26/07/2006

Af hinu og þessu!
Það hefur svo sem ekki gengið á miklu hjá hjúkkunni þessa síðustu viku en samt hefur henni tekist að áorka alveg heilmiklu. Hún fór í brúðkaupsgrill hjá hjónunum þeim Kollu og Hauki s.l. föstudag og dreif sig svo á næturvaktina. Helgin fór sem sagt í næturvaktir og því komst hjúkkan ekki í afmælið hjá Sunnu á laugardaginn. Sunnudagurinn fór sömuleið og hinir dagarnir sem sagt í svefn fram að vakt og að lokum var törnin búin á mánudagsmorgni. Það er alltaf ótrúlega góð tilfinning að stimpla sig út eftir síðustu vaktina í næturvaktatörn um helgi. Og það var einnig mjög sérstök tilfinning í þetta skiptið þar sem þetta var síðasta næturvaktartörnin í einhvern tíma sem hjúkkan skilar á slysadeildinni. Nú eru einungis 2 vaktir eftir og svo nokkurra daga frí áður en utanlandsferðirnar byrja allar. Já hjúkkan verður á ferð og flugi mestan hluta af ágúst og september og þeir sem vilja hitta hana verða bara að hafa sig frammi.
Í dag sá hjúkkan enn eina ferðina hversu grimm þessi örlög geta verið og hversu ósanngjarnir hlutir geta gerst ítrekað. Verið því góð við hvort annað og sinnið þeim sem ykkur þykir vænt um vel.

19/07/2006

Þórsmörk, vinna og saumó!
Já hjúkkan var á faraldfæti um síðastliðna helgi og lagði leið sína inn í Þórsmörk. Ekki var útlega málið heldur að reyna að bjarga einhverjum af þeim ofurhugum sem ákváðu að hlaupa Laugarveginn og enduðu í Húsadal. Sem betur fer þurfti lítið að hafa afskipti af fólkinu en samt voru nokkrir sem fengu þann heiður að leyfa okkur að sinna þeim. Leiðin tilbaka fer í bækurnar sem einhver sú fáránlegasta þar sem tæpa 2 klst tók að komast úr Þórsmörk og niður á Hvolsvöll vegna bilunar í rútunni. Hjúkkan er engin bifreiðavirki en veit samt að það á ekki að stíga hvítur reykur undan rútunni og inn í farþegarýmið!!!
Vikan hefur enn sem komið er farið í vinnu og afslöppun og í kvöld var svo loksins saumó í Dofranum. Það var yndislegt að sjá stelpurnar, slúðra pínu, tala um stráka, hlægja og borða mat. Umræðurnar snérust um allt milli himins og jarðar og auðvitað er þagnarskylda bundin við ákveðin umræðuefni. En meðal annars sem rætt var um var Rockstar keppnin og árangur Magna. Það er auðvitað stórglæsilegt hjá stráknum að vera kominn þetta langt og frammistaða hans í gær var bara flott.
Af íþróttunum er það helst að frétta að vesturbæingarnir virðast ekki ætla að gera neitt til að halda sínum stuðningsmönnum þetta tímabilið!!! Já maður er nú farinn að velta því fyrir sér hvort hverfisliðið sé ekki bara málið. Þeir eru alla vega komnir áfram í undankeppni meistaradeildarinnar og sem sannur íþróttamaður óskar hjúkkan þeim góðs gengis!

12/07/2006

Einu skrefi á eftir!
Hjúkkan er skrefinu á eftir í dag þar sem morguninn hófst örlítið síðar en gert var ráð fyrir. Eftir ljúfan nætursvefn vaknaði hjúkkan við vekjaraklukkuna sína og velti því fyrir sér hvað hún væri eiginlega að fara að gera í dag. Í fljótu bragði mundi hún ekki eftir neinu sérstöku sem var á dagskránni og því slökkti hún á klukkunni og snéri sér á hina hliðina. Um einum og hálfum klukkutíma síðar rumskaði hjúkkan og leit á vekjaraklukkuna. Sér til mikils hryllings uppgötvaði hún það að jú hún átti að vera að gera eitthvað - hún átti nefnilega að vera farin í VINNUNA!!!! Hún stökk því á fætur og hringdi í vinnunna og tilkynnti um þetta óheppilega atvik. Hún sló persónulegt tímamet í morgunverkum og dreif sig sem leið lá á slysadeildina. Úff hvað það er óþæginlegt að vera svona skrefinu á eftir!!
Að öðru leyti er hjúkkan mjög ánægð með sína menn á HM - Áfram Ítalía!!! En það er nú farið að draga ský fyrir sólu hjá vesturbæjarliðinu góða, þetta er eiginlega bara hætt að vera fyndið! Helgin framundan fer í smá vinnu og ferðalag og svo er bara vonandi að þessi blessaða sól fari að láta sjá sig.

