30/12/2007

Í tilefni áramóta!
Já nú er enn eitt árið að renna sitt skeið og tíminn flíygur áfram. Undanfarin ár hefur hjúkkan verið í áramótablús og yfirleitt farið á bömmer þegar farið var yfir liðið ár. En svo er nú aldeilis ekki í ár. Hjúkkan tók ákvörðun í desember að gera jólin og áramótin að eins streitulausum tíma og mögulegt væri og það hefur skilað sér í hamingju og vellíðan yfir hátíðirnar. Það eru líka mörg ár síðan hjúkkan borðaði eins mikið og hún hefur gert undanfarna daga og verður því hraustlega tekið á því í gymminu strax á nýju ári.
Það dreif ýmislegt á daga stelpunnar á árinu 2007 og hér koma nokkrir punktar:
- ferðir erlendis urðu 12 á árinu ýmist til Evrópu eða USA. Í einni ferðinni seinkaði flugi því klósettið í vélinni lak!
- skiptinemafjölskyldurnar voru heimsóttar við mikinn fögnuð
- bílgreyið fékk að finna fyrir því og endaði hann á verkstæði 3 sinnum á árinu
- pumpan lét illum látum og endaði á lyfjum
- elsta systir giftist með glæsibrag í undurfallegum kjól
- 10 kílómetrar voru hlaupnir á um klukkutíma í Reykjavíkurmaraþoni
- sagan endalausa heldur réttu nafni og virðist nú vera á réttri leið..hehe
- grillið fauk þrisvar sinnum!!! óvíst um framtíð þess í augnarblikinu
- hjúkkan hóf þátttöku með hljómsveitinni "Þrír með dívum"
- svolítið mörg pör af skóm voru keypt... ef þið giskið á rétt svar fáið þið verðlaun...
- hjúkkan varð þrítug!!!!!... óvíst með framtíð þess í augnarblikinu ....

Já þetta er brot af eftirminnilegum atburðum ársins og þeir voru nú margt fleiri en sumt er betur geymt ósagt :) Nú er mál að ganga inn í nýja árið með glæsibrag og markmiðið er að njóta þess fram í fingurgóma. Farið varlega með flugeldana elskurnar, ég verð ekki á slysó til að taka á móti ykkur....

24/12/2007

Jólakveðja
Ofurhjúkkan óskar vinum og vandamönnum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.
Hjartans þakkir fyrir ómetanlega vináttu í gegnum árin og megi nýja árið færa okkur fleiri góðar stundir, hamingju og styrk.
Kveðja
Fríða Björg

18/12/2007

Sjálflímandi frímerki!
Pósturinn fær mikið hrós frá hjúkkunni í ár fyrir að bjóða upp á sjálflímandi jólafrímerki. Eftir að hafa sleikt öll umslögin var tungan orðin ansi loðin og komið ferlegt bragð í munninn, að ógleymdi andremmunni sem þessu fylgir... Já smekklegar lýsingar en eitthvað sem allir kannast við í kringum jólakortabransann. Hjúkkunni var nú farið að kvíða nokkuð að þurfa að sleikja öll frímerkin líka og klígjaði eiginlega niður í tær við tilhugsunina. Þá kom ljósgeislinn í líf hjúkkunnar... jú jólafrímerki póstsins eru sjálflímandi :) :) :)
Það þarf greinilega ekki mikið til þess að gleðja hjúkkuna sem með bros á vör gekk frá öllum kortunum til sendingar og þá er þessu verkefni lokið í bili. Þetta er í fyrsta sinn í nokkur ár sem hjúkkan sest niður og skrifar jólakort og var eiginlega búin að gleyma því hversu yndæl sú stund getur verið hjá manni. Kveikt er á kertunum á aðventukransinum og bara nokkuð góð jólastemning komin í stelpuna.
Nú er bara að klára að kaupa jólagjafirnar og redda nokkrum fundum í vikunni og fara svo og halda jólin.

10/12/2007

Brjálað veður!!!!
Það er ekki of sögum sagt þegar maður talar um brjálað veður í augnarblikinu. Fjörðurinn fallegi er gjörsamlega ófær vegna brjálaðs veðurs og hjúkkunni er ekkert sérstaklega vel við þetta allt. Hún skrapp á kóræfingu og á meðan fauk grillið um koll á svölunum og bara heppni að það fór ekki inn um gluggann! Nú er búið að binda allt lauslegt niður, koma öðrum hlutum inn í hús og vona það besta. Eitt sem vekur samt undrun og gleði hjá hjúkkunni og það er sú staðreynd að jólaseríurnar á svölunum hafa ekki haggast! Stelpan fór út í 6 stiga frosti um daginn og ákveð að setja þær tryggilega á svalirnar og það hefur aldeilis sannað sig þessa síðustu klukkutíma.
Nú er mál að reyna að snúa sólarhringnum aftur á rétt ról enda heimkoma frá New York í morgun með tilheyrandi tímarugli. Hjúkkan ætlaði rétt að blunda í 2 tíma en svaf af sér stjórnarfund og næstum því kóræfinguna líka.
Vonandi fer þetta veður að ganga yfir svo hjúkkan nái að sofa eitthvað í nótt, en það er lítill friður þegar veðrið stendur á svefnherbergis gluggann með miklum ofsa.

09/12/2007

Hi, how are you?!
Hjúkkan er þegar þetta er skrifað búin að pakka niður í ferðatöskuna (sem var hálftóm við komu) og undirbúa heimferðina á morgun. Já Stóra Eplið hefur fengið að njóta samvista við stelpuna í nokkra daga og hefur ekki farið illa um hana. Eitthvað fór verslunin hægt af stað enda svo sem lítið stress í gangi hjá stelpunni á þessu sviði. Ferðin út gekk vel og það var pínu þreyttur hópur sem loksins lenti í New York eftir 6 klst flug! Leiðin lá á hótelið í smá snarl og svo háttartíma. Í lyftunni á leiðinni upp á 29. hæð ræddu hjúkkan og íslenskur ferðafélagi málin (sem betur fer voða almennt) því auðvitað var gaurinn sem kom hlaupandi inn í lyftuna og leit út fyrir að vera Þjóðverji Íslendingur. Hann hlustaði gaumgæfilega og bauð svo laumulega góða nótt þegar hann steig út út lyftunni með ótrúlegt glott á smettinu. Voðalega fannst honum hann vera sniðugur!!!
Það var nú smá ástand í kringum hjúkkuna hér á hótelinu, þar sem lyftan stoppaði rétt við 17. hæð og neitaði að fara lengra. Eftir að hafa haldið ró sinni í nokkurn tíma tókst loksins að opna draslið og hjúkkan og lyftufélagar voru ekki lengi að koma sér út - svo var fundinn stigagangur og afgangurinn af ferðinni upp á herbergi tekinn í tröppunum.
Annars er New York alltaf jafn svakalega svona rétt fyrir jólin, fólk alls staðar, hávaði alls staðar og ekki farandi inn í lyftu nema að einhver þurfi að tala við þig! Alveg hreint merkilegur ávani hjá þessari ofvöxnu þjóð. Auðvitað ætti maður að taka prufu og svara einhvern tímann að allt sé í rugli og loksins sé einhver sem sýnir manni áhuga.... hehe spurning hvort viðkomandi hætti ekki að bera fram þessa spurningu við fólk sem hann þekkir ekki?

28/11/2007

Aflýst!
Hjúkkan er svolítið að leita í spennuna þessa dagana með því að reyna að fljúga á krefjandi staði á Íslandi. Fyrir nokkru voru það Vestmannaeyjar og svo fór eins og þekkt er að Herjólfur fékk að ferja hjúkkuna heim. Í dag átti að gera tilraun til að komast til Ísafjarðar og allt leit vel út. Hjúkkan komin tímanlega út á Reykjavíkurflugvöll og sat hin spakasta og fylgdist með þreyttum ferðalöngum koma og fara. Sumir virkuðu voðalega taugaveiklaðir og eftir að hafa horft á þó nokkra koma, tala við einhver á þjónustuborðinu og fara svo aftur var hjúkkunni farið að lengja eftir að byrjað yrði á tékk inn í flugið. Viti menn loksins þegar hjúkkan reis á fætur og ætlaði að athuga málið kom voðalega huggulegt sms. "Góðan dag, því miður hefur flugi til Ísafjarðar verið aflýst vegna veðurs". Já svo fór með þá ferð að sinni alla vega. Hjúkkan var reyndar búin að sjá í nokkrum sjarma rólegt kvöld á Hótel Ísafirði en í staðinn eru bara huggulegheit í Dofranum.
Það gengur ágætlega að versla fyrirfram fyrir New York enda má maður engan tíma missa í svona basic shopping :) Svo er bara að vona að ekki verið 14 stiga frost eins og í fyrra!!!

20/11/2007

Rokkhljómarsveitarhjúkka!
Hjúkkan sýndi á sér nýjar hliðar á dögunum þegar hún tróð upp með hinni ógleymanlegu Vistor hljómsveit "Þrír með dívum". Hjúkkan lét plata sig í að syngja bakrödd og rúllaði bandið árshátíðinni upp með glæsibrag. Vinnufélagarnir sýndu ótrúleg múv á dansgólfinu undir dúndrandi stuði hljómsveitarinnar. Kvöldið leið hratt og þó svo að það hafi nú ekki endað eins og planið var þá var fjörið hið mesta. Vikan leið og þá lá leið hjúkkunnar til Vestmannaeyja þar sem heimamönnum var kennt hvað væri það besta við of háum blóðþrýstingi. Flugið um morguninn var tæpt og enn tæpara þegar átti að snúa heim og eftir nokkuð kröftugan valkvíða ákvað hjúkkan að prófa að upplifa ferð með Herjólfi. Já dallurinn stóð fyrir sínu og á tímabili þurfti mikla einbeitingu til þess að missa ekki innyflin í boxið, en með mikilli elju tókst hjúkkunni að sofa góðan hluta ferðarinnar. Það er eitt sem hjúkkan skilur þó ekki og það er þörf fólks til þess að vera að troða í sig mat alla leiðina í leiðindar sjógangi og veltingi! Það var alveg orsök nettrar innyflaörvunar!
Nú er hjúkkan byrjuð að kyrja jólasöngvana og raular jó-hólin jó-hólin ah- hallstaðar meira og minna allan daginn. Hjún er búin að taka þá ákvörðun að gefa jólastemningunni sjéns þetta árið og blómstra í undirbúningnum - engin námskeið þó!!! Svo er bara að undirbúa brúðkaup milli jóla og nýárs - þó ekki hennar eigið...

06/11/2007

Stelpan orðin stór!
Já þá er hjúkkan loksins orðin 30 ára og komin í tölu fullorðinna. Eftir að hafa tekið nokkur kvíðaköst vegna þá yfirvofandi afmælis var hjúkkan ekkert nema afslöppuð og flottust að eigin mati á afmælisdaginn. Afmælis- og innflutningspartý Dofrans var haldið á laugardaginn og það var bara frábært. - Hjartans þakkir fyrir mig - Mjög skemmtilega ólíkir hópar af fólki saman komin í kotinu og kátt á hjalla. Svo er fyritækið sem hjúkkan vinnur hjá svo almennilegt að halda afmælisveislu (árshátíð) fyrir stelpuna n.k. laugardag og öllu verður til tjaldað :)
Nú lítur allt út fyrir að hjúkkan verði á Íslandi allan nóvember sem er bara kostur og eintóm hamingja yfir. Í desember er svo stutt ferð til New York enda þá kominn tími til að kíkja á jólagjafirnar. Þá er bara spurning hvort eitthvað af þessum fluffum sem maður þekkir verði um borð og fái að gera manni lífið ljúft á leiðinni yfir hafið.

29/10/2007

Yndislegir dagar í Köben!
Hjúkkan er aldeilis búin að hafa það huggulegt hér í kóngsins Köben yfir helgina. Á föstudaginn lagði hjúkkan land undir fót ásamt Maríu systir og þær lögð á vit verslananna og vitleysunnar í Kaupmannahöfn. Í upphafi var gist á Hótel 27 sem er tiltölulega nýuppgert hótel rétt við Ráðhústorgið. Innifalið í verðinu var "létt" hlaðborð sem systurnar ákváðu að gæða sér á á föstudagskvöldinu. Þær löguðu flugvéla andlitin og skelltu sér niður á veitingastaðinn, pínu svangar og fullar tilhlökkunar í boði Topash (Tópasar vinar síns). Létta hlaðborðið gaf þessu hugtaki algjörlega nýja merkingu. Fyrst um sinn þurfti eiginlega að leita að hlaðborðinu því það var svo rosalega létt. Eftir smá vangaveltur og fliss sáu systurnar að hér var virkilega um "létt" hlaðborð að ræða. Í boði var tómatsúpa í staupglasi, síldarbiti sem ekki reyndist vera síld, salat skál sem var reyndar vel útilátin miðað við allt annað ostur. Systurnar voru nú ekki alveg á því að þetta væri matur og sáu bita af hamborgarhrygg til hliðar við hlaðborðið - einhvers staðar var kjöt í boði, en hvar??? Að lokum fundu systurnar litla svarta potta sem innihéldu hamborgarhrygg (tvo munnbita) smá slettu af kartöflumús og 2 aspasbita. Já flissið varð enn meira og ákveðið var að fara bara nokkrar ferðir í litlu svörtu skálarnar :) Kvöldmatur var ekki aftur tekin á hótelinu!
Laugardagurinn fór í rölt um Strikið og áframhaldandi huggulegheit um kvöldið með ítalska þjóna sem virtust hafa þann eina áhuga að gefa eigin símanúmer. Á sunnudeginum var pakkað niður, túristast með rauðum túristabúss og skipt um hótel. Hjúkkan er sem sagt byrjuð að vinna og því var skipt um hótel. Nema hvað að vetratími tók gildi aðfaranótt sunnudags og því varð klukkan tvisvar sinnum 01! Þetta olli smá ruglingi hjá yngri systurinni sem stillti vekjarann vitlaust í morgun og systurnar sváfu næstum því yfir sig. María systir hélt út á flugvöll og hjúkkan fór á námskeið. Í kvöld kíkti hjúkkan svo í heimsókn til ofurparsins Nonna og Sofie á Lombardigade sem er hið huggulegasta, hélt fyrstu afmælisveisluna fyrir þau þar sem þau komast ekki næsta laugardag. Þetta er bara stemning að fara til mismunandi landa og halda upp á afmælið sitt :)

20/10/2007

Alveg óvart!!!
Hjúkkan gerði nú aldeilis góða ferð í verlsunarmiðstöð í dag. Hún fór upprunalega í miðstöðina til þess að skoða lampa sem hún hafði augastað á en leist ekki nægilega vel á gripinn og fannst eilítið of dýr fyrir ekki meira en hann var. Á leiðinni út í bíl vandaði hjúkkan sig á því að ganga framhjá skóbúðum enda ætlaði hún aldeilis ekki að kaupa skó í dag. Í staðinn af einhverjum óskýranlegum orsökum lá leið hennar inn í sjónvarpstækjaverslun. Jú það væri nú svo sem allt í lagi að skoða hvað væri til. Áður en hjúkkan vissi af var hún búin að festa kaup á sjónvarpi og heimabíói (ákvað að gefa sjálfri sér þetta í afmælisgjöf). Hringt var í aukaeiginmanninn og hann fenginn til aðstoðar í Dofranum við uppsetningu sem var ekkert nema eintóm hamingja. Nú situr hjúkkan sæl og kát fyrir framan nýja gripinn með alls konar hljóð úr öllum áttum.

13/10/2007

Dofrinn - lang bestur :)
Nú er hjúkkan búin að fara í 2 af þremur utanlandsferðum í október og orðin vel skóuð eftir árangursríkar heimsóknir í skóbúðir og á skrifstofuna. Það er að verða til nýtt vandamál í Dofarnum og það er plássleysi sökum fjölda skóa - því er stefnan tekin á það í dag og finna lausn á því vandamáli.
Hjúkkan er sem sagt búin að skreppa til Köben tvær vikur í röð með helgarfríi heima í Dofranum og ástandið er orðið þannig að hennar nánasta fjölskylda sendir bara email til að sjá hvort það komi out-of-office reply sem gefur til kynna hvar í heimnum stelpan er það skiptið. En sem sagt verður hjúkkan heim til 27. okt. Hjúkkan ætlaði að eyða október í sjálfsvorkun vegna yfirvofandi þrítugsafmælis en hefur bara ekkert mátt vera að því og notar bara retail therapy í staðinn (sbr. aukin skókaup). Þess á milli hefur hún komið heim og dundað sér við að færa til húsgögnin sín um hverja helgi - nú er komin endanleg mynd á dæmið og allt voða huggulegt.
Plönin halda og hjúkkar hefur ákveðið að halda upp á afmælið sitt 3. nóvember og skjóta inn í innflutningspartýinu á sama tíma (ekki seinna vænna þar sem maður er búin að búa hér í tæp 2 ár). Boðskort og almennar upplýsingar verða sendar út fljótlega :)

30/09/2007

Ekki eru allar hugmyndir góðar!
Hjúkkan er búin að vera í "skilyrðinga" krísu um sjálfa sig í kjölfar dómsins frá bæklaranum um að leggja hlaupaskóna á hilluna. Já það verður víst að hafa það eins fúlt og það er, en þá verður hjúkkan bara að finna nýja skilgreiningu á sjálfri sér þar sem "hlaupari" er dottið út af borðinu. Þessi helgi fór í áætlanagerðir og nokkra vinnu heimafyrir í því skini. Í morgun sat hún og skoðaði fasteignaauglýsingar án þess þó að vita af hverju hún væri að leita. Loks eftir dágóða stund í áætlanagerðinni lá leiðin í sófann í einn þátt af Grey´s. Þá fékk hún þessa líka góðu hugmynd sem að mati hjúkkunnar leysti öll vandamálin! Jú nú var mál að breyta allri uppsetningu á íbúðinni. Það hafa staðið yfir nokkrar pælingar um málið og loks ákvað hjúkkan að redda þessu. Í upphafi hafði nú nokkrar áhyggjur af þungum húsgögnum sem hún ætti erfitt með að færa ein - en smiðurinn átti svarið, setja bara filt tappa undir dæmið og renna því mjúklega eftir gólfinu. Við skulum hafa það alveg á hreinu að þetta voru ráð í gegnum símann og hetjan var ekki einu sinni á staðnum :) Hjúkkan dreif sig af stað og smellti töppum undir það sem þurfti og mjúklega dröslaði húsgögnunum um alla íbúð. Loksins komst endanleg staðsetning á dæmið og hjúkkan er bara ánægðust með árangurinn. Það var nú líka plús í ég-er-svo-sjálfstæð dæmið að gera þetta án aðstoðar. Svo auðvitað hringdi hún í hetjuna og lýsti yfir árangri sínum, hetjan hló pínu og benti hjúkkunni á að fara nú og hvíla bakið sitt góða.
Nema hvað - nú liggur hún í sófanum á nýja staðnum í íbúðinni og getur eiginlega varla hreyft sig sökum verkja í bakinu en hugurinn er stór. Hjúkkan ákvað reyndar annað líka eftir allar breytingarnar og verkina í bakinu, að ekki eru allar hugmyndir góðar hugmyndir og stundum er allt í lagi að fá aðstoð við hlutina :)

24/09/2007

Hann er kominn aftur í líf hjúkkunnar!
Loksins kom að þessum degi í lífi hjúkkunnar. Eftir allt of margar vikur og einmannalegar kvöldstundir lyftist brúnin á stelpunni í dag. Hann birtist með dökka, hrokkna hárið og glettingslegt augnarráðið sitt og stelpan andvarpaði. McDreamy hefur ekkert breyst nema bara til hins betra þessar síðustu vikur og nú tekur við maraþon sófi hjá stelpunni og ákaflega mörg símtöl í ráðgjafann í Ásgarðinum :) Haustið verður betra en á horfðist og nú er það bara að njóta.
Tjúttið var tekið með trompi um helgina á haustfagnaði fyrirtæksins eins og von er. Pílukastkeppnin var á sínum stað og hjúkkan stóð sig eins og hún átti von á. Það fóru alla vega 3 af 6 pílum á spjaldið og það er bara flott að eigin mati stelpunnar. Laugardagurinn fór í hjartsláttatruflanir og almenna leti enda var tekið á því á sunnudag í staðinn. Íbúðin þrifin hátt og lágt og ekki eftir neinu að bíða með áhorf á 3. seríuna á Grey´s :)

16/09/2007

Botnbaráttan!
Það er eiginlega frekar einkennilegt að vera KR-ingur og þurfa að tjá sig um botnbaráttuslaginn sem er í Landsbankadeildinni í dag milli KR og HK. Um mitt sumar héyrði hjúkkan lýsingu á leik KR og ÍA og þar var talað um "fallið stórveldi" í knattspyrnu. Ok okkur gengur kannski ekkert sérlega vel í augnarblikinu en við erum nú ekki fallin en sem komið er.
Það eru heldur ekki margir KR-ingar sem þora segjast þá bara hlakka til að mæta á leik KR og Leiknis á GehttoGround næsta sumar. Það eru svo margir jákvæðir punktar í kringum þetta m.a. er ódýrara á leiki í 1. deild en Landsbankadeildinni - maður er alltaf að spara :)
En sannur stuðningsmaður fylgir sínum í gegnum súrt og sætt sama hvað þessi hverfisklúbbur hjúkkunar gerir og getur :)

12/09/2007

Breyttir tímar!!!
Hjúkkan situr kát heima á sófa eftir að hafa horft á íslenska landsliðið loksins vinna sinn fyrsta leik í rúmt ár. Hún hafði nú ýmislegt að segja um þennan leik og notaði símann óspart þar sem fótboltapartnerinn var heima hjá sér í Reykjavíkinni. Það er einhvern veginn ekki hægt að rífast yfir leiknum einn við sjálfan sig! Sem sagt bara ánægð með liðið og gaman að sjá alla þessa nýju og ungu leikmenn í hópnum - nú er bara að fara að læra ný nöfn!
Eitt sem hjúkkan tók sérstaklega eftir í fréttunum á RÚV í kvöld var frétt þess efnis að mörg börn hafi labbað eða hjólað í skólann í dag. Hvað er fréttnæmt við það - þegar hjúkkan var lítil hnáta þá labbaði hún alltaf í skólann og úr skólanum og þótti það bara mjög eðilegt. Erum við að gera börn enn meiri ósjálfbjarga þar sem krakkar mega varla þurfa að fara í næsta hús án þess að þeim sé skutlað þangað?
Annars var hjúkkan massa dugleg í rigningunni í dag og dreif sig á útiæfingu í hádeginu. Hlaupið var eins og alltaf um Laugardalinn og svo tekin sprettæfing á hlaupabrautinni á Laugardalsvellinum. Það var ekki þurr þráður á hjúkkunni í lok æfingarinnar og sturtan alveg einstaklega góð! Kannski er maður svona skemmdur eftir allar strætóferðirnar að maður þorir að fara út að hlaupa í smá roki og rigningu?

01/09/2007

Sorgleg eða sæt?
Hjúkkan hafði nú önnur plön um helgina en þau sem urðu raun. Hún ætlaði að hafa kokteilaklúbbinn fyrir hjúkkurnar og tjútta hressilega með skvísunum en örlögin gripu inn í og í staðinn lagðist stelpan í hundleiðinleg veikindi. Hún liggur fyrir með höfuðverk og hóstar eins og mæðuveik rolla ( sérlega kynþokkafullt). Í staðinn fyrir að vera á lífinu með skvísunum er stelpan sem sagt heima á laugardagskvöldi, horfandi á Love Story með hvítvínsglas og Sudoku. Já manni verður stundum spurn - er þetta sorglegt eða bara sætt :)
Hjúkkan fékk smá aldurskrísu í kjölfar þess að uppgötva að þetta var nú bara mjög fín blanda á laugardagskvöldi en samkvæmt öllum normum ætti 29 ára gömul stúlkukind að vera á tjúttinu. Það kemur bara seinna og mál að ná sér hressum af þessari pest. Reyndar voru ráðin frá hinum hjúkkunum alveg yndisleg ,, taktu bara verkjalyf og skelltu þér á djammið - þú dílar bara við veikindin á morgun" já þetta er sanni gamli góði slysóhjúkku andinn og ég er stolt af stelpunum.
Á döfinni er að ganga í hlaupahóp í Hafnarfirði til að halda hlaupunum áfram og verða massa flottastur á brautinni á næsta ári. Annars er maður bara heima meiri hlutann af mánuðinum og nú er mál að hlutir fari að gerast :)

28/08/2007

Erfiðir tímar!
Já það er komið að því... maðurinn sem hjúkkan ætlar að giftast þ.e. fyrir utan Ryan Giggs og nokkra aðra er hættur í boltanum vegna meiðsla. Ole Gunnar Solskjær er hættur og maður kemur ekki til með að sjá hann spila oftar með Man Utd!

http://www.mbl.is/mm/enski/frett.html?nid=1287878

Læt hér fylgja með vísu um Solskjær sem sungin er á Old Trafford honum til heiðurs:

You are my Solskjaer,
My Ole Solskjaer,
You make me happy,
When skies are grey,
And Alan Shearer,
Was fucking dearer,
So Please don't take,
My Solskjaer, Away....

26/08/2007

Blússandi sjálfstraust og stingandi augnarráð!
Helgin hefur nú aldeilis verið frábær hjá hjúkkunni. Hún er búin að fara á stelpukvöld, kíkja í búðir með Maríu systir og litlu prinsessunni, fara í tvöfalt þrítugsafmæli og slá í gegn að eigin mati. Tvöfalda þrítugsafmælið var eins og nostalískt MH reunion og þar var bara frábær stemning. Ótrúlega gaman að hitta fólk sem maður hefur ekki séð í mörg ár og það var mikið hlegið. Sjálfstraust hjúkkunnar jókst til muna og einn gamall kunningi komst að því að hann er sennilega síðastur að fá fréttir. Eftir afmælið lá leiðin á ölstofuna þar sem hópurinn var áfram í mikilli stemningu og ýmis misgáfuleg komment voru látin út úr sér.
Dagurinn í dag hefur farið í aflsöppun, bakvakt sem endaði með útkalli, þrif á heimilinu og brostnar vonir í kjölfar atburða í Landsbankadeildinni. En hjúkkan á í köldu stríði við stærðarinnar könguló sem hefur gert sig heimakæra utan á hús hjúkkunnar. Þetta er flennifeit hlussa sem hvæsir á mann ef maður kemur of nálægt. Nema hvað að hjúkkan var að viðra sængurnar sínar og þurfti því að fjarlægja vef köngulóarinnar og hana sjálfa því ekki vill maður fá svona kvikindi í sængina sína. Köngulóin var ekki hin hressasta þegar hjúkkan tók kústskaft, eyðinlagði vef hennar og skaut henni niður á grasflöt. Hjúkkan gekk inn og sótti sængurnar og var komin aftur út á svalir nokkrum mínútum síðar. Viti menn, henni mætti stingandi kalt augnarráð köngulóarinnar sem hvæsti á hjúkkuna. Jú kvikindið hafði skriðið á methraða upp húsvegginn og var tilbúin í slag. Hjúkkan sótti aftur kústskaftið góða og sá til þess að köngulóin myndi ekki spinna frekari vef á ævinni. Blessuð sé minning hennar!

