30/01/2005

Sigur á syndrominu!
Ofurhjúkkan hefur loksins náð að sigrast á hinum illvæga Fríðu-syndromi sem lýsir sér best í alls kyns óhöppun og almennri utangáttun. Þessar síðustu vikur hafa verið einstaklega einkennilegar hjá hjúkkunni og hefur nú varla vitað hvort hún væri að koma eða fara. En nú er öldin önnur og stefnir í prýðilega viku sem endar á atvinnu Superbowl partýi hér á Kambsveginum. Það stefnir í met þátttöku í sturtum-niður-í-hálfleik athöfninni og ekkert nema steming um það að segja. Sunnudagurinn verður mjög magnaður því fyrr um daginn verða tónleikar hjá Kór Langholtskirkju þar sem hjúkkarn brýnir rausn sína að miklu dugnaði. Á dagskránni eru tvö æðisleg verk, þar af annað eftir Hreiðar Inga sem er alveg frábært. Sem sagt allir að mæta á sunnudaginn 6. febrúar í Langholtskirkju!
Tennisæfingin var tekin með trompi í morgun þar sem sjaldséðir íþróttarhæfileikar hjúkkunnar náðu að blómstra. Þjálfarinn bauð upp á lausa velli til æfinga í miðri viku - alltaf laust milli 6 og 10 á morgnana!! Ok í fyrsta lagi þá benti ég honum á að það gengur bara einfaldlega ekki upp í lífi hjúkkunnar söku geðprýði í morgunsárið og í öðru lagi telur hjúkkan það einfaldlega vera brot á mannréttindum að stunda íþróttir fyrir 10 á morgnana.

24/01/2005

Ofurklaufinn!
Þessir síðustu dagar hafa einkennt mikinn klaufaskap hjá ofurhjúkkunni. Föstudagskvöldvaktin fer í bækurnar sem "mest-utan-við-sig" vakt áratugarins og mátti hjúkkan bara þakka fyrir að komast heil heim úr því bullinu. En svo hélt þetta áfram alla helgina og dagurinn í dag toppaði snilldina í hjúkkunni. Í dag var hjúkka þriðja hjólið á Neyðarbílnum (sjúkrabíll með lækni) og ætlaði nú að afsanna ljóskutakta föstudagskvöldsins. Með orðsporið að veði mætti hún spræk og frökk á slökkstöðina og fékk líka þennan fína galla til að spóka sig um í það sem eftir leið dags. Fljótlega fóru leikar að hressast og útkall kom á bíllinn. Allir voða kúl, spruttu af stað og komust heilir út í bíl og á áfangastað. Þar gekk allt vel og svo var allur mannskapurinn + sjúklingur að koma sér fyrir í bílnum til að fara á sjúkrahús. NEMA HVAÐ þá tók ofurhjúkka sig til og ætlaði aldeilis að hoppa létt á fæti inn í sjúkrabílinn. Með þessum tilþrifum tókst hjúkkunni að skalla hurðarkarminn all hressilega og er með þessa fínu kúlu á hvirflinum. Kúlið rétt hékk á línunni en þar sem engin einkenni heilahristings komu fram var talið óhætt að láta ekki athuga ástand hjúkkunar frekar. Eftir þennan skell fór nú hjúkkan aðeins varlegra og var ekki með neina sýningar við það að fara inn og út úr sjúkrabílnum. EN svo kom að því að hjúkkan var að drífa sig út úr bílnum og skallaði þá sama hurðarkarm en nú á útleið!!!! Sumir eru bara fæddir klaufar og maður verður að fagna klaufanum í sjálfum sér. Þrátt fyri þetta allt tókst hjúkkunni að klára vaktina án þess að skaða sjálfa sig frekar - og svei mér þá ef kúlið er ekki allt að koma tilbaka.

19/01/2005

Morgungleði!
Þeir sem einu sinni hafa hitt ofurhjúkkuna snemma morguns og þá sérlega fyrir morgunmat vita flestir að besta leiðin til þess að nálgast hjúkkuna er að fara varlega að henni. Ekki það að maður sé eitthvað morgunfúll en þá fáu daga sem hjúkkan þarf að hefja störf kl. 07:30 ber að nálgast hana með mikilli varúð og varfærni. Morguninn í morgun var einn af þessum dögum og sem vitni (sjá frásögn af hlunkinu) byrjaði dagurinn ekkert sérlega vel. Þrátt fyrir hrakfarir á leið sinni til vinnu var hjúkkan búin að ákveða að láta þetta verða góðan dag með öllu tilheyrandi. Hún bauð öllum blíðlega góðan daginn sem voru komnir til vinnu og óskaði næturvaktinni góðs svefns. Eftir góðan morgunfund lá leið hjúkkunnar inn í eldhús til að fá sér smá morgunverð. Rúnstykkið var smurt af mikilli snilld, annar helmingurinn með osti, smurosti og gúrkum og hinn með lifrarkæfu. Kakómaltið var dregið fram og allt var þetta lagt á borðið beint fyrir framan morgunblaðið sem hjúkkan hafði stillt upp til að lesa með morgunmatnum. Hún rétt brá sér til hliðar að sækja mjólk í kakómaltið og þegar hún var við að setjast kemur aðsvífandi samstarsfkona hennar. Allir vinir og hjúkkunni farið að hlakka til að eiga góða morgunstund. NEMA HVAÐ haldið þið ekki að samstarfskonan hafi ekki bara snarað til sín blaðinu og byrjað að lesa það eins og þetta væri sjálfsagðasti hlutur í heimi!!!!! Aumingjans hjúkkan kunni ekki við að tjá sig um málið heldur luraði og nartaði í rúnstykkið þar til hin konan hafði lokið lestri sínum. Þá var öll stemningin horfin og momentið algjörlega ónýtt. En hjúkkan er hugulsöm og hjartahlý og lét þetta ekki skemma fyrir sér daginn.
Hlunkaðist á rassinn!
Þessi fáu orð lýsa mjög vel þeirri atburðarrás er átti sér stað í strætisvagnaskýlinu í morgun. Jú eins og sannri ofurhjúkkur ber þá lá leiðin í vinnuna með Leið 5 í morgun. Kl. 07:10 skreið hjúkkan út af heimili sínu og dreif sig sem fætur toguðu upp á stoppistöð. Allt lék í lyndi og hjúkkan hafði góðan tíma þar til vagninn átti að koma. Gerðust á svakalegir atburðir - hún steig inn í skýlið og hlunkaðist svo beint á rassinn. Hálkan hafði betur og eftir lá hjúkkan bjargarlaus á svellinu - með illt í mjöðminni, báðum höndum og baki. En það var að duga eða drepast og drífa sig á fætur til að halda kúlinu. Sem betur fer var engin vitni af þessu hlunki og hjúkkan gat stolt stigið upp í Leið 5 og komið sér í vinnuna.

16/01/2005

Ofboðslega þurr!
Ofurhjúkkan tók á honum stóra sínum í gær og fór í snyrtivöruverslun. Þessar verslanir hræða úr manni líftóruna og afgreiðslukonur í svona búðum geta verið stórhættulegar. Um leið og maður kemur inn í svona verslun byrja þær að sveima í kringum mann og ef maður hefur ekki fullkomlega á hreinu hvað manni vantar getur allt farið í tómt tjón. Eftir að hafa farið yfir það í huga hvaða nauðsynjar vantaði fór ég með fullan huga af kjarki inn í verslunina. Þetta gekk vel ég fann afgreiðslukonu og rúllaði út úr mér hvað það væri sem við vantaði. Hluti af því sem vantaði var andlitskrem. Þetta er eitthvað sem maður kaupir á svona 3ja ára fresti og heldur sig jú yfirleitt við saman sullið. Nei afgreiðslukonan hélt nú ekki - hún leit snökkt framan í mig og horfði um stund. Loks sagði hún "þú ert alveg ofboðslega þurr í húðinni - ertu dugleg að nota krem og aðrar vörur"... Nú kom fát á ofurhjúkkuna sem er einfaldlega ekki sú duglegasta í bransanum í þessum málum. Afgreiðslukonan var búin að missa alla trú á þessum kúnna og gerði sitt besta til að koma að manni alls konar möskum, kremum, hreinsimjólkum og þess háttar bulli. En ofurhjúkkan stóð föst á sínu og komst út með einungis það sem hún ætlaði sér að kaupa. Glöð og ánægð í hjarta gekk hún út úr Kringlunni vitandi að nú þarf ekki að heimsækja snyrtivöruverslun aftur næstu 3 árin.

12/01/2005

Ofurhjúkka í lengingu!
Það er margt sem drífur á daga ofurhjúkkunnar og sífellt verður hún sér um nýjar upplifanir. Dagurinn í dag var engin undantekning í þessu máli. Eftir dágóðan sprett á slysadeildinni lá leiðin til sjúkraþjálfarans sem er að rembast við að koma bakinu í samt lag. Ég er reyndar komin á þá skoðun með þann annars ágæta mann að Man Utd aðdáendur eru fólk sem örðum þykir gaman að pína og pinta. En sem sagt eftir mikið hnoð og hamagang ákvað maðurinn að prófa nýjan meðferð á bakdruslunni sem virðist ekki vera að svara hinni meðferðinni nægilega vel. Hjúkkan var látin leggjast á bekk þar sem hún var óluð niður yfir bringu og mjaðmir og svo hófst eitthvað alveg nýtt. Jú bekkurinn fór að færast í sundur þannig að neðri hluti líkamans togaðist frá efri hluta líkamans. Þetta er mjög einkennilegt en auðvitað bað ég manninn um að bæta á mig nokkrum centimetrum - maður vill nú ná 1.70m á hæð ;) Sem sagt eftir nokkrar svona meðferðir verður ofurhjúkkan orðin hávaxin og grönn :)
En hvað knattspyrnuna snertir verð ég að segja að bakið er orðið breytt eftir síðustu helgi og þær baunir sem maður þarf að þola frá samstarfsfólki sínu. Jú jú Man Utd gerði jafntefli við Exeter (lið sem engin veit hvaðan kemur) - en það var bara til að varpa ljósi á það lið. Við neglum þá í næstu umferð.

11/01/2005

Ofurhjúkkan á leið til Afríku!
Í gærkvöldi tókst ofurhjúkkunni að vinnabug á ákvörðunartökuóttanum og bóka sér flugmiða til Malawi í Afríku. Lovísa systir sem vinnur við það að bjarga mannslífum í Malawi óskaði þess svo heitt að hjúkkan kæmi í heimsókn að ekki var annað hægt en að láta undan. Flugið verður tekið til London að morgni 9. feb og svo um kvöldið liggur leiðin til Malawi með stuttu stoppi í Addis Ababa. Svo er það bara að chilla, horfa á fílana og hafa það gott þar til 18. feb að stefnan er tekin heim til íslands. Þetta verður ofboðslega gaman og spenningurinn er heilmikill. Bólusetningar gegn útlendum pestum fara fram á fimmtudaginn næsta og þá verður sárt að vera ég. En sem sagt er ferðahugurinn farinn að láta á sér kræla og stefnir í frábæra ferð.

10/01/2005

Koffínvíma!
Þegar þetta er skrifað ef ofurhjúkkan undir áhrifum of mikillar koffínneyslu á allt of skömmum tíma. Málið er að vaktin byrjaði rólega um hálf fjögur leytið í gærkvöldi og allt var bara svona líka ánægjulegt. Pínu þreyta í skrokknum eftir fimmtugs afmæli kvöldið áður en það stöðvar lítið tennis ástundunina þannig að gellan var mætt í tennis kl. 11:30 í morgun. Svo tók við bakaríið og smá blundur fyrir kvöldvaktina. Um miðja vakt kom í ljós skortur á mönnun á næturvaktinni og var hjúkkan svo blinduð af eigin verðleikum að það var auðvitað ekkert mál að vera áfram til morguns. Þetta gekk vel framan af en svo tók þreytan sinn toll og nokkrar ferðir voru gerðar að kaffivélinni á kaffistofunni. Yfirleitt er þar boðið upp á ódrekkanlegan andskota en í þetta skiptið var blandan bara ansi góð. Þetta varð til þess að 4 bollar voru teknir á hálftíma og nú situr hjúkkan og nötrar í koffínvímu. En nú er farið að glitta í lokin á vaktinni og sængin farin að færast manni nær. Svo er bara spurningin hvort maður nái að vinna úr koffíninu áður en beddinn kallar.

05/01/2005

Boltinn!
Var að horfa á leik minna manna í Man Utd í gærkvöldi þar sem þeir áttust við Tottenham Hotspurs. Þeir sem mig þekkja vita sennilega flestir að ég er nú frekar tapsár manneskja og tek því illa þegar mér finnst hallað á aðra en mitt eigið lið. Í gærkvöldi fór frækinn hópur fólks sem skiptist í tvær fylkingar annars vegar Utd og hins vegar Tottenham að horfa á leikinn. Ég verð nú reyndar að viðurkenna ósigur minna manna í leiknum enda væri annað óíþróttarmannslegt. Ef mínir menn hefðu skorað markið sem var ekki dæmt væri ég ekki svona auðmjúk í dag ;) Sem sagt vil ég óska Tottenham mönnum til hamingju með sigurinn í gær og vona að þeir komi ekki til með að nota þetta gegn okkur í rauðu treyjunum ;)

01/01/2005

Annállinn!
Árið 2004 fer í bækurnar sem eitthvert skemmtilegasta ár í lífi ofurhjúkkunnar. Vinir og vandamenn settu sitt mark á árið, þá sérstaklega þeir sem fluttu til eða frá landinu. Elsta systir tók sig til og fór að bjarga mannslífum í Malawi í Afríku um miðbik ársins og verður þar næstu tvö árin. Fljótlega eftir brottflutning hennar fór að bera á söknuði og ákveðinni tómleika tilfinningu en netið bjargar miklu og ekki mikið mál að ná í skottið á henni á msn. Jóhann flugfoli með meiru flutti heim eftir alltof langa dvöl erlendis og tóku við endalausir hittingar á hinum og þessum knæpum bæjarins með góðum hópi af vinum sem varð til úr mörgum áttum. Jóa hjúkku vinkona situr sem fastast í Svíþjóð og er saknað mikið enda var kaffivélin á heimilinu skýrð í höfuðið á þessari yndislegu vinkonu.
Vinnan tók sinn toll á árinu og held ég að fleiri stundum hafi verið eytt á slysadeildinni en á eigin heimili ofurhjúkkunnar - en það er nú bara þannig þegar maður er í fullri vinnu. Samningafundir í húsnæði Ríkissáttarsemjara voru eitt að því nýja sem ofurhjúkkan prófaði á árinu, ásamt reykköfun með tilheyrandi vinstri leit og óhreinindum. Í vinnunni elfdust mikil vináttubönd milli nokkurra vel valdra ofurhjúkka og þau verða seint rofin. Eftir því sem tíminn líður verða sífellt fleiri samstarfsmenn vinir manns og það er ekkert nema yndislegt enda getur maður aldrei átt of mikið af góðum vinum.
Heimilishaldið var með sínu móti og sífelld ferðalög ýmist hjúkkunnar eða hennar nánasta voru áberandi. Nokkrar ferðir voru farnar saman og ber þar að nefna prýðilega ferð til Prag að ógleymdri yndislegri viku í París. Köbenferð hjúkkunnar ásamt öðrum ofurhjúkkum stendur upp úr hvað varðar mestu snilldar hópferð ársins. Astoria hópurinn sló í gegn meðal sjálf síns með endalausum athugasemdum um líkamsstarfssemi æskilega sem og óæskilega.
Stefnan á nýju ári er að gera enn betur og njóta lífsins til hins ítrasta. Auðvitað ætlar maður alltaf að vinna í sjálfum sér til að gera sjálfan sig að betri manneskju og styrkja tengsl við vini og vandamenn. Kannski maður stefni líka að því að vinna ekki alveg jafn mikið og undanfarin - en sem vinnualki er erfitt að gefa svona loforð. Mottó ársins er að lofa sér ekki neinu - því það veldur því bara að maður verður fyrir vonbrigðum með sjálfan sig.
Að lokum vil ég óska öllum vinum og vandamönnum gleðilegs nýs árs og vona að þetta ár færi ykkur öllum hamingju og vegsemd.