30/01/2006

Dofin í Dofranum!
Hjúkkan er eiginlega bara dofin í hausnum eftir kvöldvaktina í kvöld. Sannarlega mánudagskvöld eins og þau gerast best með tilheyrandi bið, illum augnarráðum frá fólki í biðstofunni og endalausu áreiti. En allar vaktir enda og svo var einnig með þessa vakt. Hjúkkan er því ánægð að vera komin heim í Dofrann. Helgin var ljúf og góð - byrjaði auðvitað með auka næturvakt aðfaranótt laugardags sem var nokkuð erilsöm. Laugardagskvöldið fór í brilljant gettúgeðer með Höllu og Bryndísi þar sem snilldar pastaréttur var framreiddur og gott rauðvín drukkið með. Það var hlegið, pælt í frammistöðu og útbúnaði Eurovision keppenda og talað út í eitt enda er það eitthvað sem þessi hópur á ekki í vanda með. Sunnudagurinn fór í tennisæfingu og lambahrygginn hennar mömmu sem bregst aldrei. Í dag var það svo vinnan enda kominn mánudagur og farið að styttast í sjúbb - sjúss - sjúbb - sjúss ferðina sem hefst á laugardaginn. Hjúkkan er nú komin með fiðring í fæturnar og hlakkar mikið til að renna sér áhyggjulaus í brekkum Austurríkis. Nokkur mál þarfnast útkljáunar fyrir ferðina og ætlar hjúkkan líka að kenna tvö skyndihjálparnámkeið svona rétt til að hafa örugglega engan tíma til að pakka og slappa af. Enda hefur hjúkkan greinilega litla trú á svoleiðis athæfi!!

26/01/2006

Farin úr forgörðum!
Nú er að ganga í garð gósentíð íslenskra íþróttafréttamanna sem koma til með að lýsa leikjum íslenska landsliðsins í handknattleik á EM í Sviss. Í dag var fyrsti leikur íslenska liðsins og þeir eru nú í augnarblikinu enn með buxurnar upp um sig en þær eru eitthvað farnar að síga í seinni hlutanum. Þegar þetta er skirfað eru "strákarnir okkar" enn 7 mörkum yfir en hafa klúðrað síðustu 5 sóknum sínum - sem er ekki alveg nógu gott. En það sem er svo dásamlegt við þessi stórmót er auðvitað mikið magn af góðum leikjum með tilheyrandi sófa og svo auðvitað mælska íþróttafréttaritaranna. Í leiknum í dag varð þulinum mikið fyrir vegna færa sem fóru ÚR forgörðum! Hjúkkan er nú engin íslenskufræðingur en hún er nú nokkuð viss um að tækifæri fari ekki úr forgörðum heldur einfaldlega fari forgörðum. Hver ætla annars tækifærin úr forgörðum í bakgarða? Nei bara svona rétt að spá...

25/01/2006

Alveg einstök Fríða!
Hjúkkunni er margt til lista lagt og þar á meðal koma stundum upp svokölluð Fríðumóment sem á rætur sínar að rekja til sjúkdómsgreiningar um óheppni. Hjúkkan tók nokkur nett Fríðumóment um helgina en það síðasta var í gær. Jú hún var búin að hlakka mikið til að kíkja á hana Sigurbjörgu Kötlu litlu og var harðákveðin í því að sá fundur ætti að eiga sér stað þriðjudaginn 24. janúar. Hjúkkan valhoppaði léttum skrefum úr vinnunni kl. 20 og renndi beint í D28 þar sem henni til vissrar undrunar voru engir af bílum vinkvennanna. En hvað veit maður hugsaði hjúkkan - kannski var þeim öllum bara skutlað í kvöld! Hjúkkan stökk upp útidyratröppurnar og hóf að hringja bjöllunni - en ekkert svar barst. Hjúkkan hugsaði sér sem svo að oft geta þessar gellur talað hátt svo engin þeirra heyrir örugglega í bjöllunni. Hún hringdi aftur bjöllunni og sem fyrr kom ekkert svar. Þá var nú gott að vera með gsm og hóf hjúkkan að hringja í gellurnar. Viti menn engin þeirra svaraði símanum sínum!!! Hjúkkunni var nú hætt að lítast á blikuna og náði loksins í Eibí sem hló nett og sagði hjúkkunni að hún væri sem sagt mætt viku og snemma í saumaklúbbinn!!! Gat skeð hugsaði hjúkkan og brenndi heim í Dofrann þar sem feitur sófatími beið. Já eins og fyrr sagði þá getur hjúkkan ýmislegt án þess að henni sé sérstaklega hjálpað. En góðu fréttirnar eru þær að nú er hjúkkan komin með flugmiðann til Austurríkis og ekkert nema sjúbb sjúbb framundan. Held samt í ljósi óheppni hjúkkunnar sé nokkuð jákvætt að læknir og önnur hjúkka verða með í för.
Lykilorð dagsins eru Áfram Man Utd - sem auðvitað kemur til með að gjörsigra Blackburn í kvöld!!!

