24/01/2005

Ofurklaufinn!
Þessir síðustu dagar hafa einkennt mikinn klaufaskap hjá ofurhjúkkunni. Föstudagskvöldvaktin fer í bækurnar sem "mest-utan-við-sig" vakt áratugarins og mátti hjúkkan bara þakka fyrir að komast heil heim úr því bullinu. En svo hélt þetta áfram alla helgina og dagurinn í dag toppaði snilldina í hjúkkunni. Í dag var hjúkka þriðja hjólið á Neyðarbílnum (sjúkrabíll með lækni) og ætlaði nú að afsanna ljóskutakta föstudagskvöldsins. Með orðsporið að veði mætti hún spræk og frökk á slökkstöðina og fékk líka þennan fína galla til að spóka sig um í það sem eftir leið dags. Fljótlega fóru leikar að hressast og útkall kom á bíllinn. Allir voða kúl, spruttu af stað og komust heilir út í bíl og á áfangastað. Þar gekk allt vel og svo var allur mannskapurinn + sjúklingur að koma sér fyrir í bílnum til að fara á sjúkrahús. NEMA HVAÐ þá tók ofurhjúkka sig til og ætlaði aldeilis að hoppa létt á fæti inn í sjúkrabílinn. Með þessum tilþrifum tókst hjúkkunni að skalla hurðarkarminn all hressilega og er með þessa fínu kúlu á hvirflinum. Kúlið rétt hékk á línunni en þar sem engin einkenni heilahristings komu fram var talið óhætt að láta ekki athuga ástand hjúkkunar frekar. Eftir þennan skell fór nú hjúkkan aðeins varlegra og var ekki með neina sýningar við það að fara inn og út úr sjúkrabílnum. EN svo kom að því að hjúkkan var að drífa sig út úr bílnum og skallaði þá sama hurðarkarm en nú á útleið!!!! Sumir eru bara fæddir klaufar og maður verður að fagna klaufanum í sjálfum sér. Þrátt fyri þetta allt tókst hjúkkunni að klára vaktina án þess að skaða sjálfa sig frekar - og svei mér þá ef kúlið er ekki allt að koma tilbaka.

Engin ummæli: