25/07/2005

Roadtrip 2005!
Sú skemmtilega hefð hefur skapast hjá hjúkkunni, megabeibinu og súperkonunni að drífa sig í roadtrip í Árnesið einu sinni á ári - sé því komið við þá á að fara helgina fyrir verslunarmannahelgina. Hefðin hélt í ár og á laugardaginn var Fabíó hlaðinn af dóti, drykkjum og mat og brunað sem leið lá austur fyrir fjall. Veðrublíðan sem mætti okkur var ekki af verri endanum - 26°c hiti og léttur andvari, sem var nauðsynlegur í öllum hitanum. Tjaldið reis á mettíma og fljótlega voru hjúkkan og megabeibið komnar á bikiníið og aðstoðu hvora aðra við að bera á sig sólarvörn. Allt í einu tóku þær eftir því að góður meirihluti karlmanna á tjaldstæðinu þurfti einmitt að fara að æfa púttið - heppilega nálægt tjaldinu sem vinkonurnar voru í. Eftir góða grillingu í sólinni kom Súperkonan sem var nýbúin að vinna og kveikt var undir grillinu. Dýrindis matur og vín og mikið hlegið og enn meira spjallað. Eftir góða stund lá leiðin í heita pottinn sem er á tjaldsvæðinu - klukkan var orðin margt og við sáum fram á að ná að vera einar í pottinum. Ber þá fljótlega að mann sem fann sig knúinn til þess að drífa sig í pottinn! Í upphafi var þetta ágætt en þegar ítrekaðar óskir hans um að við myndum nú tala við hann voru orðnar þreyttar birtust fréttir af tvíburastelpunum (þið munið þessar sem eru 3ja ára) og börnum megabeibsins og súperkonunnar. Þetta var orðinn hinn versti lygavefur sem óx og óx!!! Allt í einu kom nokkrar aðrar konur að pottinum og þær fengu líka fréttir af húsmæðraorlofinu. Já já þetta kom nú síðan í bakið á hjúkkunni daginn eftir þegar þessar sömu konur komu til okkar að spjalla og fóru að spyrjast fyrir um börnin!!!!!
Sunnudagurinn var enn betri og sólin hélt áfram að skína skært og ákveðið var að dvelja aðra nótt í Árnesinu. Superkonan þurfti að fara til vinnu í dag þannig að hún dreif sig heim um kvöldið en hjúkkan og megabeibið ákváðu að vera áfram. Sama sagan endurtók sig - grill - vín - hlátur - spjall en engir tvíburar þann daginn. Eftir smá stund voru vinkonunar búnar að eignast vinahjón á svæðinu sem endaði með heljarmiklu karaoke á barnum við tjaldstæðið!! Hjúkkan sem aldrei syngur í karaoke fór á kostum og sigraði meira að segja í keppni um bestu frammistöðuna!! Seint og illa endaði þetta kvöld inni í tjaldi.
Í dag var þakkað fyrir sig og pakkað niður enda búið að vera gaman. Það versta er samt þegar maður veit að maður var að senda sms skilaboð því stundum er maður alveg viss um að fólk vilji ekkert heitara en að heyra frá manni - og vill hjúkkan biðjast afsökunar á því rugli sem þó nokkrir einstaklingar urðu fyrir.

Engin ummæli: