29/04/2004

Virkilega vondur hárdagur!
Ég tók þá svakalega vondu ákvörðun í dag eftir góða ferð í gymmið varðandi hárið mitt. Ég einfaldlega nennti ekki að blása það og slétta með sléttujárni þannig að ég ákvað að leyfa hárinu að þorna og vera frjálsu. Þetta var sem sagt einhver sú versta ákvörðun sem ég hef tekið í langan tíma. Ég tölti glöð í bragði í vinnuna, ánægð með góða ferð í gymmið og hárið frjálst og flaksandi. He he - já ég hefði átt að segja mér það sjálf að eftir u.þ.b. klst leit ég út eins og meðlimir gömlu góðu þungrokkssveitarinnar Europe! Hvað er málið með krullur og liði dauðans sem ákveða allt í einu að taka höndum saman og valda manni miklum erfiðleikum? Ég hljóp til og sótti hárburstann sem ég hef alltaf í skápnum í vinnunni og reyndi að ná tökum á vandanum. Einfaldlega sagt þá var engin lausn á þessu rugli - þetta var orðinn vondur hárdagur og ég þurfti að horfast í augu við það. Skemmtilegi hlutinn var þó fólginn í því að samstarfsfólk mitt hafði endalaust gaman af því að raula gömul Europelög á við Final Countdown í hver sinn sem ég nálgaðist! Það er alltaf gaman að geta glatt fólk með vondu hári!

25/04/2004

Europopp dauðans!
Hafi einhver séð kynningarþáttinn fyrir Eurovisionlögin sem var á RÚV s.l. laugardagskvöld getur ekki verið annað en sammála mér í þessum máli. Í fyrsta lagi - hvað er málið með þennan þátt, er ekki hægt að sýna bara myndböndin eins og alltaf hefur verið gert? Síðan hvernær varð Eiríkur Hauksson sérskipaður Eurovision sérfræðingur Íslendinga? Öllu gríni sleppt þá held ég að þessi keppni stefni í alversta Europoppmoment sögunnar. Finnarnir voru reyndar með ágætis Eurpopp-tangó en vá - hvað er málið með hin 10 löndin sem voru kynnt. Gríski gaurinn var að missa sig yfir því að stæla Ricky Martin með ofursmellinum Shake it - shake it og svo var einhver hárgreiðslumaður sem söng eitt lag - og sá maður ætti nú bara að halda sig við hárskurðinn. Annars var þessi þáttur áhugaverð skemmtun - því ég held að íslenska lagið hljóti bara að vinna miðað við þau lög sem búið er að kynna. Er annars í penu þunglyndi þar sem ég er á kvöldvakt á slysó á Eurovision kvöldið!! Að öðru leyti er þriðja næturvaktin í nótt og sú síðasta í þessu holli. Þetta hafa nú verið ljúfar vaktir og lítið að gera þannig að við erum bara bjartsýn fyrir nóttina. Magnús ofurlæknanemi var að nemast hjá okkur í nótt og stóð sig eins og hetja - hrós dagsins fer til hans! Pirrgingur dagsins fer til fjarstýringarinnar af afruglaranum sem er búin að vera biluð í nokkra daga - vá hvað maður er háður svona tækjum!

22/04/2004

Dóudjamm!
Fór í kvöld á Dóadjamm sem haldið var til heiðurs henni Dóu sem var loks að hætta að vinna á kaffihúsinu sem hefur hýst vinahópinn í gegnum tíðina. Þetta var alveg einstaklega vel heppnað djamm sem byrjaði á því að við gellurnar hittumst og skáluðum fyrir gömlum tíma á Kofanum. Hitna fór í kolunum þegar líða tók á kvöldið og ýmsir létu sjá sig, þ.á.m gipsaði Kjáninn og FréttaHéðinn sem þurfti að fara snemma því hann er á morgunvakt í dag. Eftir góða skál og nokkra dansa við yndisleg gömul lög frá unglingsárum okkar lá leiðin í stutt stopp á ölstofunni. Þar rakst ég á Sykurpabbann sem átti að fara að koma sér út á flugvöll og uppáhalds læknanemann minn hann Magnús. Þar sem loftræsting er mjög bágborin á báðum stöðum skellti ég mér í góða sturtu eftir að heim var komið svo svefnherbergið myndi ekki lykta eins og verksmiðja! Stefni í háttinn og markið er sett á að sofa frameftir á morgun.

18/04/2004

Þá sjaldan að maður lyftir sér upp!
Síðustu dagar hafa eiginlega verið svolítið einkennilegir í lífi ofurhjúkkunnar. Dreif mig í saumó til Þóru á fimmtudagskvöldið þar sem yngsti og krúttlegast meðlimur saumaklúbbsins, hann Hrafnkell Daði sló í gegn. Eftir saumaklúbbinn lá leiðin á næturvakt sem var alveg einstaklega ljúf og mjög lítið að gera. Eftir góðan svefn ákvað ég að skella mér á fyrirlestradag sem var í boði ákveðins lyfjafyrirtækis. Eftir nokkra mjög góða fyrirlestra og góða skemmtun var boðið upp á léttar veitingar sem fólust í rauðvíni og snittum. Eftir þó nokkrar áfyllingar á rauðvínsglasið lá leiðin á MARU þar sem hluti af hópnum ákvað að fá sér að borða áður en frekara djamm tók við. Við hin drifum okkur á ölstofuna og hittum fullt af fólki þar. Samstarfsfólk mitt var orðið svolítið tipsí þannig að það þynntist alltaf í hópnum. Á Ölstofunni upplifði ég örlítinn reunion fíling þar sem ótrúlegasta fólk frá menntaskóla árunum mínum lét sjá sig. Kjáninn og Fréttapésinn voru báðir á staðnum og ofurkrúttið hann Gulli, en þeir voru þarna í hópi kvenna sem ég veit eiginlega meira um en ég ætti að gera miðað við hversu mikið ég þekki þær. En eftir ótrúlega langt trúnó komst ég heim rétt um kl. 04.
Á laugardaginn var tónleikarennsli hjá kórnum og svo tónleikar um eftirmiðdegið. Planið var að fara með kórnum en svo breyttust plönin og ég þurfti að skjótast til Keflavíkur á afmælisfagnað Björgunarsveitarinnar Suðurnes. Eftir góða kvöldstund var brunað til Reykjavíkur og farið í einn bjór og svo heim í ból. Fermingarmessan heilsaði mér í morgun og það var ekkert nema stemning. Samt svolítið fyndið að mæta tvo daga í röð hjá kórnum og mismikið tjónuð í hvert skipti. Plan dagsins er að gera ekki neitt og það gengur vel so far. Best að fara að hætta þessu bulli og ganga í verkefni dagsins - hanga í sófanum.

12/04/2004

Páskaflensa!
Páskahretið hefur ekki verið að angra mig þessa páskana, en einhver flensutuðra bankaði upp á í gær. Var ansi meylguð og slöpp þegar kom að fjölskylduboðinu sem maður hentist í. Eftir að hafa átt góða stund í faðmi fjölskyldunnar lá leiðin heim á Kambsvegi og næstum því beint í beddann. Átti jú að mæta á morgunvakt í morgun. Vaknaði í morgun og uppgötvaði að flensutuðran var enn til staðar og ákvað að vera heima. Það er ótrúlegt hvað manni dettur í hug þegar maður þarf að vera heima hjá sér og á sér einkis ills von. Jú í dag varð það vöfflubakstur sem allt í einu var orðinn að veruleika. Skellti í einn skammt og þeytti rjóma með - svona í tilefni páskanna. Þetta var svo borðað með ágætislyst og stefnan er tekin á vinnu á morgun. Af páskaeggjum er það að frétta að auðvitað lumuðu foreldrarnir á einu slíku handa hverri dóttur og það bíður reyndar enn opnunar. Ef það er einhver sem er að deyja úr þörf fyrir páskaegg þá er sá hinn sami velkominn í heimsókn, það eru líka til nokkrar vöfflur og spari rjómi.

11/04/2004

Gleðilega Páska!
Dagurinn í dag hefur nú alltaf verið svolítið skemmtilegur hjá krökkum. Á mínum yngri árum var drifið sig á fætur og hafin dauðaleit af páskaegginum sem foreldrarnir höfðu falið. Oft þurfti að leita uppi margar vísbendingar þangað til að eggið fannst en það var nú samt alltaf niðurstaðan. Eftir að mamma hafði lagt á borð fyrir morgunmatinn sem allir borðuðu saman og drukku ekta heitt súkkulaði var yfirleitt farið sem leið lá upp í Bláfjöll á skíði. Oftar en ekki gleymdist páskaeggið á skrifborðinu í herberginu og það beint í sólinni. Á þeim stundum var páskaeggið orðið að páskaklessu þegar heim var komið af skíðum, en þetta skapaði bara góða stemningu.
Í morgun vaknaði ég - fór ekki að leita eftir vísbendingum né nokkru páskaeggi, ristaði mér brauð, las moggann og fékk mér kaffi. Já það hefur ýmislegt breyst á þessum síðustu árum, en það er kaffi hjá mömmu og pabba í dag og aldrei að vita nema að þar bíði manns páskaegg.

10/04/2004

Páskastemning!
Það er sannkölluð páskastemning í heimi ofurhjúkkunnar þessa dagana. Eftir endalausa vinnutörn er ég loks komin í 2ja daga páskafrí sem ég hef nýtt mjög vel, alla vega að því sem komið er. Föstudagurinn langi var sannarlega ansi langur enda var nóg að gera. Eftir ánægjulega vakt í vinnunni stökk ég heim í örstutt pitstop og brunaði svo niður í Langholtskirkju til að synga á tónleikum. Það var allt gott og blessað og eftir þá brunaði ég heim í annað pitstop og svo brunaði sem leið lá í sumarbústað með Súpergellunni og Ingu megabeib. Þar var borðað eins og við ættum lífið að leysa og lagst á meltinguna eftir yndislegan matmálstíma. Eftir stutta meltingu tók við spilastund sem framan af gekk vel hjá ofurhjúkkunni. Viti menn allt í einu myndaðist alheims samsæri gegn mér og mínum spilahæfileikum. Einhvern veginn gekk ekkert upp og ég var alvarlega orðin þunglynd á þessu enda keppnismanneskja mikil. Eftir langa spilalotu var ég að þrotum komin og hélt í háttinn, enda búin á líkama og sál eftir erfiði dagsins.
Brunaði svo í bæinn í dag og byrjaði á því að fá mér blund í nokkra klukkutíma. Það jafnast ekkert á við að taka eftirmiðdagsblundinn kl. 13 og vakna rétt í þann mund sem eftirmiðdegið er að hefjast! Eldaði svo killerkjúlla í kvöldmat og sit nú með kaffi og smá Baileys (hristan á klaka of course) og nýt stundarinnar. Páskamessa eldsnemma í fyrramálið þannig að stefnan er tekin á rólegheit í kvöld. Svo þarf að safna kröftum fyrir ferðasögu Kjánans og Fréttapésans sem eru að mála bæinn rauðan í London. Kjáninn átti einmitt 21 árs afmæli á föstudaginn langa - Til hamingju með það. Jæja en sófinn kallar og ekki má láta hann bíða lengur. Góðar stundir!

06/04/2004

Dugleg í dag!
Ég er að missa mig í vorhreingerningunni í dag. Vaknaði fersk og ákvað án nokkur skipurlags að hefja vorhreingerningu. Reif allt af rúminu og henti í þvottavélina, dró fram ryksuguna og fór sem stromsveipur um íbúðina. Greip því næst í Ajax Universal og þurrkaði og þreif þá fáum fleti sem eftir voru ósnertir í æðinu. Það er ekkert betra síðan að setjast niður og hugsa um hversu duglegur maður hefur verið og ákveða hvernig sé best að verðlauna sjálfan sig eftir svona dugnað. Ég er enn að íhuga það mál allt saman og er komin með nokkrar hugmyndir. Þar sem ég þarf að fara að vinna á eftir er auðvitað pælinga að kaupa sér eitthvað gott take-away og borða í vinnunni (jafnvel kínverskan) og þar með eru hugmyndirnar komar.
Fór annars í verslun um daginn og keypti baðsölt og bubbles. Það þarf ekki að hafa fleiri orð um hamingjuna þegar ég skreið ofan í baðið með bæði baðsöltum og bubbles - ég ætlaði hreinlega ekki að koma aftur upp úr. Ég sem sagt mælið með svona spa meðferð á eigin heimili, hún marg borgar sig. Nú er kominn tími á afslöppun og andlega upphafningu á sjálfri mér. Góðar stundir.

