27/09/2006

Kostulegir ferðamenn!
Þegar maður er mikið á ferðinni milli landa kemur maður sér upp ákveðnu hegðunarmynstri á flugvöllum og í flugvélum. Hjúkkan hefur haldið sig við það að hlutverk flugvalla og flugvéla sé ekki til þess gert að eignast vini og þar af leiðandi er engin ástæða til þess að tala við fólk sem maður ekki þekkir á þessum stöðum. Ekki myndi maður ganga upp að næsta manni í Hagkaup og spyrja hann hvað hann ætlaði að hafa í kvöldmatinn, einfaldlega vegna þess að hann væri í sömu verslun og þú. Svo er það týpan sem les yfir öxlina á þeim sem situr við hlið hans í flugvélum sem einnig flokkast undir einkennilega hegðun að mati hjúkkunnar. Það kemur þér einfaldlega ekki við hvaða einstaklingurinn í næsta sæti er að lesa á meðan það er ekki do-it-yourself bók um sprengjugerð um borð í flugvélum.
Á ferð sinni til Köben varð á vegi hjúkkunnar einmitt þessi ferðalangur sem hjúkkan kann lítið að meta. Fyrir það fyrsta vissu allir í fríhöfninni að þessum einstaklingi fannst Queen vera besta hljómsveit allra tíma. Viðkomandi hafði komist yfir tónleikadisk frá Wembley með bandinu og var að velta því fyrir sér hvort hún ætti að kaupa hann eða ekki. Hún spurði fjölmarga er áttu leið um svæðið hvort þetta væri ekki örugglega tekið upp áður en Freddie dó, því það væri bara ekki saman bandið eftir það!!!!!!! Þegar hjúkkan steig svo upp í vélina sá hún sér til lítillar hamingju að þessi einstaklingur sat við hlið hennar alla leiðina til Köben. Jú einstaklingurinn var greinilega nokkuð ómótt í fluginu og vildi mikið spjalla og reyndi m.a. annars að ræða þau skjöl sem hjúkkan var að lesa á leiðinni út. Mjög kurteisislega og á einstaklega penan hátt "sofnaði" hjúkkan fljótlega og gat þar af leiðandi komist hjá frekari samskiptum við þennan einstakling.
En þið megið alls ekki halda að hjúkkan hafi verið dónalega eða hranalega í viðmóti, bara hafði engan áhuga á því að tala við þennan einstakling sem er örugglega besta skinn og vildi vera í friði á fluginu.

23/09/2006

Rokkandi ofurhjúkka!
Í gær var haustskemmtun í nýju vinnunni og hjúkkan lét plata sig í smá skemmtiatriði eins og vera ber á svona kvöldi. Ofurhljómsveitin SúperVistor var að leita að nýjum talentum og því var hörð keppni háð innan fyrirtækisins um heiðurinn. Rokkband hjúkkunnar komst þó ekki áfram í undanúrslit og töldu meðlimir bandsins að um kosningasvindl væri að ræða, enda var þarna ofur rokkara hópur að blómstra. Í kvöld var svo þrítugsafmælið hjá Braga sem var ótrúlega flottur í Bósa ljósár búning í kvikmynda þema afmælinu.
Annars hefur hjúkkan verið nokkuð róleg í verlsunartíðinni eftir ofurferðina í síðustu viku enda skartar hún fjölda fallegra skópara í augnarblikinu. Á morgun er það svo Köben í nokkra daga og lítill tími til verslunar og hittings við vini og kunningja í danaveldi vegna stífrar dagskrár. Að öðru leyti er hjúkkan í góðum gír og bara nokkuð ánægð með lífið og tilveruna enda engin ástæða til annars.

