25/07/2005

Roadtrip 2005!
Sú skemmtilega hefð hefur skapast hjá hjúkkunni, megabeibinu og súperkonunni að drífa sig í roadtrip í Árnesið einu sinni á ári - sé því komið við þá á að fara helgina fyrir verslunarmannahelgina. Hefðin hélt í ár og á laugardaginn var Fabíó hlaðinn af dóti, drykkjum og mat og brunað sem leið lá austur fyrir fjall. Veðrublíðan sem mætti okkur var ekki af verri endanum - 26°c hiti og léttur andvari, sem var nauðsynlegur í öllum hitanum. Tjaldið reis á mettíma og fljótlega voru hjúkkan og megabeibið komnar á bikiníið og aðstoðu hvora aðra við að bera á sig sólarvörn. Allt í einu tóku þær eftir því að góður meirihluti karlmanna á tjaldstæðinu þurfti einmitt að fara að æfa púttið - heppilega nálægt tjaldinu sem vinkonurnar voru í. Eftir góða grillingu í sólinni kom Súperkonan sem var nýbúin að vinna og kveikt var undir grillinu. Dýrindis matur og vín og mikið hlegið og enn meira spjallað. Eftir góða stund lá leiðin í heita pottinn sem er á tjaldsvæðinu - klukkan var orðin margt og við sáum fram á að ná að vera einar í pottinum. Ber þá fljótlega að mann sem fann sig knúinn til þess að drífa sig í pottinn! Í upphafi var þetta ágætt en þegar ítrekaðar óskir hans um að við myndum nú tala við hann voru orðnar þreyttar birtust fréttir af tvíburastelpunum (þið munið þessar sem eru 3ja ára) og börnum megabeibsins og súperkonunnar. Þetta var orðinn hinn versti lygavefur sem óx og óx!!! Allt í einu kom nokkrar aðrar konur að pottinum og þær fengu líka fréttir af húsmæðraorlofinu. Já já þetta kom nú síðan í bakið á hjúkkunni daginn eftir þegar þessar sömu konur komu til okkar að spjalla og fóru að spyrjast fyrir um börnin!!!!!
Sunnudagurinn var enn betri og sólin hélt áfram að skína skært og ákveðið var að dvelja aðra nótt í Árnesinu. Superkonan þurfti að fara til vinnu í dag þannig að hún dreif sig heim um kvöldið en hjúkkan og megabeibið ákváðu að vera áfram. Sama sagan endurtók sig - grill - vín - hlátur - spjall en engir tvíburar þann daginn. Eftir smá stund voru vinkonunar búnar að eignast vinahjón á svæðinu sem endaði með heljarmiklu karaoke á barnum við tjaldstæðið!! Hjúkkan sem aldrei syngur í karaoke fór á kostum og sigraði meira að segja í keppni um bestu frammistöðuna!! Seint og illa endaði þetta kvöld inni í tjaldi.
Í dag var þakkað fyrir sig og pakkað niður enda búið að vera gaman. Það versta er samt þegar maður veit að maður var að senda sms skilaboð því stundum er maður alveg viss um að fólk vilji ekkert heitara en að heyra frá manni - og vill hjúkkan biðjast afsökunar á því rugli sem þó nokkrir einstaklingar urðu fyrir.

21/07/2005

Ofvirkni í sumarfríi!
Hjúkkan er búin að komast að því að hún þjáist af ofvirkni í sumarfríinu sínu. Jú loksins þegar sólin kom fram er hjúkkan eins og belja sem er að komast úr fjósinu eftir langan vetur. Hún skoppar um og gleðst yfir sólinni, gleymir að setja á sig sólarvörn og er flottust!!! Í gær var einn af hennar betri ofvirkni dögum þar sem hann hófst í golfi. Eitthvað létu meistarataktarnir sig vanta og var hjúkkunni skapi næst að fara með nýja og flotta settið og henda því í sérhæfða aðsoðarmanninn en hún er nú svo ljúf í skapinu að þetta skyndibrjálæði rann fljótlega af henni. Að lokum var þetta nú farið að ganga ágætlega en einhver besser wisser var með yfirlýsingar við hjúkkuna um að maður yrði ekki bestur í golfi á 3 vikum - jejeje.
Eftir strangar æfingar lá leiðin í Brekkuselið þar sem litli snúllinn var sóttur og leiðin lá í sund. Þar sem hjúkkan er líka uppáhaldsfrænka fékk hún blíðar og útslefaðar móttökur við komuna í Brekkuselið og skemmst er frá því að segja að hvíti bolurinn er núna með smá íprentaðri súkkulaði batik!! Í sundinu var snúllinn eins og lítill prins - sýndi öllum í kringum sig hvað hann var duglegur að hoppa og brosti eins og enginn og hjúkkan var auðvitað að kafna úr stolti yfir barninu. Að sundi loknu var snúllanum skilað til mömmu sinnar og þar borðaður kvöldmatur áður en tennisæfingin tók við. Þar fékk hjúkkan loksins að láta stjörnu sína njóta sín með fallegum topspin boltu og hvað eina... Þegar tennisinum lauk lá leiðin til annarrar hjúkku í afslöppun og smá spjall áður en hjúkkan lagði loks í hann heim. Jább þreytt en þokkafull komst hjúkkan loks í bólin alveg dauðuppgefin eftir yndislegan dag. Og viti menn - andstætt líkamsástandi Sonarins var ekki vottur af harðsperrum í líkamanum í morgun.

19/07/2005

Snilldar dagur!
Ofurhjúkkan er að farast úr hamingju yfir þessu líka fína sumarveðri sem ákvað að láta sjá sig þrátt fyrir sumarfríið. Hún skellti sér snemma á fætur í gær (sem sagt fyrir hádegi) og hjálpaði foreldrum sínum að losa sig við alls konar drasl úr geymslunni. Þaðan lá leið hjúkkunnar í golfverslun þar sem hún fékk dygga aðstoð við að velja sér golfsett. Það var hátt á hjúkkunni risið þannig að hún keypti settið, kerru og hanska (í stíl við litinn á pokanum hehehe) og nokkra aðra smáhluti til að verða lang best í golfinu. Eftir góða stund dreif hjúkkan sig heim og hitti Ingu Swing drottningu á Oliver í smá hvítvín og spjall. Ákveðið var að skella sér í bíó um kvöldið og varð snilldarmyndin Madagaskar fyrir valinu. Því lík og önnur eins snilld og þríeykið (Nonni kom líka með) hló eins og vitleysingar. Stundum var nú eins og annað fólk í salnum fattaði ekki brandarana og tilvísanir í aðrar myndir en það skemmdi ekki fyrir þríeykinu sem hló bara hærra og meira. Að lokum lá leiðin í enn meira spjall og almenna gleði.
Í dag er sól og mikið prógram framundan - Golf - Sund og jafnvel smá tennis í kvöld. Ofurhjúkkunni finnst ekki leiðinlegt að vera í sumarfríi þessa dagana.

16/07/2005

Ofurgönguhjúkka og massa golfari!
Ofurhjúkkan er að finna nýjar víddir í íþróttarhæfileikum þessa dagana. Hún ákvað í sumarfríinu að skella sér á golf námskeið og virðist vera efnilegasti nýliði Íslandssögunnar í golfi. Stefnir hratt og örugglega á British Open á næsta ári - líka fínt því það er skömmu eftir að Wimbeldonmótinu í tennis líkur þannig að hún slær fullt af flugum í fáum höggum.
Annars skrapp hjúkkan upp Esjuna í gær ásamt tvíburahjúkkunni sinni og voru þær eins og vindurinn á leiðinni upp. Tóku fjallið á einum og hálfum tíma og skelltu sér svo í dásamlegt matarboð í Sandgerði til hýru mannanna í lífi þeirra. Maturinn var eing og á 5 stjörnu veitingarstað og móttökurnar eftir því frábærar.
Í kvöld er svo stefnan tekin á smá skrall með fleiri hjúkkum og gert er ráð fyrir höfuðverk á morgun.

12/07/2005

Mér finnst rigningin góð!
Hjúkkan skrapp í mini-útilegu með samstarfsfólki sínu á föstudaginn og haldi menn að það geti rignt mikið í Reykjavík ætti það að prófa alvöru þétta Suðurlands-undirlendis-rigningu. Hjúkkan hafði bara eiginlega aldrei orðið vitni að öðru eins úrhelli og heimamenn brostu sínu blíðasta. ,, Velkomin á Suðurlands-undirlendið " voru brosandi kveðjur heimamanna þar sem malbiksdúllan skreið út úr Fabio í leit að regnhlífinni sem hún var svo viss um að væri einhversstaðar í bílnum. En að lokum stytti upp rétt á meðan fólk náði að skutlast í pottinn og þá hélt áfram að rigna - en þá var mannskapurinn orðinn nokkuð votur þannig að þetta varð bara stemning. Hjúkkan ákvað að leyfa bakinu að njóta vafans og fór ekki í rafting með hinu liðinu heldur brunaði í bæinn með Robbie í góðum fíling í Fabío. Nú situr hjúkkan og hlustar á frekar þunglynda blúsaða tónlist og dreymi um að koma sér til útlanda.

08/07/2005

Það er erfitt að vera ég!
Í dag er 5. dagurinn í sumarfríinu hjá hjúkkunni. Þetta er líka fimmti dagurinn í röð þar sem það er rigning og nú hefur rokið bæst við í hópinn. Þegar veðrið hefur tekið svona sterka afstöðu gegn manni er gott að setjast niður í sófann og horfa á boltann. Jú jú KR mínir menn eru í lægð eins og veðrið en þeir töpuðu sem sagt eina ferðina enn í gær - nú á móti ÍA sem hefur ekki gerst held ég frá því hjúkkan og Höski fóru upp á Skaga á leik fyrir mörgum árum síðan. Hjúkkan prísar sig sæla með það að vera í fríi því annars væri verið á bauna á hana daginn út og inn - því svo virðist sem enginn vilji halda með KR lengur og allir verða voðalega glaðir þegar liðið manns er með ræpuna upp á bak. Mér er ekki skemmt þessa dagana!
En það hlýtur að stytta upp og við verðum þá bara VISA bikarmeistarar, en hvað sem gerist ég hjúkkan farin í útlegu með öðrum rugludöllum af slysadeildinni. Góðar stundir og áfram KR!

03/07/2005

Duran, bjór og sumarfrí!
Það hefur gengið á ýmsu í lífi hjúkkunnar undanfarna viku. Eftir að heim var komið frá London dreif hjúkkan sig í vinnuna og hefur falið sig þar. Hún gerði sér nú glaðan dag á fimmtudaginn og fór á snilldartónleikana sem voru í Egilshöllinni. Mikið óskaplega voru Duran Duran með flottir og góðir á sviði. Það var meira að segja að manni fannst þeir eiginlega of góðir - miðað við sýningar af tónleikum þeirra dagana fyrir og eftir. Ekki það að þeir hafi verið með neitt Milli-Vanilli skam en hvað veit maður. Fyrir og eftir tónleikana lá leiðin til Eddu og Sigga þar sem nokkrir kaldir kældu mannskapinn. Vinnan kallaði aftur á föstudagskvöldinu og rúllaði hjúkkan vaktinni þar með glæsibrag. Eftir vaktina lá leið á knæpu eina í bænum þar sem samstarfsfólkið ákvað að gera sér glaðan dag - og tókst með ágætum. Laugardagurinn fór að mestu í leti og almennt haug þar til næturvaktin tók við. En sem sagt frá og með kl. 08 í morgun byrjaði hjúkkan í sumarfríi. Fríið stendur til Verslunarmannahelgarinnar þannig að þið getið átt von á því að það rigni það sem eftir er júlí mánaðar. Fólk man kannski eftir ástandinu þegar hjúkkan fór í frí í fyrra - það ringdi stanslaust fyrstu tvær vikurnar og kom svo hitabylgja meðan hjúkkan var í útlöndum. Því bið ég ykkur kæru vinir og vandamenn - bara leggja smá monní á reikninginn minn og ég get lofað ykkur sól og sumaryl.
En þá er það krísu spurningin sem verður til þegar maður á ekkert líf utan vinnu. Hvað gerir maður í fríi???