31/10/2004

Snillingurinn!
Ofurhjúkkan var valin ofurhugi næturinn af hennar eigin hálfu. Snillingurinn sem ofurhjúkkan er ákvað að reyna að lyfta 140 kg einstakling ein og sér - því ofurhjúkkan getur jú allt sem fyrir hana er lagt. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um þessa hetjudáð að öðru leyti en því að nú er ofurhjúkkan að drepast í bakinu og einstaklingurinn haggaðist ekki úr stað.
Síðasta nóttin í maraþoninu er í nótt og hugurinn er bara þokkalega vel stemmdur. Vissi til dæmis í dag hvaða dagur væri og nokkurn vegin hvað ég héti, hvar ég ynni og að mér væri illt í bakinu! Eintóm snilld að vera að verða búin með þetta allt og hamingjan verður mín í vikunni.

29/10/2004

Næturdrottingin!
Ofurhjúkkan hefur breyst í næturdrottningu helgarinnar frá og með síðustu nótt. Fyrsta nóttin var fín og meðal annars það sem bjargaði málunum var snillingurinn sem kom með ofurmyndina Top Gun og skellti henni í tækið. Þessi mynd hefur að geyma einhverjar þær bestu setningar sem sögur fara af. Þar á meðal eru línur eins og ,, Your ego is writing checks your body can´t cash" og setningin sem allir varnarmenn hafa í huga ,, Never leave your wingman"! Tom Cruise er ungur foli í myndinni - varla farið að vaxa skegg hvað þá heldur bringuhár, en það skemmir ekki fyrir neinu. Önnur folamynd sem ofurhjúkkan bráðnaði yfir í fyrradag var Troy. Fyrir þær konur sem ekki hafa séð myndina þá mæli ég tvímælalaust með henni. Úff það var bara meira að segja erfitt að velja á milli hver folanna væri mesti folinn. Brad Pitt, Eric Bana og Orlando Bloom saman í mynd er hin mesta skemmtun fyrir augað.
Nú er stefnan tekin á að drífa sig í Smáralindina eða á einhvern stað það sem fólk er til að gleyma því ekki hvernig aðrir en vinnufélagarnir líta út.

27/10/2004

Nýtt look á ofurhjúkkunni!
Já viti menn - rauðgullnu lokkarnir fengu að fjúka á mánudaginn og nú er hjúkkan komin með töluvert stutt hár. Þetta var allt saman fyrirfram ákveðið og stemningin eftir breytinguna er gífurleg. Það mætti halda af þeim viðbrögðum sem maður hefur fengið að hárið hafi verið illa slappt undanfarin áratug eða svo. Alla vega er mikil hárgleði í gangi þessa dagana á Kambsveginum.
Af því að vikan var ekki nægilega upptekin fyrir hjúkkuna þá ákvað hún að bæta við sig einni næturvakt - bara svona af því það vantaði mannskap á vaktina. Þannig að heilar 4 nætur í röð verður næturdvölin á slysadeildinni og ég á von á því að geðprýðin verðin einnig eftir því. Nú er hins vegar ógeðslega kalt úti og tími til að skella sér í sófann með teppi og láta sér líða vel.

24/10/2004

Til hamingju með daginn!!!
Dagurinn í dag er mikill gleðidagur í lífi ofurhjúkkunnar. Sá einstaklega skemmtilegi atburður átti sér stað á Old Trafford að Manchester United lagði Arsenal 2-0 í ensku deildinni. Mikil gleði og hamingja braust út í hjarta ofurhjúkkunnar og biður hún sem flesta að hafa það gott sem eftir líður dagsins!! Áfram Man Utd!!!!!
Stuð og puð!
Þetta eru einkennisorð síðastliðna daga hjá ofurhjúkkunni. Vikan einkenndist af allskonar rugli í vinnu og utan hennar og almennt var þetta mikið stuð. Það er samt eiginlega skelfilegt þegar maður man ekki hvað maður gerði skemmtilegt fyrir utan það að vera í vinnunni. Átti reynar hjúkkumóment ársins og tvíefldist í hjúkruninni fyrir vikið. Ofurhjónin Svana og Binni áttu leið um Kambsveginn í gær þar sem grillað var dýrinis kusa og viðeigandi meðlæti rann mjúklega niður. Að því loknu var auðvitað kaffi og með því og svo var sofið út daginn eftir. Þetta haust er eitthvað svo skemmtilegt í lífi hjúkkunnar að annað eins hefur varla rekið á daga hennar. Það besta er þegar maður gerir sér grein fyrir því hvað gjörsamlega ómerkilegir hlutir geta vakið gleði og hamingju í litlu hjarta.
Kvöldið í kvöld var tekið í vinnunni þar sem ofurhjúkkan jarðaði samstarfsmenn sína í áti á kínverskum mat og íslensku súkkulaði - að ógleymdu diet kókinu. Eftir vaktina lá leiðin til Ingu og Svönu á Vegamótum þar sem stuðið hélt áfram uns heim var komið og pizzan beið heit og fín. Tennis á morgun og nettur helmingur kvöldvaktar sem á eftir að líða hratt. Vikan framundan verður gífurlega klikkuð hjá samningarnefndarhjúkkunni og klipping er einnig á dagskránni. Sem sagt Góðar Stundir!
Afmælikveðjuna fær Jóhann flugmaður sem átti afmæli s.l. föstudag - til hamingju með daginn!

18/10/2004

Afslöppun og ánægja!
Þetta voru einkunarorð helgarinn sem leið. Eftir svolítið klikkaða vinnutörn þar sem ég var meira að segja hætt að geta sofið milli vakta, var helginni eytt í sumarhúsi í Brekkuskógi. Þetta reyndist hin besta ákvörðun að leigja þetta hús og stefnan var tekin á aflöppun og það að eiga ánægjulega stund með sínum nánasta. Eftir vaktina á fimmtudaginn var pakka, verslað og bruna úr bænum. Hefðum kannski átt að athuga betur ástand bílsins því eftir því sem lengra dró á ferðina varð sífellt kaldara í bílnum. Eins og glöggir lesendur geta séð var sem sagt miðstöðin ekki alveg í lagi. Hún er reyndar búin að vera föst á kaldasta blæstri í tæpt ár en það varð aldrei til vandræða í sumar, né seinni hluta síðasta veturs. Ofurhjúkkur gefast seint og illa upp þannig að flíspeysan var breytt í kjöltuna og stigið aðeins fastar á bensíngjöfina. Steikin var grilluð fljótlega eftir komu og þreyttir og kaldir ferðalangar átu á sig gat. Annars var annað þema helgarinnar fiskur! Já það er alveg rétt - fiskur. Málið var að síðasta stopp úr bænum var hjá fiskmiðlara sem fyllti bílinn af humri, skötusel, bleikju og steinbýt og allt þetta var grillað og etið með bestu lyst. Ekki skemmdi heldur hvítvínið sem fékk að renna niður með fisknum. Sunnudagurinn fór í aðeins meiri afslöppun, meira að segja voru 3 rjúpur á veröndinni að chilla án þess að skeita þess mikið að við vorum á staðnum. Í staðinn skitu þær mjög mikið!! Bærinn kallaði og vinnan og fundir tóku við í dag. Sem sagt er lífið komið aftur í sitt vana horf.
Afmæliskveðju dagsins fær manns nánasti sem er nú ári eldri en hans nánasta.

13/10/2004

Braut regluna!
Það tók mig ekki langan tíma að brjóta þá einu reglu sem ég hafði sett mér um helgina. Andstætt Kjánanum þá snérist þessi regla ekkert um áfengiseiningar né almenn skemmtannaheit heldur vinnufíkn. Ég var búin að setja mér það að láta aldrei meira en 8 tíma líða milli vakta, en í dag braut ég regluna. Morgunvaktin var ljúf og eftir hana skellti ég mér á samningatækni námskeið sem ég rúllaði upp. En þar sem ég þarf ekki að mæta aftur til vinnu fyrr en í fyrramálið hafa liðið 16 tímar frá síðustu vakt þegar ég mæti. Þetta er auðvitað hneyksli!!! Ekki tekur betra við um helgina þar sem stefnan er tekin á sumarbústað og almenna afslöppun í heitum potti.
Tók meðvitaða ákvörðun um að sleppa því að fara á völlinn í kvöld - vegna almennrar þreytu og gífulegrar meyglu. Veit samt ekki hvað ég var að spá að missa af því að sjá Freddy og Henrik í action!! Þetta er merki um mikla andlega hnignun!

12/10/2004

Nýtt mottó!
Nýja mottóið mitt þessa dagana er að láta aldrei meira en 8 klst líða milli vakta! Þetta mottó er alveg að ganga upp þar sem í einhverju bjartsýniskastinu ákvað ég að taka aukavakt síðustu nótt. Skreið heim um kl. 07:30 til þess eins að fara að sofa til að mæta í vinnuna kl. 15:30. Að lokinni þessari vakt um ég fara heim og sofa til þess eins að mæta í vinnuna í fyrramálið kl: 08. Ég held að ég þjáist af einhvers konar vinnufíkn eða bara einfaldlega að ég hafi gjörsamlega tapað því um helgina! Þeim sem vilja komast í samband við mig er bent á að hringja bara hingað á slysadeildina.

11/10/2004

Helgarruglið!
Helgarruglið fór nú mjög pent af stað með vinnu á föstudagskvöld. Eftir mikinn hamagang á vaktinni var ákveðið að skella sér heim í sófann og hanga yfir Skjá einum - ég get verið svo villt þegar ég tek mig til. Á laugardaginn var haldinn dótadagur hjá samstarfsmönnum okkar í SHS og dagurinn fór sem sagt í að leika sér með alls konar græjur sem slökkviliðið á. Þeim degi var svo slúttað á viðeigandi hátt með góðum mat og drykk. Þetta heppnaðist allt frábærlega og ég held að ég hafi ekki hlegið jafnmikið um ævina! Vaknaði svo við vondan draum á sunnudagsmorgun - jú 12 tíma vakt framundan!!! Komst ekki í tennis en dreif mig af stað á vaktina. Sökum ástands fannst mér ráðlegast að taka með mér ferðatannburstann sem ég fékk að gjöf um daginn og hann nýttist mér vel. Annars ætlaði þessi ágæti dagur engan endi að taka. Meðvitundin og heilsan jukust jafnt og þétt yfir daginn og loks var vaðið í einn Heavy Special frá stylenum í kvöldmat!
Í dag er stefnan tekin á einn samninganefndarfund og þar fyrir utan almenna afslöppun. Hafði í einhverju ruglinu um daginn ákveðið að taka aukavakt í nótt þannig að ég held að ég fái mér meira að segja blund með.

08/10/2004

Brilljant kvöldstund!
Ofurhjúkkan átti með eindæmum skemmtilega kvöldstund í gærkvöldi þar sem saumaklúbburinn var saman kominn á Kambsveginum. Að ósk megabeibsins var franska súkkulaði kakan bökuð og borin fram ásamt ýmsu góðgæti. Það er dásamlegt þegar hópur kvenna kemur saman, drekkur aðeins of mikið kaffi og borðar of mikinn sykur. Auðvitað fara umræður að snúast um hin ýmsu handverk sem hægt er að nýta til að stytta sér stundirnar. Það var mikið hlegið og hlegið ansi hátt á tímabili. Ein af snilldunum sýnir muninn á körlum og konum því þarna voru 6 konur að tala á sama tíma og hlusta hver á aðra, án þess að nokkuð af upplýsingunum týndust.
Já 3 bollar af kaffi og nokkur glös af diet kóki eftir kl. 21 á kvöldið bjóða bara upp á eitt - andvöku nótt!!!
Hlutir sem pirra mig í farin annars fólks!
Undanfarna daga hef ég orðið vitni af frekar pirrandi hegðan hjá öðru fólki, og til þess að get it out of my system ákvað ég að deila þessum upplýsingum með ykkur.
- fólk sem hringi í skakkt númer og byrjar á því að að segja "Hvar er þetta". Að því loknu rífst það við mann um það hvort viðkomandi hafi í alvöru hringt í vitlaust númer eða skilur bara ekkert af hverju það fékk ekki samband við Pfaff!!!!! Fram að þessu hefur þetta sloppið en gamla konan sem hringdi kl. 08.09 í morgun fær ekki frá mér jólakort í ár!
- fólk sem bíður ekki í röð eins og allir aðrir. Þessi einstaklingar eru réttdræpir í mínum huga! Hvað gerir þetta fólk betra en okkur hin og verður til þess að þau geta troðið sér fram fyrir raðir og reynt að nota bílaverkstæðis-múvið (blikk, blikk og hárið hrist).
Fleira var það reyndar ekki í bili en ég get örugglega fundið fleiri hluti innan skamms. Góðar stundir :)

06/10/2004

Nýr maður í mínum (tennis)draumum!
Ég hef ekki verið þekkt fyrir að falla fyrir ljóshærðum né hvað þá heldur rauðhærðum mönnum en sú tíð er hér með liðin. Þó svo að maður búi nú með einu mesta karlmenni Íslandssögunnar þá verð ég nú að segja að Paul Bettany er nýi maður drauma minna. Sökum einskærs áhuga á tennisíþróttinni fór ég að sjá myndina Wimbeldon í kvöld ásamt Maríu systur og fjölda annarra kvenna. Paul Bettany leikur sem sagt í þessari annars brillant chickflick ásamt Kirsten Dunst. Fram að þessu hefur þessi ágæti leikari ekki gert neitt fyrir mig en að sjá hann í tennisgallanum var mindblowing! Er reyndar ekki alveg viss um tennishæfileika hans í raunveruleikanum en alla vega lítur hann nógu vel út í gallanum. Ég mæli með þessari mynd fyrir allar konur þarna úti sem vilja fá gott útsýni eina kvöldstund.

05/10/2004

Illa sybbin!
Ofurhjúkkan er illa sybbin í augnarblikinu. Ein næturvakt til viðbótar varð að tveimur og á milli þeirra kom ein kvöldvakt. Til að gera langa sögu stutta er vaktin búin að standa frá því kl. 15:30 í gærkvöldi og nú er klukkan 06:45 - bara 45 mín þangað til maður getur farið heim og sofið!! Hvorki djúpar né heimspekilegar pælingar komu fram í nótt - held að það sé vegna þreytu. Ef ég vakna aftur þá læt ég í mér heyra. Megi mig dreyma vel og lengi frameftir deginum í dag.

03/10/2004

Heilabilun á næturvakt!
Það eru margar forvitnilegar spurningar sem vakna hjá manni á næturvöktum. Síðastliðnu nótt voru nokkrar pælingar settar fram og í sumum tilvikum var lítið um svör.
- sést Alþjóðageimferðastöðin frá jörðinni? Þessi hugsun kom fram þegar óljóst ljós á himninum vakti áhuga starfsfólks. Endaleg niðurstaða á þessum pælingum var sú að hér var annað hvort um að ræða geimverur eða jafnvel bara plánetuna Venus??
- þar sem Bandaríkin eru á eftir okkur hvað varðar tímabelti, hvers vegna var bjart í vesturátt en ekki austurátt á ákveðnum tímapunkti? Mjög augljós skýring lá við þessum pælingum, starfsfólkið var einfaldlega ekki mjög gott í að segja til átta!
Fleiri mjög framandi pælingar komu fram en sökum þreytu og heilabilunar man undirrituð ekki eftir þeim eftir góðan svefn.
Ein næturvakt eftir og það er aldrei að vita nema mikla pælingar verði einnig til í nótt. Meira um það síðar.

02/10/2004

Komið af sínu léttasta skeiði!
Gærkvöldið var mjög áhugavert fyrir nokkrar sakir. Eftir gott málþing hjá fagdeild bráðahjúkrunarfræðinga voru nokkrar hetjur sem ákváðu að skella sér á Players til að sjá Idol þáttinn sem sýndur var á stöð 2. Við renndum í hlað 21:20 og komum inn í þennan skrýtna heim til þess eins að sjá síðasta keppanda kvöldsins kveðja í tárum. Jæja þá var ákveðið að fá sér einn kaldan og spjalla. Ekki leið á löngu þar til hinar ýmsu týpur af miður áhugaverðum karlmönnum fóru að trufla okkur og vildu ólmir fá að vita allt um líf okkar. Þeim var pent bent á að leita á önnur mið. En það besta var að alla vega 3 þeirra spurðu okkur hvort við værum einstæðar - fráskildar mæður!!! Hann sagðist meira að segja eiga 2 systur sem væru einstæðar og bauð fram aðstoð sína til að hjálpa okkur að koma undir okkur fótunum og almennt meika það í lífinu. Honum var einnig þakkað pent fyrir boðið en það var ekki þegið.
Eftir alla þessa reynslu á þessum miðurskemmtilega stað lá leiðin í bæinn til að hrista af sér úthverfafílinginn. En þá tók ekki betra við!!! Thorvaldsen var fullur af fólki sem var almennt eldar en 40 ára, sama sagan var á Rex og einnig Apótekinu. Þetta leit ekki vel út og versnaði bara eftir sem á leið. Við enduðum á Kaffibrennslunni í stutta stund og svo lá leiðin heim - enda lítið spennandi að vera í bænum þegar árshátíð eldri borgara stendur yfir á öllum skemmtistöðum.
Tengsl mín við djammið í nótt verða þau að ég kem til með að taka á móti fólki af djamminu á næturvaktinni - gleði og hamingja alla leið!

01/10/2004

Vikan sem leið!
- var eiginlega ekkert spes! Hélt uppteknum hætti í vinnunni og bjargaði hundruðum manna frá sjálfum sér og öðrum. Nú er komin haustferða fílingurinn í mann. Væri ekki bara fínt að komast í svona eins og eina utanlandsferð til viðbótar, svona af því veðrið hefur verið svo leiðinlegt?
Enn og aftur er að koma helgi og mér sýnist allt stefna í rugl og vitleysu enn eina ferðina. Í kvöld er málþing hjá fagdeildinni þar sem ofurhjúkkan fær að tjá sig og að því loknu verður táin aðeins mýkt upp. Í fyrra var mikill hugur í hópnum eftir málþingið og ég held að stemningin verði ekki minni í ár. Eins og glöggir menn muna var þetta kvöldið sem ég ákvað að labba heim á 10 cm hælum - sem kostaði mig uppáhalds skóna mína. Note to self - taka leigubíl heim, annað er ekki sniðugt! Svo bíða nú tvær næturvaktir í Gleðibankanum það sem eftir líður helginni þannig að stemningin þá dagana verður eftir því. Stefni samt á hetjudáð og tennis iðkun á sunnudagsmorgun - maður getur alltaf haldið áfram að sofa eftir tennisinn.