30/09/2008

Hjúkkan orðin iðnaðarmaður á nýjan leik!
Hjúkkan hefur undanfarin 2 ár verið í nokkurs konar baráttusambandi við svalarhurðina sína, eða öllu heldur hurðahúninn og lokunardæmið á henni. Á sumrin hefur þetta verið til friðs en um leið og kólnar fór þetta alltaf í rugl og hefur kostað nokkur slagsmál við hurðina. Á einum tímapunkti varð þetta til þess að hurðahúnninn var rifinn af og í næstu lotu brotnaði draslið!! Jú hjúkkan keypti nýjan hurðahún og hélt að málið væri leyst. Nema hvað um leið og kólnaði fyrir nokkrum dögum fór allt til fjandans á nýjan leik. Hjúkkan reyndi að tala læsinguna til og var búin að skilgreina þetta sem skammdegisþunglyndi í læsingunni. Viti menn - í gær átti hjúkkan leið um bensínstöð og ákvað að splæsa í lítinn brúsa af WD40. Þegar heim var komið var Sex and the City myndinni hent í DVD spilarann, pepsí max skutlað í glasið fullt af nammi étið. Eftir þessi kósílegheit dró stúlkan upp WD40 brúsann og spreyaði á læsingarnar á hurðinni. Viti menn - læsingin eins og ný og hjúkkan sér ekki fram á slagsmál í vetur :) Kannski maður finni eitthvað annað til að sprauta þessu ótrúlega efni á??

12/09/2008

Tónlistarlega skemmd vegna Icelandair!
Hjúkkan lá í makindum sínum og horfði á Kastljósið rétt í þessu og var þar verið að ræða um myndlistasýningu á Listasafni Íslands. Það var nú svo sem ekki það sem olli hugarangri hjá hjúkkunni heldur tónlistin sem spiluð var undir kynningunni. Angurvær stef úr Vísum Vatnsenda Rósu voru meðal annars spiluð á píanó og hjúkkan fór að hugsa af hverju þetta væri svona kunnuleg útsending og flutningur. Jú viti menn - þegar maður sest inn í vél hjá Icelandair annað hvort á útleið eða heimleið ómar þetta lag og fleiri í svona útsetningu. Það er orðið sama sem merki hjá hjúkkunni við nokkur falleg íslensk lög og flugvélar Icelandair. Hjúkkan hafði meira að segja eldað sér Gordon Blue í kvöldmat þannig að stemmarinn var alveg eins og í gamla daga á leið heim frá Evrópu!!!!!

08/09/2008

Hjúkka á hlaupum, göngu og tjútti!
Það er lítið af daufum mómentum í lífi hjúkkunnar þessa dagana. Eftir góða en strembna viku í Munchen lá leiðin í ofvirkni dag með FNYKs hópnum. Þessi ótrúlegi hópur, sem er saman settur af fólki sem virðist eiga það sameiginlegt að finnast við flottari en almennt gengur og gerist, dreif sig í þríþraut s.l laugardag. Dagurinn hófst með 10km hlaupi á Selfossi, næst lá leiðin á Litlu Kaffistofuna þar sem þeir sem sáum um matarinnkaupin mættu á svæðið, Vífilsfell var gengið upp og niður og svo var farið í dinner & drinks.
Nú fer sennilega að róast lífið í kringum hjúkkuna enda farið að hausta og minni tækifæri til ofvirkni á fjöllum og hlaupum. Engar utanlandsferðir eru fyrirsjáanlegar fyrr en í desember þegar New York verður mössuð...
Haustið er uppáhalds tími hjúkkunnar með sínum fallegu litum og haust lyktinni. Ekki má samt skilja þessa yfirlýsingu sem svo að hjúkkan sé að missa sig úr hamingju yfir roki og rigningu, en inn á milli koma fallegu dagarnir. Það er bara að hafa mottó hjúkkunar ofarlega... alltaf með sól í hjarta..