30/08/2005

Vaknaði ekki ein!
Hjúkkan var heldur betur ekki ein í rúminu sínu þegar hún vaknaði í morgun. Eftir góðan nætursvefn og nokkuð hressilega drauma byrjaði hjúkkan að rumska í morgunsárið (þ.e. kl 10:30 ) og ætlaði nú að snúa sér á hina hliðina og kúr aðeins lengur. Hún opnaði augun til hálfs og sá þá rúmfélaga sinn. Hjúkkan rak upp smávægilegt og mjög pent öskur þegar hún áttaði sig á því að þessi líka fína könguló stóð á koddanum hennar og var að taka púlsinn á stemingnunni!!!! Ef það eru einhver dýr sem hjúkkan kýs að vakna ekki með á koddanum sínum þá eru það einmitt köngulær. Við þetta spratt hjúkkan á fætur og henti sér í föt enda engin leið til þess að kúra áfram með köngulónni. Í staðinn dreif hún sig upp í eldhús og fékk sér vænan morgunverð og las blöðin í þeirri von um að hrollurinn sem var í skrokknum myndi nú hverfa. Það er sem sagt á réttri leið og hjúkkunni líður töluvert betur. Nú er það almennt haugerí þar til kvöldvaktin hefst og það verður alla vega ekkert kúrt í þessu rúmi fyrr en næstu nótt.

27/08/2005

Lítið nýtt!
Það er lítið nýtt að gerast í lífi hjúkkunnar eins og fyrri daginn. Hún vinnur nótt sem dag og þess á milli sefur hún, spilar golf eða fer á létta tennisæfingu. Hjúkkan á enga vini lengur þar sem hún er alltaf í vinnunni og nær ekki að hitta neinn og er þar af leiðandi búin að hengja sig á axlir samstarfsfólksins. Það góða við vinnufélaga er að þeir geta ekki komist undan því að eyða með manni tíma - því jú allir eru í vinnunni og geta ekki sagst vera uppteknir við eitthvað annað. En þetta ástand fer nú vonandi að breytast eitthvað og það hlýtur að fara að rofa til í félagslífi hjúkkunnar.

19/08/2005

Golfgella ársins!
Hjúkkan ákvað að gera eitthvað uppbyggilegt í þessu óspennandi ástandi sem hefur ríkt í kringum hana upp á síðkastið og dreif sig í golf með syninum. Stefnan var tekin á litla völlinn á Korpu og mætti hjúkkan í golfgallanum í góðum fíling. Fljótlega runnu í hlaðið annað ofurpar og slógust í lið með hjúkkunni og syninum. Þetta var alveg hreint með eindæmum skemmtileg golfferð og sló hjúkkan bara nokkuð vel þann daginn. Nú er hún samt komin aftur í vinnuna og ætlar að eyða menningarnótt á slysadeildinni við mikinn fögnuð viðstaddra. Farið varlega í djamminu um helgina!!!

17/08/2005

Einstaklega óspennandi!
Líf hjúkkunnar er alveg einstaklega óspennandi þessa dagana og lýsir hún hér með eftir einstaklingi/um til þess að reyna að gera líf hjúkkunnar meira spennandi. Sem fyrr er hjúkkan flutt í vinnuna og veit varla lengur hvað það er að eiga frídag... en hvað getur hún kvartað - ný komin úr sumarfríi. Eitt sem hjúkkan gerir þegar líf hennar er svona óspennandi þá fer hún að hugsa um einkennilega hluti. Ein af þessum hugsunum skaut upp kollinum á einhverri kvöldvaktinni um daginn og vakti nokkra undrun meðal samstarfsfólks hjúkkunnar og áhyggjur af geðheilsu hennar. Þessi svona líka skemmtilega pæling er nefnilega hvaða skordýr er tilgangslausast? Hjúkkunni komu tvær tegundir í hug. Annars vegar sníglar - hvað er málið með það að vera 2 ár að komast yfir eitt herbergi og þurfa jafnvel að eignast barn með sjálfum sér á leiðinni?? Hin tegundin eru hrossaflugur. Hrossaflugur hafa engan tilgang, nema það teljist sem tilgangur að hanga kyrr á vegg svo klukkustundum skiptir. Þær eru líka svo mjóar og renglulegar að þær eru örugglega alltaf með samfall á lunga ( hehe önnur hjúkka kom reyndar með þetta komment ) og ef það er smá gola þá er vonlaust fyrir hrossafluguna að komast leiðar sinnar þar sem hún fíkur bara út í veður og vind. Já eins og þið sjáið þá er hjúkkan sífellt að reyna að skemmta sjálfri sér og koma sér í gegnum þessa óspennandi tíma. Finnst ykkur hún nokkuð svakalega sorgleg týpa ????

10/08/2005

Fimmvörðuhálsinn sigraður!
Hjúkkan náði þeim merka áfanga um helgina að sigrast á Fimmvörðuhálsinum ásamt megabeibinu og nokkrum öðrum hjúkkum, læknum og fylgifiskum. Ferðin var í alla staðið frábær enda skipurlögð af miklum snillingi! Tímaáætlanir stóðust og fúlasti sjoppuafgreiðslumaður ársins fannst snemma morguns á Hvolsvelli. Daman var ekki að hafa húmor fyrir því að afgreiða pylsur og malt kl. 09 á laugardagsmorgni. Lagt var að stað frá Skógum og þrátt fyrir dómsdagsspá frá bitrum skálaverði varð hópurinn ekki fyrir neinu ónæði vegna veðursins. Eins og megabeibið benti á héldu hún og hjúkkan lengi vel að þær væru í seinna holli hópsins og gerðu fastlega ráð fyrir um 20 manns fyrir framan sig. Staðreyndin var önnur og kom í ljós upp í Baldvinskála þar sem 6 manns voru í góðum fíling að borða og reyndust þetta vera fremstu menn. Nokkrir góðir sopar af öl voru teygaðir og eftir stutt stopp lá leiðin á ný um fjöll og firnindi. Píurnar tóku á það ráð að telja brekkurnar sem eru eftir skálann og reyndust þær vera alls 8 - þar sem brekka 8 er nokkuð löng og frekar leiðinleg var oft notast við ljót orð til að koma sér yfir hana. Vindurinn var í bakið og píurnar flugu sem lauf í vindi yfir hæsta hlutann. Það reyndi töluvert á ónýt hné og mjaðmir á niðurleiðinni og var brekkan eftir Morinsheiðina sérstaklega sársaukafull enda var stoppaði í koníakstár eftir hana. Gellurnar náðu góðum tímum 6 klst og 15 mín hjá beibinu og 6 klst og 20 mín hjá Hjúkkunni. Þar sem rúmur 2 og hálfur tími var í síðasta hóp var ekki um annað að ræða en að klára koníakið og slaka vel á í Básum. Rútan kom svo og ferjaði liðið yfir í Húsadal og þar tók við yndisleg móttökunefnd með kakó, skotum og blöðrum. Kvöldið rann saman í eytt með góðu grilli, súkkulaðiköku, rauðvíni og gítarsöng. Það sem stendur vel uppúr er þjóðsöngur vinnustaðarins - ofursmellurinn Hátún 10b sem var sunginn nokkrum sinnum.
Sunnudagurinn fór í svefn og almenn leiðindi á Kaplakrikavellinum þar sem hjúkkan sá sína menn í vondum málum. Þetta var held ég síðasta ferðin á völlinn þetta sumarið!!! Þið sem haldið með FH verði ekkert að skilja eftir komment hér á síðunni :)

01/08/2005

Verslunarmannahelgin!
Hjúkkan tók því rólega þessa verlsunarmannahelgina þar sem hún var að vinna alla dagana. Sumarfríinu lauk sem sagt á föstudaginn og lá leiðin auðvitað beint á slysadeildina. Hjúkkan var reyndar búin að skipta út helginni og endaði að lokum á aukavöktum enda vill Skatti frændi fá fullt af pening frá henni. Hjúkkan var svo sem enn að jafna sig eftir Roadtrip 2005 og er á leiðinni í Þórsmörk um næstu helgi og því var svo sem ágætt að hafa sig hægan eina helgi. Eitt af afrekum helginnar var að ná að horfa á alla dagsskrá á RÚV á laugardagskvöldið - jú allar 3 myndirnar sem voru bara alveg ágætar. Video var líka reyndin á föstudagskvöldið en sunnudagskvöldið fór í hugguleg heit í garðinum í Kúrlandinu. Nokkrir golfboltar voru líka sleggnir en engin tennis æfing. Nú er málið að koma sér í gönguform fyrir Fimmvörðuhálsinn sem farinn verður næsta laugardag í fylgd samstarfsfólks. Þar sem hjúkkan er reyndar með eindæmum óheppin týpa er aldrei að vita nema hún komist í bæinn með þyrlunni en vonum samt ekki.