31/10/2005

Flutningar og helgarsprell
Hjúkkan er eins og alltaf að standa í stórræðum. Hún gæsaði hana Vöku hans Braga á laugardaginn ásamt fríðum flokki kvenna og einnar stórrar kanínu. Dagurinn var fullur af gleði og glaum og freyðivíni og rauðvíni og allir bara mjúkir og fínir. Sunnudagurinn fór svo í tennis og aukakvöldvakt þar sem íslandsmeistaramótið í gipslagningu stóð sem hæst. Hálkan hafði sitt að segja og voru því fjölmargir sem lögðu leið sína á slysadeildina. Fersk að vanda vaknaði hjúkkan falleg í morgun og tók sig til og flutti búslóðina síðan til foreldranna á ný þar sem hjúkkan ætlar að búa þar til hún fær íbúðina sína afhenta. Það jafnast ekkert á við góðan flutning í morgunsárið enda er hjúkkan orðin mjög fær í flutningum. Kvöldið verður svo toppað á kvöldvaktinni á slysadeildinni í þeirri veiku von um að hálkan sé að minnka.

26/10/2005

Góðar stundir!
Hjúkkan komst að því um daginn að það er nú hægt að gera eitthvað annað en að vera alltaf að vinna. Hún átti frí bæði sunnudag og mánudag og nýtti þá daga til hins ýtrasta. Sunnudagurinn fór í almenna íþróttariðkunn með tennisæfingu um daginn og knattspyrnuæfingu um kvöldið. Þar var heilmikið hlaupið hlegið og skorað. Mánudagurinn fór í hlaup til að redda greiðslumatinu áður en bankinn lokaði og kröfugangan byrjaði. Hjúkkan er auðvitað mikil baráttukona og dreif sig niður á Skólavörðuholt og skundaði í bæðinn ásamt öllum hinum. Kvöldið fór í yndislegan hitting með syninum sem kom í heimsókn eins og í gamla daga. Pizza og sjónvarpsgláp og aulabrandarar með tilheyrandi hrotuhlátri áttu kvöldið. Loks var eyddi hjúkkan fyrri hluta gærdagsins með litla fullkomna frænda í sundi og skralli. Litli kúturinn sýndi alla sína bestu takta og sjarmeraði sundkennara upp úr lauginni.
Hjúkkan bíður nú spennt eftir undirritun á kaupsamningnum og afhendingu á íbúðinni og allt að gerast. Hún hitti Þormóð í vinnunni í dag og vildi einmitt minna hlutaðeigandi aðilla að það fer að koma tími á næstu mynd :) 10 ára afmæli fyrstu myndarinnar er að renna í hlað og kominn tími á endurnýjun. Myndirnar verða svo hengdar upp á vegg í Dofraberginu :)

22/10/2005

Hjúkkan við það að verða íbúðareigandi!
Stórmerkilegir atburðir áttu sér stað í gærdag. Vaktin var nú með ömurlegra móti en það sem bjargaði deginum hjá hjúkkunni voru þær fregnir að tilboði hennar í íbúð var tekið og þar með er hjúkkan við það eignast íbúð. Hún þarf að klára greiðslumatið sitt sem verður nú lítið mál og ef fer sem horfir fær hún afhent eftir 2 - 3 vikur!!!!! Sú magnaða staðreynd sem fylgir þessum íbúðarkaupum er sú að nú er hjúkkan að flytja í Hafnafjörðinn - mörgum til mikillar gleði og hamingju. Þormóður sér fram á að hafa alltaf barnfóstru til taks og nokkrir samstarfsmenn hafa gert sér í hugalund að hjúkkan fari nú að halda með FH. Þeir sem hins vegar þekkja hjúkkuna vita að hún mun seint og illa hætta að styðja sína menn í KR.
Svo heyrði hjúkkan í fastráðna flugþjóninum sem fyrr um daginn fékk einmitt fastráðninguna sína - til hamingju með það !!!!
Til að halda upp á íbúðarkaupin kláraði hjúkkan kvöldvakt dauðans - fór heim og fékk sér einn kaldan og fór svo að sofa enda 12 tíma vakt í dag.