08/07/2006

Kemur sjálfri sér sífellt á óvart!
Hjúkkan er enn einn daginn búin að koma sjálfri sér ótrúlega á óvart. Hún dreif sig í RL búðina í gær og keypti húsgögn á svalirnar enda gert ráð fyrir nokkrum sólardögum til viðbótar í sumar og mikil freknuvinna framundan. Stólarnir komu samansettir en hjúkkan þurfti að leita í eigin iðnaðarmanna hæfileika til að setja saman borðið. Hún gladdist mjög þegar hún sá fram á að hafa loksins eitthvað við verkfærasettið góða að gera. Því dró hún fram skrúfvélina sína og verkfærasettið og byrjaði á iðnaðarvinnunni. Eins og sannkallaður smiður setti hún borðið saman á meistaralegan hátt og tók nett fagn ein með sjálfri sér í stofunni sinni að framkvæmdinni lokinni. Því næst dró hún fram harðviðarolíuna og bar af mikilli natni á stólana og borðið. Nú vantar bara grillið á svalirnar og þá eru hjúkkunni allir vegir færir.
Eftir svona áfanga í framkvæmdum er auðvelt að ofmetnast og halda að maður geti allt og í augnarblik ætlaði hjúkkan að fara að negla í veggina hjá sér, en tók þá skynsamlegu ákvörðun að leita kannski eftir aðstoð með það! Já hún getur ýmislegt án þess að slasa sig hjúkkan og er greinilega farin að læra það að hún getur næstum allt!
Afmælisbarn dagsins er mágmaðurinn sem loksins er orðinn þrítugur og afmælisboð í tilefnis þess í kvöld. Nú er því mál að koma sér úr smíðagallanum og snyrta sig aðeins fyrir kvöldið.

06/07/2006

Allt gert fyrir freknurnar!
Hjúkkan kom sjálfri sér á óvart í dag, þar sem hún reyndi að öllum mætti að fá nokkrar freknur til viðbótar þeim þúsundum sem þegar eru til staðar. Eftir morgunvaktina lá leiðin beint heim í Dofrann og út á svalir þar sem aldeilis átti að nýta sólina. Í fyrstu sat hjúkkan á stól á svölunum nokkuð léttklædd og sá að það var ekki alveg að ganga upp vegna vinds. Hún brá á það ráð að sækja sér teppi og lagði það yfir þá líkamshluta sem voru í skugganum og vindinum. Þetta gekk ágætlega í stutta stund og ákvað hjúkkan meira að segja að verða fáklæddari að ofan en tilefni gaf til. Mjög fljótlega áttaði hjúkkan sig á því að það eina sem hún myndi græða á þessu væri kvef en ekki freknur og hvað þá heldur sólbrúnka! Því brá hjúkkan á það ráð að setja hægindastólinn við svaladyrnar og nýta þannig sólargeislana sem bárust inn um hurðaropið. Jú þetta gekk ágætlega til að byrja með en svo sá hjúkkan að hún yrði bara að sætta sig við það að vera föl og freknótt!!! Það er alla vega betra en að leggjast í lungnabólgu á miðju sumri! Það er líka flott að vera fölur og freknóttur :)

05/07/2006

Ótrúlegur leikur í gær!
Þetta heimsmeistaramót í knattspyrnu virðist ætla að koma hjúkkunni endalaust á óvart. Öll þau lið sem hún spáði áfram hafa dottið úr keppninni og ef heldur sem horfir verða Frakkar heimsmeistarar og það er eitthvað sem hjúkkan vill ekki hugsa til enda! Það eru ekki margir íþróttarmenn sem hjúkkan einfaldlega þolir ekki en einn af þeim er einmitt Henry. Það er bara eitthvað við þennan gaur sem fer svona líka illa í hjúkkuna að hún getur varla horft á manninn spila knattspyrnu. Hvort það hafi eitthvað að gera með það að maðurinn girðir sokkana sína upp á mið læri eða hvernig hann fagnar mörkum sínum veit hjúkkan ekki!!!
Í gær var hreint út sagt ótrúlegur endir á mögnuðum leik. Hjúkkunni er ekki illa við Ítalana en hélt nú samt með Þjóðverjunum, og viti menn á ótrúlegan hátt unnu Ítalarnir þegar 1 mínúta var í vítaspyrnukeppnina. Það er reyndar mun skemmtilegra að sjá leiki vinnast á mörkum en úr vítaspyrnukeppni og því er hjúkkan nokkuð sátt. Í kvöld er það svo Frakkland vs. Portugal hjá syninum og gerir hjúkkan ráð fyrir góðum leik.

04/07/2006

Rigningin, yfirvinnan og svefninn!
Það er alveg einstaklega skemmtilegt að fá að upplifa "blautasta júnímánuð" í 23 ár í Reykjavík. Jú fróðir menn segja að þessi síðastliðini mánuður sé sá blautasti síðan 1983!!! Það er reyndar pínu aldurskrísuvaldandi að vita að fyrir 23 árum síðan var maður ekkert bleyjubarn og besti vinur minn hann Maggi flutti í Garðabæinn, það þótti mér ótrúlega ósanngjarnt. Maggi var "eldri maður" alveg árinu eldri en hjúkkan og leit hún mjög upp til hans, þar fyrir utan að ætla sér að giftast honum!!! En svona er nú lífið, nú 23 árum seinna er Maggi ekki kominn tilbaka og það er enn rigning!
Helgin fór í massa vinnu og enn meiri yfirvinnu og hefur hjúkkan þar af leiðandi sofið mjög mikið frá því um helgina. Svaf meira og minna í allan gærdag og er nett úldin í dag, með kvef og beinverki. Hjúkkan hefur reyndar einn samstarfsmanna sinna grunaðan um að vera pestadreifari en það hafa nokkrir verið að hrinja í flensu í vinnunni undanfarna daga. Því er stefnan að halda sig við sófann í dag og losna við þennan fjanda svo pumpan pirrist ekki eins og síðast.