20/08/2007

Markmiðum náð!
Hjúkkan stóð sig eins og hetja um helgina þegar hún náði settum markmiðum í 10km hlaupinu í Reykjavíkurmaraþoninu. Það er alltaf hægt að berja sig eftirá og hugsa af hverju maður sprengdi sig ekki á endasprettinum í stað þess að hlaupa bara í góðum gír en þess vegna veit maður betur næst. Flögutíminn ( frá því maður stígur á mottuna úr rásmarki og í endamarki ) hjá stelpunni er 1.01.42 en stelpar horfir til klukkunar sem hún hljóp með á hendinni sem sýndi 59.45 og er bara hæst ánægð með árangurinn :) Það er bara frábær tilfinning þegar maður sér að markmiðinu er náð á ekki lengri undirbúningstíma en raun bar vitni um ( ca. 3 vikur). Nú er stefnan að halda áfram og hlaupa í vetur og sjá svo hvaða vitleysu maður tekur upp á á næsta ári. Það var stór hópur sem hljóp úr vinnunni og þar af tveir afreksmenn - yfirmaður hjúkkunnar sem varð Íslandsmeistari kvenna í heilu maraþoni og svo auðvitað Siggi og Gunna. En Siggi hljóp heilt maraþon einn með Gunnu sína í hjólastólnum - þvílíkt afrek þar á bæ.
Í vinnunni í dag náði hjúkkan loks öðru markmiði þegar hún kláraði verkefni sem hún hefur ekki viljað horfast í augu við í alltof langan tíma. En í dag var þetta eitt á dagskrá að klára dæmið og koma því frá sér (það voru ekki tímamörk á þessu verkefni).
"Góður" samstarfsmaður hjúkkunnar sendi svo stelpunni link á stórskemmtilegt KR lag sem samið er um árangur Teits með liðinu. Þetta er reyndar algjör snilld og hvetur hjúkkan alla til að hlusta vel á textann. Lagið er að finna hér http://pdf.sport.is/mp3/tate_kelly.mp3
Á meðan við erum á KR nótunum vill hjúkkan beina athygli lesenda að því að KR er ekki í neðsta sæti deildarinnar :)

15/08/2007

Heitum á hjúkkuna!
Nú er allt að gerast hjá hjúkkunni. Skápurinn er kominn inn í íbúðina í fjölmörgum pörtum og smiðurinn er væntanlegur á morgun. Hjúkkan tekur smá forskot á sæluna og byrjar að setja saman innvolsið enda hefur hún margsannað iðnaðarmanna hæfileika sína :)
Hlaupin ganga samkvæmt áætlun og nú er farið að styttast í laugardaginn og hjúkkan til í tuskið. Nú er það bara fyrir ykkur sem ætla ekki að hlaupa að styrkja gott málefni og heita á stelpuna. Hægt er að framkvæma það á www.glitnir.is og smella á áheit á hlaupara. Hjúkkan fylgir einum samstarfsmanni sínum og hleypur til styrktar Heilaheill sem er lítið félag einstaklinga sem fengið hafa heilablóðfall og aðstandenda þeirra. Hjúkkan er nú ekki að fara langt og því getið þið alveg borga smá fyrir að sitja á bossanum á meðan hjúkkan hleypur (ásamt hinum 5000 manns).

11/08/2007

Dönsk sundferð!
Seinni hluti ferðarinnar hjá hjúkkunni var nú vinnutengdur. Sem sagt fundir, þjálfun og svo ógleymanlegur sumarsölufundur. Já það er alveg magnað hvað danir geta talað og endalaust spurt sömu spurninganna aftur og aftur, bara með mismunandi orðalagi. Hjúkkan var nú orðin pínu uppgefin á dönskunni undir loks hvers dags, nema hvað að á var alltaf eitthvað "fælles" dæmi um kvöldið. Ratleikur fyrsta kvöldið og svo grill á ströndinni seinna kvöldið. Það kvöld var reyndar með eindæmum skemmtilegt og endaði í "dönsku" sundi í sjónum seint um kvöld. Já danir mega eiga það að þeir kunna að hafa það huggulegt og það var sko engin spurning um annað hér. Stjörnubjart, einhverjir glitrandi blettir í sjónum og fínn hiti á vatni og lofti. Hjúkkan benti reyndar á að hafi danir hug á því að gera slíkt hið sama á Íslandi þá annað hvort drepist þeir úr kulda í sjónum eða löggan komi og fiski þá upp vegna gruns um sjálfsvígshættu! Strandgrillið gengi heldur ekki upp - en möguleiki væri á jökulgrilli :)
Hjúkkan er að standa sig eins og hetja að eigin mati í hlaupaþjálfuninni. Hún tók nokkrum sinnum fram skóna í fríinu og hljóp bæði í Svíþjóð og Danmörku! Eitthvað er hegðun hjúkkunar að breytast því nú er hún farin í bólið fyrr á kvöldin og vaknar fersk - fyrir hádegi og skellir sér út að hlaupa. Já áður en maður veit af verður hún farin að fara í gymmið fyrir vinnu!!!

07/08/2007

Á farandsfæti enn á ný!
Hjúkkan er komin í sitt vanabundna form að vera lítið sem ekkert heima hjá sér. Hún skrapp á fund í Köben á mánudag í síðustu viku og kom heim daginn eftir. Eftir nokkra daga heima var henni farið að leiðast þófið og skellti sér aftur út á laugardag í fjölskylduferð til Svíþjóðar. Í fyrsta sinn í mörg ár var öll fjölskyldan saman komin og farið var í Tívolí og dýragarð meðal annars. Hjúkkan skemmti sér ekkert minna en litli 4 ára frændi í dýragarðinu og var hún alveg heilluð af rauð-rassa-öpum sem fórum mikin á svæðinu sínu. Eftir góða afslöppun í sól og blíðu í Svíþjóð lá leiðin enn á ný til Köben þar sem hjúkkan dvelur í nótt og fer svo áleiðis til Korsör á morgun á fund í nokkra daga. Í Köben er lífið ljúft - hjúkkan er á sama herbergi og hún hefur gist á s.l. 3 skipti í Köben og er því farin að kunna ansi vel við sig.
Kvöldmaturinn var pizza sem tekin var upp á herbergi og borðuðu við mjög svo afslappaðar aðstæður og það eina sem vantar er félagsskapurinn.
Hjúkkan kemur tilbaka á föstudag, gullbrún og freknótt eftir sól og blíðu s.l. daga og í dúndurformi enda í æfingu fyrir 10 kílómetrahlaup í Reykjavíkurmaraþoni. Hún tók meira að segja smá skokk í Svíþjóð í fríinu. Hjúkkan er að koma sjálfri sér skemmtilega á óvart í þessu dæmi öllu og ætlar auðvitað að verða flottust á brautinni 18. ágúst n.k.

29/07/2007

Útilegu drottning!
Hjúkkan er orðin að opinberri útilegu drottningu í kjölfar þess að hafa massað gírinn um daginn. Já til hvers að bíða eftir búnaði sem til er en alltaf eitthvað sem kemur til með að koma í veg fyrir notkun hans. Hjúkkan smellti í tjald, dýnu, pumpu og kælibox sem hægt er að tengja í rafmagn á bílnum og því helst allt kalt og fínt :)
Fyrsta útilegan var nú stutt - bara eina nótt enda var veðrið eftir spánni. Það passaði að rigningin byrjaði um leið og gírinn var kominn í bílinn daginn eftir. Kvöldið fór í grill, nokkra kalda eins og lög gera ráð fyrir, spil og spjall. Alveg yndisleg kvöldstund og verður vonandi fljótlega endurtekin.
Að öðru leyti er hjúkkan sem sagt skriðin upp úr veikindunum sem kostuðu 6 daga af sumarfríi í vanlíðan og verkjalyf. Nú er málið að koma sér í form og hlaupa smá í Reykjavíkurmaraþoninu. Hjúkkan er nú ekki haldin svo mikilli bilun að halda að hún fari mjög langt í hlaupinu er 10 kílómetrar er nú ágætis vegalengd fyrir byrjendur.
Á morgun byrja svo haust ferðalög vinnunnar, reyndar bara stutt stopp í Köben í þetta sinn og svo aftur í næstu viku. Hver veit nema það sé kominn nýr in-flight-shopping bæklingur :)

23/07/2007

Framkvæmdargleði í veikindum!
Sumarfríið er orðið mjög dæmigert hjá hjúkkunni - komin rigning og hjúkkan lögst í hálsbólgu og hita!! En hjúkkan lætur ekkert smá hita og verki í öllum líkamanum stoppa sig. Þar sem hjúkkan hefur nú smá vit á lyfjum er hún búin að vera að notast við íbúfen og panodil með góðum árangri. Þegar blandan er í fullri virkni er hjúkkan ekkert nema fersk og til í tuskið. Af þeim völdum tók hún sig til og reif skápinn úr holinu í forstofunni, ein og óstudd og ekkert smá stolt af sjálfri sér... Mágmaðurinn kom á laugardaginn og henti upp ljósunum í loftið og hjúkkan lá í nettu lyfjamógi á meðan. Til að kóróna allt saman tók hjúkkan sig til og endurskipurlagði skápinn á baðinu, í svefnherberginu og bar olíu á húsgögnin á svölunum.
Eftir alla þessar framkvæmdir var ekki um annað að ræða en að koma sér til læknis og fá eitthvað almennilegt við þessum veikindum því hjúkkan er búin að framkvæma öll þau verk sem henni dettur í hug á heimilinu í augnarblikinu. Hjúkkan hafði mestar áhyggjur af því að hún yrði farin að banka uppá í öðrum íbúðum í húsinum og bjóðast til þess að þrífa!!!!!
Nú er hjúkkan komin með sýklalyf og getur því farið að sigrast á þessum fjanda og halda hlaupaæfingum sínum áfram. Stefnan er tekin á 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu og nú er bara að duga eða drepast!!!

19/07/2007

Hjúkkan og iðnaðarmaðurinn!
Fyrirsögnin hljómar eins og góð kjaftasaga sem maður flytur í Fjarðarkaupum en svo krassandi verður þessi færsla nú ekki :)
Þessa dagana er hjúkkan að vinna að "rigningar-dags-verkefnunum" sínum sem eru komin til framkvæmdar á meðan sumarfríinu stendur. Eins og þeir sem hjúkkuna þekkja vita þeir að rigning fylgir yfirleitt sumarfríi hennar og hjúkkan hætt að velta því fyrir sér af hverju enginn vill vera í fríi á sama tíma og hún!!! Nema hvað að nú er hjúkkan á fullu að mæla skápa, skúffur og sökkla í þeirri veiku von um að geta loksins farið í seinni hluta framkvæmda í Dofranum. Þar sem hjúkkan er búin að búa þar í 1 og hálft ár er kominn tími á að halda áfram hreiðurgerðinni sinni. Nú skal taka í gegn skápana á ganginum, í svefnherberginu og vonandi poppa upp eldhúsinnréttinguna. Af þessum völdum gengur hjúkkan stolt um með tommustokkinn sinn og málbandið. Það er alveg magnað hvað maður getur orðið mikill iðnaðarmaður þegar maður metur eigin getu til hins ýtrasta :) Það er alveg að borga sig að vera sporðdreki og verkfræðingsdóttir enda allt teiknað upp með mismunandi vinklum og pælingum. Nú vantar hjúkkunar bara svona vinnuvesti og buxur með svona hnéhlífum og þá er hún bara geim í framkvæmdir :) Það er kannski öllum og öllu fyrir bestu að sólin fari að skína að nýju því aldrei að vita hvar þessi framkvæmdargleði endar...

16/07/2007

Góðir menn eru til!
Trú hjúkkunnar á góðmennsku fékk endurræsingu í gær þegar hún var í öngum sínum við Reykjanesbrautina. Þannig var að hjúkkan var á leið heim úr grilli hjá gamla settinu þegar fóru að berast einkennileg hljóð aftan úr bílnum hennar. Hún ákvað að keyra aðeins lengra í þeirri veiku von um að hljóðið hætti - en svo fór ekki. Því keyrði hjúkkan út í kant við Reykjanesbrautina og fór að athuga með bílinn. Jú viti menn - alveg gjörsamlega sprungið á öðru afturhjólinu!! Nú voru góð ráð dýr - hjúkkan hafði einhvern tímann séð varadekkið undir dæminu í skottinu en hvar tjakkurinn var og svoleiðis dót var önnur spurning. Eftir góða leit fannst tjakkurinn og dótið undir dekkinu - kirfilega skrúfað niður svo enginn gæti mögulega losað hann og stolið!! Eftir stutta stund var hjúkkunni ljóst að hún gæti ekki losað tjakkinn og þarf af leiðandi ekki reddað sér. Hún hringdi nokkur símtöl en allir voru að horfa á úrslitin í Copa America eða að redda málum og enginn gat komið að hjálpa stelpunni.
Hún bograði eina ferðina enn inn í skottið og reyndi að losa draslið ( auðvitað í stutta gallapilsinu sínu..) og bar þá að þennan góða mann. Hann vatt sér upp að bílnum og bauð fram aðstoð sína. Hjúkkan þakkaði Guði fyrir þessa sendingu og gaurinn enga stund að redda þessu. Kom síðar í ljós að hann vinnur hjá Brimborg og kann því vel á svona bíla. Hjúkkan þakkaði honum af öllum hug og keyrði heim hin glaðasta með nýja trú á karlmönnum - þessir góðu eru til!!!
Í dag fór hjúkkan með dekkið í viðgerð þar sem það var úrskurðað látið - jamm stærðarinnar skrúfa var lengst inni í því og dekkið ónýtt að innan sem utan. Kosturinn við fyrirtækjabíla er að láta svo bara senda reikinginn á fyrirtækið og ganga brosandi burtu :)
Annars var fyrsti dagurinn í sumarfríi í dag og komst hjúkkan í gegnum hann án þess að skoða tölvupóstinn sinn. Hún skottaðist með Maríu systir og gullmolunum og gekk frá dekkjamálinu. Í kvöld brá nú hjúkkunni aldeilis við fréttirnar af TF- Sif sem lenti í sjónum. Sem betur fer sakaði engan og sá sem átti að vera á þyrlunni á þurru landi.

15/07/2007

Sumarfrí!
Þá er hjúkkan loksins komin í sumarfrí eftir tveggja ára vinnutörn. Þar sem hjúkkan skipti um vinnu síðasta sumar tók hún sér ekkert frí og var því orðin ansi langþreytt eftir þessu fríi. Fríið byrjaði á smá vinnu í Þórsmörk fyrir íþróttabandalag reykjavíkur í tengslum við Laugarvegs maraþonið og var það bara yndislegt. Það er alltaf gaman að koma inn í Þórsmörk þó svo að það hafi nú verið svolítið napurt og blautt þar í gær. Dagurinn leið hratt og áður en maður vissi af voru allir hlaupararnir komnir niður og lítið að gera hjá landsliðinu í mótttöku slasaðra s.s. hjúkkunni og Bjarna lækni.
Eitthvað virðast örlogin vera að gera grín að hjúkkunni þessa dagana með tilheyrandi dramatík og fólki sem hjúkkan vill sem minnst rekast á. En eins og hjúkkunni einni er lagið er bara mál að láta sér líða vel og gera hluti sem henni finnst skemmtilegir.
Dagurinn í dag er búinn að fara í sólabað á svölunum með kaffibolla og nokkur eintök af Cosmopolitan. Þannig er að hjúkkan kaupir alltaf Cosmo fyrir flug og sofnar svo fljótlega eftir að lesturinn er hafinn. Því á hún mikið magn af hálflesnum Cosmo og við stelpurnar kunnum regluna - maður hendir aldrei hálflesnu COSMO!!!!
Hjúkkan fór inn á síðu sem Kjáninn mætli með til að sjá hvaða lag var á toppi Billboard listans daginn sem hún fæddist og það þarf auðvitað ekki að koma á óvart hvaða titil lagið ber sem trónaði á toppnum 5. nóvember 1977... "You light up my life" með Bonnie Doone sem hjúkkunni finnst einstaklega vel viðeigandi á hennar degi :) Jæja nú er málið að fara að "light up" lífi þeirra sem í kringum hana eru. Góðar sumarstundir :)

11/07/2007

Ein sápan tekur við af annarri!
Þar sem hjúkkan er búin að taka tvær umferðir á Grey´s seríurnar tvær og bíður spennt eftir þeirri þriðju er ekki um annað að ræða en finna sér nýja sápu til að horfa á þangað til. Hjúkkan er nú ekkert að farast úr frumleika í þessu máli, heldur ákveð að skella sér í gegnum Friends seríurnar, eins brjóstumkennanlegt og það hljómar. En það er einhvern veginn svo þæginlegt að liggja bara uppi í sófa og horfa á eitthvað sem krefst ekki mikillar einbeitingar.
Hjúkkan þarf á allri einbeitingu að halda þessa dagana þar sem sumarfríið byrjar eftir 2 daga. Frekar stórt verkefni datt inn í gær og er hjúkkan að dunda sér við lestur þessa dagana. Hún þarf nefnilega að klára um 1000 blaðsíður fyrir þjálfun sem hún fer í að sumarfríi loknu.
Já Köben verður tekin með trompi tvisvar sinnum á 10 dögum í lok júlí og byrjun ágúst. Sumarfríið hefur ekki verið skipurlagt að neinu nema svefni og afslöppun. Hver veit nema hjúkkan fari í hreiðurgerð á eigin heimili eða bara missi þetta upp í kæruleysi og skelli sér eitthvað til útlanda. Draumurinn er auðvitað að elta bara sólina um Ísland, en það er nú frekar dauf stemning í því að rúnta um landið einn! En hjúkkan ætlar ekki að hafa miklar áhyggjur af þessu og reyna bara að njóta lífsins enda fyrsta sumarfrí í tvö ár.

