Flutt í Fjörðinn!
Þá er hjúkkan loksins flutt í þann merka bæ sem kenndur er við Hafnarfjörð. Hún er eiginlega búin að koma sér fyrir, fyrir utan þá tvo bílfarma sem komu af Kambsveginum í gær. Þar sem gluggatjöldin eru ekki komin (koma í lok vikunnar) þá er hjúkkan ekki farin að spóka sig um lítið klædd en það fer nú að koma að því. En það hefur nú gengið á ýmsu í sambandi við þessar framkvæmdir og flutninga. Sem dæmi þá missti hjúkkan bókaskáp á aðra stóru tánna sína og rak upp mikið óp þar að auki rann það upp fyrir hjúkkunni aðfaranótt sunnudags að hún hafði mælt vitlaust fyrir gluggatjöldunum og var búin að leggja inn pöntunina fyrir þeim. Nú voru góð ráð dýr og hjúkkan var svo heppin að geta stöðvað framleiðsluna á gluggatjöldunum og komið með rétt mál - annars hefðu góð ráð verið ansi dýr, enda þarf kaupandinn að bera sjálfur ábyrgð á þeim mælingum sem hann gerir. Ísskápurinn og blöndunartækin í sturtuna koma í lok vikunnar og þá getur hjúkkan loks farið að borða á nýjan leik og þvegið sér enda kominn tími til. Framundan eru svo æðislegir jólatónleikar með Kór Langholtskirkju þar sem hver önnur perlan verður sungin og einn af gullmolunum er lag eftir Eivör Pálsdóttur sem enginn annar en pabbi hennar LOU útsetti á snilldarhátt. Mæli eindregið með því að allir mæti og njóti með hjúkkunni.
14/12/2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli