20/08/2008

Hróp og köll á hótelherbergi!
Hjúkkan vaknaði snemma í morgun þrátt fyrir að vera stödd í Kaupmannahöfn og ákvað að taka sjénsinn og sjá hvort leikurinn væri í beinni. Viti menn Eurosport sýndi leikinn beint og hjúkkan ákvað að slá til og þenja taugarnar. Það var nú með sanni sagt - stelpan horfi á fyrri hálfleik, hljóp fram í morgunmat í hálfleikshléinu og var komin aftur inn á herbergi fyrir síðari hálfleik. Þegar mikið reyndi á hrópaði hjúkkan og kallaði hvatningarorð á sjónvarpið sitt, þess á milli fór hún inn á bað til að róa sig.... tók sem sagt nettan Óskar :) Það var nú orðið nokkuð tæpt að ná því að mæta á fundinn á réttum tíma en það var bara ekki hægt að fara fyrr en að leik loknum.
Danirnir biðu spenntir eftir sínum leik og voru ansi daprir þegar í ljós kom að þeir væru ekki að fara áfram í undanúrslitin - hjúkkan sýndi samhyggð og benti þeim á að nú gætu þeir bara haldið með Íslandi :)
Það sem var líka ótrúlega skemmtilegt við að horfa á leikinn á Eurosport voru dramatískar lýsingar bresku þulanna á íslensku leikmönnunum. Þeir áttu ekki til nógu sterk lýsingarorð yfir Sigfús Sigurðsson og bættu því við að þeir myndu ekki vilja mæta honum í dimmu sundi.....
Leiðin lá aftur heim í kvöld enda farið að styttast í Reykjavíkurmaraþonið. Á laugardaginn ætlar hjúkkan að "skokka" 21.1km til styrktar Heilaheill. Andlegi undirbúiningurinn er hafinn og nú er bara að taka Óla Stef á þetta allt saman :)

13/08/2008

Hreyfingaleysi í Ráðhúsinu!
Hjúkkan er nú sem fyrr ekki stödd á landinu þegar allt virðist vera á leið til fjandans eina ferðina enn í þessu endalausa klúðri borgarstjórnarflokkanna. Að mati hjúkkunnar ætti að nú einhver með viti að standa upp og segja öllu þessu liði til syndanna og koma á nýjum kosningum. Það er hvort sem er enginn stuðningur lengur við nokkurn mann eða konu í þessum hópi!!! Alveg með ólíkindum þessi endalausa saga. Ef þetta væri fyrirtækjarekstur væri löngu búið að kippa í taumana og snúa þessu við.
Hjúkkan situr nú á hótelinu sínu og er að horfa á kvöldfréttir á netinu. Síðast þegar hún vissi voru bara í mesta lagi 3 hæðir í ráðhúsinu..... af hverju í ósköpunum getur þetta lið ekki gengið upp stigana?? Eru þessir einstaklingar ekki með fætur og ekki allir svo voðalega fit, ný mynduð og glansandi fín? Það er hálf bjánalegt að fylgjast með öllu þessu liði ganga inn í lyftu til að fara alveg upp um eina hæð - úh eða alveg tvær! Já það er ekki laust við það að hjúkkan sé nett pirruð út af þessu máli og er svo hæst ánægð að hún býr í Fallega Firðinum og sér bara alls ekki ástæðu til þess að flytja aftur í borgina að svo stöddu.

10/08/2008

Best að vera ekkert að flækjast fyrir sjálfri sér!

Það er nú ekki á hverjum degi sem maður fær svona stjörnuspá:

Sporðdreki: Þú ert mjög aðlaðandi núna. Það erfiðasta sem þarf að gera til að viðhalda því er að gera ekki neitt. Ekki vera fyrir sjálfum þér, leyfðu náttúrulegu afli þínu að geisla.

Jahá - á maður þá ekki bara að skella sér út og njóta þess :)

06/08/2008

Raunveruleikinn á nýjan leik!
Hjúkkan er búin í sumarfríi og því hefur raunveruleikinn tekið aftur við. Það var nú bara ljúft að ganga aftur inn á skrifstofuna góðu og setjast í stólinn sinn. Auðvitað var himinn hár bunki af ólesnum pósti, tímaritum og greinum en það er eitthvað til að berjast við með haustinu.
Hjúkkan kláraði síðustu helgina í fríinu á smá flakki þar sem línuskautar voru teknir fram, útilegugírinn massaður og svo kíkt á Lovísu systir og fjölskyldu sem voru á Unglingalandsmótinu.
Í línuskautatúrnum komst hjúkkan að einfaldri staðreynd um eigin hæfni á línuskautum. Hjúkkan á erfitt með að beygja hratt en getur það þó - án þess að tapa miklum þokka! Hins vegar urðu nokkrar brekkur á leiðinni til þess að hjúkkan týndi smá þokka. Í fyrra brekkunni var gömul kona í skærbleikum jakka neðst í brekkunni... jú hjúkkan vissi af bremsu hæfileikum sínum og sá þann kost bestan að rúlla sér út á grasið til þess að lenda ekki á gömlu konunni og brjóta á henni mjöðmina. Þetta vakti nokkra kátinu hjá viðstöddum... Næsta brekka var eiginlega verri! Jú ekki var bara ein gömul kona heldur var hún að keyra enn eldri konu í hjólastól og til að gera illt verra - þá endaði brekkan í beygju!! Nú voru góð ráð dýr.. íþróttaálfurinn rúllaði niður brekkuna eins og fagmaður en hjúkkan panikkaði og stímdi að þessu sinni inn í runna. Jú maður getur ekki verið þekktur fyrir að keyra niður tvær gamlar konur ( plús hjólastólinn )!!! Þokkinn var ekki mikill yfir hjúkkunni þegar hún steig út úr runnanum aftur, hún brosti blíðlega til kvennanna tveggja, bauð þeim góðan daginn og kom sér af stað niður brekkuna. Ekki vakti þessi frammistaða minni kátinu en sú fyrri!!! En allt endaði vel og hjúkkan komst heil heim.
Nú fer að líða að Köben og svo hlaupinu langþráða - en stelpan er komin með 3 markmið fyrir hálf maraþonið sem á að takast á við... Þetta á allt eftir að ganga upp og hjúkkan bíður spennt eftir haustinu.