30/06/2007

Frekknótt og fersk!
Hjúkkan er að verða að einni frekknu eftir útilegu helgarinnar. Leiðin lá í Húsafell með góðra vina hópi og var þetta algjör snilldar útilega. Við strákarnir (hjúkkan, Maggi og Haffi) fórum í golf eftir tjöldun og stelpurnar (Höski, Þóra og Eyrún) fóru í göngutúr og höfðu til matinn á meðan. Eftir dásamlega grillveislu átti Nonninn komu ársins í útileguna - hversu margir koma bara á flugvélinni í Húsafell?
Börnin voru dásamleg og sannaðist það að það er nú lítið mál að skella sér í fjölskyldustemninguna í útilegu. Það voru helst börn annarra sem fóru í taugarnar á hópnum enda voru svona milljón fjölskyldur í Húsafelli þessa helgina.
Dagurinn byrjaði með nettu andláti úr hita inni í tjaldinu og svo tók við smá sólbað og sund. Skömmu eftir að sólbaðið hófst var hjúkkan brunnin og komin með sólarexem - ótrúlega sjarmerandi. Í staðinn var bakinu stýrt í sólina í sundinu sem þýðir að nú er hjúkkan að rembast við að koma after sun kreminu á bakið - ekki alveg það auðveldasta sem hjúkkan veit um. Hvar er hjálpin þegar svona stendur á??
Kvöldið fór í after-sun áburð og sófa með góðu teppi. Gert er ráð fyrir því að morgundagurinn fari líka í after-sun meðferð og afslöppun. Sem sagt yndisleg helgi og strax komin plön um næstu útlegu eftir viku. Maður þarf nú að viðhalda frekknunum og brúnkunni :)

20/06/2007

Erfiðir tímar!
Það eru ekki allir sem ganga um í dag og lýsa því yfir að vera stoltir KR-ingar. Hjúkkan er í hópi þeirra sem enn viðurkenna stuðning sinn við klúbbinn og finnst þetta orðið frekar grátbroslegt hvernig komið er fyrir liðinu í deildinni. Hjúkkan átti stuðningsviðtal við annan KR-ing um daginn þar sem rætt var meðal annars um möguleika á að styðja annan klúbb. Það er bara ekkert svo auðvelt! Maður slítur nú ekki strenginn við Frostaskjólið en það er allt í lagi að hafa "auka" uppáhalds lið sem maður getur alla vega glaðst yfir sigrum. En það er það pælingin hverja má maður styðja?
Gamla línan "Frekar dauður en rauður" lýsir vel hug manns til Vals, ekki er heldur inni í myndinni að fylgja Fram og hvað þá heldur Fylki. Þá er nú svo sem einn Reykjavíkurklúbbur eftir Víkingur sem er nú innan leyfilegra marka. Hjúkkan átti nú eitt tímabil sem vinstri bakvörður í 2. flokki hjá Víking og á enn keppnistreyjuna sína sem gerir það að verkum að Víkingur kemur sterkt inn. Hjúkkan er þó sífellt undir mikilli pressu á að fara bara að styðja hverfisliðið sitt - en það er einnig á bannlistanum, þó það sé í sömu litum og KR!!!!
HK og Breiðablik eiga jafnan sjéns og þá heldur HK þar sem það er alltaf gaman að fylgjast með nýliðum í deildinni.
Eins og staðan er núna er það bara Áfram Ísland fyrir leikinn á morgun og hitt verður að koma í ljós.

19/06/2007

Áfram stelpur!
Góðu konur - til hamingju með daginn! Hjúkkan var nú samt ekki alveg að fatta þetta í morgun og fór ekki í bleiku í vinnuna, en er í staðinn bara bleik í hjarta.
Hjúkkan er að missa sig þessa dagana yfir landsleikjum í hinum ýmsustu íþróttagreinum. Hún skellti sér með Hrönnslunni á landsleikinn í handbolta á 17. júní. Stemningin í Höllinn var ótrúlega góð og stelpan söng þjóðsönginn af miklum mæti. Reyndar gerði gaurinn sem sat við hlið hennar það líka og ekki vantaði innlifunina - en hann ætti allaveg ekki að hætta í dagvinnunni til að verða söngvari.
Þar sem kvennalandsliðið í fótbolta lagði Frakkana á laugardaginn er hjúkkan meira að segja að hugsa um að skella sér á leikinn þeirra á fimmtudaginn. Þær eiga svo aldeilis allt gott skilið enda eru þær að standa sig massa vel. Kannski að hjúkkan láti aðeins bíða með að skella sér á leik hjá KR - sem hjúkkan hefur nú fulla trú á fyrir leikinn á morgun á móti HK.
Jæja nú er mál að stelpast aðeins meira - allt að vera tilbúið fyrir brúðkaupið á laugardag og vonandi að það komi ekki upp fleiri óvænt atvik. Hjúkkan á bara eftir að redda sér hárgreiðslu!!!

16/06/2007

Varnarveggur!
Hjúkkan er þessa dagana að berjast við varnarvegginn sinn sem virðist hafa þést töluvert undanfarna daga. Hluti af veggnum virkar þannig að maður leyfir sér ekki að sína sitt rétt andlit og gefa þar með fólki kost á því að sjá hvernig manni í raun og veru líður. Það er sko ekki málið að stelpan sé skriðin í eitthvað þunglyndiskast - síður en svo, en veggurinn veldur því nefnilega líka að maður getur ekki sýnt góðu tilfinningarnar sínar heldur. Veggurinn í kemur í veg fyrir það að maður geti sagt fólki hversu vænt manni þykir um það og líka hvað það er sem hræðir mann. Já þetta er margslungið vandamál en stelpan er að reyna að höggva í vegginn og vonast til að komast í gegnum hann fljótlega. Allt hefur sinn tíma ekki satt?
Á meðan er nú hjúkkan ekkert lögst undir sæng enda komið sumar og sól (alla vega stundum sól). Hún dreif sig í golf á fimmtudaginn og getur næsti hringur ekki orðið annað er betri miðað við þennan. Jább 5 boltar týndir á 9 holum er nú ekkert sérlega glæsilegt, en þetta var nú fyrsti hringur sumarsins og því má ekki kvarta.
Vikan fer í vinnu, brúnkukrem (svo maður verði flottur í brúðkaupinu um næstu helgi), afslöppun og vonandi einn golf hring. Á morgun er kjóladagur á slysó enda stórhátíðardagur - stelpan verður á vaktinni í voðalega fína hjúkrunarkonu kjólnum sínum. Það er alltaf svolítið skemmtileg stemning þegar kjóladagarnir eru, allir voðalega fínir og hátíðlegir. Jæja nóg af bulli í bili - en ef einhver veit um stuðninsmannaklúbb í knattspyrnu sem vantar vanan stuðningsmann, bara senda stelpunni línu :)

12/06/2007

Óvinurinn sigraður!
Hjúkkan er nú alveg á því að sumarið sé komið. Í morgun skellti hún meira sér í pils, setti í sig linsur og hlammaði framan á sig sólgleraugum enda er hún að slá í gegn þessa dagana. Sem fyrr er það auðvitað eigin mat sem segir henni að hún sé að slá í gegneftir að hafa slegist við sláttuvélina, hirt um garðinn og horfst í augu við óvininn án þess að blikka.
Málið með óvininn er að í gærkvöldi var hjúkkan að gera sig klára fyrir bólið og var að bursta tennurnar. Hún var búin að hátta sig og gekk inn í svefnherbergi til að ná í vatnsglasið sitt. Þegar hjúkkan hafði tekið eitt skref inn í herbergið sá hún óvininn sem blákalt var að dunda sér við að vefa rétt við rúmstokkinn, á samt mjög fáránlegan hátt beint niður úr loftinu. Já góða fólk þetta var sem sagt feit og ljót könguló!!! Nettur hrollur fór um hjúkkuna en hún var nú ekki kát við að horfast í augu við þetta kvikindi og ákvað að nú hefði köngulóin gengið of langt!! Ef hún hefði bara ákveðið að gera þennan vef sinn annars staðar - væri hún enn á lífi í dag.... Jább hjúkkan er nefnilega orðin mjög góð í að farga köngulóm og líf þessarar hlaut skjótan endi. Þetta verður vonandi til þess að óvelkomin skriðkvikindi hugsi sig tvisvar um áður en þau ákveða að koma sér of vel fyrir á stöðum sem eru ekki til þess fallnir.
Ætli vinir köngulóarinnar séu núna að spá í hvar hún sé? Það gæti verið að þeir hafi allir ætlað að hittast í hádegismat og svo bara vantar einn í hópinn...

04/06/2007

Ótrúlega flott lag!
Hjúkkan var að hanga á netinu í kvöld og rakst á þetta líka flotta lag með hljómsveitinni Muse. Lagið er svolítið melankólískt og textinn eins og gerist bestur í rólegum og melankólískum fíling. Hjúkkan er svolítið aftanlega á merinni stundum hvað tónlist varðar og sennilega í þessu máli líka og þykir líklegast að þetta hafi verið mjög vinsælt fyrir nokkrum árum síðan.
Lagið heitir "Unintented" og er hægt að nálgast hér

http://youtube.com/watch?v=92wD8dQ_B54

Textinn er eins og í góðri dramatískri mynd

You could be my unintended
Choice to live my life extended
You could be the one I'll always love
You could be the one who listens to my deepest inquisitions
You could be the one I'll always love

I'll be there as soon as I can
But I'm busy mending broken pieces of the life I had before

First there was the one who challenged
All my dreams and all my balance
She could never be as good as you

You could be my unintended
Choice to live my life extended
You should be the one I'll always love

I'll be there as soon as I can
But I'm busy mending broken pieces of the life I had before

I'll be there as soon as I can
But I'm busy mending broken pieces of the life I had before

Before you

02/06/2007

Flenigen....
Hjúkkan er eiginlega smá flenigen í kvöld. Þetta er lýsingarorð sem lýsir svolítið einkennilegu ástandi. Maður veit eiginlega ekki hvernig maður á að vera, gera eða hugsa og gerir ekkert annað en að velta því fyrir sér. Svona ástand getur staðið yfir í stuttan tíma ef maður finnur sér eitthvað annað að gera en að velta því fyrir sér af hverju maður hafi ekkert að gera. Og viti menn - hér kemur krosssaumurinn að góðum notum. Jú maður er nú kannski pínu over-the-hill þegar laugardagskvöld fara í að sauma út en svona er nú bara lífið stundum.
Dagurinn í dag markaði 4 ára tímamót höfðu mikil áhrif á hjúkkuna. Þennan dag fyrir 4 árum síðan kvaddi hjúkkan einstakling sem snart líf hennar á ótrúlega marga vegu og var henni mjög mikilvægur. Það hefur margt gerst á þessum 4 árum og ótrúlegt eiginlega hvað tíminn hefur liðið hratt og margt breyst. Planið hefur breyst nokkrum sinnum og óvæntar beygjur hafa orðið á leiðinni. En hjúkkan er ákveðin í því að gera það besta úr aðstæðum hverju sinni og nýta hvert tækifæri til þess að þroskast og dafna :) Já eitt til að bæta við skýringar á flenigen - þegar maður er með flenigen þá verður maður stundum voðalega heimspekilegur og djúpt hugsi :)

01/06/2007

Flensuð!
Hjúkkan er eitthvað flensuð í dag og er við það að gefast upp á fótum sínum sökum beinverkja. Þetta er dagur 2 í þessum leiðindum og stemningin í Dofranum því ekki mjög mikil. Kvöldið fór í sófann enda lítið annað hægt að gera þegar maður er í svona ástandi. Nema hvað að hjúkkan var eiginlega búin að gleyma því hversu slæm sjónvarpskvöld föstudagskvöld eru. Maður á greinilega ekki að hafa gaman af því að njóta stundarinnar heima við sjónvarpið á föstudögum. Eftir góðan blund um eftirmiðdaginn þar sem hjúkkan var nú öll að koma til að eigin mati hófst áhorfið. Tveir þættir ef unglingaseríunni One Tree Hill sem einu sinni voru eðilegir þættir - en núna eru allir að lenda í fáránlegum lífsháska og mjög absúrd aðstæðum. Eftir tvo klukkutíma af unglingavandamálum hófst hinn ótrúlega kjánalegi Bachelor þáttur. Í þetta sinn er einhver gaur sem er með voðalega flott eftirnafn og á ógeðslega mikið af peningum að reyna að hössla kellingar. Í ofanálag er gaurinn víst með nafnbótina prins. Jú gellurnar voru alveg að missa sig yfir því að draumaprinsinn væri alvöru prins!!! Þetta fór fljótlega versnandi og kjánahrollurinn jókst samafara því. Þegar ein gellan hóf svo að syngja óperu af svölunum til að ná athygli gaursins varð kjánahrollurinn að aumingjahroll og hjúkkan óskaði þess heitast að þessi þáttur færi að taka enda. Maður getur svo sem sjálfum sér um kennt þegar maður situr sjálfviljugur fyrir framan tækið og gæti alveg slökkt á því eða teigt sig í fjarstýringuna.
Nú eru fæturinir alveg búnir að fá nóg og hjúkkan sér þann kost bestan að koma sér bara í háttinn.

