12/09/2004

Helgarfléttan!
Þessi helgi byrjaði á snilldar leiksýningu í Þjóðleikhúsinu á föstudagskvöldið. Fór að sjá Edith Piaf og verð nú bara að mæla eindregið með að allir skreppi á þessa sýningu. Því lík og önnur eins snilld að flestu leiti. Brynhildur Guðjóns á þvílíkan leiksigur í þessari sýningu og nær manni inn að beini. Leikur og söngurinn hjá þessari mjög svo smágerðu leikkonu var óaðfinnanlegur. Eftir leikhúsið var rennt við á matsölustað og maginn fylltur af mat. Svefninn sótti að enda var næturvakt nóttina áður og líkaminn enn að fatta hvort maður ætti að vera vakandi eða sofandi. Laugardagurinn heilsaði með rúnstykkjum og ilmandi kaffi. Dagurinn var nú tekinn með ró og lagt var í ferð á Þingvelli um eftirmiðdaginn. Svana og Binni buðu í bústað þar sem kvöldstundin var ansi ljúf. Spil og spjall og ohbósjíbós við Auði Erli að ógleymdri balletsýningu frá henni Helgu Björgu, sem var ofboðslega fín í bleika ballett búningnum sínum. Sunnudagurinn heilsaði ferskur og leiðin lá aftur í bæinn til að fara í tennis. Sló í gegn á æfingunni eins og alltaf með fallegri bakfallsveltu. Stökk á fætur eins og maður gerði í boltanum í gamla daga og lét sem ekkert væri. Bakaríið varð á leið minni heim og nú er það endursýning á Gullmótinu í frjálsum frá því á föstudag. Sem sagt rólegheit og afslöppun eftir góða helgi.

Engin ummæli: