01/01/2007

Gleðilegt nýtt ár!!!
Já viti menn nú er bara árið 2007 byrjað og það hófst nú bara á rólegu nótunum hjá hjúkkunni. Hún bauð foreldrunum og frænda í mat á gamlárskvöld og komst að því að þá má búa til sósu úr ótrúlegustu hlutum! Allir borðuðu nægju sína og svo hófst reglulegt annála áhorf og svo skaupið. Hjúkkan skemmti sér nú ágætlega yfir skaupinu og svo voru það skotárásirnar sem hófust í kringum miðnættið. Að þessu sinni var farið upp á hól í Áslandinu ásamt fleiri hafnfirðingum og var útsýnið alveg ótrúlegt. Eftir kampavínssopa í Kríuásnum lá leiðin aftur í Dofrann þar sem sófinn endaði sem deit kvöldsins hjá hjúkkunni.
Á nýju ári er nú til siðs að fara yfir síðasta árið og hér koma helstu punktar þess:
  • hjúkkan flutti ekki á árinu sbr. endalausa flutninga 2005
  • árið byrjaði erfiðlega og reyndist í heildina á köflum mjög ósanngjarnt
  • skipt var um vinnu á miðju ári og þá fyrst fóru utanlandsferðir að taka kipp
  • hjúkkan man ekki lengur hvað hún er búin að fara í margar ferðir til útlanda á síðasta ári
  • sápuóperan er eins og góð mexíkósk sápa, virðist engan enda ætla að taka
  • hjúkkan keypti sér jeppling, sem hún síðan seldi og klessti loks!!
  • Björgunarsveit Hafnafjarðar kom hjúkkunni til bjargar eftir veðurofsa og snjóskafla sem ollu því að bíllinn sat sem fastast
  • tíðni óheppilegra atvika var eins og í meðalári - á bilinu 1 til 2 atvik á mánuði
  • hjúkkan strengdi engin áramótaheit frekar en fyrri árin

Jæja þá er þessari litlu upptalningu lokið enda árið búið og komið nýtt ár með nýjum tækifærum. Hvetur hjúkkan alla til þess að njóta nýja ársins og láta ekkert stöðva sig.

Engin ummæli: