30/03/2008

Stórt og smátt á sunnudegi!
Hjúkkan er nú búin að vera á hlaupum og í hlaupum undanfarið og kominn tími til þess að henda niður nokkrum línum. Þar sem heilsuátaki vinnunnar líkur á mánudag ákvað stúlkan á miðvikudag að taka nú síðustu dagana með trompi. Jú það var tekið hraustlega á því nokkra daga í röð og uppskar hjúkkan harðsperrur á nýjum stað. Jú undir iljunum!!!! Hver fær harðsperrur í iljarnar?? En það bjargaðist nú með enn einum góðum salsa tíma þar sem dans hæfileikar hjúkkunnar komu berlega í ljós.....
Í dag var sprottið á fætur fyrir allar aldir miðað við sunnudag og leiðin lá í Bláfjöll. Á símsvaranum var tekið fram að þar væri 8 stiga frost og nánast logn. Það er greinilega mismunandi hvernig fólk skilgreinir "logn" en á vissum stöðum í brekkunum þurfti maður að hafa sig allan við til þess að komast áfram niður brekkuna en fjúka ekki aftur upp á topp. Maður hefur kannski tekið of vel á því í gymminu og orðin léttur sem fiður, eða ekki - erfitt að segja.
Vikan framundan verður ansi þétt og því spurning um að leyfa sér smá leti í kvöld, en nennan fyrir því er eitthvað lítil. Þetta er svona dæmigert sunnudagskvöld þar sem við einhleypu og barnlausu höfum stundum eiginlega ekkert að gera. Margir að massa fjölskyldustemninguna eða á stefnúmóti með nýjasta hösslinu. Þetta hljómar voðalega aumkunarvert en stundum bara leiðist manni sunnudagskvöldin. Nú er mál að druslast af sófanum og finna sér eitthvað að gera - Góðar stundir :)

21/03/2008

Páskafrí!
Lífið er ljúft í páskafríinu hjá stelpunni. Óvænt heimsókn að utan hefur breytt svolítið plönum helginarinnar sem áttu að snúast um að gera sem minnst. En þar sem stóra systir ákvað að skella sér heim er nú ekki annað hægt en að krúsa aðeins með sys. Í dag var tekinn yndislegur göngutúr í Heiðmörkinni og svo dinner þar sem allar þrjár voru samankomnar í fyrsta skipti í langan tíma. Bara huggulegt hjá systrunum sem sagt. Á morgun á að skella sér í fjallið og sennilega eitthvað í búðir ef ég þekki okkur rétt.
Á Páskadag verður hjúkkan svo með sitt nánasta í páskalambi og það var sett í marineringu í dag. Yndislegar ferskar kryddjurtir settir í matvinnsluvélina góðu og svo allt gumsið nuddað á lambið sem fær að liggja í dásemdinni í tvo daga - bara gott :) Það er eins gott að maður verði duglegur í gymminu eftir helgina enda búið að láta vel að sér þessa dagana...

18/03/2008

Vorið á næsta leyti!
Já hjúkkan er alveg á því að nú sé vorið að koma. Léttur ilmur af hæg rotnandi grasi sem legið hefur undir snjó í nokkra mánuði er farin að læðast um og það er orðið bjart þegar maður vaknar á morgnana. Eins virðist sem pumpugreyinu sé eitthvað illa við vorið því eins og í fyrra byrja stælarnir í henni á þessum tíma. Þessi uppsteit verður nú slegin niður með góðum lausnum og vandamálinu frestað :)
Hjúkkan átti hreint og beint frábæra helgi. Hún var í keilumeistaraliði Veritas Capital, fór á skíði í unaðslegu veðri, hitti frænkurnar og kúrði hjá uppáhalds litla frænda. Laugardagurinn var einhver sá besti í fjallinu í manna minnum og bættust ófáar freknur við andlit hjúkkunnar.
Nú er málið að halda páskamatinn í Dofraberginu, fara í skírn á Skírdag (auðvitað) og hafa það almennt ofboðslega gott í páskafríinu langþráða.

13/03/2008

Dagur aflýstu fundanna!
Dagurinn í dag hefur aldeilis tekið breytingum frá því sem skipurlagt var. Hjúkkan fór í sitt fínasta vinnupúss í dag enda átti hún von á að funda með nokkrum læknum og einnig ráðherra. Nema hvað að fljótlega eftir komu á skrifstofuna fóru að berast tilkynningar um frestanir á fundum. Til að byrja með var þetta í lagi, meiri tími milli funda og hjúkkan bara nokkuð sátt. Svo hélt dæmið áfram og eins og staðan er núna hefur öllum fundum dagsins verðir aflýst og nýr fundartími settur. Í ofanálag er komið gat á nælonsokkinn hjá stelpunni!!! Já þetta hefur kannski verið yfirvofandi, þ.e. gatið og þess vegna hafa örlögin gripið inn í og frestað fundunum.
Ætli maður geti ekki bara frestað deginum? Nú er sem sagt tími til að fara í önnur verkefni og ekkert meira um það að segja í bili.

10/03/2008

Skíði á fordkrúttinu!
Hjúkkan fer nú að verða kosin duglegasti skíðari ársins eftir frammistöðu síðustu vikurnar. Jú eins og vanalega skellti gellan sér í fjallið á sunnudag í blíðu á fordkrúttinu. Jú krúttbíllinn kom úr viðgerð á föstudaginn, dæmigert að fá ekki að vera á svarta Volvoinum yfir helgina... Hjúkkan tók nettan líkamsræktar óverdós sem sagt sem byrjaði á gymminu á laugardaginn. Eitthvað var brussugangurinn í hjúkkunni meiri en vanalega sem endaði á því að stelpan skellti púðurdósinni sinni í gólfið. Jú Mac powder leit voðalega vel út á gólfinu sem hjúkkan reyndi eftir bestu getu að dreifa undir skápana :) Að því loknu flýtti hún sér út enda orðin of sein í afmæli..
Í dag átti svo að taka nettan eftirmiðdag í fjallinu en þegar þangað var komið var leiðindar rok, skafrenningur og ekkert skyggni og því snaraði stelpan sér bara heim. Sem var nú bara eins gott, því upp kom óútskýrt mögulegt lekavandamál í húsinu sem krafðist mikillar spæjaravinnu, pípara og loks eins skitins krana í ruslatunnugeymslunni sem hafði opnast. Hjúkkan var farin að sjá fyrir sér að hún myndi sitja uppi með uppdælandi slökkviliðsmenn heila kvöldstund. En betur fór en á horfðist og allt slapp.
Eit sem skemmtir stelpunni þessa dagana er auglýsing Eignavers sem hefur einmitt símann 553-2222. Fyrir þá sem eru búnir að gleyma er þetta gamla Kambsvegsnúmerið sem er of líkt Pfaff-Borgarljósum...

04/03/2008

Rigningin og rokið!
Hjúkkan er alveg í takt við þetta veður í dag, rignd og rokin... Nei ekki svo slæmt en einhvern veginn nennir maður engu í svona veðri. Nýji bílaleigubíllinn er nú samt alveg að meika það og gerir stelpuna ótrúlega gellulega. Svartur og smúð Volvo V50 - reyndar station en bara svalur. Nú fer að fara í gang undirbúningur fyrir keilukeppni samstæðunnar og lét hjúkkan bjóða í sig í dag. Reyndar fylgdu tilboðinu ekki alveg nákvæmar upplýsingar um raungetu hjúkkunnar í keilu en hún bauð fram aðstoð sína í skyndihjálp verði einhver meiðsl í liðinu og því er málið bara að vera sætur og hafa bjórinn tilbúinn.
Hjúkkuna langar til útlanda í frí - ekki á þing eða í vinnuferð þar sem hún nær íslandsmeti í hraðverslun á flugvellinum. Bara hafa það huggulegt í fallegu umhverfi og njótandi tímans. En það er nú ekki á leiðinni á næstunni. Hjúkkan gerði tilraun til þess að fá pláss fyrir 1 í skíðaferð en það eru alltaf sömu fordómarnir gagnvart fólki sem hefur engan til þess að fara með í svona ferðir - þú verður að borga nær tvöfalt verð. Ætli það hafi aldrei starfað einhleypur starfsmaður á ferðaskrifstofu?? Mér finnst að neytendasamtökin ættu að fara í þetta mál!

02/03/2008

Bíldruslan!!!
Hjúkkan fer nú alveg að tapa gleðinni gagnvart Ford krúttinu sem er greinilega farið að eiga í eldheitu sambandi við einhvern á verkstæði Brimborgar. Eftir tvær ferð á tveimur vikum þar sem annars vegar sjálfvirka skottopnunin var lagfærð og hins vegar hurðarstemningin er bíllinn sem sagt eina ferðina enn ekki alveg að meika það. Núna neitar hann að læsa hurðinni á bílnum, hú einmitt sömu hurð og var í "viðgerð" alla síðustu viku. Það gæti verið að hjúkkan hafi sjarmerað gaurana á verkstæðinu svona rosalega að þeir "gera við bílinn" svo hún þurfi að koma aftur en væri þá ekki bara auðveldara að senda manni sms eða bara bjóða í kaffi.....
Sem sagt er bíllinn á leið eina ferðina enn til Brimborgar og hjúkkan er ekki kát!