14/01/2006

Lítil saga af litlum bíl!
Einu sinni var ung og sérlega falleg hjúkka sem átti leið um Bílaþing Heklu. Á þessari ferð sinni varð á vegi hennar einstaklega sjarmerandi og fallegur lítill Skodi sem hjúkkan féll killiflöt fyrir. Samband þeirra hófst, óx og dafnaði - jú Skódinn litli gat allt og hjúkkan var hin ánægðasta. Hvort sem var í rigningu, roki, sólskini eða snjó - alltaf stóð Skódinn við sitt. Svo gerðist það einn slæman veðurdag að miklum snjó kyngdi niður og litla Skódanum varð svolítið kalt. Í fyrsta skiptið komst hann ekki úr stæðinu sínu og gat ekki komið hjúkkunni til hjálpar. Nú voru góð ráð dýr og hjúkkunni tókst loks með hjálp mágs síns og góðhjartaðs nágranna á stórum bíl að bjarga litla Skódanum úr stæðinu. Hjúkkan keyrði litla Skódann um í góða stund svo honum varð aftur heitt og leið vel. Þá fór hjúkkan heim og lagði honum í betra stæði þar sem engin ljót brekka var að hrella hann. Morguninn eftir þegar hjúkkan tölti glöð í bragði að Skódanum til að komast til vinnu sinnar var sama sagan á teningnum. Jú þar sem litla Skódanum hafði orðið of kalt daginn áður fraus hann í handbremsu. Hjúkkan hélt að hún væri búin að lækna krúttið en svo virtist ekki og litli Skódinn fór hvorki lönd né strönd. Hjúkkan varð reið og svekkt út í Skódann og fór á leigurbíl í vinnuna. Nú bíður hjúkkunnar það dásamlega verkefni að reyna að afþýða greyið litla Skódann svo hann komist nú aftur á ferð. Hjúkkunni er lítið skemmt - en hún reynir að muna þær góðu stundir þar sem Skódinn virkilega hélt að hann væri jeppi og kom hjúkkunni á ótrúlegan hátt milli staða!!!! Vonandi kemur bráðum vor og það fer að hlýna úti - þá líka lokar í Bláfjöllum og minna verður að gera hjá hjúkkunni í vinnunni!!!!!

Engin ummæli: