30/09/2007

Ekki eru allar hugmyndir góðar!
Hjúkkan er búin að vera í "skilyrðinga" krísu um sjálfa sig í kjölfar dómsins frá bæklaranum um að leggja hlaupaskóna á hilluna. Já það verður víst að hafa það eins fúlt og það er, en þá verður hjúkkan bara að finna nýja skilgreiningu á sjálfri sér þar sem "hlaupari" er dottið út af borðinu. Þessi helgi fór í áætlanagerðir og nokkra vinnu heimafyrir í því skini. Í morgun sat hún og skoðaði fasteignaauglýsingar án þess þó að vita af hverju hún væri að leita. Loks eftir dágóða stund í áætlanagerðinni lá leiðin í sófann í einn þátt af Grey´s. Þá fékk hún þessa líka góðu hugmynd sem að mati hjúkkunnar leysti öll vandamálin! Jú nú var mál að breyta allri uppsetningu á íbúðinni. Það hafa staðið yfir nokkrar pælingar um málið og loks ákvað hjúkkan að redda þessu. Í upphafi hafði nú nokkrar áhyggjur af þungum húsgögnum sem hún ætti erfitt með að færa ein - en smiðurinn átti svarið, setja bara filt tappa undir dæmið og renna því mjúklega eftir gólfinu. Við skulum hafa það alveg á hreinu að þetta voru ráð í gegnum símann og hetjan var ekki einu sinni á staðnum :) Hjúkkan dreif sig af stað og smellti töppum undir það sem þurfti og mjúklega dröslaði húsgögnunum um alla íbúð. Loksins komst endanleg staðsetning á dæmið og hjúkkan er bara ánægðust með árangurinn. Það var nú líka plús í ég-er-svo-sjálfstæð dæmið að gera þetta án aðstoðar. Svo auðvitað hringdi hún í hetjuna og lýsti yfir árangri sínum, hetjan hló pínu og benti hjúkkunni á að fara nú og hvíla bakið sitt góða.
Nema hvað - nú liggur hún í sófanum á nýja staðnum í íbúðinni og getur eiginlega varla hreyft sig sökum verkja í bakinu en hugurinn er stór. Hjúkkan ákvað reyndar annað líka eftir allar breytingarnar og verkina í bakinu, að ekki eru allar hugmyndir góðar hugmyndir og stundum er allt í lagi að fá aðstoð við hlutina :)

24/09/2007

Hann er kominn aftur í líf hjúkkunnar!
Loksins kom að þessum degi í lífi hjúkkunnar. Eftir allt of margar vikur og einmannalegar kvöldstundir lyftist brúnin á stelpunni í dag. Hann birtist með dökka, hrokkna hárið og glettingslegt augnarráðið sitt og stelpan andvarpaði. McDreamy hefur ekkert breyst nema bara til hins betra þessar síðustu vikur og nú tekur við maraþon sófi hjá stelpunni og ákaflega mörg símtöl í ráðgjafann í Ásgarðinum :) Haustið verður betra en á horfðist og nú er það bara að njóta.
Tjúttið var tekið með trompi um helgina á haustfagnaði fyrirtæksins eins og von er. Pílukastkeppnin var á sínum stað og hjúkkan stóð sig eins og hún átti von á. Það fóru alla vega 3 af 6 pílum á spjaldið og það er bara flott að eigin mati stelpunnar. Laugardagurinn fór í hjartsláttatruflanir og almenna leti enda var tekið á því á sunnudag í staðinn. Íbúðin þrifin hátt og lágt og ekki eftir neinu að bíða með áhorf á 3. seríuna á Grey´s :)

16/09/2007

Botnbaráttan!
Það er eiginlega frekar einkennilegt að vera KR-ingur og þurfa að tjá sig um botnbaráttuslaginn sem er í Landsbankadeildinni í dag milli KR og HK. Um mitt sumar héyrði hjúkkan lýsingu á leik KR og ÍA og þar var talað um "fallið stórveldi" í knattspyrnu. Ok okkur gengur kannski ekkert sérlega vel í augnarblikinu en við erum nú ekki fallin en sem komið er.
Það eru heldur ekki margir KR-ingar sem þora segjast þá bara hlakka til að mæta á leik KR og Leiknis á GehttoGround næsta sumar. Það eru svo margir jákvæðir punktar í kringum þetta m.a. er ódýrara á leiki í 1. deild en Landsbankadeildinni - maður er alltaf að spara :)
En sannur stuðningsmaður fylgir sínum í gegnum súrt og sætt sama hvað þessi hverfisklúbbur hjúkkunar gerir og getur :)

12/09/2007

Breyttir tímar!!!
Hjúkkan situr kát heima á sófa eftir að hafa horft á íslenska landsliðið loksins vinna sinn fyrsta leik í rúmt ár. Hún hafði nú ýmislegt að segja um þennan leik og notaði símann óspart þar sem fótboltapartnerinn var heima hjá sér í Reykjavíkinni. Það er einhvern veginn ekki hægt að rífast yfir leiknum einn við sjálfan sig! Sem sagt bara ánægð með liðið og gaman að sjá alla þessa nýju og ungu leikmenn í hópnum - nú er bara að fara að læra ný nöfn!
Eitt sem hjúkkan tók sérstaklega eftir í fréttunum á RÚV í kvöld var frétt þess efnis að mörg börn hafi labbað eða hjólað í skólann í dag. Hvað er fréttnæmt við það - þegar hjúkkan var lítil hnáta þá labbaði hún alltaf í skólann og úr skólanum og þótti það bara mjög eðilegt. Erum við að gera börn enn meiri ósjálfbjarga þar sem krakkar mega varla þurfa að fara í næsta hús án þess að þeim sé skutlað þangað?
Annars var hjúkkan massa dugleg í rigningunni í dag og dreif sig á útiæfingu í hádeginu. Hlaupið var eins og alltaf um Laugardalinn og svo tekin sprettæfing á hlaupabrautinni á Laugardalsvellinum. Það var ekki þurr þráður á hjúkkunni í lok æfingarinnar og sturtan alveg einstaklega góð! Kannski er maður svona skemmdur eftir allar strætóferðirnar að maður þorir að fara út að hlaupa í smá roki og rigningu?

01/09/2007

Sorgleg eða sæt?
Hjúkkan hafði nú önnur plön um helgina en þau sem urðu raun. Hún ætlaði að hafa kokteilaklúbbinn fyrir hjúkkurnar og tjútta hressilega með skvísunum en örlögin gripu inn í og í staðinn lagðist stelpan í hundleiðinleg veikindi. Hún liggur fyrir með höfuðverk og hóstar eins og mæðuveik rolla ( sérlega kynþokkafullt). Í staðinn fyrir að vera á lífinu með skvísunum er stelpan sem sagt heima á laugardagskvöldi, horfandi á Love Story með hvítvínsglas og Sudoku. Já manni verður stundum spurn - er þetta sorglegt eða bara sætt :)
Hjúkkan fékk smá aldurskrísu í kjölfar þess að uppgötva að þetta var nú bara mjög fín blanda á laugardagskvöldi en samkvæmt öllum normum ætti 29 ára gömul stúlkukind að vera á tjúttinu. Það kemur bara seinna og mál að ná sér hressum af þessari pest. Reyndar voru ráðin frá hinum hjúkkunum alveg yndisleg ,, taktu bara verkjalyf og skelltu þér á djammið - þú dílar bara við veikindin á morgun" já þetta er sanni gamli góði slysóhjúkku andinn og ég er stolt af stelpunum.
Á döfinni er að ganga í hlaupahóp í Hafnarfirði til að halda hlaupunum áfram og verða massa flottastur á brautinni á næsta ári. Annars er maður bara heima meiri hlutann af mánuðinum og nú er mál að hlutir fari að gerast :)