20/10/2005

Rugluð í ríminu!
Það hefur verið svo mikið um breytingar í lífi hjúkkunnar s.l. hálfa árið að nú er þetta farið að hrjá hjúkkuna. Hún hefur til dæmis fundið upp flutnings-íþróttina og stundaði hana af nokkuð miklum krafti framan af árinu. Nú er svo komið að hjúkkan vissi ekki hvert hún var að fara - þegar leið hennar lá heim eftir næturvakt. Hún keyrði sem leið lá niður á Skólavörðustíg og var við það að finna bílastæði þegar hún allt í einu mundi að þarna átti hún ekki lengur heima!!! Sér til mikillar gleði fann hún réttan stað eftir stuttan umhugsunarfrest og allt gekk vel í kjölfarið. Að öðru leyti er hjúkkan nokkuð stabil og er meira að segja búin að vera í fríi í heilan dag. Reyndar nokkrir fundir á döfinni í dag en það er bara venjubundið og blússandi stemning í því. Ekki hefur Hr. Óþekkur látið á sér kræla og bíður hjúkkan í ofvæni yfir því að svipta hulunni af þessum tja örugglega jafngeðuga einstaklingi. Nú er kominn tími á að rjúka af stað á svo sem einn fund og gerast formaður í einni nefndinni. Alltaf stuð hjá hjúkkunni!!!

15/10/2005

Gleðilegan laugardag!
Í dag er þessi líka ógleymanlegi laugardagur - með tilheyrandi rigningu og roki. Eftir að hjúkkan keypti svakalega fína sköfu handa Fabío þá snögg hlýnaði og að öllum líkindum er vetri að létta. Það gæti líka verið að hjúkkan sé ekki alveg með sjálfri sér enda er hún rétt að byrja á 16 klukkustunda vaktinni sinni þennan ógleymalega dag. Það er eins gott að hjúkkan eigi sér ekkert líf utan vinnu - enda hefði hún ekki tíma til þess að sinna því sökum vinnu. Eitt sem vakið hefur undrun og aðdáun hjúkkunnar í morgunsárið og það er hegðan og útbúnaður fólks á reiðhjólum. Það voru nokkrir ferskir á reiðhjóli sem urðu á vegi hjúkkunnar í morgun - í skíta roki og riginingu - ekki nóg með það því þá var einn í léttum flauelsjakka sem var ekki einu sinni hnepptur!!! Það fer nú bara kuldahrollum um mann þegar maður sér svona - og hugurinn leitar heim og beinustu leið undir sæng. Hjúkkan vill benda á sérlega áhugaverðan dagskrálið á RUV sem hefst kl. 13:20 í dag - jú það er BEIN ÚTSENDING frá Íslandsmeistaramótinu í atskák!!! Missum ekki af því :)

10/10/2005

Er líf utan vinnunnar?
Já það er von að hjúkkan spyrji sig þessari spurningu. Hún tók aukavakt s.l. nótt og er svo komin á sína eigin kvöldvakt - frekar sybbin en samt jafnsæt og vanalega þó svo að hárið sé örlítið úfið. Á morgun er fyrsti hluti af flutning á Vífilsgötuna en þetta verður gert í tveimur áföngum. Svo er að vona að einhver ró og stöðugleiki fari að koma á líf hjúkkunnar svo hún hætti að hanga í vinnunni daginn út og inn. En veturinn er kominn með tilheyrandi hand- og fótkulda hjá hjúkkunni. Hún lýsir hér með eftir einhverjum fórnfúsum sem vill koma og hlýja henni um tærnar - gæti samt verið smá táfýla þar sem hjúkkan er einmitt alltaf í vinnuskónum :)

06/10/2005

Oggulítið syfjuð!
Nú er farið að síga á seinni hluta fyrri næturvaktarinnar hjá hjúkkunni og augnlokin farin að þyngjast eftir því. Hjúkkan stóð í heilmiklum pælingum og rökræðum við fasteignasala í gær sem enduðu á því að hætt var við allt saman. Eigendur íbúðarinnar sem hjúkkan ætlaði að bjóða í fóru í panic og hættu barasta við að selja!! Hjúkkan veit að hún getur af og til verið ákveðin týpa en þetta var eiginlega bara fyndið. Að sama skapi sleit hún um viku löngum vinskap við sölumanninn á fasteignasölunni sem bar sig vel. Að rifrildunum og morgunvaktinni lokinni lá leiðin heim í sófa til að blunda fyrir næturvaktina. Eitthvað ruglaðist kerfið og blundinum seinkanði af óviðráðanlegum orsökum - en það hafðist undir lokin. Nýjar og góðar fregnir af heimilislausu hjúkkunni eru þær að hún er að fara að leigja íbúð í Vatnsmýrinni þar til hún finnur sér enn varanlegri stað til að búa á. Vonandi fer þetta að ganga eftir og sú óreiða sem einkennt hefur líf hjúkkunnar undanfarna mánuði sé nú að verða búin. Að öðru leyti er hjúkkan söm við sig og sennilega búin að taka að sér formennsku í einni af þeim nefndum sem hún situr í fyrir Fíh - sem verður bara spennandi og krefjandi starf. En hjúkkan er nú samt að hugsa um að bæta ekki við sig fleiri nefndum í bili - stundum verður félagsmálafíkillinn að læra að það má líka segja "því miður get ég ekki tekið þetta að mér".

03/10/2005

Farir og ófarir hjúkkunnar!
Hjúkkan er búin að vera ótrúlega dugleg í dag. Hún reif sig á fætur fyrir allar aldir til að skreppa út á flugvöll í eitt pick-up, að því loknu dreif hún sig með Fabio í smurningu enda var eitthvað ljós farið að blikka óþarflega mikið í mælaborðinu. Að þessu loknu var klukkan bara rétt rúmlega 9 og hjúkkan alveg hissa á því hvað hægt sé að gera mikið fyrir hádegi. Því næst reddaði hjúkkan nokkrum símtölum sem hún átti eftir að ganga frá, dreif sig í bankann og slakaði svo á í smá brunch með flotta flugkennaranum á Oliver. Enn sem komið er var ekki komið hádegi!!! Rétt um hálf tólf (vanalegur tími hjúkkunnar að vakna) rauk hún á þjóðskránna og gekk frá málum þar áður en hún skellti sér á 3 klst langan stjórnarfund í félaginu. Því sem næst lá leiðin í smá dótarflutning og dagurinn er rétt rúmlega hálfnaður. Hjúkkan hefur engan blund fengið og er enn svona spræk. Hún fékk nokkur góð stuðnings símtöl frá Superkvendinu og Megabeibinu og kann hún þeim bestu þakkir fyrir. Stefnan er tekin á dinner hjá gamla settinu og eitt íbúðarskoð fyrir sjónvarpskvöld dauðans. Þetta helst er að frétta af förum hjúkkunnar í dag.
Snúum okkur þá að óförum hjúkkunnar - reyndar síðastliðna daga og jafnvel vikur. Eins og flestir vita er hjúkkan stundum svolítill klaufabárður og á það til að slasa sig við saklausustu aðstæður. Ferðin til Svíþjóðar var engin undantekning!! Þar sem hjúkkan sat nokkuð sybbin um borð í flugvélinni lenti hún auðvitað fyrir aftan stóra kallinn sem heldur að hann geti hallað sætinu sínu eins langt aftur og mögulegt er ALLA FERÐINA!!! Já litlu fluffu vinir mínir - líka þegar hjúkkan reyndi að borða ommelettuna sína. En sökum skap príðis hjúkkunnar ákvað hún að láta kyrrt liggja og lét sem ekkert væri. NEMA hvað þegar hjúkkan er hálfnuð með kaffibollann hendir karlpungurinn fyrir framan sér aftur í sætið og matarbakkinn með vatnsglasinu og hálfa kaffibollanum hellast svona pent í fangið á hjúkkunni! Hún blótaði í hljóði, þurkkaði á sér kjöltuna og ákvað að fara bara að sofa. Í Svíþjóð varð hjúkkan svo fyrir innkaupa áverka þar sem hún verlsaði af svo miklum mætti að hún sló hendinni í horn á borði í einni búðinni. Góð ráð voru dýr og sérlegur verslunaraðstoðarmaður (Jóhanna) bar nokkuð af þungu pokunum fyrir hjúkkuna í kjölfarið - en verslunarleiðangurinn blessaðist vel það sem eftir var. Það nýjasta í óförum hjúkkunnar átti sér stað í vinnunni um daginn þar sem hún var að ganga út um STÓRA HVÍTA bílskúrshurð. Vildi ekki betur til en svo að hjúkkan gekk á hurðina þar sem hún var ekki komin alla leiðina upp. Hjúkkan hefur nú sem fyrr alltaf litið á sig sem frekar hávaxna með þykkt og hrokkið hár en fyrr má nú aldeilis vera!