21/01/2006

Ofurhjúkkan stuðuð!
Hjúkkan vaknaði nokkuð fersk eftir næturvaktina þrátt fyrir að hafa verið vakin við símann fljótlega upp úr hádegi. Gallup var að hringja og var með fáránlega langan spurningalista sem hjúkkan í svefnrofanum játaði að svara. Hún man nú óljóst eftir því hver svörunin var en það er lítið við því að gera. Hjúkkan hélt áfram að sofa og kom sé loks á fætur um kaffileytið. Eftir góðan morgunmat lá leiðin í sófann þar sem enski boltinn var settur á og hjúkkan bísnaðist yfir hæfileikaleysi Tottenham manna gegn Aston Villa - en þegar maður á 20 marktækifæri á nú eitthvað að lenda í netinu. En miðað við gengi hennar manna í Man Utd er best að vera ekki með yfirlýsingar um vanhæfni annarra liða í augnarblikinu.
Eftir leikinn fá hjúkkan sig knúna til þess að leyfa nýfundnum iðnaðarhæfileikum sínum að njóta sín og ákvað að tengja og hengja upp ljós á ganginn. Hjúkkan aftengdi perustæðið sem var og tengdi nýtt og allt gekk eins og í sögu - þar til að hjúkkan fékk þá hugmynd að kveikja ljósið og stilla svo aðeins betur stöðuna á ljósinu. Viti menn eftir skamma stund fékk hjúkkan þennan líka fína rafstraum í vinstri hendina með leiðni upp í öxlina. Hjúkkan vinnur nú á slysadeildinni og hugsaði um stund hvort þetta væri nokkuð svakalega óhollt, og komst að þeirri niðurstöðu að hafa ekki frekari áhyggjur af málinu, verkurinn í hendinni hlyti að hverfa. Hann er nú minni og hjartslátturinn kominn í reglulegan takt þannig að hjúkkan ætlar ekki að aðhafast fekar í málinu. Stelpukvöld planað með því að borða, drekka og horfa á Davíð Olgeirs í Eurovisioninu - allir að muna að kjósa hann. Áfram Davíð!!!

19/01/2006

Hroki og hleypidómar!
Hjúkkan átti góða kvöldstund með mömmu gömlu og Maríu systur í bíóinu í kvöld. Hjúkkan ætlaði nú reyndar ekki að láta undan og fara á þessa mynd en þar sem um var að ræða boðsmiða ákvað hjúkkan að slá til og sjá hvort upprunalega útgáfan væri ekki örugglega betri. Þessi útgáfa er mjög fín - en það er engin Colin Firth í henni. Samt nær gaurinn sem leikur Darcy einhverju svona Firth momenti og maður heldur með honum. Keira Knightley fer bara svo mikið í taugarnar á hjúkkunni þá allra helst vegna tannréttingar - kjálkans sem hún ber framan í sér. Alveg merkilegt að hún er ósymmetrisk í framan greyið stelpan - en það er kannski hvað flokkast undir fegurð hjá karlmönnum. En hjúkkan ætlar ekki að gefa upp meira af myndinn og hvetja bara aðdáendur upprunalegu útgáfunnar að kíkja í bíó - það góða við þessa útgáfu er að hún er ekki 6 klst löng :)
Eftir bíóið lá leiðin heim í Dofrann þar sem hjúkkan kveikti á sjónvarpinu. Enn fara raunveruleika þættir í sjónvarpinu versnandi og sá versti sem hjúkkan hefur séð er einmitt í loftinu núna. Hvað yrði til þess að þú lesandi góður myndir sjálfviljugur koma fram í sjónvarpsþætti um þitt kynlífsvandamál!!!!! Og þátturinn sem er núna er held ég eitthvað það versta sem ég hef séð. Held að sjónvarpsguðinn sé að segja hjúkkunni að fara að slökkva á sjónvarpinu og fá sér bók að lesa. Kannski er það bara málið að koma sér í háttinn enda morgun- og næturvakt á morgun. Svo er helgarfrí og hver veit nema maður hitti vinkonur sínar eitthvað ;)

