01/01/2005

Annállinn!
Árið 2004 fer í bækurnar sem eitthvert skemmtilegasta ár í lífi ofurhjúkkunnar. Vinir og vandamenn settu sitt mark á árið, þá sérstaklega þeir sem fluttu til eða frá landinu. Elsta systir tók sig til og fór að bjarga mannslífum í Malawi í Afríku um miðbik ársins og verður þar næstu tvö árin. Fljótlega eftir brottflutning hennar fór að bera á söknuði og ákveðinni tómleika tilfinningu en netið bjargar miklu og ekki mikið mál að ná í skottið á henni á msn. Jóhann flugfoli með meiru flutti heim eftir alltof langa dvöl erlendis og tóku við endalausir hittingar á hinum og þessum knæpum bæjarins með góðum hópi af vinum sem varð til úr mörgum áttum. Jóa hjúkku vinkona situr sem fastast í Svíþjóð og er saknað mikið enda var kaffivélin á heimilinu skýrð í höfuðið á þessari yndislegu vinkonu.
Vinnan tók sinn toll á árinu og held ég að fleiri stundum hafi verið eytt á slysadeildinni en á eigin heimili ofurhjúkkunnar - en það er nú bara þannig þegar maður er í fullri vinnu. Samningafundir í húsnæði Ríkissáttarsemjara voru eitt að því nýja sem ofurhjúkkan prófaði á árinu, ásamt reykköfun með tilheyrandi vinstri leit og óhreinindum. Í vinnunni elfdust mikil vináttubönd milli nokkurra vel valdra ofurhjúkka og þau verða seint rofin. Eftir því sem tíminn líður verða sífellt fleiri samstarfsmenn vinir manns og það er ekkert nema yndislegt enda getur maður aldrei átt of mikið af góðum vinum.
Heimilishaldið var með sínu móti og sífelld ferðalög ýmist hjúkkunnar eða hennar nánasta voru áberandi. Nokkrar ferðir voru farnar saman og ber þar að nefna prýðilega ferð til Prag að ógleymdri yndislegri viku í París. Köbenferð hjúkkunnar ásamt öðrum ofurhjúkkum stendur upp úr hvað varðar mestu snilldar hópferð ársins. Astoria hópurinn sló í gegn meðal sjálf síns með endalausum athugasemdum um líkamsstarfssemi æskilega sem og óæskilega.
Stefnan á nýju ári er að gera enn betur og njóta lífsins til hins ítrasta. Auðvitað ætlar maður alltaf að vinna í sjálfum sér til að gera sjálfan sig að betri manneskju og styrkja tengsl við vini og vandamenn. Kannski maður stefni líka að því að vinna ekki alveg jafn mikið og undanfarin - en sem vinnualki er erfitt að gefa svona loforð. Mottó ársins er að lofa sér ekki neinu - því það veldur því bara að maður verður fyrir vonbrigðum með sjálfan sig.
Að lokum vil ég óska öllum vinum og vandamönnum gleðilegs nýs árs og vona að þetta ár færi ykkur öllum hamingju og vegsemd.

Engin ummæli: