04/04/2006

Kvöldvakt dauðans!
Í morgun vakti verkjaraklukkan hjúkkuna af mjög svo værum draumi, svo værum að hún reyndi að sofna aftur til að klára drauminn sem gekk ekki upp. Þetta hefði átt að gefa hjúkkunni smá mynd af deginum sem var að byrja. Hjúkkan er sem sagt loksins komin heim eftir svakaleg átök á kvöldvaktinni. Það var bara með ólíkindum ástandið sem myndaðist á tímabili á deildinni og ef einhver hefði spurt hjúkkuna um eigin kennitölu hefði hún ekki getað svarað rétt. Það sem er eiginlega ferlegast eftir svona vakt er að koma heim í tóma íbúð. Eftir svona vakt þarf maður að fá að tala við einhvern sem skilur mann og veit hvað maður hefur gengið í gegnum á vaktinni. Sumar vaktir eru svona og ekkert annað að gera en að taka því og knúsa sófann sinn þegar maður kemur heim. Hjúkkan er sem sagt að drepast í bakinu eftir átök sem stóðu yfir í tæpa klukkustund og ekki var tími til að huga að líkamsstöðu og líkamsbeitingu. Reyndar náði hjúkkan inn einni töffara nál og var bara nokkuð ánægð með það, en svo auðvitað beyglaðist leggurinn og var þar sem ónýtur - smá svekkelsi eftir töffaraskapinn. En á morgun er nýr dagur með kennslu í háls - höfði - baki og svo auðvitað endurlífgun þannig að það er eiginlega ekki um neitt annað að ræða en að koma sér í háttinn. Skemmtilegu símtölin héldu áfram í gær og það kemur nú hjúkkunni nokkuð áleiðis í þessu öllu saman :)
Þormóður var með yfirlýsingar í dag um yfirvofandi bloggfærslu hjá sér, en hann hefur sýnt það og sannað að hann er með verri bloggurum sem um getur. Afmælisknús vikunnar fá reyndar krílin hans tvö sem eiga afmæli sama dag, með 4 ára millibili. Til hamingju með 1 árs og 5 ára afmælin Guðmunda og Halli!!
Jæja þá er það hátturinn enda hjúkkan búin að vera vakandi of lengi og þéttur dagur framundan.

Engin ummæli: