28/06/2004

EM - krísa eða hamingja!
Ég er alveg að verða bit á þessu úrslitum í síðustu leikjum sem hafa verið á EM. Auviðtað var ég manna hamingjusömust þegar mínir menn Hollendingar náðu að berja fram sigur gegn Svíum í vítaspyrnukeppni. Þetta leit ekki vel út þar sem Hollendingar hafa dottið út úr svona mótum 4 sinnum á síðastliðnum 14 árum í vítakeppni. Tölfræðin var ekki með mínum mönnum en auðvitað kom Edvin Van der Sar okkur til bjargar - hann lengi lifi! En nú er málið í þessari keppni að 3 af 4 liðnum sem ég spáði 1. - 4. sæti eru dottin út. Ég spáði hinu óþolandi liði Frakka sigri, því næst Þjóðverjum svo Hollendingum og loks Dönum í 4. sæti. Ef fer sem horfir detta mínir menn út í leiknum gegn Portugal, og það held ég að hjarta mitt þoli ekki að sjá. Annars er komin ný spá miðað við stöðu liða í augnarblikinu og hér með spái ég Tékkum sigri á mótinu, Hollendingum 2. sæti (er þrátt fyrir það stolt af strákunum), Portúgölum 3. sæti og Grikkjum 4.sæti.
Verst heppnaði fyrirslátturinn þessa dagana er að Luis Figo hafi farið beint inn í klefa eftir að hafa verið skipt út af, til þess að biðja fyrir sigri. Var hann líka að biðja þegar liðið var að æfa daginn eftir og hann mætti ekki?

26/06/2004

EM hamingja og almenn gleði!
Það er búið að vera nóg að gera í lífi ofurhjúkkunnar þessa síðustu daga. Partýið var algjör snilld og mikil gleði var á Kambsveginum. Líðanin daginn eftir var eftir atvikum góð og heilsan kom fljótt og örugglega tilbaka hjá helmingi íbúa. Ný vinnuvika hófst og lífið hélt áfram sinn vana gang. Mesta snilldin í þessari viku var þó tennisnámskeiðið sem mun gera mig að næsta meistara í þessari brilljant íþrótt og auðvitað dramatíkin á EM.
Ég þurfti að taka á honum stóra mínum í leik Englands og Portugals - og einnig í leik Frakklands og Grikklands. Í fyrra tilfellinu vildi ég að England ynni og grét sáran þegar Beckham tók nettan Baggio fyrir framan markið. Í seinna tilfellinu vildi ég svo heitt að Frakkarnir myndu ekki ná að jafna - og viti menn sú ósk rættist. Það er mjög áhugavert að sjá að flest þau lið sem spáð var góðu gengi í þessari keppni eru farin heim til sín. Portúgalarnir eru nú að berjast við egóið í Figo sem fór í fýlu eftir að hafa verið skipt út af í síðasta leiknum. Ég tel því að Tékkarnir komi sterkir inn á lokasprettinum en held þó tryggð minni við Hollendingana og Danina.

19/06/2004

Dagurinn í dag!
Dagurinn í dag er tileinkaður unnustanum sem er að útskrifast með Mastersgráðu í Bókmenntafræði frá Háskóla Íslands. Ég er svo montin af honum enda hefur hann staðið sig eins og hetja í þessu öllu saman. Við byrjum í Laugardalshöllinni, sælla minninga frá því fyri 2 árum síðan þegar hann útskrifaðist síðast og ég líka. Þaðan liggur leiðin í kaffiboð ársins á Kambsveginum með nánustu fjölskyldumeðlimum og um kvöldið verður svo partý ársins fyrir vini og vandamenn. Dagskrá sjónvarpsins bíður upp á góðan þreytudag á morgun með frjálsum, formúlu og EM þannig að það er ekkert að óttast. Hlakka til að sjá sem flesta í dag og hef sett mér það markmið að njóta dagsins.

18/06/2004

Útskriftarpartý og Evrópuboltinn!
Það er nóg að gera í landi ofurhjúkkunnar þessa dagana. Evrópumeistaramótið í knattspyrnu á hug manns og hjarta um eftirmiðdaginn og undirbúningur fyrir útskriftarveislu bókmenntafræðingsins á annan tíma dags. Það er svo yndisleg tilfinning þegar maður sér að allir þessir endalausu listar sem búnir hafa verið til eru að skila sér í góðu skipurlagi. Ég vil benda öllum þeim sem hafa gert endalaust grín af mínum listum og mínum listahæfileikum að hafa samband og ég skal sýna fram á betri árangur í skipurlagningu daglegs amsturs. Þar sem ofurhjúkkan er auðvitað félagsmálafíkill hefur hún tekið að sér enn eitt nefndarstarfið. Jú þetta er ákveðið fíkn að var komin í svona mál en nú er stefnan tekin á nýja kjarasamninga hjúkrunarfræðinga og framtíðarsýn BHM.
Til þess að fylla í tómarúmið sem kemur til með að myndast eftir að útskriftarveislunni lýkur hefur ofurhjúkkan skráð sig á tennisnámskeið og stefnir að glæstum frama í þessari fræknu íþrótt. Hver veit nema maður endi bara á Wimbeldon einn góðan veðurdag? Það verður tíminn að leiða í ljós en þangað til held ég að Svíþjóð fari langt á EM 2004.

14/06/2004

Sumarfrí!
Nú er maður kominn í sumarfrí fram yfir næstu helgi. Fríið byrjaði á snilldar hátt með góðri göngu um Hengilssvæðið í stórkostlega vondu veðri. Líkaminn var orðið gegnsósa vegna rigningar og húðin farin af andlitinu vegna hávaðaroks. En þrátt fyrir óveðrir létu göngumenn (undirrituð, Héðinn, Inga og Svana)ekkert stöðva sig og gengu í tæpa 4 tíma! Lúin og köld skriðum við í bústað við Þingvallavatn og nutum kvöldsins með grillkjöti, hvítlaukssósu dauðans, rauðvíni, spilum og bjór. Sunnudagurinn fór í allra handa slökun með meira af spilum og því sem eftir var af matnum. Í dag skellti ég mér á vakt með Neyðarbílnum sem er sjúkrabíll með lækni innanborðs. Sama sagan endurtók sig og í fyrra og ég fékk nánast ekkert að gera, nema að horfa á snilldarleiki á EM. Er búin að gleyma sorgum gærdagsins yfir fávitaskapnum í leikmönnum Liverpool, sem að mínu mati eiga ekki að vera í enska landsliðinu.
Næstu dagar fara í allsherjar framkvæmdir á líkama og sál fyrir útskriftarveislur á laugardaginn. Stefnt verður að nýju meti í fólksfjölda í íbúðinni og verður spennandi að sjá hvernig þetta fer allt saman. Einnig er stefnan tekin á tennisnámskeið og frama í þeirri gjöfugu íþrótt. Það kemur í ljós hvort það borgi sig að vinna á slysó eftir að æfingar hefjast en einnig er kominn tími á gellubolta sumarsins með tilheyrandi marblettum og harðsperrum.

08/06/2004

Framkvæmdargleði!
Í gær missti ég stjórn á mér í framkvæmdargleði eða léttu maníukasti. Eins og margir vita þarf að slá grasblettinn í kringum húsið svona af og til. Oft þykir gott að byrja á þessu athæfi á vorin og stunda þetta svo endurtekið út sumarið. Grasinu mínu var ekki sagt frá þessu plani og það óx og óx. Alltaf var stefnan tekin á garðinn en einhverra hluta vegna varð grasið út undan. Gaurinn í kjallaranum lofaði öllu fögru um yfirvofandi aðgerðir, sem enduðu auðvitað þannig að ég sló! Það þurfti alveg ofurþýska RACER slátturvél til þess að höndla allt þetta gras sem fyllti 6 svarta plastpoka!!! En það sem sagt daðraði við rigningu allan gærdaginn og á meðan slættinum stóð. Þetta varð til þess að spennan í kringum sláttinn magnaðist og magnaðist. Næ ég að klára helv. blettinn eða þarf ég að játa mig sigraða og horfa illa þunglynd á þann hluta sem verður eftir? Viti menn - ég lét ekki bugast og kláraði verkið með stæl. Gaurinn í kjallaranum er núna með samviskubit dauðans sem er fínt - ég græði bara á því. Eftir sláttinn tók ég mig til og keypti annan sófa. Eftir kvöldmat lá svo leiðin í hitting með bjórliðinu og voru nokkrir teigaðir við gott spjall um allt og ekki neitt. Stefnan er tekin á Hengilinn um helgina í gönguferð og bústað á Þingvöllum!

03/06/2004

Stoltur Íslendingur!
Ég er svakalega stolt af honum Ólafi Ragnari forseta okkar. Ég beið í ofvæni eftir fréttamannafundinum í gær og varð nær orðlaus þegar hann las upp yfirlýsingu sína. Mér fannst hann koma málinu vel frá sér og vera hugrakkur að taka þessa ákvörðun. Auðvitað hlaupa allir sjálfstæðismenn upp til handa og fóta og segja þessi lög um neitunarvaldið og fyrirhugaða þjóðaratkvæðagreiðslu vera röng og Davíð ráði í einu og öllu en þeir geta bara átt sig. Ég er mjög stolt af þessu og held eins og margir hafa sagt að þetta hafi bjargað lýðræðinu á Íslandi. Svo er auðvitað mjög skemmtilegt að pæla í því hvað gerist næst. Verður þetta ríkisstjórninni að falli? Hverjir færu í stjórnarsamstarf? Hvert fer Davíð? Já ég er búin að finna svör við öllum þessum spurningum en hef ekki í hyggju að birta þau hér.
Þessir tímar!
Þessa dagana er ýmislegt að gerast í lífi ofurhjúkkunnar. Ég lenti í flensu dauðans en eins og fyrr hefur komið fram lét ég ekki undan og hafði að lokum sigur. Ég skreið á fætur og komst aftur til vinnu ásamt því auðvitað að kaupa nýjan sófa. Nú hef ég sagt skilið við gamla góða IKEA sófann og hann er kominn í hendurnar á Ingu vinkonu sem lofaði að fara vel með hann. Það er líka mjög hughreystandi að vita að sófinn er enn innan sama vinahóps og hann hefur verið s.l. 10 ár.
Dagurinn í gær markaði líka ákeðin tímamót þar sem þá var ár frá ákveðnum atburði. Það er mjög magnað að hugsa til þess hversu hratt þetta ár hefur liðið. Stundum finnst manni tíminn fara eiginlega of hratt fram hjá manni og maður spyr sig hvað maður getur eiginlega gert til að hægja á þessu öllu saman. Ég held að málið með hraðan á tímanum sé tengt því hversu upptekinn maður gerir sjálfan sig til þess að þurfa ekki að hugsa um tímann í kringum sig. Engin smá speki!! En með þessu móti þarf maður ekki að takast á við hlutina undir því yfirskini að maður er bara einfaldlega of busy til þess að mega vera að því. En svo kemur að því að plottið kemur aftan að manni og þá er illt í efni. Hver kannast til dæmis ekki við að nota ingnore it aðferðina á flensuna. Jú jú manni tekst vel til þar til að maður fer í frí úr vinnunni og liggur að lokum lasin í öllu fríinu, sem er auðvitað ömurlegt.