árinu.