27/12/2008

Nú árið er næstum liðið og litið um öxl!
Já enn eitt árið er að klárast og alltaf kemur það manni jafnmikið á óvart þegar áramótin koma, því manni fannst þetta hafa gerst í síðustu viku. En svona er það bara þegar maður hefur nóg að gera sem er auðvitað mjög fínt. Hér koma nokkrir highlights af 2008 úr lífi hjúkkunnar:
  • Hjúkkan vann baki brotnu, þó bara í einni vinnu og naut lífsins þess á milli t.d. með því að fara á skíði eða bara taka sófann :)
  • Utanlandsferðirnar voru aðeins færri en í fyrra en alls ekki síðri.
  • Í júlí dreif hjúkkan sig í 4 daga göngu um Kerlingafjöll og toppaði 3 fjöll á sama degi - algjör snilld og sigurvegara tilfinningin í botni.
  • Fnykur var stofnaður eftir göngu yfir Fimmvörðuháls á Jónsmessunótt og heldur hópurinn uppi öflugu útivistar/hlaupa/gleði prógrammi fyrir meðlimi.
  • Hálft maraþon var hlaupið í ágúst í Reykjavíkurmaraþoni á tímanum 02:03:01 sem er personal best ( líka fyrsta hálf maraþonið sem hjúkkan hefur tekið þátt í). Vesturgatan var líka hlaupin fyrir vestan í blíðu og yndislegri stemningu í júlí.
  • Ekki voru eins mörg pör af skóm keypt þetta árið - hey það kom kreppa!!!
  • Hjúkkan fagnaði 31 árs afmæli sínu með því að fagna í viku!!!
  • Mikið var slúðrað, talað í símann, spáð og spögulerað yfir árið :)
  • Hjúkkan var veðurteppt í nokkra daga á Ísafirði í október, kynntist ótrúlegasta fólki og borðaði saltfisk við kertaljós í rafmagnsleysi.

Já þetta eru svona nettir puntkar sem hjúkkan man eftir í augnarblikinu. Ef eitthvað meira kemur í ljós þá verður því hent hér inn.

Njótið nýja ársins öllsömul, verið góð við hvort annað og munið að þið eigið bara þetta eina líf :)

Jóla og áramótaknús ....

16/12/2008

New York baby!
Hjúkkan þurfti að skella sér í vinnuferð til New York núna um miðjan desember og í einu orði var ferðin snilld. Ráðstefnan var góð eins og vanalega og allt í kringum hana gekk upp enda hjúkkan orðin ansi sjóuð í þessari ráðstefnu. Auðvitað var borðað á góðum veitingastöðum og stendur Buddha Bar algjörlega upp úr. Þvílíkur matur - þvílík þjónusta að meira að segja hjúkkan varð næstum því orðlaus. Eftir að fundunum lauk á hádegi á sunnudag lá leið hjúkkunnar á rómantískt stefnumót við sjálfa sig í Central Park. Stelpan var í sjöunda himni er hún rölti um í blíðunni, tók sjálfmyndir við ótrúlegustu tækifæri og brosti sínu blíðasta. Reyndar voru aðrir gestir garðsins eitthvað farnir að vorkenna stelpunni og voru þó nokkrir sem buðust til þess að taka myndir af henni en það var einhvern veginn ekki stemningin. Arms-lenght myndirnar geta verið svo skemmtilegar :) Ef fólki finnst margir verða á vegi sínum í Kringlunni eða Smáralindinni ættu viðkomandi að prófa Manhattan 10 dögum fyrir jól. Sæll - fjöldinn af fólki sem var alls staðar...
Nú er farið að styttast í jólin með tilheyrandi gjafakaupum, glöggum og huggulegheitum. Það tók nokkur ár fyrir hjúkkuna að finna jólaandann sinn sem hún hafði týnt en nú blómastrar stelpan, bakar smákökur eins og vindurinn og á bara eftir að skrifa jólakort. Lykilatriðið er að gera eingöngu það sem manni langar til að gera en ekki af því maður á að gera það :)