18/01/2006

Að ýmsu að huga!
Það hefur enn sem fyrr verið snarvitlaust að gera hjá hjúkkunni undanfarna daga. Hún hefur þurft að berjast við náttúruöflin, bílinn, vinnuna og lífið almennt. Fyrst ber að nefna sögunna löngu varðandi Skódann og að því sem virtist vera ónýtu sumardekkin. En eftir ansi svekkjandi og erfiðan dag sá hjúkkan þann kostinn skástan að drífa sig í Hjólbarðahöllina og kaupa nýjan umgang af negldum vetrardekkjum undir gellubílinn. Með ansi sært stolið þurfti hjúkkan að horfast í augu við það að Skódinn var ekki jeppi og þegar neyðin er strærst er hjálpin næst ekki satt!! Jú svo var hjá hjúkkunni og var björgunarmaðurinn kominn á svæðið tvívegis á nokkrum klst hjúkkunni til bjarga. Björgunarmaðurinn á stóran og flottan jeppa og finnst voða gaman að bjarga fólki sem er í vandræðum. Það er algjörlega nauðsynlegt að þekkja einn svona... Björgunarmaðurinn fær hér með ansi mörg hetjustig fyrir ósérhlífna þjónstu í þágu hjúkkunnar. Nú er hjúkkan komin á þessi líka fínu dekk og gamlir jeppataktar farnir að láta ljós sitt skína á Skódanum.
Annars er hjúkkan á fullu að ganga frá mögulegri skíðaferð til Austurríkis og er hún strax komin í sjúbb sjúbb stemninguna. Þar sem nokkur kíló hafa fokið í kjölfar ástandsins sem var á síðasta ári þurfti hjúkkan að skella sér í intersport og fjárfesta nýjum skíðabuxum og úlpu. Hún verður alla vega sætasta hjúkkan í fjallinu þegar þar að kemur. Þangað til er best að reyna að fara að sofa pínu til að geta mætt í vinnuna á morgun.

14/01/2006

Lítil saga af litlum bíl!
Einu sinni var ung og sérlega falleg hjúkka sem átti leið um Bílaþing Heklu. Á þessari ferð sinni varð á vegi hennar einstaklega sjarmerandi og fallegur lítill Skodi sem hjúkkan féll killiflöt fyrir. Samband þeirra hófst, óx og dafnaði - jú Skódinn litli gat allt og hjúkkan var hin ánægðasta. Hvort sem var í rigningu, roki, sólskini eða snjó - alltaf stóð Skódinn við sitt. Svo gerðist það einn slæman veðurdag að miklum snjó kyngdi niður og litla Skódanum varð svolítið kalt. Í fyrsta skiptið komst hann ekki úr stæðinu sínu og gat ekki komið hjúkkunni til hjálpar. Nú voru góð ráð dýr og hjúkkunni tókst loks með hjálp mágs síns og góðhjartaðs nágranna á stórum bíl að bjarga litla Skódanum úr stæðinu. Hjúkkan keyrði litla Skódann um í góða stund svo honum varð aftur heitt og leið vel. Þá fór hjúkkan heim og lagði honum í betra stæði þar sem engin ljót brekka var að hrella hann. Morguninn eftir þegar hjúkkan tölti glöð í bragði að Skódanum til að komast til vinnu sinnar var sama sagan á teningnum. Jú þar sem litla Skódanum hafði orðið of kalt daginn áður fraus hann í handbremsu. Hjúkkan hélt að hún væri búin að lækna krúttið en svo virtist ekki og litli Skódinn fór hvorki lönd né strönd. Hjúkkan varð reið og svekkt út í Skódann og fór á leigurbíl í vinnuna. Nú bíður hjúkkunnar það dásamlega verkefni að reyna að afþýða greyið litla Skódann svo hann komist nú aftur á ferð. Hjúkkunni er lítið skemmt - en hún reynir að muna þær góðu stundir þar sem Skódinn virkilega hélt að hann væri jeppi og kom hjúkkunni á ótrúlegan hátt milli staða!!!! Vonandi kemur bráðum vor og það fer að hlýna úti - þá líka lokar í Bláfjöllum og minna verður að gera hjá hjúkkunni í vinnunni!!!!!

