22/01/2008

Hvort er sorglegra?
Hjúkkan á erfitt með að ákveða hvort sé sorglegra, gengi Íslands á EM eða hegðun borgarstjórnarflokkanna. Það er ekkert grín að horfa á leik okkar manna þessa dagana og orðið frekar ömurlegt að þurfa sífellt að heyra þulina segja - óheppinn, náði ekki að skora! Hversu oft er maður óheppinn á kostnað þess að klúðra? Hjúkkan er nú samt stolt af strákunum, því það er nú örugglega ekkert grín heldur að vera Íslendingur á stórmóti þar sem við ætlum alltaf að vinna. Það er ótrúlegur Eurovision komplex í kringum stórmót í handbolta og spurning um að fara bara að sætta sig við 16. sætið...
Hitt sorglega málið er samt eiginlega sorglegra, að horfa upp á fullorðið fólk í sandkassaleik þar sem hver og einn á nýjan besta vin á hverjum degi. Það var svo brjóstumkennanlegt að horfa upp á og heyra í Sjálfstæðismönnum þegar fyrsta borgarstjórnin fór forgörðum - þau voru nú ekki mjög fullorðin í sínum ummælum í garð ákveðins framsóknarmanns og svo bara finna þau næsta mann sem er til sölu og gera honum tilboð. Þetta er svo aumkunarvert orðið að hjúkkan er himinlifandi að búa ekki lengur í Reykjavík. Svona vitleysa er sko ekki í fallega Firðinum :)
Nú er bara að halda í vonina að strákunum fari að ganga betur og að einhver loki bara sandkassanum í Reykjavík.

20/01/2008

Endalaust svekkelsi!
Enn einn daginn æsir maður sig yfir sjónvarpinu, hrópar hvatningarorð og fúkyrði á víxl yfir handboltaleik. Þetta er samt alltaf jafn gaman en það vantar samt smá spennu í dæmið. Ekki að hafa leikina algjörlega lost eða á hinn bóginn. Það er alltaf svolítið gaman af því hversu svekktur maður getur orðið á því að Logi skaut "bara" á 100 km hraða í gær þegar gaurinn í franska liðinu í dag náði 106 km hraða í einu skoti. Þetta hefur valdið ýmsum vangaveltum í EM hóp hjúkunnar og meðal annars af hverju menn velja að standa í marki í handbolta. Af hverju gera menn sér þetta - þeir vita að tilgangurinn með markmanninum er að fá boltann í sig og ef hann er heppinn fær hann einhvern leikmannanna líka í fangið! Já er þá ekki bara betra að komast á stórmót sem vatnsberi landsliðsins eða umsjónarmaður handklæða? Þar gæti maður meira að segja unnið sig upp og orðið framkvæmdarstjóri útbúnaðarsviðs landsliðsins!!! Ekki slæmur titill þar á ferð :)
Já en helgin var að öðru leyti hin besta með góðu tjútti í innflutningspartýi á föstudag, gráti yfir lélegri bíómynd og svekkelsi yfir nokkrum handboltaleikjum. Vikan framundan verður ansi þétt vegna Læknadaga og meira að segja spurning hvort maður komist í gymmið!! En fyrirséð er að hjúkkan missir af leikjunum við Ungverja og Spánverja.. nema maður komi upp EM horni á sýningarsvæðinu á Læknadögum??

12/01/2008

Íslendingar - bestir í heimi?
Nú þegar hjúkkan er búin að fara til Danmerkur með vonda veðrið og koma því í góðan sess þar var kominn tími til þess að koma sér aftur heim. Ferðin byrjaði og endaði á vinaheimsóknum en sökum kvartana sem höfðu borist frá Danmörku um heimsóknarleysi hjúkkunnar varð hún að gera eitthvað í málinu. Áður en vinna hófst var tekið gott stelpukvöld í Århus með Lindu og Svönu og smá McDreamy. Það er nú eitthvað farið að halla undan fæti hjá honum og eiginlega komnir aðrir draumalæknar í líf stúlknanna en ekki meira um það hér. Vinnan hófst á mánudag og sem fyrr var setið allan daginn og velt fyrir sér gangi mála í bransanum. Kvöldin einkenndust af kvöldvökum á danska vísu og það var eiginlega svona kjánalega gaman.....
Á leiðinni heim var ein nótt tekin í Köben hjá Þóri og Jacob og Héðinni átti leið um í smá súpu og knús. Bara yndislegt að hitta strákana sína í Köben og lofaði hjúkkan að koma aftur fljótlega.
Þegar hjúkkan var nú komin út í vél (NB kl. 13:20) sá hún sér til lítillar hamingju að ferðafélagar hennar í fluginu (þ.e. þeir sem voru í sömu sætaröð) voru tveir súr-illa-lyktandi fullir miðaldra íslenskir karlmenn. Þeir byrjuðu á því að spyrja með nettu frussi ,, ertu íslensk"? Jú hjúkkan gat ekki annað en viðurkennt það þar sem hún var að lesa Morgunblaðið. Þessir ferðafélagar gáfu sér svo leyfi til þess að reyna að spyrja hjúkkuna um fjölskylduhagi hennar. Hjúkkunni til lífs sá hún að það voru laus sæti við neyðarútgang svo hún spratt á fætur og fangaði eina flugfreyjuna, lýsti ástandinu og var ótrúlega glöð þegar hún flutti sig í annað sæti í vélinni. Alla vega þrisvar sinnum í fluginu sá hjúkkan svo fyrrum sætaraðarfélagana hlaupa á klósettið til þess að sækja þurrkur þar sem eitthvað hafði helst niður hjá þessum mönnum. Sannarlega þjóðinni til sóma!!!