26/09/2004

Brjálað!
Það var eiginlega allt brjálað í síðustu viku. Jú sjáið til veðrið var brjálað, það var brjálað að gera í vinnunni og fólk var almennt mjög brjálað í skapinu. En nú er að koma ný vika og það boðar bara gott.
Bjargaði fullt af "mannslífum" í gær á heljarstórri flugslysaæfingu sem fór fram á Reykjavíkurflugvelli. Þetta var sú stærsta æfing sem ég hef tekið þátt í alla vega so far. Allt gekk mjög vel og fjölmargir "lifðu" slysið af. Til að ná mannskapnum niður eftir þessa æfingu - sem við vorum að æfa fyrir s.l 2 vikur var skroppið á öldurhús í bænum. Þar voru nokkrir kaldir teigaðir og létt dansspor stigin við dynjandi dansmúsík. Áður en maður vissi af var klukkan orðin 5 og rétt rúmir 6 tíma í tennis. Í því snaraði ég mér heim og fór í bólið. Vaknaði frekar tjónuð í morgun til að fara í tennis og viti menn þá er þessi íþrótt algjör snilld í hvers konar líkamlegu ástandi þátttakenda. Eftir tennisæfinguna lá leiðin á slysadeildina til að ganga frá búnaðnum sem notaður var við æfinguna í gær. Nú er öllu þessu lokið og kominn tími á eftirmiðdagsblund.
Vikan er full af alls konar stefnumótum m.a. við Dóu og Þórir og eitt við Jóhann - eins og ég sagði brjálað að gera.

21/09/2004

Komin heim!
Þá er ofurhjúkkan komin aftur til landsins eftir frábæra ferð til kóngsins Köbenhavn. Ofurhjúkkan í hópi annarra ofurhjúkka sló í gegn með yndislegum kommentum á mjög svo viðeigandi tímum. Þjóðardrykkur dana var teigaður af mesta kappi og ófáir lágu í valnum eftir ferðina. En það var nú reyndar gert meira en bara að sukka þennan tíma. Fórum í skoðunarferð á svakalega flott Trauma Center á Rigshospitalet í Köben þar sem þeir taka bara á móti svakalega slösuðu fólki eða svakalega veiku fólki. Svo voru fyrirlestrar sem byrjuðu kl. 08 bæði föstudag og laugardag - og ég vil bara láta það koma fram að það er engin farinn á fætur í Köben kl. 08 á laugardagsmorgnum!!! Vonbrigði helgarinnar voru auðvitað svik Danatrillisins sem stakk mig af og fór til Århus um leið og ég steig úr flugvélinni. Hann er voða að reyna að gera þetta rómó og segir að þá hafi ég bara ástæðu til að koma aftur til Köben - en við sjáum bara til með það félagi (grenj grenj). Eftir að heim var komin hefur engin tími verið til að blanda geði við nokkurn mann þar sem það er fáranlega mikið að gera þessa vikuna. Æfingar í vinnunni vegna flugslysaæfingar sem verður haldin á laugardaginn og allir eru að fá létt magasár yfir. En það verður ógeðslega gaman!

14/09/2004

Farin til Köben!
Þá er Ofurhjúkkan farin á fund annarra Ofurhjúkka í Köben. Ráðstefna um stefnur og strauma í bráðahjúkrun er á dagskrá og það verður nú ekki leiðinlegt. Stefnan er tekin á að hitta Héðinn danatrilli og eiga með honum góða stund yfir góðum dönskum öl - hver veit nema maður skelli smá smörrebröd með og þá er þetta orðið deit. Kem aftur á klakann seint á sunnudagskvöld og verð komin til lífs á ný um eftirmiðdaginn á mánudag. Hafið það gott þangað til elskurnar!

12/09/2004

Helgarfléttan!
Þessi helgi byrjaði á snilldar leiksýningu í Þjóðleikhúsinu á föstudagskvöldið. Fór að sjá Edith Piaf og verð nú bara að mæla eindregið með að allir skreppi á þessa sýningu. Því lík og önnur eins snilld að flestu leiti. Brynhildur Guðjóns á þvílíkan leiksigur í þessari sýningu og nær manni inn að beini. Leikur og söngurinn hjá þessari mjög svo smágerðu leikkonu var óaðfinnanlegur. Eftir leikhúsið var rennt við á matsölustað og maginn fylltur af mat. Svefninn sótti að enda var næturvakt nóttina áður og líkaminn enn að fatta hvort maður ætti að vera vakandi eða sofandi. Laugardagurinn heilsaði með rúnstykkjum og ilmandi kaffi. Dagurinn var nú tekinn með ró og lagt var í ferð á Þingvelli um eftirmiðdaginn. Svana og Binni buðu í bústað þar sem kvöldstundin var ansi ljúf. Spil og spjall og ohbósjíbós við Auði Erli að ógleymdri balletsýningu frá henni Helgu Björgu, sem var ofboðslega fín í bleika ballett búningnum sínum. Sunnudagurinn heilsaði ferskur og leiðin lá aftur í bæinn til að fara í tennis. Sló í gegn á æfingunni eins og alltaf með fallegri bakfallsveltu. Stökk á fætur eins og maður gerði í boltanum í gamla daga og lét sem ekkert væri. Bakaríið varð á leið minni heim og nú er það endursýning á Gullmótinu í frjálsum frá því á föstudag. Sem sagt rólegheit og afslöppun eftir góða helgi.