15/09/2006

Retail therapy!
Hvað gerir ung kona á uppleið þegar hún hefur komist í gegnum mjög svo krefjandi aðstæður?? Jú hún beitir einhverri þeirri bestu meðferð sem einstaklingur á skilið eftir erfiða atburði. Retail therapy er ótrúlega góð leið til þess að verðlauna sig þegar manni finnst maður hafa staðið sig vel og komist yfir ákveðna hjalla.
Eftir mjög erfiða síðustu daga, samfellda vinnutörn í 3 vikur og þar á meðal eitt Dale námskeið lá leið hjúkkunnar í Smáralindina eftir vinnu. Hún var búin að gera sér í hugarlund hvernig verðlaunin áttu að líta út og nú var bara að vona að þau væru til. Yfirleitt er það þannig þegar maður fer í verslanir með það eitt að leiðarljósi að kaupa eitthvað, finnur maður ekki neitt. Hjartað fór að slá örar eftir því sem hjúkkan nálgaðist skóbúðina og hún hugsaði með sér að hún ætti þetta svo sannarlega skilið. Jú viti menn um leið og hjúkkan gekk inn í skóbúðina blöstu við henni hvert annað skóparið sem var eins og klippt úr huga hennar. Það tók hjúkkuna ekki langan tíma að máta fyrsta parið og ákveða örlög þess. Af þekktri ákveðni gekk hjúkkan rösklega til verks og mátaði þau skópör sem höfðu kallað svona fallega til hennar. Jú eftir um 10 mínútur í búðinni gekk hjúkkan glöð í bragði út með stóran poka og skælbrosandi afgreiðslustúlku fyrir aftan sig. Afgreiðslustúlka hafði orð á því hversu rösklega hjúkkan tók ákvarðanir inni í versluninni og örlaði á öfund af hennar hálfu. En eins og Jóa hjúkkusystir veit, þá verslar hjúkkan best undir pressu. Nú er hjúkkan glöð og ánægð með nokkur pör af auðvitað mjög nauðsynlegum nýjum skóm.

09/09/2006

Full sjálfsálits!
Þessa dagana er hjúkkan á Dale Carnegie námskeiði á vegum vinnunnar. Hún fór á námskeiðið með fyrirfram myndaðar skoðanir um þetta allt saman og var eiginlega ekki að sjá hvað hún hefði að gera á svona samkomur. En viti menn - þetta er nú bara hin mesta skemmtun og heilmikið krefjandi. Síðasti dagurinn er á morgun enda er námskeiðið keyrt stíft á 3 dögum í stað 12 vika!
Annars hefur nóg verið að gera hjá stelpunni, hún kom heim frá Barcelona s.l. miðvikudagkvöld og var á flakkinu á fimmtudaginn, svo byrjaði námskeiðið á föstudaginn. Barcelona var æðisleg, sá litli hluti sem hjúkkan náði að sjá. Veðrið var dásamlegt og maturinn ógleymanlegur. Leiðindin í ferðinni urðu á leiðinni út sem lá í gegnum Heathrow. Mér finnst mjög gott að icelandair er ekki lengur með leiðindi varðandi handfarangur manns en þeir mega nú alveg benda manni á þau leiðindi sem enn eru í London ef maður heldur áfram þaðan. Sem sagt voru töskurnar tékkaðar alla leið til Barcelona og átti hjúkkan bara að fá boarding card í London og halda ferð sinni áfram. En NEEIII einhver flugvallastarfsmaður á valdatrippi ætlaði að hirða allar snyrtivörur af hjúkkunni. Ekki bara maskarann, varalitina og krem eins og auglýst var - heldur líka púðrið, augnskuggana og eyelinerinn. Hjúkkunni tókst með mikilli snilld að fara í annað öryggischeck og komst óáreitt í gegnum það hlið með allar snyrtivörurnar sínar. Þetta segir auðvitað meira en nokkur orð um hæfni og árangur þessa annars ágætu öryggishliða á Heathrow. Svo þegar um borð var komið (með BA) fékk hjúkkan "afternoon tea" á glerdisk og stálhnífapör. Þetta er auðvitað fáranlega falskt öryggi þessi öryggishlið á þessum annars frekar súra flugvelli!!!