30/08/2006

Heppilegt!
Á fréttavef morgunblaðsins í morgun var sú frétta að Árna Johnsen hafði verið veitt uppreisn æru og getur hann þar með farið aftur í framboð til Alþingis. Svo heppilega vildi til að tveir af þremur handhöfum forsetavaldsins sem fara með umboðið í þessu máli eru Sjálfstæðismenn (Geir og Sólveig) en hjúkkan er ekki viss um stöðu hins þriðja. Þetta er auðvitað mjög heppilegt bæði fyrir Árna og Björn Bjarnason sem fór fram á þetta fyrir hönd dóms og kirkjumálaráðuneytisins. Já þarna var hann Árni nokkuð heppinn. Ef handfara forsetavaldsins hefðu nú verið aðrir eða Árni í öðrum flokki - hefði þetta farið öðruvísi?? Nei maður bara undrar sig stundum á því hvernig hlutirnir virka í þessu annars ágæta landi þar sem gott er að þekkja góða menn...

27/08/2006

Almenn afslöppun!
Helgin hefur farið í almenna afslöppun hjá stelpunni með tilheyrandi hangsi. Hún gerði sér þó glaðan dag með ofurparinu Júlla og Hrönn og dansaði af sér aukakílóin á laugardagskvöldið. Nýja vinnan er farin að taka á sig mynd og þetta er mjög spennandi og skemmtilegt. Það er ótrúleg tilfinning að klára vinnudaginn og þurfa ekki að leggja sig í 2 klst. til þess eins að hafa orku í að hafa til kvöldmatinn. Hugurinn leitar samt oft á slysadeildina og verður gaman að kíkja á vaktirnar þar í september, en hjúkkan verður áfram í oggulítilli prósentu þar með hinni vinnunni. Maður getur nú ekki alveg slitið sig lausan frá hasarnum....
Lífið er að öðru leyti mjög ljúft þessa dagana enda er um að gera að vera bara með sól í hjarta þegar veðrið er alltaf svona leiðinlegt.

22/08/2006

Flugvélar, hótelherbergi, leigubílar og hrútaþukkl!
Hjúkkan er komin heim aftur eftir viku dvöl í kóngsins Köben. Það var við venju að búast að veðrið sem búið er að vera hrikalega gott í allt sumar í Köben varð einmitt að rigningu og roki fyrstu daga hjúkkunnar þar á meðan sólin og blíðan létu sjá sig hér á landinu. Enn og aftur komu upp vangaveltur hjá þeim sem standa hjúkkunni næstu um að geyma hana bara í Köben fram eftir hausti svo Íslendingar fái smá sól. Já hjúkkan hefur nú alltaf verið hópsál en þetta heitir nú bara að fórna manni fyrir fjöldann þannig að hún gaf skít í þessar athugasemdir og kom heim s.l. föstudagskvöld. Í Köben knúsaði hún Kjánann sem var hinn glaðasti og horfði á nokkra góða Will og Grace með honum. Einnig reifst hún við leigubílstjóra um það hvert hún væri að fara sem endaði á því að hann tók upp kort af Köben og var svo ekki með lesgleraugun sín, því þurfti hjúkkan að lesa á kortið og sanna fyrir manninum að hún vissi alveg hvað hún var að gera. Sá leigubílstjóri fékk ekki frekar en hinir þjórfé og var hinn skúffaðasti eftir rúntinn. Annar skúffaður einstaklingur varð á vegi hjúkkunnar í flugvélinni á leiðinni heim, og neitaði hann að fara í sætið sitt og var með mikil læti og leiðindi. Hjúkkan bauð flugfreyjunni að henda honum inn á klósett og læsa hann þar inni þar til við myndum lenda í Keflavík og sá hún vonar glampa í augum freyjunnar sem auðvitað þurfti að brosa sínu blíðasta.
Laugardagurinn fór í vinnu vegna maraþonsins og svo kvöldvaktarstubb á slysó enda ekki annað hægt en að hjálpa. Hjúkkan renndi eftir vaktina á Kambsveginn og sótti soninn og fór með honum einn hring um hið ógeðslega ástand sem var í miðbænum. Rusl, drasl og blindfullir einstaklingar í djúpum kossum var það sem á vegi þeirra varð enda lá leiðin mjög fljótlega úr þessu ástandi. Sunnudagurinn fór svo í upppakkningu og tiltekt enda kominn tími á að þrífa Dofrann eftir alla fjarveruna.
Ein spurning að lokum - nýverið var keypt í "íþrótt" sem kallast hrútaþukl!!!! Veit einhver hvers lags íþrótt þetta er eða almennt út á hvað hrútaþukl gengur????

12/08/2006

Á ferð og flugi!
Hjúkkan er búin að vera á ferð og flugi undanfarna viku í tengslum við nýju vinnuna. Leiðin lá til Köben á sunnudaginn þar sem fundur með danska hópnum var haldinn á mánudaginn. Danskan var nú ekki lengi að koma hjá stelpunni sem var orðin ótrúlega samtalsfær strax á fyrsta degi. Eftir þann fund var grillveisla sem átti nú eftir að draga dilk á eftir sér þar sem 30 danir þjáðust af Vilnius Express dagana sem við vorum í Litháen. Eftir mikla rannsóknarstarfsemi og hinar ýmsu samsærikenningar var niðurstaðan sú að pylsur sem voru í matinn í grillveislunni væru orsök express pestarinnar. Hjúkkan slapp fyrir horn og náði að sitja fundina með reglulegum ferðum til GustavBergs.
Vilnius vann sig í áliti hvern einasta dag sem leið þarna úti enda mjög falleg - þegar maður er búinn að finna þann hluta borgarinnar þ.e. Þó nokkuð var af konum í stuttum kjólum og háum hælum sem eru í annars lags sölumennsku en hjúkkan. Litháenskan var einnig orðin nokkuð góð hjá hjúkkunni og var hún búin að sjá að Naktinis Klubas væri nektarklúbbur og hins vegar Stripinis Klubas væru strippbúllur. En spurningin sem brann á vörum hjúkkunar var hvort einhver munur væri á Naktinis eða Striptinis klúbbum. Hún vann ekki frekari rannsóknarvinnu og hefur því ekki hugmynd um muninn á þessum klúbbum.
Leiðin lá heim í gær í gegnum Köben þar sem nokkrar klukkustundir fóru í bið eftir innritun annars vegar og öryggistékki hins vegar, en án nokkurra vandkvæða komst hjúkkan heil í vélina og svaf í eigin rúmi í nótt.
Dagurinn hefur farið í að taka upp úr töskunum til að setja aftur í þær á morgun þar sem leiðin liggur til Köben á mánudaginn. Annars verður sófinn besti vinur hjúkkunnar þessa tvo daga og grillið verður nú sennilega notað í kvöld.

02/08/2006

Hin ýmsu móment hjúkkunnar!
Hjúkkan hefur gert nokkrar tilraunir til þess að lýsa klaufaskapnum sem fylgdi kaupum hennar á gasgrillinu, atviki sem átti sér stað á bensínstöð í kjölfarið og loks hvernig gekk að koma grillinu saman, en bloggerinn virðist meta söguna þannig að hún sé ekki birtingahæf.
Alla vega gekk á ýmsu við grillkaupin, hjúkkan missti 30 kílóa kassa í gólfið í miðri verslun á föstudegi, festi hælinn í mottu á bensínstöð svo að hún þurfti að fara úr skónum til að bjarga málunum og datt loks utan í hurðina á leiðinni út.
Já það er sjaldan lognmolla í kringum hjúkkuna og hefur vikan ekkert verin undanþegin því. Að lokum virðast nú hlutirnir vera á réttri leið. Nýja vinnan byrjaði fyrr en hjúkkan átti von á, og var hjúkkan komin í gírinn s.l. fimmtudag. Dagurinn fór í að læra þúsund hluti og reyna að muna alla vega svona 5 þeirra. Þetta gekk ágætlega og var dagur 2 í vinnunni enn betur og nú er verið að undirbúa ferðina sem hefst á sunnudag. Þá liggur leiðin til Köben og svo til Vilnius og að lokum kemur hjúkkan heim í helgarfrí. Eftir þá helgi liggur leiðin aftur út til Köben í nokkra daga og bara spennandi tímar framundan.
Nú ætlar hjúkkan að njóta þess að vera í bænum eitt árið enn nema maður skelli sér í stutta dagsferð eitthvað í nágrenni Reykjavíkur. Njótið helgarinnar og farið varlega í umferðinni.