13/01/2006

Erfiðir dagar!
Þessir síðustu dagar hafa verið mjög erfiðir og ósanngjarnir. Maður finnur sjaldan fyrir jafnmiklu hjálparleysi eins og þegar hugurinn leitar til Kollu og Hauks sem eru að ganga í gegnum þá erfiðustu tíma sem nokkur maður getur ímyndað sér. Maður getur engan veginn sett sig í þeirra spor og vil ég votta þeim mína dýpstu samúð og leyfa þeim að vita að hugur minn og bænir eru hjá þeim og litla englinum þeirra henni Rósu. Falleg bænastund var í Fríkirkjunni í Hafnarfirði í gær og gaf það þeim vonandi aukna von og kraft til að takast á við það sem framundan er.

11/01/2006

Kúristund með litla kút!
Hjúkkan átti yndislega stund með litla frænda í dag. Hún sló auðvitað í gegn þegar hún sótti hann á leikskólann með snjóþotuna góðu og ferðin heim var ekkert nema ótrúlega skemmtileg. Eftir að heim var komin tók smá límmiðastund við og svo var beðið um að horfa á Samma brunavörð. Þetta er einhver mesta snilldar teiknimyndarfígúra sem hjúkkan hefur séð í langan tíma. Sammi er sem sagt brunavörður, björgunarmaður og allt í öllu. Ef einhver á í vanda þá kemur Sammi og bjargar málunum. Sammi kom því meira að segja til skila að Tarzan væri ekki þjálfaður slökkviliðsmaður og því ætti maður frekar að treysta Samma. En eftir nokkra þætti voru augnlokin orðin þung hjá hjúkkunni og litla kútnum og fyrr en varði voru þau bæði sofnuð í yndislegri kúristund í sófanum, og vöknuðu ekki fyrr en foreldrarnir komu heim!! Kvöldinu var eytt á tilfinningaþrunginnri kóræfingu og loks lá leiðin heim í sófa. Núna er nettur snjóbilur úti og hjúkkan á góða stund með mörgæsunum og sjónvarpinu.

09/01/2006

Superbowl 2006 - Diss eða Piss 2006!
Það er hér með staðfest að hið árlega Superbowl partý verður haldið í Dofraberginu sunnudagskvöldið 5. febrúar. Leikurinn fer fram í Detroit og er þetta 40. skiptið sem leikið er um Superbowl. Að venju verða reglur um drykkjarföng byggð á diss eða piss kenningum sem allir þátttakendur þekkja vel. Megabeibið er hér með opinberlega beðið um að koma með guacamoleið sitt sem slær alltaf í gegn og auðvitað skjávarpann. Geri ráð fyrir því að Höski verði með læti eins og alltaf en í þetta sinn verður ekki aukaherbergi eins og í fyrra þannig að þið hin verðið að þola Höska eins og við öll - enda kemur hann með afruglarann. Hjúkkan á bara eftir að redda skiptingu á næturvaktinni en geri ekki ráð fyrir því að það verði nokkuð vandamál enda er farið að leggja drög að því nú þegar. Hjúkkan kíkti á síðuna www.superbowl.com þar sem ýmsar góðar upplýsingar koma fram og meðal annars það að enginn annar en Steve Wonder verður með preshowið í ár og engir aðrir en ellilífeyrisþegarnir í Rolling Stones eru með halftime showið. Það á sem sagt að tryggja það aftur að ekkert ósómasamlegt gerist!! En hver veit nema einhver performerinn fái fyrir hjartað eða nettan blóðtappa í höfuðið sökum aldurs. Nú er það bara að sjá hverjir komast á leiðarenda og halda með Patriots því auðvitað er Tom Brady lang flottastur!!!

07/01/2006

Litlar prinsessur og ótrúlegir iðnaðarhæfileikar!
Hjúkkan vill byrja á því að óska nýbökuðum foreldrum Gurrý og Bjarka innilega til hamingju með litlu prinsessuna sína sem fæddist á þrettándanum. Hún er spræk og sæt að sögn og fyrir okkur konurnar skilst mér að hún hafi verið 15 merkur og 50 cm. Karlmenn hafa almennt ekki þörf á svona upplýsingum en það er annað með okkur konurnar. Önnur lítil prinsessa sem hjúkka hitti og lék sér pínu við í dag var hún Guðmunda Þórunn Gísladóttir sem er litla snúllan hans Þormóðs. Þar sem hjúkkan hefur einstaka nærveru og málband í vasanum var ekkert mál fyrir snúlluna að leika við hjúkkuna.
Sem leiðir söguna að iðnaðarhæfileikum hjúkkunnar sem eru hreint út sagt ótrúlegir. Hún er búin að skipta um lok og dósir í öllum innstungum og slökkvurum í íbúðinni á eigin vegum. Hún fór meira að segja í BYKO og keypti sér sinn eigin hamar!!! Ef hjúkkan er ekki þvílíkur kvenkostur núna þá veit hún ekki hvað það er að vera kvenkostur. Hún syngur í kór, spilar á fiðlu, er hjúkrunarfræðingur, spilar tennis og golf, situr í of mörgum nefndum og ráðum, hefur við á knattspyrnu, amerískum fótbolta og formúlunni og er auðvitað gullfalleg og einstaklega skemmtileg. Það sem kemur hjúkkunni kannski í koll eru kaldar hendur og kaldar tær. En það má örugglega finna einhvern þarna úti sem er tilbúinn til að horfa fram hjá því. Til þess einmitt að láta alla þessa kosti njóta sín meðal fólks, liggur hjúkkan í sófanum á laugardagskvöldi og horfir á frekar unglingalega unglingamynd sem heitir Ice Princess - hjúkkan er umvafin prinsessum þessa dagana.

01/01/2006

Nú árið er loksins liðið!
Það kom loks það því að árinu lauk og það með miklum sprengjum og engum áramótaheitum. Hjúkkan hefur ekki haft það fyrir sið að strengja áramótaheit enda er maður nógu oft vonsvikinn vegna eigin ákvarðanna, að það er algjör óþarfi að bæta einhverjum heitum við til að geta svekkt sig enn meira þegar maður stendur ekki við þau.
Hjúkkan var búin að setja saman litla samantekt frá síðasta ári en af einhverjum orsökum vildi tölvan ekki posta þessa samantekt (ætli tölvunni hafi ekki fundist þetta of þunglynt!!). En til að gera þessa blessuðu samantekt enn styttri var síðasta ár eitt það erfiðasta sem hjúkkan hefur upplifað. Hún stóð frammi fyrir og tók einhverja þá erfiðustu ákvörðun sem hún hefur þurft að taka, flutti oftar en Osama B.L. og vann eins og vitleysingur. Góðir hlutir gerðust þó líka og má þar á meðal telja íbúðina góðu, Fabíó, Malawi og góða vini og vandamenn sem sýndu hjúkkunni ómetanlegan stuðning.
Árið sem er rétt að byrja virðist ætla að einkennast af barnabylgjunni ógurlegu meðal vinkvenna hjúkkunnar, meiri vinnu og vonandi einhverra ævintýra.
Hjúkkan vill þakka öllum vinum og vandamönnum sínum fyrir síðastliði ár og knús og kossa fá allir þeir sem reyndu eftir bestu getu að gera líf hjúkkunnar betra.