27/06/2005

Snilldar London!
Ofurhjúkkan átti alveg hreint yndislegan tíma í London ásamt móður sinni og systur. Þar var auðvitað verslan í heimabyggða þar sem Baugur virðist eiga u.þ.b. aðra hvora verslun á Oxford Street og Mosaic hina þannig að hjúkkan var í raun og veru að styrkja íslensku krónuna með verslunar þátttöku sinni. Mæðgurnar ógurlegu skelltu sér einnig á West End og sáu alveg hreint brilljant uppsetningu á Lion King. Svo var auðvitað verslað aðeins meira og nokkrir öl drukknir. Hjúkkan datt um illmennið, kaffidvergfinn og Stjórann á Paddington stöðinni og átti með þeim mjög góða stund yfir nokkrum köldum. Sem sagt bara snilld og almenn hamingja. Hjúkkan á meira að segja von á því að verða valin viðskiptavinur mánaðarins hjá VISA Electron og hjá Kreditkort h.f. - ekki slæmur árangur það. Það kom sem sagt í ljós þegar til London var komið að á þessum tíma voru sumarútsölur út um allt. Sem dæmi fékk hjúkkan "shopping - sign " inni í MNG þar sem ólin á töskunni hennar slitnaði. Hvað voru merkin að segja henni annað en að hér ætti hún að kaupa sér næstu tösku- og hún er svo pretty!!
Hjúkkan meldaði sig fjarverandi í saumaklúbbinn sem haldinn var í Hafnafirðinum og svo virðist sem hún hafi einnig misst af nokkrum góðum sögum og fréttum. Er það rétt sem hjúkkan les milli lína hjá ykkur píur - fullt af litlum saumaklúbbskrílum á leiðinni??? Ef svo er þá óska ég ykkur (þið vitið hver þið eruð) alveg þúsund og einu sinni til hamingju með bumburnar :)

20/06/2005

Jólalög og hitabylgja!
Ofurhjúkkan hefur smá áhyggjur af andlegri heilsu þessa dagana þar sem hún situr við tölvuna og hlustar á jólalög!!! Í góðum fíling syngur hún með - Ó Heeellga nótt og heeiiiilaga nóóóótt. Í góðum fíling enda er hún heim heima. Annars voru þær fréttir að berast til hjúkkunnar að það væri hitabylgja í London og hitinn um 30° C - ekki leiðinlegt að vera á leiðinni þangað.
"Þessu nennir maður kl 05 á næturnar!!"
Ofurhjúkkan er að ofurhjúkkast þessa helgina og eyðir nóttum sínum á slysadeildinni í félagsskap annarra ofurhjúkka. Til þess að drepa þann litla dauða tíma er myndast stundum er oft sest niður og spjallað um heima og geima. Ein umræða sem kom upp síðustu nóttina af þremur snérist um það hvað maður nennir að gera kl 05 á næturna. Það var reyndar fátt sem kom upp í hugann en þó náðu nokkur atriði inn á listann - sem ekki er hægt að birta hér sökum eðils þessara atriða. En sem sagt mjög skemmtileg umræða :) En svo kom pælingin - ef maður nennir þessu ekki kl. 05 á næturnar - hvernær nennir maður þessu þá?
Nú eru bara 2 dagar þar til ofurhjúkkan ætlar að skella sér til London ásamt mömmu gömlu og einni systurinni. Búið er að bóka hótel í göngufæri við Bond Street og hjúkkan er byrjuð að hita upp kreditkortið sitt. Stefnan er tekin á verslun, mat og jafnvel eina sýningu á einhverju skemmtilegu.

17/06/2005

Þjóðhátíðarþunglyndi!
Ofurhjúkkan er nú ekki ofurkát í dag á sjálfan Þjóðhátíðardaginn. Ástæðan fyrir þessu ástandi er vinnulag hjúkkunnar í dag og um helgina og er hún almennt að farast úr sjálfsvorkun yfir þessu öllu. Jú jú á heitasta Þjóðhátíðardegi síðustu áratuga mætti hjúkkan auðvitað fersk á morgunvaktina, til þess eins að klára hana og drífa sig heim að sofa því næturvaktin er framundan. Eftir mikla áreynslu við það að reyna að sofna og alveg enn meiri sjálfvorkun ákvað hjúkkan að færa sig um set - sem var alveg ekki góð hugmynd!! En svona eru nú hugmyndir og ákvarðanir sem teknar eru í sjálfsvorkunnar ástandi. Sem sagt hefur hjúkkan enn sem komið ekkert náð að sofna fyrir næturvakt sem að öllum líkindum verður þar að auki skelfileg :( Hjúkkan brá á það ráð að hringja í vini sína til að fá almennt samþykki fyrir sjálfsvorkuninni sem var góðfúslega veitt af hjónakornunum í Kúrlandinu - og kann hún þeim bestu þakkir fyrir andlegan stuðning. Nú er stefnan tekin á sófann og vonandi næst einhver smá blundur. Að öðru leyti er það bara - Hæ hó og jibbí hey, það er komin 17.júní :)

12/06/2005

Hvað er betra?
Hvað er betra en að drífa sig á fætur kl. 07:30 á sunnudagsmorgni og labba niður Laugarveginn í þeirri veiku von að Fabio hafi ekki orðið fyrir barðinu á drukknum einstaklingum nýliðna nótt? Jú það er er enn betra að finna bílinn heilan á húfi og skella sér upp í hann og keyra sem leið liggur í vinnuna. Það er alveg einstaklega róandi að keyra á götum Reykjavíkur á þessum tíma, ekkert nema leigubílar á ferð og fólk í misfersku ásigkomulagi. Svona byrjaði sem sagt þessi brilljant dagur í dag hjá hjúkkunni. Gærdagurinn var bara snilld - skellti sér á stubb í vinnuna, fór í sund og fékk enn fleiri freknur sem var nú alveg óþarfi!!! og svo var að kvöldmatur á Energia og loks bíó. Fór að sjá Monster - in - Law þar sem Jane Fonda sló í gegn sem ótrúlega klikkuð tengdamamma. Eftir bíóið lá leiðin til Siggu í Fensalina þar sem Desperate Housewives var skellt í tækið og enn kaldur sötraður með. Þar sem hjúkkan og hjúkkuvinkonan voru báðar frekar þreyttar eftir langa viku lá leiðin heim og beint í beddann. Sem sagt party - on hjá ofurhjúkkunni þessa dagana!

09/06/2005

Ógurlega lítið að frétta!
Það er alveg einstaklega lítið að frétta af lífi ofurhjúkkunnar þessa dagana. Hún eyðir mestum sínum tíma í vinnunni og stefnir á alveg svaðalega huggulegt sumarfrí - enda búin að vinna af sér rassgatið á síðastliðnum vikum. Hún sér nú fram á góða tíma framundan með Duran Duran tónleikum og alls herjar gilleríi. Svo kannski hún kíki í heimsóknir til vina sinna sem hún hefur vanrækt sökum vinnufíknar og jafnvel að hún skelli sér í sund og sjái hvort hún komist aftur á sjéns í gufunni.
Svo er það spurningin hvort það verði ekki örugglega Júróvisionpartý í Jörfa 22. okt vegna 50 ára afmæliskeppni Eurovision. Nú verða allir að fara og kjósa í keppninni um besta Eurovision lagið!!! Áfram Ísland...

03/06/2005

Fabio er alveg að meika það!
Ofurjeppinn Fabio er sem nýr eftir góða yfirferð hjá Heklu. Þar fékk hann nýjar legur og bremsurnar voru teknar í gegn. Nú malar hann eins og hamingjusamur köttur og rennur mjúklega um stræti borgarinnar.
Þar sem maður er nú orðinn stoltur bíleigandi var ekkert annað í stöðunni en að þvo bílinn. Fróðir menn og konur mæltu með bílaþvottastöðinni Löðri í Kópavogi - voða sniðugt hægt að láta þvo bílinn og gera það sjálfur. Hjúkkan hefur ætíð verið mikið fyrir svona do-it-yourself og ákvað sem sagt að gera þetta sjálf. Í þessu dæmi stillir maður hnapp á mynd eftir því hvaða dæmi maður er að fara að þvo og þetta á sem sagt ekki að vera neitt mál. Hjúkkan sá að 1 og hálf mínúta kostuðu 100 kr og hélt þar með að hún ætti að eyða 1 og hálfri mínútu á hverri stöð. Samviskusamlega fór hún svona að og m.a sápaði bílinn í 1 og hálfa mínútu. Eftir þann tíma sást Fabio ekki en ofvaxin risasápukúla var komin í hans stað!!! Það tók sko meira en eina og hálfa mínútu að skola alla þessa sápu af!!! En það tókst fyrir rest og var bíllinn stórkostlega hreinn og fínn í kjölfarið. Ef maður fer með bílinn í bílþvottastöð er yfirleitt skilti sem stendur á að maður fái frían endurþvott ef maður er ekki ánægður með árangur þvottsins. Á stöðum þar sem maður gerir þetta allt sjálfur ætti að standa á skiltinu að ef maður er ekki ánægður með árangurinn getur maður bara sjálfum sér um kennt!!