27/05/2007

Fullorðins!
Hjúkkan uppgötvaði það í gærkvöldi að hún verður sífellt meira fullorðin. Því fylgir að lenda í alls konar einkennilegum aðstæðum og þurfa að finna hentugustu leiðina út úr aðstæðunum. Hjúkkan lenti einmitt í svona aðstæðum í gær og sér til mikillar hamingju fann hún að eigin mati flottustu leiðina úr þeim. Maður má ekki láta fullorðisaðstæðurnar fá á sig og muna bara eftir stigunum sem maður fær fyrir vikið.
Alla vega fór kvöldið í tvö afmæli, annars vegar hjá Óskarnum og hins vegar hjá Heiðu kokteilaklúbbs skvísu. Þar að auki var hjúkkunni boðið í innflutningsparty en komst því miður ekki þangað vegna anna í afmælunum. Leiðin lá meira að segja í höfuðborgina þar sem kíkt var á skemmtistað í miðbænum. Eftir að staðnum lokaði tók við ógleymanleg bið eftir leigubíl í skítakulda og þreytu. Hjúkkunni var kalt þangað um miðjan daginn í dag þegar hún fór að þvo og bóna bílinn sinn. Þegar á botnin er hvolft var kvöldið mjög áhugavert, fullorðins og kalt!!!

22/05/2007

New York Baby!
Já hjúkkan er komin heim úr vel heppnaðri ferð til New York ásamt vinnufélögum og alls konar fylgifiskum. Eftir að hafa blómstrað í hópeflisferðinni sbr. lýsingar hér að neðan var hjúkkan þeim mun brattar við niðurpökkun daginn eftir og var sko ekki lengi að koma sér í ferðagírinn. Einkennilegir hlutir áttu sér þó stað við pökkunina og fór nú einn skartgripur með í óskilum, en hann hafði aldrei komið til New York og var snarlega pakkaði niður í veskið þegar þetta uppgötvaðist :)
Í New York var auðvitað gengið um, spókað sig, verslað, drukkið gott hvítvín og nokkrir mojito svo eitthvað sé nefnt. Hjúkkan var með stáltaugar er hún steig upp í hjólreiðavagn í mikilli rigningu á leið á Broadway. Þetta var fyrst voðalega fyndið en svo þegar hjúkkan uppgötvaði að hólavagninn var inni í miðri umferð á Manhattan og þar keyra allir eins og hálvitar, leið hjúkkunni ekki betur. Höskuldur fékk að finna samhug "félaga" sinna þ.e. hjúkkunnar og eins makans í ferðinni þar sem hringt var í drenginn af Broadway við lítinn fögnuð hans.
Besta múvið í ferðinni var samt vakning hjúkkunnar á laugardagsmorgninum. Hún hafði stillt vekjaraklukkuna á símanum og svo fór allt í gang og aumingjans ferðafélaginn var rifin fram úr. Hjúkkan var ekki upp á sitt besta við svona vakningu og þegar hún sá að enn var dimmt úti var henni enn minna skemmt. Svo kom að því - hún leit á klukkuna í herberginu sem sýndi 04:36 en ekki 08:36 eins og síminn!!!! Hjúkkan fann aðra klukku sem einnig var 04:36, klóraði sér í hausnum og hringdi niður í lobbý og spurði hvað klukkan væri eiginlega. Jú hún var 04:36 og hjúkkan gólaði af gleði áður en hún skreið aftur upp í og hélt áfram að sofa í 4 dásamlega klukkutíma til viðbótar.
Hótelið var voðalega hip og kúl og var meira að segja einhver Gavin maður Gwen í herberginu við hliðina á stelpunum, sem höfðu ekki hugmynd um hvaða gaur þetta væri. Frúin hans var víst með tónleika í borginni á laugardagskvöldið.
Svo er nú bara eitt!!!! Hvað er málið með að koma heim úr næturflugi frá USA, úr sól og blíðu í tilheyrandi minipilsi og gallajakka og það er snjókoma úti!!!!!!!!! Þetta voru ansi kaldar mótttökur sem hjúkkan fékk við heimkomuna, það þurfti meira að segja að skafa bílinn!!!

17/05/2007

Hópeflisdrottningin!
Hjúkkan sannaði það í gær að hún er hópeflisdrottning ársins. Það var sem sagt hópeflisferð fyrirtækisins í gær og leiðin lá í Adrenalíngarðinn á Nesjavöllum þar sem mikið var reynt á taugar og þol manna. Allir komust heilir út og lá leiðin í Skátaheimili við Úlfljótsvatn þar sem etið var og drukkið. Fyrir matinn var auðvitað tekin smá fótboltaleikur og þar keppti hjúkkan stolt með "lituðum" á móti "svörtum" og í þokkabót var stelpan á háum hælum!!! Já hún þaut um völlinn enda á takkaskó :)
Mikið var dansað og fór frænkutríóið á kostum - auðvitað að eigin mat og komust aðrir ekki með tærnar þar sem vestfirsku fegurðardrottningarnar höfðu hælana. Leiðin lá loks í bæinn seint og síðar meir og fór nú hjúkkan beinustu leið heim, enda nóg að gera í dag.
Hún er sem sagt í þessum skrifuðu orðum að bíða eftir því að verða sótt til að komast í Leifstöð og þaðan til New York. Helgin verður tekin þar við mikla afslöppun ásamt svona basic New York things sbr. versla, kaupa skó, versla föt og borða.
Afmælisbörn dagsins fá auðvitað stórt knús og þúsund kossar og sérstaklega á þar í hlut Súper Svana sem var að rúlla inn í nýjan tug í dag :)
Nokkur afmæli eru næstu daga og sendir hjúkkan þeim sem þar eiga í hlut einnig knús og kossa.
Verið góð við hvort annað - ég er farin til New York......

09/05/2007

Ef ég væri þú....
Hjúkkan hefur undanfarna daga verið að velta nokkuð fyrir sér þeim ráðum sem við gefum öðrum í einhverri von um að viðkomandi nái nú að snúa vandamálum sér í hag eða komist í gegnum erfiða tíma. Flest eru þessi ráð auðvitað gefin af væntumþiggju og með góðum fyrirætlunum. En erum við ekki bara með einskæra forræðishyggju? Þurfum við í alvörunni að vera endalaust að gefa þessi óumbeðnu ráð og þykjast geta leyst vanda annarra þegar við kannski vitum ekki nema hluta af sögunni? Væri kannski réttast að spyrja fyrst - ,, má ég gefa þér ráð? " og halda svo áfram ef viðkomandi vill þiggja einhverja leiðsögn. Sum ráð eru líka á þann veg að sá sem þau fær upplifir sig sem algjöran aumingja sem ekki getur séð um sig sjálfur. Hjúkkan heldur að allir hefðu svolítið gott af því að kannski líta aðeins í eigin barm áður en maður smellir ráði í andlitið á einhverjum, þó manni þyki vænt um viðkomandi og vilji honum allt hið besta.

07/05/2007

Dagurinn í dag er dagur "ógeðslega flottra" og "andskoti klárra" kvenna.

Þekkir þú fínar dömur og alvöru konur í sundur?

Fínar dömur: Ef þú hefur ofsaltað matinn sem þú ert að elda, þá skaltu setja kartöflu í pottinn. Hún dregur saltið í sig.
Alvöru konur: Ef þú ofsaltaðir matinn er það bara assgoti pirrandi.
Fínar dömur: Það er auðvelt að lækna höfuðverk með því að skera límónu í sundur og nudda henni á ennið.
Alvöru konur: Taktu límónu og blandaðu henni við tekíla og salt og drekktu. Höfuðverkurinn hverfur sennilega ekki, en þér verður alveg sama.
Fínar dömur: Ef þú setur sykurpúða í botninn á vöffluformi, þá lekur ísinn ekki í gegnum það.
Alvöru konur: Sjúgðu bara ísinn úr vöffluforminu. Þú liggur hvort eð er örugglega með fæturna upp í loft í sófanum og borðar hann.
Fínar dömur: Þú getur komið í veg fyrir að kartöflur spíri með því að setja epli í pokann með þeim.
Alvöru konur: Kauptu karföflumúspakka, hann geymist í heilt ár í eldhússkápnum.
Fínar dömur: Kökur fá jafna, slétta áferð ef þú penslar þær með eggjahvítu áður en þær fara í ofninn.
Alvöru konur: Betty Crocker segir ekkert til um penslun á kökunni. Slepptu þessu bara.
Fínar dömur: Ef þú átt erfitt með að opna sultukrukku er gott að setja á sig gúmmíhanska. Þannig færðu betra grip..
Alvöru konur: Biddu myndarlega, ríka og einhleypa nágrannann um að opna krukkuna!
Fínar dömur: Ekki hella afgangs rauðvíni. Það má frysta í ísmolabakka og nota í sósur seinna.
Alvöru konur: Hvað er afgangs rauðvín?

Jæja hvorn hópinn teljið þið að hjúkkan samsvari sér við???

06/05/2007

Einstaklega góður dagur :)
Sunnudagur til sælu eru svo sannarlega orð í tíma töluð. Já sunnudagurinn í dag hefur verið einstaklega góður í lífi hjúkkunnar. Eftir ljúfan nætursvefn var hún vöknuð fyrir allar aldir ( já - án vekjaraklukku kl. 09:30). Hún reyndi að neita að horfast í augu við vökunina en það var ekki aftur snúið þegar hún var kvött til þess að hundskast á fætur og drífa sig á golfvöllinn. Eftir smá mas lét hjúkkan til leiðast og dreif sig út á Hvaleyri til að æfa pútti og chippið og svo auðvitað taka eina fötu. Að því loknu var varla komið hádegi og yfirleitt sá tími sem hjúkkan skríður fram úr um helgar en nú var bara fullt eftir af deginum. Því renndi hún í Brekkuselið og þreif bílinn hátt og lágt að innan sem utan (þvottur með svampi og alles og bón líka) þar sem hún var enn í ofvirkni kasti ákvað hún að taka til í garðinum hjá foreldrunum og loks grilla ofan í þau kvöldmatinn.
Bestu fréttir dagsins komu svo um eftirmiðdegi -
MANCHESTER UNITED ER ENGLANDSMEISTARI!!!!!
já þið öll sem höfðu ekki trú á okkur, haha við erum lang best!! Eftir þetta ofvirkni kast lá leiðin heim í freyðibað og afslöppun. Á morgun fær svo hjúkkan reiðhjólið sitt sem hún keypti fyrir helgi og verður því hjólandi alla vikuna :)

01/05/2007

Ný upplifun og fullt af stigum!
Hjúkkan prófaði í kvöld Sushi í fyrsta skiptið um ævina. Þetta voru Ninja bitar sem eru samsettir úr túnfiski og einhverju fleiru gómsætu. Hjúkkan borðaði meira að segja dæmið með prjónum og allt - án þess að valda sjálfri sér eða þeim sem í kringum hana voru skaða. Þetta eru nú nokkur fullorðinsstig sem maður fær með þessu ekki satt? Domo er alveg nokkuð hip og kúl staður og alveg óhætt að fara þangað að borða.
Í gegnum máltíðina fékk hjúkkan reglulegar upplýsingar um gang mála í Meistaradeildinni og verður nú hjúkkan að lýsa yfir hamingju sinni með úrslit kvöldsins. Það verður sko ekki leiðinlegt að vinna Liverpool í úrslitaleiknum :) Annars virðast Liverpool aðdáendur skjótast upp allt í kringum hjúkkuna og má hún hafa sig alla við í baráttunni. Annað kvöld er svo planaður sófi og leikur og biður hjúkkan þá sem hana þekkja að vera ekki að trufla hana milli 19 og 21 nema viðkomandi vilji hljóta verra af...

30/04/2007

Aldurstengd tilverukrísa!
Hjúkkan var að horfa á fréttir í kvöld þegar kynntur var til sögunnar nýr forstjóri Glitnis. Jú drengurinn sem reyndar með einhvern fönkí lit á hári - vonandi er þetta bara nátttúrulega grátt en ekki einhver tískuyfirlýsing, er einu eða tveimur árum eldri en hjúkkan. Hann þjáist reyndar af þágufallssýki en það svo sem skiptir sennilega minna máli í nýja jobbinu hans. Fréttir varð til þess að hjúkkan fór í smá aldurstengda tilverukrísu eins og gengur og gerist þegar maður fer að telja fullorðisstigin sem maður er komin með. Í ansi skemmtilegu samtali um daginn kom það í ljós að maður fer í raun ekki að safna fullorðinsstigum fyrr en eftir þrítugt - því er hjúkkan enn á unglingastigum :) Þar sem maður er enn á unglingastigum þá hefur maður sem sagt leyfi til að gera nokkurn vegin það sem manni sýnist ekki satt?

29/04/2007

Sunnudagur til sælu!
Sunnudagurinn í dag hefur aldeilis verið til sælu hjá hjúkkunni. Ráðstefnunni lauk í gær og var slúttið í Perlunni þar sem hjúkkan varð nú vör við smá sjóriðu yfir matnum. Þannig er mál með vexti að gólfið snýst (reyndar löturhægt) en nógu mikið til þess að maður finnur yfir smávægilegri ólgu innra.
Planið fyrir daginn í dag hafði verið að sofa og slaka á - og það var nákvæmlega það sem hjúkkan gerði. Hún skreið seint á fætur eftir góðan svefn og dundaði sér frameftir degi við að horfa t.d. á snilldarmyndina Cats and Dogs á RUV. Það sannaðist fyrir hjúkkunni eina ferðina enn að myndir með talandi dýrum eru bara snilld!! Svo ekki sé talað um þar sem kettir og hundar berjast um heimsyfirráð :)
Kveðju var kastað á nokkra ættingja í afmæli um seinni partinn og að því loknu tók þéttur sófi við hjá hjúkkunni. Hún er reyndar pínu hölt í dag þar sem hún varð fyrir naglaklippu - slysi í gær þegar hjúkkan framkvæmdi fótsnyrtingu á sjálfri sér. Eitthvað var smá hluti af nöglinni á litlu tánni að stríða stelpunni þannig að hún kippti nokkuð hressilega í hlutann og má þakka fyrir að einhver hluti sé eftir af litlu tánni. Til að stöðva blæðinguna skellti hjúkkan bara smá naglalakki á dæmið og það virkaði takmarkað - en ef þið viljið upplifa sviða, þá er þetta örugg leið.
Vikan framundan verður nokkuð rólegri en sú síðasta og auðvitað hápunkturinn er á miðvikudaginn þegar seinni leikurinn hjá hetjunum í Utd er. Auðvitað er það bara prinsipp mál að klára leikinn enda verðum við þrefaldir meistarar í ár :)

27/04/2007

Nýtt lúkk!

Hvað er annað hægt að gera þegar manni leiðist heima á föstudegi en að breyta lúkkinu á síðunni? Gamla lúkkið var líka orðið svolítið þreytt - en veit ekki alveg hvort litirnir séu að meika það hér. Fylgist vel með því það er aldrei að vita hverju hjúkkunni dettur næst í hug að breyta :)
Með rugluna!
Hjúkkan er komin með rugluna eftir langan dag á Nordica. Hún var að horfa á fréttir áðan og fór að velta því fyrir sér af hverju Samtökin ´78 heita það en ekki til dæmis Samtökin´80 eða ´79?? Veit einhver af hverju svona er að máli komið??

26/04/2007

Maraþon dagar!
Þessa dagana er hjúkkan á hlaupum og í nettum loftköstum þar inn á milli. Ástæðan liggur í ráðstefnu sem hjúkkan er með um helgina þangað sem 400 þátttakendur af Norðurlöndunum koma. Allt er að ganga upp og hjúkkan bíður bara eftir því að klára dæmið með stæl. Smávægilegir örðugleikar hafa komið upp s.s salurinn sem maturinn átti að vera í á föstudag er ekki tilbúinn (vantar glugga og gólf) !!! En hjúkkan lætur ekkert stöðva sig og er í blússandi gír fyrir þetta allt saman.
Sunnudagurinn fer svo í svefn, almenna gleði og afslöppun enda næsta heimsókn útlendinga strax á þriðjudaginn, en þá koma stjórarnir frá Danmörku. Jább nóg að gera hjá stelpunni sem er enn að næra nýja mojoið og læra hvernig eðlilegir hlutir virka :)

23/04/2007

Kemur ekki oft fyrir!
Það gerist örsjaldan í lífi hjúkkunnar að hún verði orðlaus og þarf mikið til.
En núna er ég orðlaus!!!!

16/04/2007

Sól og blíða í Köben!
Það vantar ekki sumarveðrið hjá hjúkkunni í Köben, þar sem hún er stödd á námskeiði þessa dagana. Hótelherbergið er nægilega stórt til að halda í því góða fermingaveislu og fær hjúkkan valkvíða á kvöldin yfir því hvoru rúminu hún eigi að sofa í :) Mesta snilldin væri auðvitað að sofa í hvoru rúmi til skiptis og þá fá herbergisþernurnar alveg taugaáfall en má maður vera svona kvikindislegur??
Með nýja mojoinu er hjúkkan að reyna að byggja upp ég-er-svo-mikið-krútt dæmið sem gengur pínu brösulega. Það sama á við um ég-er-svo-mikil-dama en með nýju skónum sem voru keyptir í dag þá komu nú nokkur dömustig á töfluna. Nú er málið að skella sér í bublubað og horfa svo á eitthvað af þessum mjög svo spennandi hótel sjónvarpsrásum.

14/04/2007

Mojoið komið aftur!
Hjúkkan er búin að finna mojoið sitt eftir þó nokkurn tíma. Hún vissi ekki einu sinni að hún hafði týnt því fyrr en henni var bent á það á ákveðinn hátt. Nú er sem sagt mojoið komið í full-swing og hjúkkan komin í sinn venjulega gír. Hún kláraði Grey´s og hana dreymir auðvitað um McDreamy and það er eiginlega bara kostur að svona menn eru bara í sjónvarpsþáttum.
Vinnumánuður ársins er hálfnaður og hjúkkan uppgötvaði sér til mikillar hamingju að sumarið er á næsta leiti. Golfsettið er komið í bílinn og allt á leiðinni í gír.
Í gær ákvað hjúkkan að gefa sér gjöf og fékk sér áskrift af Sýn enda hennar menn á blússandi siglingu í átt að þrennunni góðu. Í dag er frumáhorfið planað - bikarleikur á sýn og hjúkkan á sófanum. Hún lenti í smá hugsana hremmingum yfir sýn dæminu enda svo sem ekkert mjög dömulegt að vera bæði áskrifandi af enska boltanum og sýn. En svo ákvað hjúkkan að það væri bara þeirra sem ættu í vandræðum með að gúdda svona hegðun hjá kvenmanni. Það laumaðist nú samt smá hugsun um skókaup inn eftir þetta og því verður reddað í Köben. Leiðin liggur þangað á sunnudaginn í nokkra daga á námskeið hjá Novartis.
Með nýja mojoið getur hjúkkan sem sagt allt og lætur ekkert stöðva sig :)

09/04/2007

Aumkunarvert?
Hvenær verður maður aumkunarverður? Hjúkkan fór að velta þessu fyrir sér eftir að hafa horft á of marga þætti af Grey´s í dag og síðustu daga. Er það þegar maður er orðinn gjörsamlega samdauna teppinu sínu og sófanum góða og ætlar bara að horfa á einn þátt í viðbót? Eða þegar maður er farinn að pikka upp setningar og ráð úr þættinum og ætlar að færa það inn í líf sitt?? Já þetta var kaldur raunveruleiki sem blasti allt í einu við hjúkkunni - hún á ekkert líf!!! Ein af þeim pælingum sem hjúkkunni fannst bara tær snilld snýr að sannleikanum og lyginni. Af hverju ljúgum við að okkur sjálfum og öðrum, jú þegar sannleikurinn er of sár til að horfast í augu við hann.
Hjúkkan hefur einu sinni séð einstakling detta svona inn í sjónvarpsseríu og það var einmitt 24, enda um karlmann að ræða. Hann komst heill frá því og hjúkkan á ekki von á öðru hjá sjálfri sér. Nú er mál að koma sér af sófanum, gera sér grein fyrir því að Dr. McDreamy er bara eins og aðrir karlmenn og fara að sofa, því jú vinnan kallar á morgun :) Hafið ekki áhyggjur af hjúkkunni - hún er bara búin að horfa of mikið á amerískt sjónvarpsefni og verður orðin sjálfri sér lík á morgun :)

08/04/2007

Gleðilega páska!
Hjúkkan er þeirrar ánægju aðnjótandi að vera heima um páskana og hefur notað tímann vel til þess að detta algjörlega í Grey´s anatomy. Fyrir þá sem ekki vinna á sjúkrahúsum er bara eitt að segja - jú auðvitað er þetta alltaf svona þar!!! Alveg merkilegt hvað þessi þættir hafa bjargað hjúkkunni undanfarna daga frá alls konar vitleysu og bulli. Stundum getur verið gott að detta inn í sjónvarpið og missa þrívíddar sjónina sína :)
Annars er þetta líka nett mikið að gera þessa dagana í vinnunni og sér ekki fram úr því fyrr en undir lok apríl. En tíminn líður bara hraðar fyrir vikið og minni tími til að velta sér upp úr hlutum sem skipta minna máli. Þar sem lífið í dag gengur út á það að fá málshátt í páskaegginu sínu verður hjúkkan að segja frá litla leyndarmálinu sínu um páskaeggið í ár. Það var sem sagt ekki keypt og þar af leiðandi fékk hjúkkan engan málshátt. Ef það er einhver þarna úti sem vill gefa hjúkkunni sinn málshátt þá er bara að hafa samband :)

28/03/2007

Flugdagurinn ógurlegi!
Í morgun fór hjúkkan á fætur kl. 04:30 að staðartíma. Fyrir ykkur sem þekkið geðprýði hjúkkunnar í morgunsárið þá getið þið rétt ýmindað ykkur hamingjuna á staðnum. Jæja eftir góðan kaffibolla kom leigubílstjórinn og skutlaði gellunni út á flugvöll í eitthvað sem átti að vera mjög einfalt og þæginlegt. Ne-hei sú var nú aldeilis ekki reyndin!! Fyrir utan að margir flugvallastarfmenn í Bandaríkjunum virðast halda að farþegar séu að fara í gegn til að þjónusta þá en ekki öfugt, þá tók veðrið til sinna ráða og rústaði dagsplaninu. Hjúkkan var komin út í vél og vélin farin frá flugstöðvarbyggingunni á réttum tíma, og loks rétt fyrir flugtak var bara drepið á vélinni og farþegum tjáð að Chicago flugvelli hefði verið lokað vegna veðurs og við þyrftum að bíða í vélinni á flugbrautinni þar til frekari fréttir bærust eftir klukkutíma. Jú þá var búið að opna aftur og bara klukkutíma bið í viðbót eftir nýjum flugtakstíma!!! Frábært þar var farið að þrengja óhuggulega mikið að fluginu frá Minneapolis til Bemidji sem var eftir Chicago legginn. Til að gera langa og leiðinlega sögu stutta þá komst hjúkkan til Mpls 4 klst eftir áætlun, missti af fluginu sínu og fékk nýtt flug með 6 tíma bið á flugvellinum. Því er þessi færsla skrifuð úr Northwest lounge-inu á flugvellinum. Það er farið að styttast í flugið, bara 3 tímar og spurning um að koma sér bara á barinn!!!
p.s. Hvar er síminn þinn?????

26/03/2007

New Orleans!
Já hjúkkan lagði aldeilis land undir fót í þetta skiptið og er þessi færsla skrifuð úti á verönd á hótelinu í New Orleans. Eitthvað er wireless netið ekki á ná tengslum inni á herberginu hjá stelpunni og því þarf hún alltaf að setjast út í sólina við tölvuvinnu sína. Þingið er eins og þessi dæmigerðu þing, fullt af mönnum í jakkafötum (dökkbláum eða svörtum) og konum í missmekklegum átfittum. Þar sem hjúkkan tók með sér ein 8 pör af skóm hefur hún haft í nógu að snúast að skipta um skó svo allir fái notið sín.
Hér er sól og blíða og hitinn á þæginlegu bili um 25°C. Miðbærinn lítur ágætlega út og eiginlega eins og ekkert hafi gerst hér, en um leið og maður er kominn út fyrir túrista svæðin sést eyðileggingin berlega. Í gær var farið í skoðunarferð um svæðið og þvílík og önnur eins eyðilegging er bara ólýsanleg. Húsin yfirgefin og ónýt, vatnalínur enn sjáanlegar á húsarústunum og allt í ofboðslegri eymd á svæðinum utan við miðborgina. Hjúkkan var mjög djúpt snortin yfir þessu öllu saman og eftir fyrirlesturinn í dag um þetta allt þá sá hún að við höfum ekki yfir neinu að kvarta á Íslandi.
Það er nú samt eitt og annað sem veldur kátínu hér og þar á meðal eru sjálf-niður-sturtandi klósett á ráðstefnusenterinu. Ef maður er heppinn nær maður að standa upp áður en klósettið sturtar sjálft niður en verði einhver töf á því og klósettinu finnst maður búinn að sitja of lengi, þá bara kemur köld og blaut gusan beint á bossann. Það er fátt meira hressandi en það ekki satt :)

22/03/2007

Þá er hún farin!
Nú er svo komið að hjúkkan er farin af stað til New Orleans með viðkomu í Bemidji á leiðinni heim. Þið sem ekki náðuð að hitta hjúkkuna fyrir ferðina, eruð bara óheppin og verðið vonandi heppnari þegar hún snýr aftur. Samkvæmt veðurspánni er gert ráð fyrir fárviðri hér á landi en 25 stiga hita í New Orleans, þannig að hjúkkan kemur örugglega útitekin, kaffibrún og frekknótt tilbaka - gleymum ekki þykka og hrokkna hárinu :)
Hafið það gott á meðan elskurnar..

17/03/2007

Kelukeppni!
Ekki er öll vitleysan eins en hjúkkan átti nú varla til orð yfir því hvað er hægt að misskilja hlutina á einfaldan hátt. Hjúkkan var búin að segja ákveðnum einstakling frá keilukeppni fyrirtækisins sem fór fram í gær í keiluhöllinn í Öskjuhlíðinni. Nema hvað að þessi yndislegi einstaklingur náði einhvern veginn að misskilja út á hvað keppnin gekk og var alveg á því að hjúkkan væri á leið í kelukeepni í Öskjuhlíðinni og var þó nokkuð að velta því fyrir sér hvernig svona keppni færi fram!!!!
Þegar hjúkkan fór nú að ræða þetta við einstaklinginn kom það í ljós að þessi misskilningur var búinn að vera á borðinu í viku en allir alveg pollrólegir yfir aðstæðunum. Ég held nú að ég yrði ekkert sérstaklega ánægð með það að minn væri á leið í kelukeppni á vegum vinnu sinnar og þess þá heldur að ég væri alveg róleg yfir þessu í viku!! Þegar hjúkkan fór nú að spyrjast fyrir því hvað manninum gengi til að halda þetta - þá var svarið einfalt... maður veit aldrei hvað þessum fyrirtækjum dettur í hug að gera :)

16/03/2007

Keilukeppni og vikuféttir!
Það rak ýmislegt á fjörur hjúkkunnar í vikunni og það sem stendur upp úr er auðvitað einstök hæfni hjúkkunnar til sjálfskaða. Hjúkkan var í ég-er-kona-og-get-allt-sjálf gírnum að setja saman bókaskáp í stofunni þegar hún þurfi eitthvað að færa dæmið til, rétt í upphafi aðgerða. Dæmið var enn í pakkningunum og ætlaði hjúkkan að vippa þeim af gólfinu og færa á annan stað í stofunni en það virkaði ekki betur en svo að skápurinn endaði ofan á öðrum fæti hjúkkunnar. Hjúkkan er nú enginn aumingi og lét sig hafa það og kom skápdruslunni saman enda stutt þar til hún átti að fara á vaktina á slysó. Heppilegt - bara láta strákana kíkja á fótinn í leiðinni. Jú á slysadeildinni var auðvitað góður maður að vinna sem finnst hjúkkan hættuleg sjálfri sér og umhverfi sínu og fannst auðvitað bara gaman að fá að skoða bágtið. Bágtið er nú að batna og hjúkkan getur gengið eðlilega en það var illmögulegt á mánudaginn. Nema hvað að þessi yndislegi læknir tekur vaktir á neyðarbílnum og þegar hann frétti af keilukeppninni sem hjúkkan er að fara að keppa í varð honum ekki um set. Nú er mikið verið að velta fyrir sér fjölda sjúkrabíla sem þörf verður á, á meðan keppninni stendur í keiluhöllinni í kvöld.
Keppnisliðin hér innanhús mega ekkert vera að því að vinna í dag, enda er verið að undirbúa búninga og keppnisáætlanir enda mikið í húfi. Hvaða einstaklingur með heilbrigðan metnað vill ekki verða Vistor-meistari í keilu 2007????
Að öðru er helst að nefna að litla prinsessan verður skírð um helgina og bíður hjúkkan auðvitað eftir nöfnu sinni, tel það samt eitthvað frekar ólíklegt :) Hafið það gott um helgina og látið ekki sjá ykkur nálægt keiluhöllinni í kvöld enda verður þar viðbúnaðarstig vegna keilukeppninnar :)

11/03/2007

Strákakvöld!
Hjúkkan fór á brilljant strákakvöld með Höskanum á laugardaginn. Geimið byrjaði á knæpu þar sem bikarleikurinn var litinn auga. Sem betur fer náðu okkar menn jafntefli, betra en að tapa alla vega - nema hvað að nú þarf maður að horfa á seinni leikinn líka. Eftir boltann lá leiðin í borgara á Vitabarnum og komst hjúkkan að því að hún var sennilega síðasta manneskjan á stór-höfuðborgarsvæðinu sem hafði aldrei bragðað á gleym-mér-ei hamborgaranum. Þessi borgari er bara snilld, hvítlaukur - beikon - gráðarostur og franskar með kokteilsósu er hægt að hafa það meira subbulegt? Eftir nokkuð góða stund á Vitabarnum (sökum veðurs) lá leiðin á poolstofuna þar sem var fullt út úr dyrum. Því var síðasta korterið á Barcelona - Real Madrid leiknum tekið og svo farið upp á ölstofu þar sem ýmis mál voru plottuð.
Að lokum gafst hjúkkan upp og dreif sig heim enda orðin gömlu og klukkan var farin að ganga 2. Já það er af sem áður var að maður var að tjútta frameftir nóttu, nú vill maður bara komast heim í ból og hvíla sig. Kvöldið í kvöld var svo tekið á slysadeildinni þar sem smávægilegur misskilningur um vaktir komst upp þegar líða tók á vaktina, og ástæðan fyrir aukavaktinni fallin um sjálfa sig - skemmtilegt!!!
Nóg er framundan í vikunni, farið að styttast í New Orleans og Bemidji ferðina góðu - þá fær fólk frið frá hjúkkunni í 10 daga, nýtið því tímann þangað til vel og verið góð við stelpuna :)

02/03/2007

Byrjað á byrjunarreit!
Hjúkkan er í mikilli sjálfskoðun þessa dagana og þar sem hún var send heim af vaktinni á slysó í kvöld vegna flensudruslu sem virðist hafa komið sér fyrir hjá hjúkkunni er ekkert annað að gera en að velta sér rækilega upp úr lífinu! Mjög svo skynsamlegt þegar manni leiðist heima enda hetjan í ferðalagi með synina og engin til að leika við hjúkkuna.
Eitt af því sem hjúkkan veltir oft fyrir sér er þessi leyndi draumur og svo sem aðgerð sumra að fara á nýjan stað og byrja upp á nýtt. Ný borg, jafnvel nýtt land, ný vinna / skóli og nýir draumar. Hvernig væri það ef maður ætti einn sjéns á að byrja aftur á byrjunarreit - maður fengi sko bara eitt tækifæri til að gera þetta því annars væri hægt að misnota þetta. Hvað myndi maður geri öðruvísi en maður hefur gert nú þegar? Myndi maður kaupa fleiri skó eða vera duglegri að endurvinna hluti til dæmis? Já það eru aldeilis djúpar pælingar í vetrartíðinni í Dofranum.
Að öðru þá virðist engin lausn í sjónmáli á undarlega g strengs málinu og held ég að næsta skref sé að kalla inn miðil til að setja fund og komast í tengsl við týndu strengina.

28/02/2007

Sjálfskaðandi líkamsrækt og tengslamyndun!
Hjúkkan er nú í smá líkamræktarátaki sem snýst um það að reyna að mæta oftar á þessu ári í ræktina en því síðasta. Það ætti ekki að vera mjög erfitt að ná markmiðinu þar sem hjúkkan var óvirkur styrkaraðilli að Hreyfingu stóran hluta þess árs. En nú er öldin önnur og á aldeilis að fara að taka á öllu síðuspikinu. Hingað til hefur hjúkkan bara farið á sitt hlaupabretti og í sinn cross trainer en í dag ákvað hún að breyta til og prófa eitthvað nýtt. Fyrir valinu varð Jump Fit tími í hádeginu sem gengur út á 50 mín hopp með sippubandi og svo um 1000 magaæfingar í lokin. Hjúkkan átti nú ekki von á því að þetta væri mikið mál - enda þaul vön á hlaupabrettinu. Eftir hins vegar um 15 mín ( af 50 mín ) var hjúkkan farin að þrá að komast í magaæfingarnar og losna við syppið - þetta var sko ekkert spaug. En hún þrjóskaðist áfram þrátt fyrir svima, ógleði og nokkrar nettar SVT (ofansleglahraðslátt ísl) tókst henni að klára tímann með stæl. Svo er bara að sjá hvort hjúkkan geti yfir höfuð hreyft sig á morgun!!!
Annars er hjúkkan að vinna í tengslamyndun sinni og því að auka ábyrgðartilfinningu sína gagnvart lifandi hlutum. Því keypti hún sér pottaplöntu!! Plöntuna setti hún á skrifborðið í vinnunni sinni, rétt við gluggan en í passlega réttri birtu og hita. Þar sem hjúkkan er meira á skrifstofunni sinni en heima hjá sér ákvað hún að hafa plöntuna hér en ekki í Dofranum. Í fyrstu gekk allt vel og hjúkka og plantan virtust ná vel saman og döfnuðu báðar. Nú er hins vegar svo komið fyrir aumingjans plöntunni að hún er orðin einkennileg á litinn og blómadæmið og greinarnar ekki eins tignarlegar og í upphafi. Hjúkkan er að hamast við að vökva kvikindið og vonar að hún nái sér, annars er það nottla bara haugurinn fyrir New Orleans ferðina!

27/02/2007

Undarlega g - strengs málið!
Hjúkkan er að kljást við stórundarlegt mál þessa dagana og fær hún engan botn í þetta mál sama eftir hvaða leiðum hún leitar. Þannig er mál með vexti að undir lok síðustu viku fór hjúkkan að leita eftir efnisminni nærfatnaði sínum svokölluðum g - strengsbuxum sem allar konur þekkja og eiga mikinn slatta af. Nema hvað sama hvar hjúkkan leitaði þá fann hún ekki eitt par!!! Svo virðist sem á einhvern mjög svo undarlegan hátt hafi allar þessar undirbuxur hennar í þessu formi horfið! Hjúkkan er nú engin kjáni og hefur nú alveg sens fyrir því að hún hefur nú ekki skilið þessi föt eftir úti í bæ og hefur sjálf séð um þvott á heimilinu. Oft hefur hjúkkan heyrt sögur af þvottavélum sem "éta" svona undirföt og því eigi að setja þau í sérstakt net - en come one það kemur ekki fyrir hjúkkuna og hefur ekki verið til vandræða.
Það er sameiginlegt þvottahús í húsinu en hver og einn hefur sína vél og sína þvottagrind þannig að það á ekki að gerast að einhver taki "óvart" fatnað sem hann á ekki. Hingað til hefur allur sá þvottur sem settur hefur verið á snúruna skilað sér upp með hreina þvottinum. En nú er sem sagt kominn tími á samsæriskenningarnar. Er einhver að laumast niður í þvottahús og taka "óvart" undirföt sem ekki tilheyra þeim eða er þvottavélin mín búin að missa það og komin í heilagt stríð við þessi efnislitlu undirföt? Eitt er ljóst í stöðunni og það er að hjúkkan þarf að fara í búð og spurning hvort maður kalli til rannsóknarmenn til að greina stöðuna :)

26/02/2007

Lítil prinsessa og árshátíðartjútt!
Helgin var nokkuð þétt og ansi skemmtileg hjá hjúkkunni. Föstudagskvöldið fór í heimahangs með Hrönnslunni þar sem karlamál voru rædd niður í minnstu þræði og niðurstaðan var engin - frekar en fyrri daginn þegar maður er að ræða þessi mál. Á laugardaginn lá svo leiðin í greiðslu og svo henti hjúkkan smá farða í andlitið og dreif sig í kjólinn að ógleymdum bandaskónum með 10 cm hælnum! Já hjúkkan var hávaxin með þykkt og hrokkið hár á árshátíð slysadeildarinnar þar sem þó nokkrur snúningar voru teknir á dansgólfinu. Eftir heilmikil tjútt lá leiðin á NASA þar sem allir hinir íslendingarnir voru saman komnir, þ.e. þeir sem ekki voru á árshátíðinni. Þeir liðið var þó nokkuð fram á nótt var hjúkkan við það að missa fæturna af stappi annarra og ákvað að koma sér heim og úr skónum!
Sunnudagurinn fór í netta afslöppun og þá kom gullmoli helgarinnar. Jú nú á hjúkkan tvo gullmola þar sem litli frændi var að eignast litla systur sem er jafn fullkomin og hann!! Nú er það bara að standa sig enn betur sem uppáhalds frænka enda ekki hægt að missa titilinn núna! Litla prinsessan var svo litin augum um kvöldið og eins og fyrr sagði er hún bara fullkomin - það er ekkert flóknara :) Innilega til hamingju Smyrilshólafjölskylda.
Dagurinn í dag fór í tölvupóst deilur um fjárhagsáætlun og stefnir í jafn fjörugan morgundag. Það er sem sagt nóg að gera hjá hjúkkunni þessa dagana.

23/02/2007

Einkennilegir draumar og bjútí trítment!
Já draumfarir hjúkkunnar fara nú bara að flokkast sem hrakfarir ef heldur sem horfir. Síðustu nætur hefur hana dreymt mjög svo einkennilega hluti allt frá rómantískum stundum með þjóðþekktum einstaklingum til martraðarinnar sem hún fékk í nótt og hélt í kjölfarið að það væru innbrotsþjófar frammi í eldhúsi!!! Hjúkkan þorði hvorki að hreyfa legg né lið enda myndu þá innbrotsþjófarnir komast að því að það væri einhver í íbúðinni - eins og það ætti að koma á óvart kl 04 um nótt!!! Engin vopn voru nálægt rúminu og því sá hjúkkan fram á það að þurfa að berjast við innbrotsþjófana - berskjölduð og varnarlaus.... en viti menn fljótlega sofnaði hún aftur og sem fyrr vaknaði dauðuppgefin í morgun.
Á morgun er hins vegar árshátíð slysadeildarinnar með tilheyrandi háreyðingum og brúnkumeðferðum í kvöld, kannski maður splæsi bara líka í agúrkumaskann til að vera ekkert þrútin á morgun :) þetta er nú líka svo mikið í anda hjúkkunnar að standa í einhverju bjútí trítmenti á sjálfri sér!!!

15/02/2007

Snillingur dagsins!!
Hjúkkan er snillingur dagsins í dag að eigin mati. Hún er svo mikill snillingur að það er leitun að öðrum eins snillingum. Snilldin byrjaði auðvitað á því að hjúkkan svaf eiginlega yfir sig en það getur nú komið fyrir á bestu bæjum. Hún var nú ekkert skammarlega sein í vinnuna enda með sveigjanlegan vinnutíma. Nema hvað eftir að hafa þotið á fætur og henst í föt átti að fara að henda í sig morgunmatnum. Þá var illt í efni - brauðið búin og mjólkin farin að tala við allar aðrar vörur sem voru í ísskápnum. Held að það sé bara að verða spurning um að kaupa mjólkina í pela stærð en ekki líter í einu. Jæja nú voru góð ráð dýr, góðum slatta af seríósi var hent í poka og ákveðið að borða bara morgunmat í vinnunni. Þetta gekk upp og dagurinn virtist vera á góðri leið.
Um hádegisbil átti hjúkkan fund og þurfti að hlaupa að bílnum sínum í klikkaðri rigningu og roki. Hjúkkan stöðvaði við bílinn sinn og ýtti á fjarstýringuna - ekkert gerist. Hún ýtti aftur á fjarstýringuna og ákvað að halda takkanum inni í svolitla stund - ekkert gerist. Þegar hér er komið við sögu er nokkuð farið að draga af hjúkkunni sem er orðin köld, blaut og hrakin. Hún ákveður að stinga lyklinum í skrána og opna þannig bílinn - ekkert gerist!!! Nú var hjúkkan bara orðin vonlausið uppmála og hætt að hafa húmor fyrir bílnum! Allt í einu varð henni litið inn í bílinn og sá þar barnastól - hum hjúkkan kannaðist nú ekki við að vera með barnastól í bílnum sínum. Alveg svona 10 sekúndum síðar opnaðist hugur hjúkkunnar og hún uppgötvaði að hún átti einfaldlega ekki þennan bíl!!!!!! Hún laumaðist að bílnum sínum og vonaði að enginn í fyrirtækinu hafði séð þessa tilraun hennar til stuldar á bíl samstarsfaðilla síns.
Nú er hjúkkan glöð, henni loksins orðið hlýtt og stefnan tekin á smá fund, svo gymmið og svo kúr undir teppi. Góðar stundir!!