04/04/2004

04.04.04
Dagurinn í dag er mjög merkilegur dagur - hann bar síðast upp fyrir einni öld síðan s.s. 04.04.04 dæmið. Hér með er viska dagsins í dag komin. Helgin hefur verið fín - morgunvaktir og tóm gleði og hamingja. Það er eiginlega bara frábært þegar maður klára vinnuskylduna kl. 16 á sunnudegi og er komin í frí þangað til á þriðjudaginn. Kórinn kallar annað kvöld þar sem æfingar með hljómsveit eru að byrja og tónleikar nálgast. Ef það er einhver sem hefur áhuga á að koma á Requiem eftir Mozart sem b.t.w er eitt flottasta verk tónlistarsögunnar þá get ég reddað miða á afslætti - góður díll maður! Stefnan er tekin á kjúlla og hvítt í kvöldmat og kannski maður skelli sér í kaffi með stelpunum seinna í kvöld.
Góðar stundir!
Eftir margra mánaða tusk og vesen í baki og hnjám ákvað ég loks að hlusta á ráð sem mér vorum gefin fyrir 3 árum síðan. Ég sem sagt dreif mig í göngugreiningu hjá Össur. Þar tók á móti mér viðkunnalegur ungur maður sem gerði alls konar kúnstir og lét mig ganga á ýmsa vegu. Þar kom ýmislegt í ljós og allt er basically sigið og skekkt í fótunum. Ég fékk upphækkun í annan skóinn til að fæturnir séu nú jafnir og innlegg til að leiðrétta allt ruglið. Mjög hamingjusöm dreif ég mig í vinnuna á föstudagskvöld í nýjum skóm með hækkun og allt draslið. Viti menn - mér leið eins og ég gæti gengið non-stop fram á næsta ár. Engir verkir í baki og hnén fín eftir vaktina. Mér hugnaðist að fara og knúsa alla starfsmenn Össur en ákvað að bíða með það í nokkra daga. En almenn gleði og hamingja með þeirra aðstoð!

01/04/2004

Fyrsti dagur í vori!!
Þetta voru orð frækins veðurfréttamanns á Stöð 2 fyrir tveimur dögum síðan. Hann hristist nett því honum fannst hann svo sniðugur að finna upp á svona skemmtilegu máltæki. Þessi ágæti maður var ekki búinn að sleppa orðinu er skellur á kafalbilur og allt í einu er kominn meiri snjór heldur en var á jólunum. Fræknir Íslendingar slá sér á lær og tala um páskahretið sem kemur nú á hverju ári og hverjum og einu finnst hann voðalega klár að vita að það getur snjóað fram í maí á Íslandi. Þetta eru auðvitað fylgismenn veðurfréttamannsins, finnst hann æði og er nokk saman hvurn fjandann hann ber fram í veðurfréttum því hann er svo sniðugur. Ég verð nú bara að lýsa yfir vanþóknun minni á veðrinu undanfarna daga. Í gær vaknaði ég og leit út - allt á kafi í snjó. Það þurfti töluverða kænsku til að koma bílnum úr stæðinu þar sem ég er auðvitað ekki á fjallabíl. Leiðin lá í vinnuna og allt í góðu. Í dag er hins vegar búið að rigna - meira að segja hamingjusami fuglinn sem var að gera mér lífið leitt fyrir utan svefnherbergisgluggann er orðinn þunglyndur. Nú er ekkert nema bleyta - pollar og slabb á götum og ekki séns að halda skónum sínum hreinum og þurrum. Vonandi fer þetta nú að batna - ég er enn með sól í hjarta og bíð eftir sumrinu sem er á næsta leiti. Afnemum bara þetta vor sem er hvort sem er ekki svo spes.