25/02/2009

Slæmar ákvarðanir!
Hjúkkan er á smá ferðalagi um norðanvert landið þessa dagana og hefur því gist á hinum ýmsustu gistihúsum og hótelum undanfarnar nætur. Í upphafi ferðar ákvað stelpan að tanka í Borgarfirði og skrapp inn í Hyrnuna í leiðinni. Þar sá hún í hillu bókina Harðskafa eftir Arnald Indriða. Hjúkkan fékk tvær eldri bækur eftir hann í jólagjöf og fannst það hins skemmtilegasta lesning og ákvað því að skella sér á nýju bókina og njóta þessa að lesa hana í sveitinni. Fyrsta nóttin var tekin á Hótel Tindastóli á Króknum þar sem einungis einn annar hótelgestur var fyrir utan hjúkkunnar. Hótelið er pínu dimmt og með svona gamaldags stemningu þar sem brakar í gólfum og mikið heyrist milli herbergja - þar hófst lesturinn. Ok smá hræðsla því það er svolítið mikið um drauga í nýju bókinni. En allt bjargaðist og stúlkan svaf vært. Næstu nótt var eytt í sumarhúsi við bakka Blöndu á Blönduósi. Nú var veður orðið nokkuð vont - rok og snjókoma úti og lítið skyggni milli húsa. Hjúkkan greip í bókina og hugsaði sér gott til glóðarinnar..... nema hvað þegar á leið lesturinn var nú hjúkkan orðin svolítið hrædd og mjög vör við það að hún var ein í sumarbústað, í vondu veðri, bústaðurinn nötraði í verstu vindkviðunum og langt frá heimabyggð!!!! Þetta var kannski ekki besta ákvörðunin í ferðinni að lesa þetta kvöld þar sem það tók nokkra stund að sofna eftir allan draugaganginn í bókinni. Nú er svo spurning hvernig þetta fer í nótt en það er lítið að hafa áhyggjur af hér á Akureyri enda fer ansi vel um hjúkkuna á KEA. Þetta er búinn að vera ansi góður bíltúr og það verður yndislegt að komast aftur í ró og næði í kotinu heima :)

17/02/2009

Glæsileg að vanda!
Já það er aldeilis kominn tími til að hjúkkan láti aðeins frá sér heyra. Svona er það samt um leið og Bláfjöllin opna - þá flytur hjúkkan lögheimili sitt þangað tímabundið :) Hjúkkan vinnur eins og vindurinn þess á milli sem hún hleypur eða skíðar að ógleymdum stuðningi hjúkkunnar við efnahagskreppuna með smá verslun.
Svona til að byrja aftur og koma brosi á varir lesenda verður hér sett fram smá frásögn af fundi sem hjúkkan sat. Hún var þar ásamt sínum yfirmanni og 5 sérfræðingum vegna verkefnis sem er í startblokkunum. Að fundinum loknum stendur hjúkkan upp og fær ósköp fallega athugasemd frá einum fundarmannanna. Nema hvað að þessu átti hjúkkan ekki von og fór eiginlega í smá panik aldrei þessu vant. Hún fór í smá kleinu og gat eiginlega ekki svarað og endaði á því að stama eitthvað upp úr sér og ætlaði bara að setjast glæsilega aftur á stólinn. Ekki tókst betur en svo að í panikkinu áttaði hjúkkan sig ekki á því hversu nálægt yfirmanni sínum hún stóð og við það að setjast niður skallaði hún yfirmanninn!!! Ó já sem betur fer þekkjast allir vel sem voru á fundinum og hjúkkan gat helgið að þessu öllu og aðrir fundarmenn einnig. Þannig að vittu til kæri lesandi - þó einhver hæli manni fyrir glæsileika er ekki málið að panikka og skalla yfirmanninn sinn :)