28/12/2005

Hvað er að frétta?
Alveg bara ósköp lítið alla vega af hjúkkunni. Hún er búin að vera í vinnunni frá því um jólin og á langþrátt frí frá vinnu á morgun, bara einn fundur í rýnihóps vegna vaktavinnufyrirkomulags hjá ríkinu. Eftir vaktina í dag átti hjúkkan yndislega stund með sjálfri sér, pizzu og einum köldum yfir annars frekar skelfilegum leik sinna manna í Man Utd. Það er alveg magnað að liðinu gekk vel í þá leiki sem hjúkkan horfði ekki á -svo um leið og hjúkkan sest niður til þess að eiga góða stund yfir góðum bolta gera menn í buxurnar. Kannski er málið að hjúkkan fari bara að horfa á leiki hjá öðrum liðum til þess að hennar liði gangi betur og öðrum liðum verr. Þeirri staðreynd var laumað að hjúkkunni að flestum hennar liðum gengur nokkuð illa að fóta sig og hefur hjúkkan því verið að hugleiða að skipta um lið og fara að halda með FH og Chelsea. Með þessu móti og slæmum áhrifum af hjúkkunni verða þessi lið ekki meistara á leiktíðinni og "fyrrum" liðum hjúkkunnar ætti að vegna vel. Hjúkkunni finnst þetta alla vega hugmynd sem vert er að athuga betur!!!

26/12/2005

Gleðileg jól!
Hjúkkan vill byrja á því að óska vinum og vandamönnum gleðilegrar jólahátíðar. Hún er búin að troða í sig mat dag eftir dag og er við það að hætta að passa í fötin sín. Hún er búin að sofa (samt ekki nóg), fá góða vini í spil og eiga yndislega stund með Vöku og Braga í brúðkaupi þeirra á jóladag. Nú er svo komið fyrir hjúkkunni að hún getur ekki hugsað um mat án þess að verða þreytt og þurfa að leggja sig. Auðvitað hefur hún stundað vinnu sína milli átveislanna og verður reyndin sú sama það sem eftir líður vikunnar. Hjúkkan hefur blessunarlega verið laus við öll smá slys á sjálfri sér og vonandi verður það þannig það sem eftir líður þessa annars viðburðarríka árs. Vonandi eru allir saddir og hamingjusamir með góða jólahátíð og vonandi verða áramótin góð.

23/12/2005

Ótrúleg vika og Þorláksmessa!
Vika sem leið er búin að vera hreint og beint alveg ótrúleg hjá hjúkkunni. Hún er búin að vera að hendast milli staða og redda því sem reddað verður fyrir þessi blessuðu jól sem eru víst handan við hornið - ásamt því að vilja bara fresta þessum jólum um eins og eitt ár. Hjúkkan er búin að koma sjálfri sér á óvart með sérstakri iðnarafærni og er víst ósköp lítið sem hjúkkan getur ekki gert sjálf! Hún er búin að hengja upp og tengja rafmagnsljós, skúra, henda fortíðinni niður í geymslu, hengja upp myndir á veggi og fleira og fleira. Hjúkkan skellti sér einnig með saumaklúbbnum á jólahlaðborð sem var ekkert nema snilld. Að vísu ætti að fara að skíra saumaklúbbinn "óléttaklúbbinn" þar sem enn fleiri bætast í hóp þeirra sem eiga von á sér. Þetta virðist vera bráðsmitandi innan þessa hóps og grunar hjúkkuna nú að enn fleiri úr hópnum eigi eftir að koma út úr skápnum á komandi mánuðum.
Þorláksmessan fór í kvöldvakt á slysadeildinni og verður morgunvaktin tekin með stæl í fyrramálið. Jólabaðið verður tekið í vinnunni og svo er það beint í aftansönginn í Langholtskirkju og þaðan í jólamatinn til Maríu systur, Sigga mágs og auðvitað litla gullmolans ásamt foreldrunum. Ætli það sé þá ekki bara best að koma sér í bólið enda langur dagur framundan!

18/12/2005

Með Tuma tígur plástur á einari!
Hjúkkan varð fyrir smá slysi við uppsetningu á gluggatjöldunum sínum en eins og þeir sem hana þekkja þá reddaði hún málinu sjálf. EN þar sem hjúkkan á yfirleitt allt til alls kom að því að eitthvað klikkaði í kerfinu hjá henni. Hún á sem sagt einungis barnaplástra á heimili sínu - enda á hún svona líka mörg börn!!! Núna er hjúkkan sem sagt með Tuma Tígur plástur á fingrinum og er bara nokkuð stolt af plástrinum. Þar fyrir utan að bágtið batnar miklu fyrr með hjálp Tuma :)
Nú er flutningum endanlega að ljúka og einungis fyrirséðar 3 ferðir í IKEA fyrir jólin. Að öllum líkindum verða líka allar jólagjafir hjúkkunnar eitthvað svakalega praktískt sem fæst í IKEA. Söngurinn hefur þó átt allan tíma hjúkkunnar um helgina enda árlegir Jólasöngvar Kórs Langholtskirkju. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um snilldina sem þar er á ferð - en stemningin síðustu 3 tónleika hefur verið engu lík og fólk gengur tárvott um augun á blússandi skýi af tónleikunum. Þið sem klúðruðu þessu og komu ekki getið bara sjálfum ykkur um kennt en þið eruð að missa af miklu. Svo er jólahlaðborð First wives club á miðvikudaginn þar sem kampavínsmargaríta er einn af milliréttunum :)
Það er bara eitt sem hjúkkan á eftir að gera fyrir jólin og það er að kaupa allar jólagjafir!!! Hún heldur þó stóískri ró sinni og ætlar að skella sér í þetta næstu daga. Þangað til munið bara að hafa það sem allra best á þessum streitu mesta tíma ársins!

14/12/2005

Flutt í Fjörðinn!
Þá er hjúkkan loksins flutt í þann merka bæ sem kenndur er við Hafnarfjörð. Hún er eiginlega búin að koma sér fyrir, fyrir utan þá tvo bílfarma sem komu af Kambsveginum í gær. Þar sem gluggatjöldin eru ekki komin (koma í lok vikunnar) þá er hjúkkan ekki farin að spóka sig um lítið klædd en það fer nú að koma að því. En það hefur nú gengið á ýmsu í sambandi við þessar framkvæmdir og flutninga. Sem dæmi þá missti hjúkkan bókaskáp á aðra stóru tánna sína og rak upp mikið óp þar að auki rann það upp fyrir hjúkkunni aðfaranótt sunnudags að hún hafði mælt vitlaust fyrir gluggatjöldunum og var búin að leggja inn pöntunina fyrir þeim. Nú voru góð ráð dýr og hjúkkan var svo heppin að geta stöðvað framleiðsluna á gluggatjöldunum og komið með rétt mál - annars hefðu góð ráð verið ansi dýr, enda þarf kaupandinn að bera sjálfur ábyrgð á þeim mælingum sem hann gerir. Ísskápurinn og blöndunartækin í sturtuna koma í lok vikunnar og þá getur hjúkkan loks farið að borða á nýjan leik og þvegið sér enda kominn tími til. Framundan eru svo æðislegir jólatónleikar með Kór Langholtskirkju þar sem hver önnur perlan verður sungin og einn af gullmolunum er lag eftir Eivör Pálsdóttur sem enginn annar en pabbi hennar LOU útsetti á snilldarhátt. Mæli eindregið með því að allir mæti og njóti með hjúkkunni.

08/12/2005

Ógleymanleg ferð í Sorpu!
Framkvæmdum fylgir alltaf svolítið magn af rusli og drasli og eru framkvæmdir í Dofraberginu engin undantekning á reglunni. Eftir að hafa sagað og sett nýtt parket og skipt um allar höldur á þeim einingum sem ekki verður skipt út var auðvitað komið að því að kíkja í sorpu með draslið. Hjúkkan hafði nú ekki haft fyrir því að henda ruslinu skipurlega í aðskilda kassa enda hvorki pláss, tími né áhugi fyrir því hjá hjúkkunni. Hún renndi í hlaðið í sorpu í Garðabæ í gærkvöldi og var einmitt að tala í símann á sama tíma og hún fór að afferma bílinn. Fyrsti pokinn var látinn fjúka beint í "óendurvinnanlegt" gáminn án þess að gamli karlinn sem vinnur við að skipta sér af fólki í Sorpu gat eitthvað sagt. Næsti poki var kominn á flug þegar gamli karlinn stoppar og fer að skipta sér af hjúkkunni og velta því fyrir sér hvort eitthvað sé í pokanum sem ekki á að fara í þennan gám. Hjúkkan þarna hætt í símanum og sýndi ekkert nema þokka og sjálfsbjargarviðleitni sem þessi gamli karl greinilega kunni ekki að meta. Loks kom hjúkkan með kassa úr bílnum sem var fullur af alls konar dóti, spítum, skrúfum, glerkúplum og parketi. Nú fékk það greinilega mjög á starfsmann sorpu sem féllust báðar hendur og fór að rífast í hjúkkunni yfir því af hverju hún hefði ekki verið búin að flokka sorpið heima hjá sér. Hún reyndi að brosa sínu blíðasta og sagði að það hefði nú bara ekki verið hægt sökum framkvæmda að hafa allt aðskilið. Þá heldur kallinn áfram að tuða um það að 90% allra þeirra sem koma í sorpu séu búnir að flokka heima hjá sér og það taki því lítinn tíma að afgreiða bílinn. Hjúkkann umlaði já já og neyddist til að tína allt upp úr kassanum - frá litlum parketstubbum og skrúfum. Á meðan nýtti kallinn tímann og fór að tala um að hjúkkan væri greinilega ekki hæf til þess að flokka og því kynni hún nú örugglega ekki að vaska upp því þetta tvennt væri nú bara eins svo og að starfsmenn ættu ekki að hjálpa fólki að týna upp úr kössum bara leiðbeina hvert hlutirnir færu!!!! Nú var hjúkkan orðin vel fúl út í gamla skassið sem hafði vogað sér að segja að hjúkkan kynni ekki að vaska upp. Hún benti honum á að hún væri fullkomlega fær um að vaska upp og sinna heimilisstörfum og það hefði nú verið smiðurinn sem setti allt draslið í kassann en ekki hún!!!! (ok hún á alveg hlut að máli en kannski ekki alla ábyrgð svo er líka gott að skella skuldinni á aðra sem ekki eru á staðnum) Í því kláraði hún það sem eftir var í kassanum dreif sig í bílinn sinn. Hún ætlar svo aldrei aftur á þessa sorpustöð!!!!

04/12/2005

Enn af framkvæmdum og vinnu!
Hjúkkan er farin að sjá fyrir endan á framkvæmdunum í Dofraberginu. Það sem er orðið vandamál núna er framkvæmdargleði hjúkkunnar. Hún má ekki sjá gamlan skáp eða skáphurð án þess að íhuga það alvarlega að skipta því út. Nú er hún búin að finna sér nýja innréttingu á baðið þar sem sú gamla var rifin út á meðan parketið var lagt. Nýja innréttingin verður vonandi sett upp á þriðjudaginn n.k. Næsta innrétting sem að öllum líkindum verður fyrir barðinu á hjúkkunni er eldhúsinnréttingin. Það eru enn miklar pælingar um það hvað verður gert þar. Ef eldhúsið fær að finna fyrir því þá er ekkert eftir nema að endurskipurleggja þvottahúsið sem er sameiginlegt í kjallaranum - örugglega allir sáttir við það í húsinu :)
Annars er hjúkkan búin að vera í vinnunni síðan s.l. mánudag og síðasta vaktin er í nótt - þá er komið 2 ja daga frí og allir vinir. Hún hefur svo skotist í framkæmdir fyrir og eftir vaktirnar enda er hún aðeins farin að vera lúin. Sem fyrr er stefnan sett á innflutning um næstu helgi þ.e. nema hjúkkan fái einhverja fáránlega framkvæmdar hugmynd í viðbót.
Farið varlega í hálkunni og látið ekki jólastressið hafa áhrif á ykkur :)