14/02/2007

Lífið er bara snilld!
Já lífið leikur um hjúkkuna þessa dagana. Hún er svo gleymin frá degi til dags að hún man bara hluti sem gleðja hana og er búin að mynda sér nýja stefnu í lífinu. Muna bara eftir góðu hlutunum og vera ekkert að velta þeim leiðinlegu fyrir sér. Hjúkkan endurheimti hetjuna úr (pissum í) krossferðinni sem var einhvers staðar fjarri byggðum og öðru fólki og er hin kátasta fyrir vikið. Hjúkkan hefur hingað til ekki þurft að upplifa það oft að vera sú sem er skilin eftir - því það er almennt hún sem stingur af til útlanda. En í þetta sinn þá fékk hún að finna hvernig það er að vera sá sem er ekki að gera neitt spennandi heldur bara í sínu gamla umhverfi. Vonandi verður þessi upplifun ekki til þess að hún fari að raða gjöfum í liðið eftir heimkomur sínar - því þá er voðinn vís :)
Annars hafa margir snillingar orðið á vegi hjúkkunnar undanfarið og hæst ber að nefna konuna sem var að keyra á Akranesi á 15 km/klst á miðjum veginum. Svo stoppaði hún við hvert götuskylti þar til að hún loks missti það og ákvað að keyra inn götu sem var lokuð vegna framkvæmda, sundur grafin og algjörlega ófær. Já það geta ekki allir verið eins miklir snillingar og þessi kona. En hjúkkan hefur nú dregið töluvert úr eigin óhöppum og virðist sem hægt sé að eiga sér líf án þess að slasa sig mikið. Hún reyndar opnaði enn sem fyrr bílhurðina í andlitið á sjálfri sér um daginn og fékk marblett á nefið sem var nú flott fyrir :)
Annars er frekar lítið í fréttum í dag - góðar stundir

06/02/2007

Helgarfléttan!
Helgin var ósköp ljúf hjá hjúkkunni enda var henni eytt í huggulegheitum í sumarbústað. Það er alveg með ólíkindum hvað það er gott að komast aðeins út úr bænum þó ekki sé nema í nokkra daga og slaka á. Ekki það að hjúkkan sé eitthvað aðframkomin af streitu, þá er bara eitthvað svo kósý við sveitina. Smá vinna varð þó á leiðinni í bæinn en allir sluppu vel og sjaldan sést jafnmikil ró yfir einum vettvangi. Sunnudagskvöldið var tekið í hálfa Ofurskál, þar sem auðvitað Coltararnir rúlluðu Björnunum frá Chicago upp. Þetta leit nú ekki sérstaklega vel út eftir fyrstu mínúturnar þar sem Birnirnir skoruðu í fyrstu sókn en mótlætið styrkir ekki satt :)
Hjúkkan er líka ofurglöð þessa dagana þar sem hún hefur nú loksins eignast tvær Police Academy myndir (nr. 3 og 6) og var sú fyrri sett í tækið um helgina. Þvílík snilldar kvikmynd!!!
Eitt sem hjúkkan er að velta fyrir sér í dag er stjörnuspáin hennar :
  • " Það er fín lína milli þess að gera öðrum vel og ganga á sjálfan sig. Varastu að taka of mikið að þér. Að segja nei er stundum það besta sem maður gerir fyrr alla aðila."

Jább ætli þessu sé beint sérstaklega til hjúkkunnar?? Nei maður bara spyr sig!

31/01/2007

Afsakið skakkt númer!!
Eitthvað gekk hjúkkunni illa með símann sinn í kvöld og kom það meðal annars fram í síendurteknum röngum númerum sem hún hringdi í. Þetta byrjaði allt í lokin á Americas Next Top Model þar sem sást í ákveðna byggingu í Barcelona er minni helst á ofvaxið kynlífshjálpartæki (grínlaust.... hótelið sem hjúkkan gisti á í Barcelona er einmitt við hliðina á þessu skrímsli). Þar sem hjúkkan átti marga góða brandara með samstarfskonu sinni í tengslum við þessa byggingu ákvað hún að slá á þráðinn til hennar í lok þáttarins til að tjá sig um málið. Hjúkkan hefur margoft hringt í samstarfkonuna og veit uppá hár símanúmerið hjá henni. Ekki tókst betur til en svo að hún hringdi óvart í eina af hæstráðendum í Vistor, sem hafði nú húmor fyrir þessu öllu. Hjúkkan roðnaði nett í símann og náði svo í hláturskasti að slá inn rétt símanúmer. Eftir það samtal ætlaði hjúkkan að hringja í Þormóð og vildi ekki betur til en svo að hún einmitt - jú hringdi aftur í vitlaust númer. Í þetta sinn var það nú sem betur fer enginn innan fyrirtækisins sem svaraði, en það kom nú samt á óvart hver var hinum megin á línunni. Jú þetta ætlaði ekki að ganga upp hjá hjúkkunni og þegar hún hafði í þriðja sinn á innan við 45 mín hringt í rangt númer ákvað hún að hætta þessu kjaftæði og sætta sig við að hlusta á rausið í sjálfri sér... Sem betur fer eru bara tveir dagar eftir af þessari vinnuviku og stefnan tekin út úr bænum um helgina, ætli hjúkkan villist ekki á leiðinni? Kannski hún láti bara aðra um aksturinn..

30/01/2007

Nýju vátryggingarskilmálarnir!
Hjúkkan er búin að bíða spennt eftir bréfi frá tryggingarfyrirtækinu sínu sem vildi gera allt til þess að fá hjúkkuna í viðskipti hjá sér. Hjúkkan brosti út í annað þegar þetta blessaða fyrirtæki gekk á eftir henni með grasið í skónum, því greinilegt er að þetta fyrirtæki veit ekki mikið um Fríðuna!! Nema hvað í morgun komu svo nýju tryggingarskilmálarnir í pósti og með góðan kaffibolla í hendi kom hjúkkan sér vel fyrir í sófanum og hóf lesturinn. Þetta er hið áhugaverðasta plagg allt saman og hjúkkan í rónni yfir því að nú er hún tryggð í bak og fyrir NEMA (það er alltaf þessi litla klausa)
" ef tjón hlýst af völdum :
  1. jarðskjálfta, eldgoss, skriðufalls, snjófljóðs eða annarra náttúruhamfara,
  2. styrjaldar, innrásar, hernaðaraðgerða, borgarrósta, uppreinsar, uppþots, verkfalls eða svipaðra aðgerða,
  3. kjarnabreytinga, jónandi geislunar, mengunar af geislavirkum efnum, kjarnaeldsneytis eða kjarnaúrgangsefnis.

Já eftir þennan lestur á því sem tryggingin coverar ekki er hjúkkan bara mjög ánægð að búa í Hafnarfirðinum þar sem hún er ekki í hættu á að lenda í skakkaföllum vegna fyrrnefndra atburða. Sem sagt hins skemmtilegasta lesnins og góð upphitun fyrir leik ársins á eftir Ísland - Danmörk þar sem hjúkkan hefur mikla trú á íslensku strákunum. Það er einhvern veginn fátt sætara en að rúlla dönunum upp... Hver veit nema bara eftir leikinn að við kaupum bara Tiovli og Litlu Hafmeyjuna þá er allt komið sem skiptir danina einhverju máli..

27/01/2007

Stoltust!
Hjúkkan er ofboðslega stolt af nokkrum hlutum í augnarblikinu. Fyrst ber að nefna nýju fartölvuna sem hún er komin með frá vinnunni og er hin krúttlegasta Dell talva. Svo má auðvitað ekki gleyma "strákunum okkar" í landsliðinu í handknattleik sem standa sig eins og hetjur í Þýskalandi. Það var nú í tæpara lagi leikurinn í dag og var orðið þó nokkuð um öskur og hvatningahróp yfir sjónvarpinu. Ráðgert er að sami hópur hittist á morgun og fagni sigri á Þjóðverjunum. Hjúkkan hefur óbilandi trú á því að strákarnir komi afslappaðir og fullir af leikgleði í leikinn á morgun og rúlli bara upp Þjóðverjunum. Síðast ber að nefna uppáhalds hornamann hjúkkunnar sem stóð sig eins og hetja í Íslandsmótinu í dag og sett inn 15 mörk!! Já það er nú ekki alltaf spurning um að vera of hávaxinn, þá er maður bara fljótari fyrir vikið!
Enn einn handboltamaðurinn á afmæli í kvöld og gaf hjúkkan honum nýtt gips í afmælisgjöf - í þetta sinn var gipsið neon gul-grænt! Til hamingju með afmælið og njóttu gipsins vel.

23/01/2007

Stundum verður maður orðlaus!!
Já það kemur nú ekki oft fyrir hjúkkuna að hún verði orðlaus, en það getur greinilega allt gerst. Síðustu daga hafa skipts á skin og skúrir og var sunnudagurinn einstaklega vondur dagur í íþróttalífi hjúkkunnar. Mikil hætta er á því að hjúkkan og Óskar geti aldrei horft á leiki saman þar sem allt fór fjandans til hjá liðum þeirra á sunnudaginn. En á mánudaginn kviknaði vonarneisti í íþróttahjarta hjúkkunnar þar sem hún sat heima í sófa með hroll og gæsahúð af stolti yfir "strákunum okkar" - þeir voru bara frábærir og sýndu að maður á aldrei að gefast upp. Nema hvað mánudagurinn byrjaði nú ekki eins vel og leikurinn endaði. Hjúkkan átti fund snemma morguns (fyrir klukkan 9) og sat prúð fyrir framan stofuna hjá þeim sem hún átti fund við. Á hægri hlið hjúkkunnar sat eldri maður sem talaði hátt og snjallt í símann og lýsti yfir dásemdum lífsins á sama tíma og hann pantaði tíma fyrir útför!!!! Já sumir vinna vinnuna sína á einkennilegum stöðum (að panta útför á biðstofu hjartalæknis fannst hjúkkunni alla vega svolítið súrt). Í miðju símtali mannsins vippar hann sér upp á hægri rasskinn og lætur flakka þetta líka blauta og rasskinnanötrandi prump!!! Eins og ekkert hefði í skorist hagræddi hann sér að því loknu á báðar rasskinnar og hélt áfram að tala í símann!!!!! Já góð byrjun á vikunni að láta ókunnuga reka við á mann!

16/01/2007

Hættulega sjálfhverf!
Hjúkkan kom sjálfri sér í þó nokkra hættu í kvöld sökum sjálfhverfu. Þannig var að hún var nýbúin að lesa frásögn af einstaklega vel heppnaðri spænsku kunnáttu sinni sem átti sér stað í vinnuferð til Barcelona síðastliðið haust er hún ákvað að fá sér góða sopa af Pepsi Maxinu. Þar sem hjúkkan var nú enn hálf hlæjandi af sjálfri sér tókst ekki betur til en svo að allt pepsíð rann beinustu leið niður í lungu og mikill hósti var það eina sem hjúkka uppskar. Atvikið sem gerði hjúkkuna svona voðalega glaða var sem sagt í leigubíl í Barcelona. Þar sem hjúkkan hafði nú tekið spænsku 103 hérna um árið (f. ca 12 árum síðan) var hún full sjálftraust á eigin getu til að tala spænsku. Leiðin lá að einhverju torgi við einhverja kirkju og hjúkkan var að rembast við að gefa leigubílstjóranum leiðbeiningar á spænsku (jú mín var svo ógeðslega góð í spænskunni) og eitthvað virtist leigubílstjórinn ekki vera að skilja hjúkkuna. Hann var farinn að baða út höndunum og vandræðast mikið og leit þá hjúkkan á hann með nettri fyrirlitningu (því leigubílstjórinn var svo lélegur í spænsku) og sagði kokhraust: ...no no no, CON CARNE!!!" Jább andartaki síðast trilltist samstarfskona hjúkkunnar úr hlátri í aftur sætinu og leigubílstjórinn líka, þá loksins heyrði hjúkkan þá snilld sem út úr henni hafði komið. Nei félagi við ætlum ekki á torgið - bara með kjöti!!!!!! Spænsku færnin var þá kannski ekki eins mikil í raun og veru!

06/01/2007

Ágætis byrjun!
Árið 2007 fer ágætlega af stað hjá hjúkkunni sem er nýkomin heim frá Danmörku. Ekki var nú mikill tími til félagslegra heimsókna til vina og vandamanna í Köben að þessu sinni en vonandi verður bætt úr því næst. Hjúkkunni til mikillar gleði og undrunar birtist Höskuldur í áramótaskaupinu. Hún fór nú að hugsa hvort hún hefði átt að vita af þátttöku hans í skaupinu, en getur ekki fyrir sitt litla líf munað hvort þessa umræðu hafi borið á góma. Eitt af nýársheitum hjúkkunnar (heppilegt þar sem hjúkkan strengir ekki nýársheit) ætti því að vera að taka meira eftir því sem sagt er við hana. Henni til mikillar lukku er þó til fólk sem er með eindæmum gleymið og maður veltir því alvarlega fyrir sér hvort þessir einstaklingar séu yfirleitt að hlusta þegar maður talar!!!!
Nú er utanlandsferða frí í tæpa tvo mánuði og ætlar hjúkkan að njóta lands og þjóðar í allan þann tíma. Fyrirhuguð er ferð úr bænum og vonandi áframhaldandi stemning á árinu. Svo er auðvitað farið að styttast í HM í handbolta með tilheyrandi pizzuáti og íslenskri stemningu. Hversu lengi ætli "strákarnir okkar" verði "strákarnir okkar"???

01/01/2007

Gleðilegt nýtt ár!!!
Já viti menn nú er bara árið 2007 byrjað og það hófst nú bara á rólegu nótunum hjá hjúkkunni. Hún bauð foreldrunum og frænda í mat á gamlárskvöld og komst að því að þá má búa til sósu úr ótrúlegustu hlutum! Allir borðuðu nægju sína og svo hófst reglulegt annála áhorf og svo skaupið. Hjúkkan skemmti sér nú ágætlega yfir skaupinu og svo voru það skotárásirnar sem hófust í kringum miðnættið. Að þessu sinni var farið upp á hól í Áslandinu ásamt fleiri hafnfirðingum og var útsýnið alveg ótrúlegt. Eftir kampavínssopa í Kríuásnum lá leiðin aftur í Dofrann þar sem sófinn endaði sem deit kvöldsins hjá hjúkkunni.
Á nýju ári er nú til siðs að fara yfir síðasta árið og hér koma helstu punktar þess:
  • hjúkkan flutti ekki á árinu sbr. endalausa flutninga 2005
  • árið byrjaði erfiðlega og reyndist í heildina á köflum mjög ósanngjarnt
  • skipt var um vinnu á miðju ári og þá fyrst fóru utanlandsferðir að taka kipp
  • hjúkkan man ekki lengur hvað hún er búin að fara í margar ferðir til útlanda á síðasta ári
  • sápuóperan er eins og góð mexíkósk sápa, virðist engan enda ætla að taka
  • hjúkkan keypti sér jeppling, sem hún síðan seldi og klessti loks!!
  • Björgunarsveit Hafnafjarðar kom hjúkkunni til bjargar eftir veðurofsa og snjóskafla sem ollu því að bíllinn sat sem fastast
  • tíðni óheppilegra atvika var eins og í meðalári - á bilinu 1 til 2 atvik á mánuði
  • hjúkkan strengdi engin áramótaheit frekar en fyrri árin

Jæja þá er þessari litlu upptalningu lokið enda árið búið og komið nýtt ár með nýjum tækifærum. Hvetur hjúkkan alla til þess að njóta nýja ársins og láta ekkert stöðva sig.