09/09/2004

Haustið er komið!
Nú er komið haust - það er meira að segja farið að rigna beint niður eins og í útlöndum. Mér finnst haustið alltaf mjög góður og fallegur tími. Laufblöðin á trjánum skipta um lit og allir fara einhvern vegin að undirbúa sig fyrir veturinn. Á þessum árstíma hefur maður ótakmarkað leyfi til þess að kúra sig heima, undir teppi og lesa bók eða horfa á eitthvað af þessum snilldar innihaldslausu sjónvarpsþáttum sem eru í boði. Gott ef maður dustar ekki rykið af kertunum og kveikir á einu og einu. Mér finnst yndislegt að hlusta á rigninguna lemja á þakinu á meðan ég ligg upp í sófa og kúri. Það er einmitt stefnan núna - þar sem næturvaktin bíður mín í nótt.
Plus size!
Ég var að horfa á snilldar sjónvarpsþáttinn Americas next top model 2 á skjá einum í gærkvöldi. Þessi annars ágæta hugmynd af gjörsamlega heilalausu sjónvarpsefni olli mér nokkru hugarangri. Þarna eru 12 gellur að keppa um að fá samning hjá módel skrifstofu og ofurdrottningin Tyra Banks stjórnar dæminu. Í gær voru gellurnar kynntar til sögunnar og látnar ganga í gegnum nokkur verkefni. Hópurinn saman stendur af hinum ýmsu týpu og það er greinilega passað vel upp á að enginn þjóðfélagshópur sé undanskilin í úrslitunum. Í þessum hópi var meðal annars ein sem var gift og átti barn - og var á allt annarri bylgjulengd en hinar gellurnar sem flestar voru nýskriðnar úr skóla. Undir lok þáttarins var hver og ein metin út frá útliti og hæfileikum á módelsviðinu. Það sem sló mig mest við þetta er að þarna í hópnum er gella sem er grönn en hefur greinilega æft íþróttir. Hún var flokkuð sem "Plus size" módel og allir voða ánægðir að svona "feit" gella sé í úrslitunum. Má ég þá bara segja að ef hún er Plus size hvað er þá ég?? Af þessum orsökum vaknaði ég feit í morgun og er alveg í supersize gírnum í dag. Held að ég horfi næst á eitthvað annað en þennan þátt!

04/09/2004

Stoltir Íslendingar!
Ég efaðist um getu mína yfir því að vera stoltur Íslendingur í dag. Um það bil það eina góða við landsleikinn voru sætin sem við sátum í. Mjög góð sæti á besta stað í gömlu stúkunni - reyndar ekki fremst eins og ég hafði misskilið sjálfa mig með heldur alveg fullkomlega nógu nálægt miðju þannig að maður sá vel og varð ekki fyrir veðri. Leikur íslenska liðsins var langt undir getu, ófrumlegur og ósamstilltur. En það versta við þetta allt (auðvitað fyrir utan tapið) var ástand á mörgum ungum mönnum í hópi áhorfenda á leiknum. Leikurinn hófst klukkan 16 og var ölvunarástand á mörgum til háborinnar skammar. Einn ungur maður sem sat 3 röðum fyrir framan okkur stefndi ótrauður á titilinn um leiðinlegasta og hallærislegasta mann Íslandssögunnar með sífellum hrópum, köllum og almennum skrílslátum. Ef ég hefði verið fyrir framan þetta hiski þá myndi ég hringja ansi reið í KSÍ á mánudag og heimta endurgreiðslu. Félagi leiðinlega mannsins var þó ekki betri þar sem hann svaf áfengisdauða mest allan síðari hálfleik. Náttúran gerði loks vart við sig og maðurinn rankaði við sér í vímunni og staulaðist á salernið. Ekki nóg með það heldur þegar hann snéri aftur var ástandið svo slæmt að hann komst ekki aftur í sætið sitt og drapst í öðru sæti. Ég á ekki til orð yfir ósmekkleg heitin í þessum hópi manna!!!!
Áfram Ísland!
Aumingja ofurhjúkkan þarf að fara á völlinn í dag! Var búin að kaupa miða á netinu áður en ég komst að því að ég ætti eiginlega að vera á öðrum stað þegar leikurinn stendur. En þar sem mér tókst ekki að losna við miðann á fremsta bekk í gömlu stúkunni - þá þarf ég að fara á völlin - greyið litla :) Þannig að nú er málið bara Áfram Ísland!

01/09/2004

Aumingja Ofurhjúkkan!
Mætti á fund klukkutíma fyrir vakt í dag og var send heim lasin! Var með hrikalegan höfuðverk, beinverki og hroll. Skellti mér því í dúnúlpuna og dreif mig á fundinn. Smu hvað það er ekki gaman að vera með hita, beinverki og illt í augunum!!! :( Fór sem sagt heim og lagðist undir sæng í sófann og horfði á snilldar flickumyndina Sleepless in Seattle - klikkar ekki og þaðan af síður í flensu. Geri ráð fyrir því að vera heima aftur á morgun þar sem hitinn er enn að bögga mann.