07/01/2006

Litlar prinsessur og ótrúlegir iðnaðarhæfileikar!
Hjúkkan vill byrja á því að óska nýbökuðum foreldrum Gurrý og Bjarka innilega til hamingju með litlu prinsessuna sína sem fæddist á þrettándanum. Hún er spræk og sæt að sögn og fyrir okkur konurnar skilst mér að hún hafi verið 15 merkur og 50 cm. Karlmenn hafa almennt ekki þörf á svona upplýsingum en það er annað með okkur konurnar. Önnur lítil prinsessa sem hjúkka hitti og lék sér pínu við í dag var hún Guðmunda Þórunn Gísladóttir sem er litla snúllan hans Þormóðs. Þar sem hjúkkan hefur einstaka nærveru og málband í vasanum var ekkert mál fyrir snúlluna að leika við hjúkkuna.
Sem leiðir söguna að iðnaðarhæfileikum hjúkkunnar sem eru hreint út sagt ótrúlegir. Hún er búin að skipta um lok og dósir í öllum innstungum og slökkvurum í íbúðinni á eigin vegum. Hún fór meira að segja í BYKO og keypti sér sinn eigin hamar!!! Ef hjúkkan er ekki þvílíkur kvenkostur núna þá veit hún ekki hvað það er að vera kvenkostur. Hún syngur í kór, spilar á fiðlu, er hjúkrunarfræðingur, spilar tennis og golf, situr í of mörgum nefndum og ráðum, hefur við á knattspyrnu, amerískum fótbolta og formúlunni og er auðvitað gullfalleg og einstaklega skemmtileg. Það sem kemur hjúkkunni kannski í koll eru kaldar hendur og kaldar tær. En það má örugglega finna einhvern þarna úti sem er tilbúinn til að horfa fram hjá því. Til þess einmitt að láta alla þessa kosti njóta sín meðal fólks, liggur hjúkkan í sófanum á laugardagskvöldi og horfir á frekar unglingalega unglingamynd sem heitir Ice Princess - hjúkkan er umvafin prinsessum þessa dagana.

Engin ummæli: