22/01/2008

Hvort er sorglegra?
Hjúkkan á erfitt með að ákveða hvort sé sorglegra, gengi Íslands á EM eða hegðun borgarstjórnarflokkanna. Það er ekkert grín að horfa á leik okkar manna þessa dagana og orðið frekar ömurlegt að þurfa sífellt að heyra þulina segja - óheppinn, náði ekki að skora! Hversu oft er maður óheppinn á kostnað þess að klúðra? Hjúkkan er nú samt stolt af strákunum, því það er nú örugglega ekkert grín heldur að vera Íslendingur á stórmóti þar sem við ætlum alltaf að vinna. Það er ótrúlegur Eurovision komplex í kringum stórmót í handbolta og spurning um að fara bara að sætta sig við 16. sætið...
Hitt sorglega málið er samt eiginlega sorglegra, að horfa upp á fullorðið fólk í sandkassaleik þar sem hver og einn á nýjan besta vin á hverjum degi. Það var svo brjóstumkennanlegt að horfa upp á og heyra í Sjálfstæðismönnum þegar fyrsta borgarstjórnin fór forgörðum - þau voru nú ekki mjög fullorðin í sínum ummælum í garð ákveðins framsóknarmanns og svo bara finna þau næsta mann sem er til sölu og gera honum tilboð. Þetta er svo aumkunarvert orðið að hjúkkan er himinlifandi að búa ekki lengur í Reykjavík. Svona vitleysa er sko ekki í fallega Firðinum :)
Nú er bara að halda í vonina að strákunum fari að ganga betur og að einhver loki bara sandkassanum í Reykjavík.

Engin ummæli: