28/03/2007

Flugdagurinn ógurlegi!
Í morgun fór hjúkkan á fætur kl. 04:30 að staðartíma. Fyrir ykkur sem þekkið geðprýði hjúkkunnar í morgunsárið þá getið þið rétt ýmindað ykkur hamingjuna á staðnum. Jæja eftir góðan kaffibolla kom leigubílstjórinn og skutlaði gellunni út á flugvöll í eitthvað sem átti að vera mjög einfalt og þæginlegt. Ne-hei sú var nú aldeilis ekki reyndin!! Fyrir utan að margir flugvallastarfmenn í Bandaríkjunum virðast halda að farþegar séu að fara í gegn til að þjónusta þá en ekki öfugt, þá tók veðrið til sinna ráða og rústaði dagsplaninu. Hjúkkan var komin út í vél og vélin farin frá flugstöðvarbyggingunni á réttum tíma, og loks rétt fyrir flugtak var bara drepið á vélinni og farþegum tjáð að Chicago flugvelli hefði verið lokað vegna veðurs og við þyrftum að bíða í vélinni á flugbrautinni þar til frekari fréttir bærust eftir klukkutíma. Jú þá var búið að opna aftur og bara klukkutíma bið í viðbót eftir nýjum flugtakstíma!!! Frábært þar var farið að þrengja óhuggulega mikið að fluginu frá Minneapolis til Bemidji sem var eftir Chicago legginn. Til að gera langa og leiðinlega sögu stutta þá komst hjúkkan til Mpls 4 klst eftir áætlun, missti af fluginu sínu og fékk nýtt flug með 6 tíma bið á flugvellinum. Því er þessi færsla skrifuð úr Northwest lounge-inu á flugvellinum. Það er farið að styttast í flugið, bara 3 tímar og spurning um að koma sér bara á barinn!!!
p.s. Hvar er síminn þinn?????

26/03/2007

New Orleans!
Já hjúkkan lagði aldeilis land undir fót í þetta skiptið og er þessi færsla skrifuð úti á verönd á hótelinu í New Orleans. Eitthvað er wireless netið ekki á ná tengslum inni á herberginu hjá stelpunni og því þarf hún alltaf að setjast út í sólina við tölvuvinnu sína. Þingið er eins og þessi dæmigerðu þing, fullt af mönnum í jakkafötum (dökkbláum eða svörtum) og konum í missmekklegum átfittum. Þar sem hjúkkan tók með sér ein 8 pör af skóm hefur hún haft í nógu að snúast að skipta um skó svo allir fái notið sín.
Hér er sól og blíða og hitinn á þæginlegu bili um 25°C. Miðbærinn lítur ágætlega út og eiginlega eins og ekkert hafi gerst hér, en um leið og maður er kominn út fyrir túrista svæðin sést eyðileggingin berlega. Í gær var farið í skoðunarferð um svæðið og þvílík og önnur eins eyðilegging er bara ólýsanleg. Húsin yfirgefin og ónýt, vatnalínur enn sjáanlegar á húsarústunum og allt í ofboðslegri eymd á svæðinum utan við miðborgina. Hjúkkan var mjög djúpt snortin yfir þessu öllu saman og eftir fyrirlesturinn í dag um þetta allt þá sá hún að við höfum ekki yfir neinu að kvarta á Íslandi.
Það er nú samt eitt og annað sem veldur kátínu hér og þar á meðal eru sjálf-niður-sturtandi klósett á ráðstefnusenterinu. Ef maður er heppinn nær maður að standa upp áður en klósettið sturtar sjálft niður en verði einhver töf á því og klósettinu finnst maður búinn að sitja of lengi, þá bara kemur köld og blaut gusan beint á bossann. Það er fátt meira hressandi en það ekki satt :)

22/03/2007

Þá er hún farin!
Nú er svo komið að hjúkkan er farin af stað til New Orleans með viðkomu í Bemidji á leiðinni heim. Þið sem ekki náðuð að hitta hjúkkuna fyrir ferðina, eruð bara óheppin og verðið vonandi heppnari þegar hún snýr aftur. Samkvæmt veðurspánni er gert ráð fyrir fárviðri hér á landi en 25 stiga hita í New Orleans, þannig að hjúkkan kemur örugglega útitekin, kaffibrún og frekknótt tilbaka - gleymum ekki þykka og hrokkna hárinu :)
Hafið það gott á meðan elskurnar..

17/03/2007

Kelukeppni!
Ekki er öll vitleysan eins en hjúkkan átti nú varla til orð yfir því hvað er hægt að misskilja hlutina á einfaldan hátt. Hjúkkan var búin að segja ákveðnum einstakling frá keilukeppni fyrirtækisins sem fór fram í gær í keiluhöllinn í Öskjuhlíðinni. Nema hvað að þessi yndislegi einstaklingur náði einhvern veginn að misskilja út á hvað keppnin gekk og var alveg á því að hjúkkan væri á leið í kelukeepni í Öskjuhlíðinni og var þó nokkuð að velta því fyrir sér hvernig svona keppni færi fram!!!!
Þegar hjúkkan fór nú að ræða þetta við einstaklinginn kom það í ljós að þessi misskilningur var búinn að vera á borðinu í viku en allir alveg pollrólegir yfir aðstæðunum. Ég held nú að ég yrði ekkert sérstaklega ánægð með það að minn væri á leið í kelukeppni á vegum vinnu sinnar og þess þá heldur að ég væri alveg róleg yfir þessu í viku!! Þegar hjúkkan fór nú að spyrjast fyrir því hvað manninum gengi til að halda þetta - þá var svarið einfalt... maður veit aldrei hvað þessum fyrirtækjum dettur í hug að gera :)

16/03/2007

Keilukeppni og vikuféttir!
Það rak ýmislegt á fjörur hjúkkunnar í vikunni og það sem stendur upp úr er auðvitað einstök hæfni hjúkkunnar til sjálfskaða. Hjúkkan var í ég-er-kona-og-get-allt-sjálf gírnum að setja saman bókaskáp í stofunni þegar hún þurfi eitthvað að færa dæmið til, rétt í upphafi aðgerða. Dæmið var enn í pakkningunum og ætlaði hjúkkan að vippa þeim af gólfinu og færa á annan stað í stofunni en það virkaði ekki betur en svo að skápurinn endaði ofan á öðrum fæti hjúkkunnar. Hjúkkan er nú enginn aumingi og lét sig hafa það og kom skápdruslunni saman enda stutt þar til hún átti að fara á vaktina á slysó. Heppilegt - bara láta strákana kíkja á fótinn í leiðinni. Jú á slysadeildinni var auðvitað góður maður að vinna sem finnst hjúkkan hættuleg sjálfri sér og umhverfi sínu og fannst auðvitað bara gaman að fá að skoða bágtið. Bágtið er nú að batna og hjúkkan getur gengið eðlilega en það var illmögulegt á mánudaginn. Nema hvað að þessi yndislegi læknir tekur vaktir á neyðarbílnum og þegar hann frétti af keilukeppninni sem hjúkkan er að fara að keppa í varð honum ekki um set. Nú er mikið verið að velta fyrir sér fjölda sjúkrabíla sem þörf verður á, á meðan keppninni stendur í keiluhöllinni í kvöld.
Keppnisliðin hér innanhús mega ekkert vera að því að vinna í dag, enda er verið að undirbúa búninga og keppnisáætlanir enda mikið í húfi. Hvaða einstaklingur með heilbrigðan metnað vill ekki verða Vistor-meistari í keilu 2007????
Að öðru er helst að nefna að litla prinsessan verður skírð um helgina og bíður hjúkkan auðvitað eftir nöfnu sinni, tel það samt eitthvað frekar ólíklegt :) Hafið það gott um helgina og látið ekki sjá ykkur nálægt keiluhöllinni í kvöld enda verður þar viðbúnaðarstig vegna keilukeppninnar :)

11/03/2007

Strákakvöld!
Hjúkkan fór á brilljant strákakvöld með Höskanum á laugardaginn. Geimið byrjaði á knæpu þar sem bikarleikurinn var litinn auga. Sem betur fer náðu okkar menn jafntefli, betra en að tapa alla vega - nema hvað að nú þarf maður að horfa á seinni leikinn líka. Eftir boltann lá leiðin í borgara á Vitabarnum og komst hjúkkan að því að hún var sennilega síðasta manneskjan á stór-höfuðborgarsvæðinu sem hafði aldrei bragðað á gleym-mér-ei hamborgaranum. Þessi borgari er bara snilld, hvítlaukur - beikon - gráðarostur og franskar með kokteilsósu er hægt að hafa það meira subbulegt? Eftir nokkuð góða stund á Vitabarnum (sökum veðurs) lá leiðin á poolstofuna þar sem var fullt út úr dyrum. Því var síðasta korterið á Barcelona - Real Madrid leiknum tekið og svo farið upp á ölstofu þar sem ýmis mál voru plottuð.
Að lokum gafst hjúkkan upp og dreif sig heim enda orðin gömlu og klukkan var farin að ganga 2. Já það er af sem áður var að maður var að tjútta frameftir nóttu, nú vill maður bara komast heim í ból og hvíla sig. Kvöldið í kvöld var svo tekið á slysadeildinni þar sem smávægilegur misskilningur um vaktir komst upp þegar líða tók á vaktina, og ástæðan fyrir aukavaktinni fallin um sjálfa sig - skemmtilegt!!!
Nóg er framundan í vikunni, farið að styttast í New Orleans og Bemidji ferðina góðu - þá fær fólk frið frá hjúkkunni í 10 daga, nýtið því tímann þangað til vel og verið góð við stelpuna :)

02/03/2007

Byrjað á byrjunarreit!
Hjúkkan er í mikilli sjálfskoðun þessa dagana og þar sem hún var send heim af vaktinni á slysó í kvöld vegna flensudruslu sem virðist hafa komið sér fyrir hjá hjúkkunni er ekkert annað að gera en að velta sér rækilega upp úr lífinu! Mjög svo skynsamlegt þegar manni leiðist heima enda hetjan í ferðalagi með synina og engin til að leika við hjúkkuna.
Eitt af því sem hjúkkan veltir oft fyrir sér er þessi leyndi draumur og svo sem aðgerð sumra að fara á nýjan stað og byrja upp á nýtt. Ný borg, jafnvel nýtt land, ný vinna / skóli og nýir draumar. Hvernig væri það ef maður ætti einn sjéns á að byrja aftur á byrjunarreit - maður fengi sko bara eitt tækifæri til að gera þetta því annars væri hægt að misnota þetta. Hvað myndi maður geri öðruvísi en maður hefur gert nú þegar? Myndi maður kaupa fleiri skó eða vera duglegri að endurvinna hluti til dæmis? Já það eru aldeilis djúpar pælingar í vetrartíðinni í Dofranum.
Að öðru þá virðist engin lausn í sjónmáli á undarlega g strengs málinu og held ég að næsta skref sé að kalla inn miðil til að setja fund og komast í tengsl við týndu strengina.