29/04/2006

Ein nótt búin og tvær eftir!
Já það ríkir gífurleg gleði í hjúkkulandi núna þar sem hún er á næturvaktar helgi þessa helgina. Ein nott er búin og þá eru bara tvær eftir og farið að sjá fyrir endan á þessu. Hjúkkan var reyndar að uppgötva sér til minni hamingju að þetta eru þrjú "djammkvöld" þessa helgina þar sem allir eru í fríi á mánudaginn. En eftir góðan svefn ákvað hjúkkan að örvænta ekki frekar yfir þessu öllu saman. Hjúkkan skreið á fætur um kaffileytið og náði alla leið fram í sófa þar sem hún blundaði yfir handboltaleikjum dagsins. Það fór reyndar illa fyrir hverfisliðinu sem er fallið úr úrvalsdeildinni en svona er bara lífið í íþróttunum.
Nokkrar nýjar tillögur hafa komin í keppninni um nafnið á bílinn þ.á.m. Ramón - sem að mati hjúkkunnar ætti frekar að vera nafn á viðhaldinu og einnig kom uppástungan Ravanelli - sem er auðvitað ítalskur silfurrefur sem spilaði knattspyrnu. Eftir að hafa lagt málið fyrir ráðgjafahóp er nú Ravanelli framan en Ramón en atkvæðagreiðslu er ekki lokið og því enn hægt að hafa áhrif á kosninguna.
Þá er það að henda sér í sófann og hvíla lúin bein fyrir nóttina, farið varlega á djamminu og í íþróttunum um helgina.

25/04/2006

Komin í réttan takt!
Hjúkkan er öll að skríða saman eftir hundleiðinleg veikindi og ætlar sér að hjúkra eins og vindurinn frá og með föstudeginum. Þar sem hjúkkan er nettur vinnualki hefur það reynst henni mjög erfitt að horfast í augu við það að vera ekki eins ómissandi og vinnualkinn almennt heldur um sjálfan sig. En það er vinnualkanum mjög hollt að horfast í augu við það að auðvitað gengur lífið sinn vana gang þó mann vanti.
Eitt af því sem hjúkkan er búin að vera að velta fyrir sér er af hverju í ósköpunum byrjaði ekki að snjóa fyrr en eftit "sumardaginn fyrsta" á höfuðborgarsvæðinu??? Maður er búinn að taka fram sumarjakka og tilbúin að fá nokkrar freknur í andlitið, en nei!!!! maður vaknar og það er snjór yfir öllu og eins gott að vera kominn á jeppling :) Enn er verið að vinna í því að finna nafn á krúttið og eru komnar nokkrar uppástungur þ.á.m. Rabbi eða Toja en ef þú lesandi góður hefur einhverja skoðun á málinu endilega skildu eftir komment.

21/04/2006

Send heim á sófann!
Hjúkkan er búin að vera með einhverja leiðindarpest undanfarnar vikur með hósta og hori eins og þeir sem hana hafa hitt þekkja. Hún var alltaf að bíða eftir að hún myndi hrista þetta af sér og hætta þessum aumingjaskap. Hóstinn er nú batnandi og allt var á réttri leið þangað til að hjúkkan fór í vinnuna í gær. Þá var eins og hjartað í henni hoppaði upp í háls í öðru hvoru slagi og var þetta nett óþæginlegt. Hún bað því aðra hjúkku um smella af sér einu línuriti sem endaði á því að hjúkkan var send á bráðamóttökuna við Hringbraut í frekari athuganir. Maður á sem sagt aldrei að láta skoða eitthvað sem er að trufla mann, því það endar alltaf á einhvern fáránlegan hátt. Hjartalæknanir á Hringbrautinni skoðuðu hjúkkuna hátt og lágt og ómuðu hjarta snúlluna sem leit bara vel út. Eitthvað hefur þessi pest samt náð að pirra hjartað og því er það í þessu óreglukasti sínu. Hjúkkan fékk að fara heim með því skilyrði að hún færi ekki í vinnuna og myndi nú hvíla sig, ekki stunda nein erfiði og ekki fara í vinnuna í dag. Hún er sem sagt heima og gerir lítið annað en að hvíla sig og fá sér blund, enda um leið og hún fer að rembast eitthvað fer hjartað í fílu. Helgin fer sem sagt í sófann og slökun og lítið annað að gera en að hlusta á ráðleggingarnar frá læknunum.

18/04/2006

Síðasta nóttin!
Nóttin í nótt verður síðasta nóttin sem Skóda snótin dvelur í Dofranum. Eftir nokkuð þéttan dag sem byrjaði á kennslu í skyndihjálp kl. 08:30 í morgun, lá leiðin í Heklu þar sem Skóda lúsin var metin til verðs og gengið frá samningum um Ravinn. Svo lá leiðin í á massíva vakt sem ætlaði engan endi að taka. Kvöldmaturinn á vaktinni bar augljós merki um gæði vaktarinnar, en hjúkkan gæddi sér á sveittum Júmbóborgara með grænmeti. Eftir vaktina verkjaði hjúkkuna í allan skrokkinn og dreif sig sem leið heim enda morgunvaktin í fyrramálið. Persónulegir munir voru fjarlægðir úr bílnum og honum boðin góða nótt. Á morgun sem svo nýr dagur með nýjum bíl, ekkert nema tómri hamingju og kannski smá kaffibolla.

15/04/2006

Fífl á fjöllum!
Hjúkkan fékk enn eina staðfestinguna um helgina að karlmenn geta ekki viðurkennt þegar þeir lenda í vandræðum og þurfa á hjálp að halda. Hjúkkan er að vísa til viðtalsins við þá tvo menn sem fóru upp á jökul á föstudag á BMW jeppanum sínum með snjósleðana sína en engin staðsetningartæki né annan búnað. Þeir voru nú nokkuð ánægðir með sjálfa sig í sjónvarpsviðtölunum eftir björgunina og fannst þetta nú ekki tiltökumál að 300 manns hafi leitað af þeim alla nóttina. Ekki vildu þeir heldur meina að þeir hefðu verið týndir!! En ef maður er uppi á jöklli, hættur við að keyra sleðann því annars gæti hann skemmst, byrjar að labba í áttina að bílnum og þarft að labba alla nóttina án þess að finna bílinn og enda svo í faðminum á björgunarsveitamönnum sem voru að leita að þér - ertu þá ekki nokkurn vegin týndur????? Í þessu tilfelli voru 2 þyrlur notaðar líka og auðvitað fjöldinn allur af bílnum og búnaði og hver borgar fyrir þetta allt saman?

12/04/2006

Nýjir tímar og nýr bíll!
Í gær var hjúkkan á heimleið eftir nettan pintingatíma hjá Stefáni sjúkraþjálfara þegar hún ákvað í skyndi að renna einn hring á planið hjá Toyota. Þar sá hún nokkra rennilega bíla sem henni leyst nú nokkuð vel á og varð fljótlega skotin í einni týpu s.s. Toyota Rav4. Það eina sem hjúkkan er þekkt fyrir að gera á stuttum tíma er að kaupa sér bíl sbr. þegar hún keypti Fabíó og var hún næstum því búin að fjárfesta í öðrum bíl í gær, en ákvað að fá álit nokkurra vel valinna fyrst. Hún renndi heim og fékk skemmtilega upphringingu og breyttust plön hjúkkunar nokkuð í kjölfarið. Kvöldið var mjög notarlegt með góðum mat og enn betri félagsskap. Í dag var hjúkkan en sem fyrr á ferðalagi um stórborgina er hún ákvað að kíkja í Heklu og þar hitti hún hann!!! Toyota Rav4 sem að öllum líkindum verður hennar n.k. þriðjudag þegar þeir verða búnir að söluskoða Fabíó. Fabíó var sendur í alþrif og lítur út sem nýr og á hjúkkan reyndar svolítið erfitt með að kveðja hann endanlega en við höfum nokkra daga til stefnu. Reyndar var draumurinn að fá Ravinn strax og jafnvel skella sér norður í land um helgina, en góðir hlutir gerast hægt og ferðin bíður betri tíma. Myndin hér að ofan er sem sagt af nýju ástinni í lífi hjúkkunnar, sjálfskiptur með hita í sætunum og hjúkkan hin ánægðasta. Hún er eiginlega svo ánægð að hana langar bara að faðma fólk og brosa mikið! Posted by Picasa

10/04/2006

Hljóp á snærið hjá hjúkkunni!
Hjúkkan er nú búin að lenda í ýmsu þessa síðustu daga og má segja að hún læri seint af mistökum sínum! Fyrst snýr málið að Fabío sem er auðvitað flottast Skodinn á bílaplaninu við slysadeildina. Hjúkkan leggur alltaf á malarplanið sem er við hliðina á sjúkrabílainnkeyrslunni og hefur bílnum almennt verið lagt þar. Það hefur komið fyrir að litli rjómaþeytarinn (TF-SIF) hefur komið inn og þá hvirflast upp skíturinn og moldin af malarbílaplaninu og hver verður fyrir barðinu á því nema Fabíó! Þetta gerðist sem sagt um helgina og ekki bara einu sinni eða tvisvar sinnum - heldur fjórum sinnum. Hjúkkan gat nú sjálfri sér um kennt þegar þeytarinn kom fyrst inn og hefði þar með átt að leggja bílnum sínum á annan stað næstu tvo daga, but NNNOOO hverjar eru líkurnar á því að þeytarinn komi 4 sinnum á slysadeildina á þremur dögum! En Fabíó er sem sagt drulluskítugur núna eftir rjóma þeytarann og hjúkkan lofaði honum að fara að leggja annars staðar. Að öðru leyti einkenndist helgin af vinnu, bakverkjum og óhugnanlegri konu sem staðfastlega var að reyna við einn vinnufélagann og það á ekki mjög penin hátt.
Dagurinn í dag byrjaði mjög vel þar sem hjúkkan var rifin út í kaffi fyrir allar aldir vegna seinkunnar á flugi. Því næst lá leið hennar í BYKO í heimabænum þar sem hún hugðist kaupa sér borvél og alls konar dót fyrir heimilisstörfin. Í BYKO varð smiðurinn á vegi hennar og gaf henni góð ráð um hvað hún ætti frekar að kaupa (held að karlmenn höndli ekki konur inni í byggivöruverslunum). En út gekk hjúkkan loks með þetta líka fína verkfærasett (110 stykki í tösku), örbylgjuofn og eina ryksugu! Hún ákvað að fara að ráðleggingum smiðsins og sleppa borvélinni þar sem hjúkkuni skilst að vélin höndlaði ekki að bora í stein (hvað svo sem það þýðir!). Einn nettur stjórnarfundur var tekin í félaginu og loks er það kóræfing í kvöld. En að öllu leyti hinn prýðilegasti dagur sem sagt!

04/04/2006

Kvöldvakt dauðans!
Í morgun vakti verkjaraklukkan hjúkkuna af mjög svo værum draumi, svo værum að hún reyndi að sofna aftur til að klára drauminn sem gekk ekki upp. Þetta hefði átt að gefa hjúkkunni smá mynd af deginum sem var að byrja. Hjúkkan er sem sagt loksins komin heim eftir svakaleg átök á kvöldvaktinni. Það var bara með ólíkindum ástandið sem myndaðist á tímabili á deildinni og ef einhver hefði spurt hjúkkuna um eigin kennitölu hefði hún ekki getað svarað rétt. Það sem er eiginlega ferlegast eftir svona vakt er að koma heim í tóma íbúð. Eftir svona vakt þarf maður að fá að tala við einhvern sem skilur mann og veit hvað maður hefur gengið í gegnum á vaktinni. Sumar vaktir eru svona og ekkert annað að gera en að taka því og knúsa sófann sinn þegar maður kemur heim. Hjúkkan er sem sagt að drepast í bakinu eftir átök sem stóðu yfir í tæpa klukkustund og ekki var tími til að huga að líkamsstöðu og líkamsbeitingu. Reyndar náði hjúkkan inn einni töffara nál og var bara nokkuð ánægð með það, en svo auðvitað beyglaðist leggurinn og var þar sem ónýtur - smá svekkelsi eftir töffaraskapinn. En á morgun er nýr dagur með kennslu í háls - höfði - baki og svo auðvitað endurlífgun þannig að það er eiginlega ekki um neitt annað að ræða en að koma sér í háttinn. Skemmtilegu símtölin héldu áfram í gær og það kemur nú hjúkkunni nokkuð áleiðis í þessu öllu saman :)
Þormóður var með yfirlýsingar í dag um yfirvofandi bloggfærslu hjá sér, en hann hefur sýnt það og sannað að hann er með verri bloggurum sem um getur. Afmælisknús vikunnar fá reyndar krílin hans tvö sem eiga afmæli sama dag, með 4 ára millibili. Til hamingju með 1 árs og 5 ára afmælin Guðmunda og Halli!!
Jæja þá er það hátturinn enda hjúkkan búin að vera vakandi of lengi og þéttur dagur framundan.

02/04/2006

Skin og skúrir helgarinnar!
Þá er enn ein helgin liðin og komin apríl, alveg magnað hvað tíminn líður hratt. Fyrir ári síðan var hjúkkan í gönguferð í Heiðmörkinni og velti því fyrir sér hvernig lífið yrði eftir ár - og það er eiginlega allt öðruvísi en það leit út fyrir að verða. Margt hefur breyst, hjúkkan hefur kynnst aragrúu af skemmtilegu fólki og gert hluti sem hún átti aldeilis aldrei von á því að gera nokkurn tímann.
Þar sem hjúkkan var komin í helgarfrí var föstudeginum eytt í afslöppun og kaup á nýjum heimasíma þar sem síminn hennar Ingu gaf upp öndina - held að hann hafi saknað ísskápsins svo mikið að hann ákvað að fara sömu leið. Erfiðar fréttir bárust rétt um ellefuleytið og lá leiðin niður á Landarkot til að kveðja einhverja þá merkustu konu sem hjúkkan hefur hlotist heiður að þekkja. Eftir langa nótt var sofið út á laugardaginn og stefnan tekin í Háholtið þar sem heiðursparið Júlli og Hrönn buðu til veislu. Þar var fámennt en góðmennt og átti svo aldeilis eftir ð rætast úr kvöldinu. Í dag var svo auðvitað tennistími sem varð helmingi lengri en vanalega enda ótrúlega gaman á æfingunni í dag. Eftir æfinguna var hjúkkan ekki búin að hreyfa sig nóg, heldur skellti sér í göngutúr með Siggu. Kvöldið fór svo í kjöt í karrý hjá gömlu í Brekkuselinu og loks heitt stefnumót við sófann. Helgi einkenndist þar að auki að óvæntum símtölum, sms sendingum án mórals og heilmikilli þreytu á sunnudagskvöldið.